Morgunblaðið - 30.07.2003, Blaðsíða 11
væru, meðal annars hjá Reykjavíkurborg. Í
tölvupóstinum segi ég. „Tvær leiðir: Stinga
djúpt og ná viðskiptum, eiga þá á hættu að
missa framlegð niður ef verð fréttist. Hin leið-
in að skoða málið í samhengi. Ákveða þarf á
næsta fundi verðpólitík miðað við þessar tvær
leiðir og eiga báðar í vasanum fram á síðustu
stundu.“
Næsti fundur í þessu samhengi er auðvitað
innanhússfundur okkar hjá Olíufélaginu. Með
fyrri leiðinni væri vitað að við gætum aldrei
náð öllum viðskiptum til okkar á þessum verð-
um en þetta væri ákveðin taktík til að ná aukn-
um viðskiptum. Hin leiðin væri sú að hafa hóf-
samari verðlagningu sem væri nær þeim
afsláttarflokkum sem við vorum að móta fyrir
stærð viðkomandi viðskipta og láta þá slag
standa hvort við fengjum viðkomandi viðskipti
eða ekki. Þegar maður undirbýr sig undir út-
boð á maður að vera með báðar aðferðirnar til-
búnar uppi í erminni alveg fram á síðustu
stundu því svona lagað er ákvörðunartaka á
síðustu stundu. Ég hef oft stillt upp tölum í til-
boðum og gerði það margoft hjá Tali. Það er
mjög mikilvægt gagnvart starfsmönnum að
vinna ákveðna taktík. En maður verður jafn-
framt að hafa einhver kort uppi í erminni og
það má ekki ákveða taktíkina fyrr en á síðustu
stundu. Það er mjög mikilvægt, líka út af hætt-
unni á að eitthvað leki út úr fyrirtækinu. Minn
tölvupóstur var mjög ákveðin sönnun þess að
ég var með fullu markaðs- og samkeppnishug-
arfari að tala um þátttöku í þessum útboðum
sem framundan voru.“
Útboð Reykjavíkurborgar
Meðal þeirra útboða sem í gangi voru á þess-
um tíma var útboð Reykjavíkurborgar vegna
sölu á gasolíu, bensíni og steinolíu til stræt-
isvagna, malbikunarstöðvar og vélamiðstöðvar
Reykjavíkurborgar. Munur á hæsta og lægsta
verði í tilboðum olíufélaganna var 0,5% en Þór-
ólfur undirritaði tilboð Olíufélagsins. „Þegar
kemur að því að skila inn tilboði til Reykjavík-
ur þá segir Geir Magnússon [þáverandi for-
stjóri Olíufélagsins] mér hvaða einingaverð
eigi að setja á bensín og olíu. Ef ég man rétt
voru þetta afsláttartölur í kringum 30–40 aur-
ar á lítra og það var í fullu samræmi við plan B
samkvæmt fyrrnefndum tölvupósti, það er að
stinga ekki djúpt heldur láta þennan viðskipta-
vin njóta þeirra viðskiptakjara sem honum bar
samkvæmt okkar afsláttarkerfi. Að auki var
fyrirsjáanlegt að kostnaðarsamt yrði að yfir-
taka þessi viðskipti vegna geyma í jörðu sem
Skeljungur hafði haft í áratugi á þessum stað.
Ég taldi samt að þarna væri tækifæri til að ná
viðskiptum með því að „stinga djúpt“, sérstak-
lega í ljósi þess að nýir menn voru teknir við
hjá borginni eftir kosningarnar 1994. En ég
fékk tölur um verð frá forstjóranum og lét fylla
þær inn og síðan undirritaði ég tilboðið á
venjulegan hátt. Auðvitað voru það mér von-
brigði að fá ekki að „stinga djúpt“ en ég sætti
mig við það. En viðurkenni að mig grunaði að
þarna hefði verið um niðurstöðu fundar for-
stjórans með hinum forstjórunum að ræða. En
ég hafði ekkert í hendi og fékk ekki fulla yfir-
sýn yfir málið fyrr en í samtali í Samkeppnis-
stofnun í fyrra þegar mér voru sýnd gögn um
málið, sem meðal annars voru haldlögð gögn
úr húsrannsókn. Ég fullyrði þess vegna að ég
plataði ekki Reykjavíkurborg. Henni voru boð-
in með minni undirritun viðskiptakjör sem
voru í fullu samræmi við þann afsláttarflokk
sem borginni bar í viðskiptamannaflóru Olíufé-
lagsins. Ef niðurstaða Samkeppnisstofnunar
verður sú að sannað þyki að ólögmætt samráð
hafi átt sér stað í þessu tilviki, kom ég að því
með þessari undirritun minni. Það harma ég.
