Morgunblaðið - 08.09.2003, Síða 14

Morgunblaðið - 08.09.2003, Síða 14
ERLENT 14 MÁNUDAGUR 8. SEPTEMBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ LEIÐTOGAR Hamas-samtakanna eru „markaðir til aftöku“ og munu engra griða njóta, sagði Ariel Shar- on, forsætisráðherra Ísraels, í gær, eftir að Ísraelum mistókst að fella á einu bretti forystusveit Hamas með 250 kílóa sprengju er varpað var úr flugvél á íbúðahús í Gazaborg á laugardaginn, fáeinum klukku- stundum eftir að Mahmoud Abbas, fyrrverandi forsætisráðherra Pal- estínumanna, hafði sagt af sér. Hamasliðar hótuðu hefndum sem aldrei fyrr, og sögðu Ísraela hafa „opnað hlið helvítis“ með árásinni, en meðal þeirra sem voru í húsinu var stofnandi samtakanna og and- legur leiðtogi, Sheik Ahmed Yassin, sem slapp með minniháttar meiðsl. Ísraelar hertu til muna öryggis- gæslu og lokuðu af Gazasvæðið og Vesturbakkann. Meðal Palestínumanna hófst í gær leit að eftirmanni Abbas, sem sagði af sér í fyrradag í kjölfar mik- illar valdabaráttu við Yasser Ara- fat, æðsta leiðtoga Palestínumanna. Arafat hafði í gær enn ekki sam- þykkt afsögn Abbas skriflega, svo sem honum ber samkvæmt lögum, en tjáði palestínskum þingmönnum að hann liti á stjórn Abbas sem bráðabirgðastjórn, og gaf þannig í skyn að hann hefði samþykkt af- sögnina. Í gær sagði þó aðstoðarmaður Arafats, Nabil Abu Rdeneh, að Arafat vonaðist enn til að geta talið Abbas á að sitja áfram. En ef Abb- as hvikaði ekki frá ákvörðun sinni yrði að skipa eftirmann hans og væri ákvörðunar um það að vænta á næstu tveim sólarhringum. Abbas fullyrti að ákvörðun sín væri endanleg, tjáði aðstoðarmanni sínum að sér fyndist sem allir hefðu snúið við sér baki og kvaðst sár og reiður. En heimildarmaður sem er náinn vinur Abbas sagði að hann kynni að sitja áfram í embættinu, en því aðeins að hann kæmist að ótvíræðu samkomulagi við Arafat um hvert valdsvið sitt væri og um skipan ríkisstjórnarinnar. Sagði heimildarmaðurinn, sem ekki vildi láta nafns síns getið, að þetta yrði erfitt. Sjálfur var Abbas myrkur í máli er hann var í gær spurður að því hvort hann myndi fara fyrir nýrri ríkisstjórn. „Það er of snemmt að tala um það. Afsögn mín er end- anleg,“ sagði hann við fréttamenn er hann yfirgaf skrifstofu sína. Með afsögn Abbas hafa Ísraelar og Bandaríkjamenn ekki lengur neinn Palestínumann til að tala við um frið, að minnsta kosti um stund- arsakir, og hefur afsögnin því orðið reiðarslag fyrir friðarumleitanir fyrir botni Miðjarðarhafs og teflt í tvísýnu alþjóðlegu friðaráætluninni er nefnd hefur verið Vegvísir. Ísr- aelar og Bandaríkjamenn neita að ræða við Arafat, sem þeir segja að kyndi undir hryðjuverkastarfsemi. Á næstu dögum mun ísraelska þingið ræða hvort látið verði til skarar skríða gegn Arafat og hann rekinn á brott frá Vesturbakkanum, þar sem hann hefur verið í herkví mánuðum saman í Ramallah. Utan- ríkisráðherra Ísraels, Silvan Sha- lom, er fylgjandi því að Arafat verði hrakinn á brott, því að svo lengi sem Arafat sé á svæðinu nái enginn nýr leiðtogi að hasla sér völl meðal Palestínumanna. Arafat leyfi það ekki. Bandaríkjamenn hafa hingað til komið í veg fyrir að Arafat verði hrakinn á brott, og öryggisráðgjaf- ar Sharons hafa varað við því að Arafat gæti unnið Ísraelum meira tjón væri hann rekinn í útlegð en hann geti gert sitjandi í herkví í Ramallah. Leiðtogar Hamas „markaðir til aftöku“ Óljóst hvort Abbas myndi nýja stjórn Jerúsalem. AP. FORYSTUSVEIT