Morgunblaðið - 05.02.2003, Page 14
VIÐSKIPTI/ATHAFNALÍF
14 MIÐVIKUDAGUR 5. FEBRÚAR 2003 MORGUNBLAÐIÐ
ÍSLENSKA hagkerfið er nálægt
jafnvægi og horfur eru á góðum
hagvexti 2003 og 2004, að því er
kemur fram í nýrri hagspá Grein-
ingar Íslandsbanka, sem Ingólfur
Bender kynnti á kynningarfundi
bankans um horfur í efnahagsmál-
um og áhrif stóriðjuframkvæmda.
Greining Íslandsbanka gerir ráð
fyrir 2,8% hagvexti á þessu ári og
2,4% á því næsta.
Ingólfur segir að áhrifa væntan-
legra álversframkvæmda sé þegar
farið að gæta. „Við sjáum það í
verðgildi krónunnar, sem hefur
verið að aukast talsvert á síðustu
mánuðum. Við sjáum það í vænt-
ingum innlendra aðila, heimila og
fyrirtækja. Við sjáum það í vaxta-
þróuninni, en frekar er búist við því
að ekki verði miklar vaxtalækkanir
á næsta ári. Jafnvel má frekar
búast við vaxtahækkunum. Við
sjáum það í verðbólguþróuninni,
þar sem styrking krónunnar lækk-
ar verð á innfluttum vörum,“ segir
Ingólfur.
Viðunandi ytri skilyrði
Hann segir að ytri skilyrði þjóð-
arbúsins séu viðunandi. „Við sjáum
að eftirspurn á erlendum mörkuð-
um er að glæðast og spár segja að
hagvöxtur í heiminum taki við sér á
þessu og næsta ári. Líkur eru á að
verðbólga verði lítil í helstu við-
skiptalöndum og því er spáð að olíu-
verð lækki á næstunni,“ segir Ing-
ólfur, „en á móti má segja að það sé
óhagkvæmt fyrir skuldsetna þjóð
eins og okkur að búist er við vaxta-
hækkunum erlendis á næsta ári,
auk þess sem líklegt er talið að verð
sjávarafurða fari lækkandi. Hins
vegar hefur verð á áli verið að
hækka að undanförnu,“ segir hann.
Einkaneysla hefur dregist mjög
mikið saman á undanförnum tveim-
ur árum, en Ingólfur segir að nú sé
að hlaupa vöxtur í þennan stærsta
þátt þjóðarútgjalda. „Sá vöxtur er
ekki síst kominn til vegna þess að
kaupmáttur ráðstöfunartekna
heimilanna hefur farið vaxandi,
samhliða hjaðnandi verðbólgu.
Kaupmátturinn hefur vaxið með
auknum þrótti þrátt fyrir að at-
vinnuleysi hafi verið að aukast, at-
vinnuþátttaka hafi verið að minnka
og laun hækkað í minna mæli en á
undangengnum árum,“ segir hann.
Þá segir Ingólfur að húsnæðisverð
hafi farið hækkandi og vextir lækk-
andi, sem hafi ýtt undir einkaneysl-
una.
Fjárfesting, sem vegur um
fimmtung af þjóðarútgjöldum, hef-
ur líka verið að dragast mikið sam-
an undanfarin ár að sögn Ingólfs.
Hann segir að nú sjáist, á grund-
velli vaxtalækkana, skattalækkana
og aukinnar eftirspurnar, merki um
að fyrirtæki auki fjárfestingu á
þessu og næsta ári. Væntingar um
auknar fjárfestingar í stjóriðju hafi
einnig áhrif til aukningar á fjárfest-
ingu fyrirtækja. „Við myndum ekki
sjá mikinn vöxt í þessum lið, ef ekki
væri fyrir fjárfestingu í stóriðju,“
segir hann.
