Morgunblaðið - 01.12.2003, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 01.12.2003, Blaðsíða 10
FRÉTTIR 10 MÁNUDAGUR 1. DESEMBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ Mads Nordlund, blaða-fulltrúi Norðurbryggju,segir að hátt í tíu þús-und gestir hafi skoðað sig um á Norðurbryggju á laug- ardaginn. Hafnarbátar, sem eru hluti af almenningssamgöngukerfi Kaup- mannahafnar, bættu Norðurbryggju inn í áætlun sína í tilefni dagsins, og um 1.600 manns komust þannig sjó- leiðina til menningarmiðstöðv- arinnar. Mikil mannþröng var meðal ann- ars í íslenska sendiráðinu sem nú er flutt á Norðurbryggju. Gestir gátu bæði skoðað húsakynnin og listaverk eftir Tolla sem skreyta veggina. Einnig mátti þar líta höggmynd eftir Sigurjón Ólafsson og listaverk úr ís- lenskri ull eftir Ingunni Láru Brynj- ólfsdóttur. Síðarnefnda verkið er gjöf Félags Íslendinga í Kaup- mannahöfn til sendiráðsins í tilefni af opnuninni. Íslenskir námsmenn í erfið- leikum með danskt talmál Snemma dags stóð Stofnun Vig- dísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum fyrir ráðstefnu um nor- ræn tungumál. Auður Hauksdóttir, forstöðumaður stofnunarinnar, sagði meðal annars frá nýrri rannsókn á Íslendingum sem eru við nám á há- skólastigi í Danmörku. Rannsóknin bendir til þess að þeir ráði tiltölulega vel við að lesa og skrifa á dönsku, en að talmálið flækist fyrir þeim, eink- um í upphafi náms. Könnunin fór þannig fram að sendir voru spurningalistar til ís- lenskra námsmanna í Kaupmanna- höfn sem voru á skrá hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, bæði nem- enda sem voru að hefja nám og nem- enda sem verið höfðu í Danmörku í um eitt ár. Einnig voru tekin viðtöl við 15 námsmenn. Auður segir að nemendurnir hafi komið með margar skynsamlegar til- lögur um hvernig bæta mætti kennslu í dönsku, til dæmis með því að nota danska fjölmiðla og Netið í auknum mæli og með því að leggja aukna áherslu á hlustun og talæf- ingar. Danir þurfa að læra að skilja dönsku útlendinga Jens Normann Jørgensen, pró- fessor við Kaupmannahafnarhá- skóla, kom með annað sjónarhorn á sama vandamál. Hann sagði að rann- sókn á því hvernig innflytjendum á Norðurlöndum gengi að tjá sig á tungumáli nýja heimalandsins benti til þess að Danir ættu erfiðara en aðrar þjóðir með að skilja framburð útlendinga. Hann leiddi einnig að því líkur að Danir sýndu fremur lítið um- burðarlyndi og þolinmæði gagnvart þeim sem töluðu dönsku með hreim. Jørgensen sagði að ekki mætti ein- blína á það að útlendingar lærðu full- kominn framburð á dönsku, heldur ættu Danir jafnframt að læra að skilja og virða mismunandi útgáfur af málinu, til dæmis framburð Ís- lendinga. Norðmenn duglegastir að skilja nágrannamálin Á ráðstefnunni voru kynntar bráðabirgðaniðurstöður mjög um- fangsmikillar rannsóknar á norræn- um málskilningi. Rannsóknin var fjármögnuð með tæplega 30 milljóna króna styrk úr Norræna menning- arsjóðinum. Kannað var hvernig Norður- landabúum gengur að skilja dönsku, norsku og sænsku. Skýrt kom fram að Norðmenn eiga mun auðveldara með það að skilja tungumál ná- grannaþjóðanna en Svíar og Danir. Norðmenn sem þátt tóku í könn- uninni gátu að meðaltali svarað tæp- lega tveimur þriðju spurninga sem byggðust á skilningi á sænsku og dönsku, en Danir og Svíar aðeins rúmlega þriðjungi spurninga sem byggðust á skilningi á tungumálum nágrannaþjóðanna. Lars-Olof Delsing, dósent við há- skólann