En ég kom ekki nálægt ákvörðun um samráð,
eða ákvörðun um verð.“
Markaðsstjórarnir hittust
„Rétt eins og forstjórarnir þurftu stundum
að hittast vegna sameiginlegra eigna, þurftu
markaðsstjórar félaganna líka stundum að
hittast vegna samrekinna bensínstöðva og
vegna úrgangsolíumála. Ég hef til dæmis varla
orðið eins hissa á ævinni og þegar ég var boð-
aður í fyrsta skipti til slíks fundar uppi í Skelj-
ungi nýkominn til starfa. Þá var fundarefnið
ákvörðun um kvöldopnunartíma nokkurra
bensínstöðva í Reykjavík. Á þessum tíma var
það þannig að það var samningsbundið við
launþegahreyfinguna hversu margar bensín-
stöðvar mættu vera opnar til klukkan hálftólf á
kvöldin. Þarna var það verkefni þriggja mark-
aðsstjóra ásamt með tengslum til starfs-
mannastjóra félaganna að raða niður hvaða
bensínstöðvar væru opnar fram eftir til að
Dagsbrúnarmenn væru ekki of margir að
vinna á kvöldin. Svona glórulaus voru vinnu-
brögðin að hluta til með vilja, aðstoð og frum-
kvæði opinberra aðila, launþegahreyfingar og
sáttasemjara. Sem betur fer var nú bara einn
fundur um þetta og það kom upp mikil sam-
keppni um hvenær stöðvar yrðu opnar og allt
að sólarhringsopnun sums staðar. Sem betur
fer sá maður á sínu samkeppnissviði töluverð-
ar breytingar verða á þessum tíma. Það skal
enginn segja mér að það hafi ekki verið sam-
keppni þegar ég hrinti af stað Safnkortinu.
Ennþá er fólk að njóta ávaxtanna af því. Svar
hinna olíufélaganna var að koma með bætiefni
í bensín. Olíufélagið brást við því mun seinna.
Þarna var mjög hörð samkeppni um viðskipta-
menn bensínsstöðvanna. Ég lét opna fyrstu
sjálfsafgreiðslustöðina í bensíni á Geirsgötunni
í miðborg Reykjavíkur. Þar var veittur afslátt-
ur og ég er að reyna að muna hvort menn
þorðu upp í krónu á lítra! Rýmið í álagningunni
var svo lítið að ég man þegar verið var að
ákveða afsláttinn í Safnkortinu var hann 40
aurar á lítra.
Á slíkum fundum fór oft fram almenn um-
ræða um verðlagningu, eins og kemur fyrir í
viðskiptalífinu. Slík samtöl eru ekki ólögmæt,
ef þau hafa ekki í för með sér samráð um verð
eða viðskiptakjör. Í einu tilviki sem ég man eft-
ir var mér falið af forstjóra að ræða við milli-
stjórnendur hinna olíufélaganna um tillögu að
tilboðsupphæðum fyrir forstjóra. Í því tilviki
stillti ég upp niðurstöðu fundarins. Í þessu til-
viki varð mér verðsamráð olíufélaganna ljóst
þótt ákvörðunin væri ekki á mínu starfssviði og
ábyrgð, en ég ber að sjálfsögðu þá ábyrgð sem
að mér snýr vegna vitneskjunnar um þessa til-
teknu ákvörðun.