Líkur eru á að verðgildi krónunn-
ar aukist frekar á næstunni, að
sögn Ingólfs. „Við teljum, að þrátt
fyrir styrkingu krónunnar að und-
anförnu, sem leitt hefur til hærra
raungengis og versnandi sam-
keppnisstöðu útflutnings, eigi hún
eftir að hækka enn frekar í verði á
næstunni. Við metum það svo að
stóriðjuframkvæmdirnar endur-
speglist ekki að fullu í verði krón-
unnar núna. Við reiknum með því
að Seðlabankinn fari að hækka
vexti, sem auki vaxtamun og hvetji
að vissu leyti til erlendrar lántöku,
á kostnað innlendrar. Á móti þessu
má þó segja að líklegt sé að stofn-
anafjárfestar hér heima fjárfesti í
erlendum verðbréfum í jafn miklum
mæli og á síðasta ári, en þá námu
fjárfestingar þeirra erlendis um 25
milljörðum króna,“ segir Ingólfur.
Ekki sterkari krónu í bráð
Hann segir að þetta muni stuðla
að jafnvægi í gengi krónunnar.
„Það er afar jákvætt að þetta skuli
gerast á sama tíma og við erum að
fá þetta innflæði fjármagns. Þetta
gerir að verkum að leiðrétting
krónunnar, þegar stóriðjufjárfest-
ingum lýkur, verður ekki jafnmikil
og ella,“ segir hann. Ingólfur segir
að ekki séu líkur á mikið sterkari
krónu í bráð. „Að minnsta kosti
ekki jafnsterkri og við myndum sjá
ef ekki nyti við þessara fjárfestinga
stofnanafjárfesta. Svo má ekki
gleyma að taka með í reikninginn
inngrip Seðlabankans, sem kemur
væntanlega inn á markaðinn ef þörf
þykir.“
Aukins útflutnings er að vænta á
þessu og næsta ári, að sögn Ingólfs.
„Sjávarútvegsráðherra tilkynnti
aukinn kvóta á dögunum og spá
okkar er að útflutningsverðmæti
sjávarafurða, í magni, komi til með
að aukast talsvert á þessu og næsta
ári. Á móti kemur styrking krón-
unnar og væntanleg verðlækkun á
sjávarafurðum. Við spáum því að
útflutningsverðmæti sjávarafurða
verði um 121 milljarður í ár og
nokkuð svipað á næsta ári.“
Að öllu þessu samanlögðu spáir
Greining Íslandsbanka 2,8% hag-
vexti á þessu ári og 2,4% á árinu
2004.
Lækkun stýrivaxta
10. febrúar líkleg
Að lokum vék Ingólfur að spá um
þróun stýrivaxta Seðlabanka Ís-
lands. „Við spáum því að bankinn
lækki stýrivexti um 30–50 punkta
núna 10. febrúar, samhliða útgáfu
Peningamála, ársfjórðungsrits
Seðlabankans. Við gerum svo ráð
fyrir því að þeir vextir haldist
óbreyttir fram að miðju ári, þegar
bankinn taki að hækka vexti vegna
væntanlegra stóriðjuframkvæmda
á árinu 2005 og 2006. Ef spá okkar
gengur eftir verða stýrivextir um
6% í lok þessa árs og 7,2% í lok árs-
ins 2004.“
Greining Íslandsbanka
spáir 2,4% hagvexti 2004
Morgunblaðið/Kristinn
Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka, kynnti umræðuefnið á kynn-
ingarfundi Íslandsbanka um áhrif álvers- og virkjanaframkvæmda.
Jafnvægi í
hagkerfinu
SVISSNESKA lyfjafyrirtækið Nov-
artis AG hefur aukið við eignarhlut
sinn í lyfjafyrirtækinu Roche sem
einnig er svissneskt með höfuð-
stöðvar í Basel. Eignarhlutur Nov-
artis í fyrirtækinu er nú 32,7% en
var fyrir 21,3% en fyrirtækið
greiddi 1,98 milljarða evra, eða sem
nemur 168 milljörðum íslenskra
króna, fyrir viðbótarhlutinn. Sam-
einað fyrirtæki yrði annað stærsta
lyfjafyrirtækið í heiminum.
Roche er sem kunnugt er einn að-
alsamstarfsaðili Íslenskrar erfða-
greiningar og gerði síðast í janúar í
fyrra samning við ÍE um samstarf
til þriggja ára með það að markmiði
að nota erfðafræðilegar uppgötvan-
ir, sem leitt hafa af samstarfi fyr-
irtækjanna undanfarin ár, til þess að
þróa ný meðferðarúrræði við al-
gengum sjúkdómum.