í Lundi í Svíþjóð, sem stjórnaði rannsókninni, segir að vit- að hafi verið fyrirfram að Norðmenn ættu auðveldara með málskilning- inn, en það hafi komið á óvart að munurinn á þeim og Svíum og Dön- um væri svo mikill. Fyrri rannsóknir hafa bent til þess að Dönum gangi betur að skilja sænsku en Svíum að skilja dönsku. Í nýju rannsókninni var munurinn nánast enginn, en báðar þjóðir áttu auðveldast með að skilja norsku. Færeyingar komu verulega á óvart og áttu auðvelt með að skilja bæði dönsku og norsku og skildu sænsku betur en Danir. Eins og búist var við áttu bæði sænsku- og finnsku- mælandi Finnar í erfiðleikum með að skilja dönsku. Niðurstöður frá Íslandi eru enn ekki tilbúnar, og er búist við þeim fljótlega eftir áramót. Meðal annarra framsögumanna á ráðstefnunni voru Vigdís Finn- bogadóttir, fyrrverandi forseti Ís- lands, sem ræddi um norrænu tungu- málin sem menningarverðmæti, og prófessor Jørn Lund, sem fjallaði um mótun málstefnu í Danmörku. Á sunnudag stóð Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur fyrir ráðstefnu um Norræna bókmenntir. Meðal fram- sögumanna þar voru Einar Már Guð- mundsson rithöfundur og prófess- orarnir Torfi H. Tulinius og Vésteinn Ólason auk fræðimanna og rithöfunda frá Danmörku, Fær- eyjum og Grænlandi. Danski fræðimaðurinn, þýðandinn og bókmenntagagnrýnandinn Erik Skyum-Nielsen var einn fyrirles- aranna. Hann er þekktur fyrir þýð- ingar sínar á íslenskum bók- menntum, meðal annars hefur hann þýtt verk Einars Más Guðmunds- sonar. Pakkhúsið varð menningarmiðstöð Norðurbryggja er upprunalega pakkhús, byggt 1766–67, sem á sín- um tíma var miðstöð verslunar við Ísland, Grænland, Færeyjar og Finnmörku. Það er tæplega sjö þús- und fermetrar að stærð. Auk ís- lenska sendiráðsins eru þar sendi- skrifstofur Færeyja og Grænlands og skrifstofur ýmissa fyrirtækja og stofnana sem tengjast löndunum þremur. Ferðamálaráð verður meðal annars með aðstöðu í húsinu. Hvert land hefur ákveðinn fermetrafjölda til ráðstöfunar, auk þess sem fer undir sendiráðið og sendiskrifstof- urnar sjálfar. Á neðstu hæð Norðurbryggju er kaffihús og veitingastaðurinn Noma, þar sem matreiðslan byggist einkum á hráefni frá Norður-Atlantshafi. Norðurbryggja er í eigu Norður- bryggjusjóðsins, sem er sjálfseign- arstofnun. Formaður sjóðsstjórn- arinnar er Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands. Menningarmiðstöðin á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn var opnuð almenningi um helgina Hátt í tíu þúsund gestir á einum degi Morgunblaðið/Helgi Þorsteinsson Fjöldi fólks safnaðist saman fyrir utan Norðurbryggju til að skoða bygginguna og listaverk við húsið. Margt var um manninn við gamla hafnarkantinn. Færeyingar reru á báti, kajakræðarar sýndu listir sínar og hafnarbátur flutti gesti. Fjöldi fólks kom til að skoða Norður- bryggju, menningar-, rannsókna- og at- vinnulífsmiðstöð Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga þegar hún var opnuð almenn- ingi. Helgi Þorsteinsson var á staðnum. TENGLAR .................................................... www.bryggen.dk PÁLL Skúlason, rektor Háskóla Íslands, segir að huga verði að því hvernig kraftar og hæfi- leikar fatlaðra fái notið sín. „Við Íslendingar viljum byggja upp og móta réttlátt þjóðfélag þar sem allir hafa möguleika á að taka virkan þátt í starfi þess og uppbygg- ingu,“ segir Páll. „Það er réttlætismál að úti- loka engan frá þessari þátttöku í samfélag- inu.“ Hann veltir fyrir sér hvort of mikið hafi ver- ið einblínt á að leysa vanda fatlaðra. Þá sé meira hugsað um þessa einstaklinga sem þiggjendur á meðan það gleymist gjarnan að fatlaðir hafi mikið fram að færa, ekki síður en aðrir. „Við verðum að gæta okkur á að setja ekki upp girðingar, ef svo má að orði komast, sem hindra að fatlaðir geti tekið þátt í sam- félaginu. Fatlað fólk er þjóðfélagsþegnar sem á fullan rétt á því að nýta hæfileika sína og krafta eins og aðrir,“ segir Páll. Útiloka fatlaða óviljandi Á morgun stendur háskólarektor fyrir mál- þingi í tilefni Evrópuárs fatlaðra. Er það hald- ið í samstarfi við félagsmálaráðuneyti, Alþýðu- samband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Samtök atvinnulífsins. Páll segir málþingið framlag Háskóla Íslands til mál- efnalegrar umræðu um stöðu fatlaðs fólks. Páll Skúlason telur að málefni tengd fötl- uðum séu á réttri leið en við þurfum að gera betur. „Stofnanir, skólar og fyrirtæki þurfa að huga meira að tækifærum til að veita fötluðum virkari aðild að starfseminni. Þetta er verkefni sem þarf sífellt að vera vakandi yfir,“ segir hann, „og þó margir ætli sér ekki að útiloka fatlaða geri þeir það óviljandi. Það er því mjög mikilvægt að vera sífellt á verði og huga að því sem betur má fara.“ Siðferðileg afstaða Málþingið ber yfirskriftina „Ríki mennsk- unnar. Eitt samfélag fyrir alla. Siðferðileg áhersla 21. aldarinnar“. Þar mun Páll fjalla um þátttöku fatlaðra í samfélagi og atvinnulífi út frá siðferðilegum gildum og varpa fram þeirri spurningu hvort við séum tilbúin til að taka á móti öllum manneskjum í samfélagi okkar. Ef við játum því séum við að taka eiginlega sið- ferðilega afstöðu. Ef ekki þá hugsum við enn sem komið er ekki á siðferðilegum forsendum. Raunverulegt siðferði byggist á tengslum vináttu og virðingar Páll segir staðreyndina þá að oft þegar við teljum okkur taka siðferðilega afstöðu þá skjátlist okkur og við felum okkur á bak við tæknilegt eða fræðilegt tungutak. Allt líferni í vestrænum þjóðfélögum sé í raun talandi dæmi um þetta fyrirbæri. Það snúist of mikið um baráttu til að ná enn traustari tæknilegum og fræðilegum tökum á veruleikanum, meira valdi til að stjórna hverju sem vera skal. Á hinn bóginn byggist raunverulegt siðferði ekki á valdi og valdbeitingu, heldur tengslum vin- áttu, virðingar, ábyrgðar og viljanum til að gefa af sjálfum sér. Þetta séu hinar siðferði- legu forsendur mannlegrar hugsunar. Páll segir þetta þverstæðu sem nái að kjarna tilveru okkar. Annars vegar dreymi okkur um siðferðilega fullkomnun. Hugsjónin um eitt samfélag fyrir alla endurspegli þann draum. Á hinn bóginn erum við skammsýn og ráðvillt og reynum að stjórna og ráðskast með fleira en við höfum nokkra getu til að ráða við. Hinn félagslegi veruleiki beri víða merki veik- leika okkar í siðferðilegum efnum. Spyr um aðgerðir Á málþinginu á morgun munu Finnur Geirs- son forstjóri Nóa-Síríus, Jón Hlöðver Áskels- son tónlistarmaður og Róbert Wessman for- stjóri Pharmaco ræða þáttöku allra í verðmætasköpun samfélagsins, ávinning og ábyrgð á því. Rannvegi Traustadóttir, dósent við félagsvísindadeild HÍ, fjallar um rannsókn- ir um atvinnuþátttöku fatlaðs fólks.Páll sýrir svo pallborðsumræðum um hvaða aðgerðir séu mikilvægastar til að skapa eitt samfélag fyrir alla og tryggja virka þátttöku allra í atvinnu- lífi. Þar munu Anna Geirsdóttir, Ari Edwald, Magnús M. