Morgunblaðið - 01.03.2003, Blaðsíða 48

Morgunblaðið - 01.03.2003, Blaðsíða 48
MINNINGAR 48 LAUGARDAGUR 1. MARS 2003 MORGUNBLAÐIÐ Sérfræðingar í blómaskreytingum við öll tækifæri Skólavörðustíg 12, á horni Bergstaðastrætis, sími 551 9090. ✝ Sigrún Jóns-dóttir fæddist í Hvammi í Dýrafirði 29.9. 1905. Hún andaðist á Dvalar- heimili aldraðra í Borgarnesi 20.2. síðastliðinn. For- eldrar hennar voru Guðrún Gísladóttir, f. 18.10. 1883, d. 3.1. 1946 og Jón G. Jóhannsson, f. 13.6. 1883, d. 28.4. 1954. Systkini Sigrúnar eru Jóhanna Þor- björg, f. 8.10. 1907, d. 22.12. 1926, Jóhannes Helgi, f. 19.12. 1908, d. 9.3 1909, Björn, f. 18.8. 1910, d. 8.8. 1955, Gísli, f. 21.9. 1911, d. 3.1. 1995, Sigríður, f. 9.12. 1913, d. 4.1. 2000, Guð- mundur, f. 28.2. 1915, d. 1.11. 1978, Elísabet, f. 21.7. 1917, Jó- hannes Helgi, f. 17.11. 1918, Ósk, f. 26.2. 1920, Ásta, f. 21.4. 1922, Kristján Sveinn Helgi, f. 22.2. 1924, d. 25.6. 1924. Hálfsystir Sigrúnar samfeðra var Guð- mundína Ágústa, f. 19.8. 1901, d. 30.6. 1990. 29.9. 1971. d) Sigríður, f. 18.11. 1973, gift Haraldi Guðjónssyni, f. 2.4. 1973. Börn: Sunna Guðrún Traustadóttir, f. 23.9. 1993, og Jón Flosi Aðalsteinsson, f. 8.5. 1997. e) Birna, f. 18.11. 1973, gift Ottó Herði Guðmundssyni, f. 22.11. 1965. Börn: Kristín Dís Gíslasóttir, f. 11.3. 1997, og Svavar Már Harðarson, f. 31.10. 2000. 3) Gylfi, f. 18.4. 1946. Kvæntur Guðrúnu Þórðardóttur, f. 11. júlí 1954. Börn þeirra eru Björn Friðrik, f. 15.11. 1991, og Andr- ea Dögg, f. 25.4. 1994. Dætur Guðrúnar af fyrra hjónabandi eru Sara Margrét, f. 6. okt. 1978, og Sólveig Íris Sigurðardætur 17.1. 1981. Sigrún ólst upp í Lækjartungu á Þingeyri. Fór ung í vist á Þing- eyri og Ísafjörð. Starfaði í Reykjavík, Keflavík og í Graf- arholti á sínum yngri árum. Réðst sem kaupakona að Öl- valdsstöðum. Hún bjó þar til árs- ins 1986 þegar hún fluttist á Dvalarheimili aldraðra í Borg- arnesi. Hún tók virkan þátt í starfi Kvenfélags Borgarhrepps og var þar heiðursfélagi og söng lengi í Kirkjukór Borgarkirkju. Útför Sigrúnar fer fram frá Borgarneskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14. Jarðsett verður á Borg á Mýrum. Sigrún giftist 5.6. 1938 Birni Hólm Jónssyni á Ölvalds- stöðum í Borgar- hreppi, f. 24.6. 1902, d. 17.5. 1984. Börn Sigrúnar og Björns voru þrjú: 1) Jóhanna Þorbjörg, f. 5. mars 1940, d. 28. apríl 1949. 2) Jón Ragnar, f. 21.5. 1943. Kvænt- ist Guðrúnu Magndísi Sigurðardóttur, f. 8.2. 1949. Þau skildu. Var í sambúð með Ernu Albertsdóttur. Þau slitu samvistum. Nú í sam- búð með Guðrúnu Jónínu Magn- úsdóttur, f. 20.12. 1949. Börn Jóns Ragnars og Guð- rúnar Magndísar eru: a) Sigrún, f. 25.8. 1968, gift Ólafi Sigvalda- syni, f. 30.4. 1968. Börn: Númi, f. 8.4. 1995 og Sölvi, f. 3.4. 1998. b) Jóhanna Þorbjörg, f. 8.4. 1970, gift Stefáni Geir Þorvaldssyni, f. 16.11.1970. Börn: Alexandra Mjöll Ágústdóttir, f. 23.9. 1989, og Mikael Elí Stefánsson, f. 6.7. 