Herskár forstjóri
Roche er að meirihluta til í eigu
sömu fjölskyldu og stofnaði fyrir-
tækið og hefur hún ekki gefið mikið
fyrir þreifingar Novartis. Forstjóri
Novartis, Daniel Vasella, er sagður
herskár og vill sameina fyrirtækin.
Vasella segist vilja sjá samruna fé-
laganna tveggja en er reiðubúinn að
bíða. „Ef ég geri þetta ekki þá mun
eftirmaður minn gera það,“ segir
Vasella í samtali við Wall Street
Journal.
Talsmaður Roche segir að stjórn
fyrirtækisins og stofnendur hafi
ítrekað sagt það mjög skýrt að þau
hafi langtímaáhuga á félaginu og
ætli sér ekki að láta af hendi meiri-
hlutaeign sína.
Talsmaðurinn sagði að kaup Nov-
artis nú hefðu hvorki áhrif á
skammtíma- né langtímaáætlanir
félagsins.
Þrátt fyrir þessar yfirlýsingar
væri það hægðarleikur fyrir Nov-
artis að ná því að hafa áhrif á áætl-
anir félagsins, því svissnesk lög gera
ráð fyrir að þriðjungshlutur í fyr-
irtæki gefi eiganda neitunarvald í
stærri stefnumótandi málum þess.
Þar sem eignarhlutur Novartis er
núna 32,7 % þyrfti fyrirtækið aðeins
rúmlega 0,6% í viðbót til að ná þess-
um áhrifum og þau bréf er hæglega
hægt að kaupa á opnum markaði,
sagði Vasella forstjóri Novartis.
Ástæðan fyrir því að Novartis tók
ekki fullan þriðjungshlut núna var
sú að þá hefði myndast yfirtöku-
skylda og Novartis hefði þurft að
bjóðast til að kaupa það sem eftir
stæði af félaginu.
Forstjóri Roche, Franz Humer,
hefur sagt að hann hafi ekki áhuga á
að slást í lið með nágranna sínum. Í
viðtali í nóvember sagði hann að
samrunabylgjan í lyfjaiðnaðinum og
skrifræði sem fylgdi væri að kæfa
lyfjafyrirtækin. „Stórir samrunar
hafa eyðileggjandi áhrif á sköpunar-
kraft fyrirtækja,“ sagði Humer.
Vasella vísaði þessu á bug og
gagnrýndi Humer fyrir slaka
frammistöðu í þróun nýrra lyfja.
„Hann (Humer) hefur nú ekki
verið besta dæmið um frumleika og
sköpunarkraft.“
Novartis
í vígahug
Eigendur Roche hafa ekki áhuga
á að sameina fyrirtækin
Reuters
Daniel Vasella, forstjóri Novartis.
Í MÁNAÐARRITI Búnaðarbankans Ávöxtun
og horfum þar sem rætt er um áhrif af vænt-
anlegum stóriðjuframkvæmdum segir að aðlög-
un efnahagslífsins að framkvæmdunum muni að
miklu leyti eiga sér stað með styrkingu krón-
unnar, sem að mati greiningardeildarinnar
dregur úr hlutverki Seðlabankans og stýrivaxta
við stjórn efnahagsmála.