Mun aldrei verja þetta
viðskiptaumhverfi
Ég mun aldrei verja það viðskiptaumhverfi
sem ríkt hefur um áratuga skeið í íslenskum ol-
íuviðskiptum. Það var óheilbrigt og ég ætla
heldur aldrei að verja það samráð sem átt hef-
ur sér stað. Hugur minn hefur alltaf staðið til
að vinna í samkeppnisrekstri, ekki opinberu
skömmtunarkerfi. Þess vegna gerði ég það
sem ég gat til að markaðsvæða viðskipti Olíu-
félagsins á þeim sviðum sem ég hafði óskorað
vald yfir. Og ég nýtti mér fyrsta tækifæri sem
ég fékk til að ráðast annað, en það tók fjögur ár
að fá áhugavert starfstilboð og það var for-
stjórastarfið hjá Tali. Ég held að allir sann-
gjarnir menn geti séð af rekstri Tals hvaða
áherslur ég hafi viljað marka í samkeppnis-
rekstri, þegar ég hef haft til þess fullt umboð.
Sumir geta talið að það hafi verið leið að
byggja sig upp í skjóli einokunarfyrirtækisins
Landssímans með þægilegri verðlagningu og
einhvers konar skiptingu á markaði. Það var
aldrei inni í myndinni hjá okkur hjá Tali. Þann-
ig að þegar ég fékk fullt og óskorað umboð til
verka þá tel ég að mínar áherslur hafi komið
mjög vel í ljós. Síðan verður að segjast eins og
er að við mætum öll í lífinu krossgötum þar
sem erfitt er að velja leið. Þegar ég horfi til
baka þá dreg ég þann lærdóm af þessu að mað-
ur á að spyrja spurninga, maður á að vera
gagnrýninn og maður á ekki að venja sig á þær
hefðir sem hafa gilt hingað til. Þetta hef ég
mest lagt áherslu á gagnvart mínu starfsfólki
þar sem ég hef haft mannaforráð, að menn
spyrji spurninga og geti varið sínar gjörðir
sjálfir. Ég reyndi að láta dropann hola steininn
í þeim verkum sem ég var að vinna hjá Olíufé-
laginu en það dugði greinilega ekki til.“
Hafði þrjá valkosti
En sér Þórólfur eftir einhverju í tengslum
við starfið hjá Olíufélaginu? „Ég átel sjálfan
mig fyrir að hafa tekið að mér stöðu fram-
kvæmdastjóra markaðssviðs Olíufélagsins án
þess að hafa fullt og óskorað umboð til þess að
fara með verðlagsmál á eldsneyti. Það gerði
mér það skylt að þurfa að hafa milligöngu um
verðtilboð í einstaka tilvikum og þurfa jafnvel
að setja fram slík verðtilboð þegar ég vissi, eða
gat grunað, að þau voru ákveðin af öðrum með
samráði. Það er mjög slæm staða. Síðan má
velta fyrir sér hverjir voru mínir valkostir.
Maður gengur inn í störf á viðkomandi stað og
það var enginn einn dagur sem var nákvæm-
lega dagurinn sem réð úrslitum. Enginn einn
tímapunktur þegar ég vissi nægilega mikið til
að taka ákvörðun um að gera eitthvað.
Ég lít svo á að ég hafi haft þrjá valkosti. Í
fyrsta lagi hefði ég getað opinberað þessi mál.
Nú, ég hefði getað gengið út. Hætt. Það er allt-
af valkostur. En ég var 36 ára gamall í nýju
starfi hjá stóru og virtu fyrirtæki. Ég sá bara
ekki fyrir mér að fara í burtu örskömmu síðar
án nokkurra skýringa. Þriðji valkosturinn var
sá sem ég valdi. Það var að reyna að breyta eft-
ir minni bestu getu á þeim sviðum þar sem ég
hafði ábyrgð og völd. Ég notaði síðan gott
tækifæri sem ég fékk þegar mér var boðin for-
stjórastaðan hjá Tali til að komast í burtu. Ég
átel mig fyrir að hafa tekið að mér starfið án
þess að hafa óskorað vald yfir verðlagningu.
Það er grunnurinn að því sem ég tel mig hafa
gert rangt. Ég var sóttur í þessa stöðu og ég
hefði örugglega haft sterkari stöðu til að setja
skilyrði í tengslum við mína ráðningu. En ég
var grunlaus um að slík skilyrði þyrfti til að
koma málum í gegn með eðlilegum hætti.“
Gat engum sagt frá
Þú nefndir þessa þrjá kosti sem þú stóðst
frammi fyrir. Kom aldrei til greina, á einhverj-
um tímapunkti, þegar þú fékkst fyrirmæli frá
þínum yfirmönnum, að berja hnefanum í borð-
ið og segja: Ég get ekki tekið þátt í þessu? „Oft
kom ég við andmælum. En það var náttúrulega
í lokuðum samtölum við mína samstarfsmenn.
Ég hef ekkert mér til málsbóta í því. Það er
engin skrifleg áminning eða athugasemd sem
ég sendi til minna samstarfsmanna eða for-
stjórans, nema þá í formi hvatningar, eins og í
tölvupóstinum um að „stinga djúpt“. Ég gat
engum sagt frá þessu á sínum tíma nema kon-
unni minni og það voru oft þung og erfið sam-
töl. Hún treysti minni dómgreind, hún vissi að
ég var ekki sá sem tók ákvarðanirnar eða bar
hina endanlegu ábyrgð. Ég held að hennar
léttir hafi verið mestur þegar ég hvarf til ann-
arra starfa, sem ég gerði strax og tækifæri
bauðst. Prívat og persónulega verð ég líka að
segja að ég hef blómstrað eftir að ég hætti og
tókst á við ný og spennandi samkeppnisverk-
efni hjá Tali gegn fyrrverandi einokunarfyr-
irtæki í fjarskiptum á Íslandi.“
Þórólfur segir að hann telji sig ekki fara með
neitt aðalhlutverk í þessu máli. „Ég ber hins
vegar fulla ábyrgð á störfum mínum fyrir Olíu-
félagið hf., líka þeim verkum sem snúa að
framkvæmd þess samráðs sem augljóslega
hefur farið fram. Óháð því hver niðurstaða
rannsóknar verður um saknæmi einstakra at-
vika eða þátta í þessu máli, þykir mér ljóst að
þetta samráð var siðferðilega óviðunandi og
mér þykir mjög miður að störf mín skuli hafa
blandast í það.“
Verð að svara fyrir mig
Þórólfur tók á fyrri hluta þessa árs við starfi
borgarstjóra Reykjavíkur og hann segist gera
sér grein fyrir því að hann verði að skýra þátt
sinn í olíumálinu.
„Starf mitt í dag er annars eðlis en flest önn-
ur og ég verð því að svara fyrir mig með öðrum
hætti en aðrir sem koma að þessu máli. Ég tók
að mér starf borgarstjóra í byrjun þessa árs
eftir mjög stuttan umhugsunartíma og þegar
kom að þeirri ákvörðun að gefa kost á mér í
þetta starf þá þaut allt líf mitt mér fyrir aug-
um. Og auðvitað er ýmislegt þar sem ég hefði
viljað geta gert betur. En það sem ég taldi
styrk minn var að ég var engum háður. Ég hef
aldrei átt neitt inni hjá neinum og enginn hefur
átt neitt inni hjá mér. Ég hef reynt að vera ég
sjálfur í mínum störfum og mínu lífi. Ég hug-
leiddi hvort eitthvað væri þar í mínu lífi sem
kæmi í veg fyrir að ég gæti tekið þetta að mér.
Og ég er ennþá þeirrar skoðunar, þrátt fyrir
aðild mína að þessu máli, að ég geti starfað af
heilindum í þágu Reykvíkinga. Ég hef lagt mig
fram um að sinna borgarstjórastarfinu vel.