1995. c) Stúlka andvana fædd Það er erfiðara en ég bjóst við að horfast í augu við það að þú skulir vera dáin mamma mín, þrátt fyrir þinn háa aldur. Það eru ekki margir sem ná 97 ára aldri. Ég hef það fyrir satt að þú hafir verið elsta barnið í sókninni. Og miklar breytingar hefur þú upplifað á öldinni sem nú er nýliðin. Fædd og alin upp í stórri barnafjöl- skyldu við þröng efni. Þurftir lítil telpa að fara að heiman í vist, síðan í kaupamennsku, allt þar til þú stofn- aðir þitt eigið heimili með pabba á Ölvaldsstöðum. Fyrsta bernskuminningin mín er tengd þér. Þá sat ég í rólu og kallaði á þig að taka mig. Þú sast við eldhús- borðið og varst að lesa í blaði og svaraðir bráðlátum syni ekki alveg eins fljótt og hann gat hugsað sér. Hafi ég óttast þá að okkar samskipti yrðu með þessum hætti í framtíð- inni, var sá ótti með öllu ástæðulaus. Þú varst móðir sem óskaðir okkur börnunum þínum alls þess besta, umvafðir okkur með móðurást og kærleika og lagðir allt í sölurnar til þess að við gætum orðið hamingju- söm. Það var mikið áfall fyrir þig og pabba þegar Hanna systir dó eftir langvarandi veikindi aðeins níu ára gömul. Hennar var sárt saknað alla ykkar æfi. Þegar stelpurnar mínar fóru að sjá dagsins ljós skipti þig öllu að fylgjast með þeim vaxa úr grasi og löngum voru þær hjá þér í sveitinni umvafðar ást og umhyggju. Þær munu búa að því alla æfi hvað þú varst þeim. Eftir 48 ár á Ölvaldsstöðum flutt- ist þú á Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi þar sem þú bjóst síðustu 17 árin, eignaðist vini sem flestir fóru á undan þér. Það var þér þung- bært. En starfsfólk Dvalarheimilis- ins annaðist þig af natni og um- hyggju og fylgdist vel með líðan þinni. Fyrir það vil ég þakka. Minnið þitt var farið að gefa sig hin síðari ár en það voru alveg hrein- ar línur að í hvert skipti sem við hitt- umst þurftir þú að fá nákvæma skýrslu um mína líðan og barna- barnanna, hvort ekki allir væru sátt- ir innbyrðis í fjölskyldunni og hvort fólk væri hamingjusamt. – Jæja, þá get ég nú farið í friði fyrst allir mínir hafa það gott, sagðir þú gjarnan eftir að hlýða á jákvæðar greinargerðir. Skömmu fyrir síðustu jól var hringt frá Dvalarheimilinu og sagt að nú væri líklega stutt eftir, þú móktir að mestu. Gylfi bróðir heim- sótti þig strax um kvöldið og hitti þig bráðhressa. Ég kom daginn eftir og þú lékst við hvern þinn fingur. Sagð- ir mér að þú hefðir verið lögð af stað í ferðina löngu en ákveðið að snúa við og doka örlítla stund og bættir svo við – verst að vera að ómaka hann Gylfa úr vinnunni í gærkveldi. Þetta var þér líkt. Stutt í glettnina og eiginlega alveg laus við að krefjast nokkurs af öðr- um. Mamma mín. Að leiðarlokum kveð þig með ást og virðingu. Þakka þér fyrir allt sem þú varst mér og mínum á þinni löngu ævi. Þinn sonur, Jón Ragnar Björnsson (Nonni). Elsku amma mín. Nú erum við hættar að heyja sam- an og komið er að kveðjustund. Ég minnist þín fyrir það hversu góð, skemmtileg og falleg þú varst. Það var alltaf ljómi í kringum þig og ég leit upp til þín og hlakkaði alltaf til að hitta þig. Ég var svo heppin að njóta mikilla samvista við þig þegar ég var að vaxa úr grasi og var það mér til mikillar gæfu. Ég dvaldi ófá sumrin hjá þér og afa á Ölvaldsstöð- um allt fram á unglingsárin. Þaðan á ég ómetanlegar minningar, um okk- ur úti á túni að dreifa úr heyi, að garða eða sæta með hrífunum okkar sem afi sérsmíðaði handa okkur systrunum til þess að við gætum ver- ið með í heyskapnum. Þá vorum við nú ekki háar í loft- inu, litlu skottin, eins og þú kallaðir okkur gjarnan. Þú lagðir áherslu á að innræta okkur góð vinnubrögð og metnað við heyskapinn sem ég hef æ síðan haft í farteskinu í lífinu. Þú lagðir þig fram við að gæta þess að okkur liði vel í vistinni hjá ykkur og þegar tími vannst til þá kenndir þú mér m.a að baka, elda, prjóna og hekla. Ég á þér svo margt að þakka og þú hafðir mikil áhrif á það hvaða manneskju ég hef að geyma í dag. Ég sakna þín og þess tíma sem við áttum saman, skemmtilegu sam- ræðnanna sem við áttum yfir spili eða prjóni og einleikjanna sem þú fórst með fyrir mig og ég hló mig máttlausa að... þú varst nokkuð góð leikkona. Nú ertu komin til himnaríkis og nýtur samvista við afa og Hönnu litlu. Ég veit að þú ert búin að hitta þau aftur og ég veit líka að biðin eftir að hitta Hönnu aftur er búin að vera þér sérstaklega löng. Elsku amma, ég sakna þín mikið og þú átt eftir að vera í huga mínum um ókomna framtíð. Ég veit að þér var það mik- ilvægast í lífinu að þínir nánustu væru hamingjusamir og það kom svo vel í ljós um jólin þegar ég kvaddi þig síðast. Það er gott að vita að þú fórst sátt og viss um að þínu ævi- starfi væri lokið og að strákarnir þínir væru hamingjusamir. Guð geymi þig. Jóhanna Þorbjörg Jónsdóttir. Elsku amma. Við tvíburarnir vor- um sumar eftir sumar í sveitinni hjá ykkur afa. Þar vorum við sveita- stelpur. Þar tókum við þátt í bú- skapnum af mikilli elju og þraut- seigju. Umhirða dýranna, sláttur, að aðstoða bóndann á næsta bæ með kýrnar, sendiferðir, heimilisstörf, leikir úti sem inni. Oft voru upplif- anirnar ævintýri líkastar. Ég naut þess að vera barn í sveit- inni hjá ykkur. Ég er þakklát ykkur fyrir að hafa valið að búa á jörðinni Ölvaldsstöðum. Þangað á ég hluta til rætur mínar að rekja. Ég er stolt af því. Ég er þakklát fyrir það að geta í dag sagt börn- unum mínum sögur um dýrin í sveit- inni; hrútinn sem stangaði mig, kálf- inn sem lifði af næturlangt niðri í engjum eftir að hann var nýborinn, lambið sem lamaðist og var tekið í fóstur inni í bæ, minnkinn sem fannst niðri í engjum og fleiri sögur. Þetta var stórkostleg upplifun sem í dag er orðin að mörgum ævintýrum. Amma mín. Þú varst amma eins og ömmur eiga að vera. Þú sýndir okkur umhyggju, gafst okkur tíma til að spila, leika við okk- ur, spjalla, kenna okkur að prjóna, bænir, sálma og margt margt fleira. Mér fannst ég alltaf velkomin til ykkar. Fyrir jól fengum við þær fréttir að nú væri líklegast kominn tími á það að þú værir að fara. Við brunuðum öll upp eftir til að kveðja þig. Þú varst sjálf svo viss um að þú værir að fara. Og þú varst svo tilbúin. Við spjölluðum saman, mér fannst þú jafnvel vera orðin skýrari en þú hafðir verið. Þú þakkaðir fyrir allt. Í hjarta mér fannst mér ég vera að kveðja konu sem var búin að lifa sína ævi til fullnustu. 97 ára gömul. Og þú kvaddir okkur svo tilbúin, svo sátt. Og ég vissi að þú hafðir náð sáttum við fortíðina. Nú ertu komin upp til Guðs. Þar hefur þú loksins hitt hana Hönnu þína. Og alla hina sem fóru á undan þér. Takk fyri allt – ég held að þú hafir ekki gert þér í hugarlund hversu dýrmætt innlegg þitt hefur verið í líf okkar. Mér þykir vænt um þig. Sigríður Jónsdóttir. Amma mín ólst upp í barnmargri fjölskyldu í Lækjartungu á Þingeyri. Ung að árum fór hún í vist og síðar í kaupavinnu. Hún réð sig í kaupa- vinnu að Ölvaldsstöðum og kynnist þar Birni afa mínum. Þau giftu sig og bjuggu þar alla sína búskapartíð. Frá því ég man eftir mér fór ég í sveitina til afa og ömmu ásamt næst- elstu systur minni. Ýmislegt var nú brallað á þeim árum en að sama skapi var margt sem við lærðum hagnýtt af því að vera sumarlangt hjá þeim. Afi las fyrir okkur allar Ís- lendingasögurnar og amma kenndi okkur margar bænir og sálma og las fyrir okkur íslenskar skáldsögur. Sauðburður, vitjun neta í Hvítá, heyskapur og annað þess háttar var hluti af því sem við ólumst upp við í sveitinni. Mér er alltaf amma minnisstæð- ust í heyskapnum, hún vann hratt og var erfitt að fylgja henni eftir. En alltaf hrósaði hún manni fyrir vinnu- semina og var manna fyrst að sinna blöðrunum sem hrjáðu litlar hendur eftir heyskapinn. Oft var gestkvæmt á Ölvaldsstöð- um og tók amma vel á móti gestum og get ég seint gleymt kleinunum sem hún bakaði fyrir gesti og gang- andi. Framan af voru öll mín afmæli haldin þar og sá amma til að nóg væri til af rjómapönnukökum og heitu súkkulaði. Mínar skemmtilegustu stundir voru þegar að amma fór niður í kommóðuna sína og dró þar upp alla þá hluti sem hún hélt hvað mest upp á. Þar kenndi ýmissa grasa og átti hver hlutur sína sögu. Oft talaði amma um árin í Lækj- artungu, foreldra sína og systkini og árin sem hún var í vist og vann sem kaupakona bæði fyrir vestan og sunnan. Hin síðari ár bjó hún á dvalar- heimilinu í Borgarnesi og undi hag sínum vel. Þegar ég kynntist eiginmanni mínum var amma sú fyrsta sem fékk að hitta hann og var hún alla tíð ánægð með hann og lét hann vita af því, að hann væri alveg ágætismaður og bæri það með sér að fara vel með hana Rúnu sína. Að síðustu langar mig að kveðja þig, amma mín, og þakka þér fyrir öll þau yndislegu ár sem við áttum saman. Guð veri með þér og geymi þig alla tíð. Ég geymi minninguna um þig í hjarta mér. Sigrún Jónsdóttir. Elsku, elsku amma mín. Loksins fékkst þú að yfirgefa þetta líf og fara til dýrðar drottins. Loksins fékkst þú að hitta hana Jóhönnu þína, afa, foreldra þína og vini. Ég veit þér líður yndislega núna, því kærleikur drottins er óendanleg- ur í himnaríki. Þú kvaddir okkur svo sátt við for- tíðinna, sátt við hlutskipti þitt í líf- inu. Þakka þér, drottinn, fyrir að hafa gefið mér svona yndislega ömmu, ömmu sem ég vil líkja eftir. Þakka þér, elsku amma mín, fyrir alla þá ánægju og gleði sem þú veitt- ir mér í lífi mínu. Sú ánægja að koma í sveitina til ykkar, njóta ástúðar þinnar, læra að njóta náttúrunnar, dýranna og frels- isins sem sveitasælan ein getur gef- ið. Þú kenndir mér að leggja kapal, baka kleinur, sópa gólf og svo margt fleira. Þú gafst okkur dýrmætan tíma, tíma sem er ómetanlegur. Á kvöldin þegar háttatími kom kenndir þú okkur fullt af bænum og sálmum sem nýst hafa mér vel í lífi mínu. Ég elska þig eilíflega, elsku amma mín. Hvíl þú í friði og gleði með drottni Guði þínum. Einn er Guð. Einn er og meðalgangarinn milli Guðs og manna, maðurinn Kristur Jesús, sem gaf sig sjálfan til lausnargjalds fyrir alla. Það var vitnisburður hans á sett- um tíma. (1 Tm 2 5-6). Saknaðarkveðja. Þitt barnabarn Birna Jónsdóttir. Hún Sigrún frá Ölvaldsstöðum, elsta föðursystir mín, hefur kvatt þessa veröld eftir langa ævi. Ég sá hana fyrst fyrir hálfri öld er hún kom heim í Dýrafjörð, vortíma, til þess að fylgja föður sínum til grafar; þá bóndakona suður í Borgarfirði. Þá strax mótaði hún minningu sína er síðar skerptist í huga mér – frjálsleg og hispurslaus í öllu fasi en umfram allt hress og glöð. Hún