„Stóriðjuframkvæmdirnar nú eru þær fyrstu
sem verða í umhverfi fljótandi gengis. Þar sem
þessar framkvæmdir eru að fullu fjármagnaðar
erlendis frá er fyrirsjáanlegt að gengi krónunn-
ar mun styrkjast í kjölfarið. Aðlögun efnahags-
lífsins að þessum umfangsmiklu framkvæmdum
mun því að miklu leyti eiga sér stað með styrk-
ingu krónunnar, sem að mati greiningadeildar
dregur mjög úr hlutverki Seðlabankans og
stýrivaxta við stjórn efnahagsmála á næstu ár-
um.“
Í ritinu segir jafnframt að Greiningadeild hafi
sett fram tvær sviðsmyndir til að bregða ljósi á
mögulega gengis- og vaxtaþróun á fram-
kvæmdatímanum. Í báðum tilvikum er gert ráð
fyrir að verðbólgan verði innan þolmarka pen-
ingamálastefnunnar og raungengið hækki tölu-
vert umfram sögulegt meðaltal. „Þetta leiðir til
versnandi stöðu útflutnings- og samkeppnis-
greina og framkallar ruðningsáhrif og þar með
aukið rými í hagkerfinu sem dregur úr þenslu-
áhrifum stóriðjuframkvæmdanna.“ Þetta gerir
það að verkum samkvæmt mánaðarritinu að
verulega dregur úr þörf Seðlabankans til þess
að hækka stýrivexti enda hefur hann til þess
takmarkað svigrúm þar sem hærri vextir stuðla
enn frekar að styrkingu krónunnar og auka enn
á hækkun raungengisins. „Það kemur því í hlut
opinberra aðila, enn frekar en áður, að halda
uppi nauðsynlegu hagstjórnaraðhaldi.“
Í mánaðarritinu kemur einnig fram að gangi
öll áform um stóriðjuframkvæmdir eftir stefnir í
að á næstu árum verði framkvæmt hér á landi
fyrir 285 milljarða króna og að gjaldeyrisinn-
flæði muni nema 100 milljörðum króna sem
samsvarar því að verðmæti útflutningsafurða
aukist um 20% á næstu tveimur árum þegar
áhrifin verða hvað mest. Til samanburðar er
þess getið að heildarútflutningur sjávarafurða
nam tæplega 130 milljörðum króna á síðasta ári.
Hækkun stýrivaxta mun minni
en áður var reiknað með
Búnaðarbankinn væntir þess að Seðlabank-
inn lækki stýrivexti bráðlega vegna styrkrar
stöðu krónunnar og að vextirnir haldist síðan
óbreyttir fram á mitt ár 2004. „Í ljósi þess
hversu sterk krónan hefur verið á síðustu mán-
uðum og hve hröð verðbólguhjöðnun hefur átt
sér stað, væntir greiningadeild þess að Seðla-
bankinn lækki stýrivexti mjög bráðlega í 5,5%.
Haldi gengi krónunnar áfram að styrkjast
væntir greiningardeild þess að stýrivextir
hækki einungis um 50 punkta út framkvæmda-
tímabilið, en haldist gengisvístalan í 120 stigum
má vænta þess að stýrivextir verði komnir í
6,5% í ársbyrjun 2005.
Húsbréf á yfirverði í lok árs
Í samræmi við spá um framboð og eftirspurn
á skuldabréfamarkaði og væntingar um þróun
verðlags og stýrivaxta, telur greiningardeild að
ávöxtunarkrafa skuldabréfa komi til með að
lækka áfram. Gert er ráð fyrir að ávöxtunar-
krafa 40 ára húsbréfa verði 4,6–4,8% í lok árs og
því fáist allt að 2% yfirverð fyrir bréfin.
Í ritinu er því velt upp hvernig umhorfs verði
eftir að öllum framkvæmdum er lokið haldist
gengi krónunnar hátt allan framkvæmdatím-
ann. „Er hætta á því að hröð umskipti yfir í
lægra framkvæmdastig og minna fjármagnsinn-
flæði leiði til þess að ójafnvægi skapist í geng-
ismálum og að krónan gefi eftir? Mikill við-
skiptahalli á framkvæmdatímanum bæði vegna
stóriðjuframkvæmda og almennrar eftirspurn-
ar mun væntanlega vekja upp spurningar um
það hvort raungengi krónunnar sé of hátt líkt og
gerðist í lok síðustu uppsveiflu árið 2000. Þá gaf
gengið eftir með þeim afleiðingum að verðbólg-
an fór úr böndum tímabundið en ójafnvægið í ut-
anríkisviðskiptum lagfærðist tiltölulega hratt.
Hættan á því að slík kollsteypa endurtaki sig
virðist því klárlega vera fyrir hendi í þeim sviðs-
myndum sem hér hafa verið settar fram.“
Fjallað um áhrif af stóriðjuframkvæmdum í mánaðarriti Búnaðarbanka Íslands
Aðlögun efnahags-
lífsins með styrk-
ingu krónunnar