Samstarfið við starfsmenn og fulltrúa meiri-
hlutans hefur verið með afbrigðum gott en það
er vitanlega í trausti þeirra sem til mín leituðu
sem ég sit í þessu starfi. Ég vona að störf mín
hafi sýnt að ég sé traustsins verður. Mér finnst
að með þessum skýringum sé ég að svara mínu
stuðningsfólki, sem hefur eingöngu sýnt mér
jákvæð viðbrögð. Það er hins vegar uggandi og
hefur beðið mig um skýringar. Ég hef sagt að
ég telji að ég geti varið mig og það er kominn
tími til þess núna. Atburðirnir gerðust fyrir
löngu og ég þurfti hreinlega tíma. Þetta var
ekki efst í mínum huga. Það var mikið átak í
fyrra þegar ég fór að rifja þetta upp í Sam-
keppnisstofnun. Þegar lífið gengur hratt
staldrar maður sjaldnast lengi við daginn í
dag. Megnið af þeim atburðum sem við höfum
rætt um hér gerðust fyrir sjö til tíu árum þeg-
ar ég var nýkominn til starfa hjá Olíufélaginu.“
Tilbúinn að starfa áfram
Líkt og þú minnist á sjálfur, gilda önnur lög-
mál í því starfi sem þú ert í nú en flestum öðr-
um. Er eitthvað í þessu máli sem gerir að verk-
um að þú teljir að það geti orðið erfitt fyrir þig
að sinna þínu starfi? Nú gæti það til dæmis
gerst að hafin yrði lögreglurannsókn á málinu.
„Ég held að það sem geri mér nú þegar erfitt
fyrir er ef að mínir nánustu og mínir stuðn-
ingsmenn ekki treysta mér til góðra verka. Ég
er tilbúinn til að starfa áfram og geri það í
trausti þess að þeir treysti mér. Ég verð að
segja að ég hef farið í gegnum lífið án stór-
áfalla. Ég er ekki fæddur inn í ákveðnar valda-
fjölskyldur og hef aldrei þegið völd af öðrum.
Ég hef ekki fengið neitt ókeypis. Ég hef þurft
að vinna fyrir hlutunum en heldur aldrei lent í
alvarlegu mótlæti. Þegar ég byrjaði í þessu
starfi hér, var stokkið á mig á mínum fyrsta
degi í starfi og mér þótti það sérkennilegt en sá
fljótt að það var það sem tíðkast í stjórnmálum
og í opinberri stjórnsýslu. Ég tek því og er
tilbúinn að berjast fyrir mína menn, fyrir þá
sem ég sit í umboði fyrir. Auðvitað tek ég mest
mark á því sem mínir menn segja. Ég er 100%
viss um að andstæðingar mínir munu aldrei
taka neinar skýringar frá mér sem góðar og
gildar ekki frekar en þeir tóku vel í fjármála-
skýringar mínar í byrjun ársins sem ég taldi þó
mun ígrundaðri en þeirra útleggingar. Þannig
að ég er alveg viðbúinn því að ég muni aldrei
geta sannfært alla. Það verða alltaf andstæð-
ingar sem telja að ég sé ekki nógu góður borg-
arstjóri. Það hefur verið þannig hingað til og
það mun ekki breytast við þetta. Ég fer fram á
að allt mitt líf sé metið af sanngirni þegar
menn meta hvort ég sé traustsins verður að
vinna fyrir Reykvíkinga.“
Þetta mál er stórmál
Er ekki hætta á því að þetta mál fari að yf-
irgnæfa önnur mál? „Það má gjarnan gera það
en það á þá að færast yfir á þá sem ábyrgðina
bera. Þetta mál er stórmál. En til þess bærir
aðilar, sem réðu sínum ráðum, samkvæmt
frumathugun Samkeppnisstofnunar, eiga að
standa fyrir þessu máli. Ekki ég sem mun aldr-
ei verja þetta. Sú málsvörn kemur mér ekki
við. Hún má vera hver sú sem þeir kjósa sem
að því koma. En ég mun ekki taka undir hana.“
Nú gæti sú staða komið upp að Reykjavík-
urborg yrði að leita réttar síns gagnvart olíufé-
lögunum. Væri fyrrverandi framkvæmdastjóri
hjá Olíufélaginu ekki í erfiðri stöðu sem borg-
arstjóri? „Reykjavíkurborg gæti lent í því að
sækja rétt sinn gagnvart mínum skyldmenn-
um eða einhverjum mér nátengdum í einhverj-
um alls óskyldum málum. Við því er ekkert að
gera annað en að borgarráð álykti um slíka
réttarstöðu og formaður borgarráðs skrifi
undir slíkt embættisbréf. Vanhæfi æðsta
stjórnanda getur komið til með mjög misjöfn-
um hætti og við því er ekkert nema mjög ein-
falt úrræði. Þá verður hinn pólitískt kjörni for-
maður borgarráðs að sækja þau mál sem
borgarstjóri er vanhæfur í. En ég undirstrika
að ég tel mig ekki hafa verið valdan að því að
borgin hafi skaðast af tilboði Olíufélagsins í
þessu máli.“
Engu svarað um framtíðina
Telurðu líklegt að til slíkrar málsóknar muni
koma og hvernig metur þú stöðu þína í því til-
viki? „Það má spyrja hvað ef. Það eru svo
margar „ef“ spurningar sem koma upp í mín-
um huga í tengslum við þetta mál. Ég hef ekki
ennþá kveðið uppúr með neitt við mína stuðn-
ingsmenn og þá sem ég sit í umboði fyrir hvort
ég muni vilja starfa áfram sem borgarstjóri
eftir þetta kjörtímabil. Það hef ég aldrei viljað
ræða. Þannig að sú óvissa er alveg jafnmikil í
dag og hún hefur alltaf verið varðandi mína
framtíð. Þar af leiðandi er ekki tímabært að
hugsa sér allar þær breytingar sem upp geta
komið. Það var varla við mig talað um annað
fyrir síðustu alþingiskosningar en að það væri í
gangi eitthvert leynisamkomulag þar sem
borgin væri sett inn sem skiptimynt í stjórn-
málatafli. Ég hlustaði ekki á það þá. Ef ég
hefði átt að setja upp mikið af „hvað ef“-spurn-
ingum, hefði hausinn á mér ekki rúmað þær
pælingar. Ég er nýr í stjórnmálum og ég er
smám saman að átta mig á hvað staðan getur
breyst hratt. Sagt er að vika sé langur tími í
stjórnmálum, hvað þá þrjú ár. Ég hef aldrei
haft nein sérstök plön fyrir mig og mína per-
sónu. Ég hef alltaf tekið að mér þau verkefni
sem mér hafa boðist og ég talið rétt að taka og
ég hef ekki sótt um störf síðustu áratugina.
Þetta er ný lífsreynsla fyrir mig að fréttir snú-
ist þetta mikið um mig og mína persónu. Ég er
að reyna að finna mig sjálfan í þessu hlutverki
og kann ekki annað en að vera ég sjálfur.
Kominn tími til að taka á málum
Ég vona að þessi rannsókn, sem ég hef tekið
fullan þátt í eftir því sem óskað hefur verið eft-
ir, hafi góð áhrif á íslenskt viðskiptalíf. Það var
kominn tími til að taka á málum. Þótt gerðar
hafi verið athugasemdir við húsrannsókn Sam-
keppnisstofnunar hef ég fullan skilning á slík-
um aðgerðum og tel að ómögulegt hefði verið
fyrir stofnunina að ná í þessi gögn án þess að
gera það snöggt. Ég gaf án umhugsunar fullt
umboð til að allur minn tölvupóstur yrði skoð-
aður þannig að ég vona að þessi rannsókn verði
til góðs fyrir íslenskt viðskiptalíf.“
’ Ég fullyrði þess vegna að ég plataði ekki Reykjavík-urborg. Henni voru boðin með minni undirritun
viðskiptakjör sem voru í fullu samræmi við þann
afsláttarflokk sem borginni bar í viðskiptamannaflóru
Olíufélagsins. Ef niðurstaða Samkeppnisstofnunar
verður sú að sannað þyki að ólögmætt samráð hafi
átt sér stað í þessu tilviki, kom ég að því með þessari
undirritun minni. Það harma ég. ‘
FRÉTTIR
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 30. JÚLÍ 2003 11