hafði þó mjög ung þurft að reyna alvöru lífsins. Sem elsta barn stórrar en efnalítillar fjölskyldu á dálitlu grasbýli innan við Þingeyri við Dýrafjörð hóf hún barnung að vinna fyrir sér, innan við fermingu. Já, sjálfan fermingardag- inn sinn dvaldi hún ekki allan heima, sagði hún mér eitt sinn; starfinn kallaði. En hún var hraust til líkama og sálar og árin liðu við ýmis verk í sveit og bæ. Liðlega þrítug gerðist hún bóndakona á grónu menningar- heimili í Borgarfirði, að Ölvaldsstöð- um í Borgarhreppi. Þar átti hún síð- an öll sín starfsár. Síðasta aldarþriðjunginn höfðum við fjölskylda mín og Sigrún frænka átt samleið sitt hvorum megin Hvít- árinnar. Það var gaman að koma að Ölvaldsstöðum til þeirra hjóna, Sig- rúnar og Björns H. Jónssonar, bónda hennar. Hann var fjölfróður og skarpgreindur og afar skemmti- legur viðræðu. Frænka tók okkur fjölskyldunni jafnan sem börnum sínum og barnabörnum, stórum og hlýjum faðmi. Hún átti líka tiltak- anlega gott með að ná til smáfólksins í spjalli og leik, en við eldhúsborðið sat Björn bóndi hennar, pírði augun kímileitur og sendi frá sér notalegan pípureyk í smáskömmtum er bland- aðist ilmi kaffisins hennar frænku. Tækifærin voru því notuð til þess að skjótast yfir að Ölvaldsstöðum í heimsókn. Í eldhúsinu þar hvarf manni skarkali heimsins í vinsemd og hlýju þeirrar veraldar er þau hjónin skópu saman með heimili sínu. En ekkert er eilíft og hagir breyttust á Ölvaldsstöðum. Björn féll frá vorið 1984 og að því kom síð- ar að Sigrún færði sig á Dvalarheim- ili aldraðra í Borgarnesi. Þar naut hún góðrar aðhlynningar starfs- fólksins og átti mörg notaleg ár. Heimsóknir kunni hún áfram vel að meta og naut lífsins í margmenni og ys heimilisins. Sérlegt yndi hafði hún af söng í góðum hópi, og var það vís leið til að gleðja frænku; þá ljóm- aði hún öll. Í hugann koma tvö ætt- armót fjölskyldunnar; þar var hún meðal þeirra yngstu í anda þótt elst væri, og háð hjólastólnum sínum í síðara skiptið. Síðustu árin urðu frænku fremur löng og stundum undraði hún sig raunar á því eftir hverju beðið væri. Fyrir alllöngu, ég held bara einum sjö átta árum, sagði hún mér, er ég heimsótti hana eitt sinn, að nú hlakk- aði hún mjög til vistaskiptanna; hana hefði nefnilega dreymt Þorbjörgu systur sína – og það hefði allt verið svo bjart og fallegt í kringum hana. Þorbjörg var ögn yngri en Sigrún en féll frá í blóma lífsins – sárt saknað af öllum. Nú er hún frænka komin þangað sem fegurðin ein ríkir, södd lífdaga en sátt við guð og menn. Við frænd- fjölskyldan á Hvanneyri minnumst hennar með hlýju og miklu þakklæti. Afkomendum hennar og öðrum ást- vinum sendum við innilegar samúð- arkveðjur. Blessuð sé minning Sig- rúnar Jónsdóttur frá Ölvalds- stöðum. Bjarni Guðmundsson. SIGRÚN JÓNSDÓTTIR Takk fyrir það liðna, amma, þú varst alltaf góð við okkur, þú elsk- aðir okkur og við elskuðum þig. Við munum alltaf minnast þín. Hafðu það gott hjá Guði Sunna Guðrún Traustadóttir. Ég elska þig. Góða ferð. Skemmtu þér vel. Þitt langömmubarn Kristín Dís Gísladóttir. Elsku amma. Ég sakna þín. Jón Flosi Aðalsteinsson. HINSTA KVEÐJA
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64
Blaðsíða 65
Blaðsíða 66
Blaðsíða 67
Blaðsíða 68
Blaðsíða 69
Blaðsíða 70
Blaðsíða 71
Blaðsíða 72

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.