Hamas-samtaka herskárra múslíma var öll saman komin í einu herbergi, segja Ísraelar, en 250 kg sprengja sem þeir vörpuðu á húsið dugði ekki til að granda henni. Ísraelar notuðu tiltölulega litla sprengju að þessu sinni til þess að forðast að saklausir borgarar féllu, sögðu ísraelskir öryggismála- fulltrúar. Þeir misreiknuðu sig, og því glötuðu þeir tækifæri til að má af yfirborði jarðar alla forystusveit samtaka sem bera ábyrgð á dauða hátt í 400 Ísraela í sjálfsmorðs- sprengjutilræðum á undanförnum þrem árum. Ísraelar hófu aðgerðina snemma á laugardagsmorgun, þegar hernum barst njósn af því, að stofnandi Ham- as, Sheik Ahmed Yassin, einn helsti leiðtogi samtakanna, Ismail Hanieh, sprengjusérfræðingarnir Moham- med Deif og Adnan al-Ghoul og fleiri, yrðu allir saman komnir í íbúð í Gaza- borg. Eftir að ísraelskir ráðamenn höfðu rætt fram og aftur hvenær árás skyldi gerð og hvaða vopni beitt lagði Ariel Sharon forsætisráðherra blessun sína yfir fyrirætlanirnar. Tímasetningn gat ekki verið betri, Mahmoud Abbas, forsætisráðherra Palestínumanna, var nýbúinn að segja af sér og því þurftu Ísraelar ekki lengur að halda að sér höndum með árásir eins og þessa því að hann var eini maðurinn sem þeir vildu tala við í forystusveit Palestínumanna. Þetta sagði ísraelskur embætt- ismaður sem ekki vildi láta nafns síns getið. Síðdegis á laugardaginn sendi ísr- aelsk herþota 250 kg sprengju inn í íbúð á þriðju hæð fjölbýlishússins sem Hamasleiðtogarnir voru í. Allir sem þar voru sluppu án mikilla meiðsla. Yassin, sem er bundinn við hjólastól, meiddist lítillega á annarri hendinni. Reuters Hópur Palestínumanna safnaðist saman við fjölbýlishúsið á Gaza þar sem Ísraelar reyndu að fella forystusveit Hamas-samtakanna í fyrradag. Misheppnað tilræði Jerúsalem. AP. AFSÖGN Mahmoud Abbas, for- sætisráðherra Palestínumanna, kom illa við ráðamenn í Bandaríkj- unum, sem leita nú nýrra leiða til að halda friðarumleitunum fyrir botni Miðjarðarhafs gangandi. Sagði talsmaður George W. Bush forseta á laugardaginn, að Palest- ínumenn yrðu að finna sér nýjan leiðtoga sem hvorki væri flæktur í spillingarmál né hryðjuverka- starfsemi. Yfirlýsingin, sem fréttafulltrúi forsetans, Scott McClellan, las, sýn- ir að Bandaríkjamenn hafa ekki hvikað frá andstöðu sinni við Yass- er Arafat, sem þeir segja kynda undir hryðjuverkum. McClellan sagði Bandaríkjamenn enn stað- ráðna í að framfylgja Vegvísinum svonefnda, alþjóðlegri friðaráætlun sem lögð var fram fyrir rúmu ári og kveður m.a. á um stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna. Bandaríkjastjórn illa brugðið Washington. AP. MEXÍKÓSKIR lögreglumenn stóðu í gær vörð við ráðstefnumiðstöðina í ferðamannabænum Cancún í Mexíkó, en þar hefst ráðherra- fundur Heimsviðskiptastofnunar- innar (WTO) nú í vikunni. Auk ráð- herra hvaðanæva að hefur mikill fjöldi mótmælenda hópast til bæj- arins, og er það sundurleitur hópur verkalýðsleiðtoga, fylgismanna Zapatista-uppreisnarmanna, stjórnleysingja, umhverfisvernd- arsinna og bænda, alls um 15 þús- und manns. Ekkert samkomulag er á meðal þeirra um baráttuaðgerðir gegn stefnu WTO, en þó virðast þeir sammála um það meginmark- mið að hleypa upp fundi ráð- herranna. Á fundinum verður fram haldið tilraunum til að koma saman nýjum sáttmála sem ætlað er að styrkja hagkerfi heimsins með því að draga enn frekar úr við- skiptahömlum. AP Viðbúnaður í Cancún

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.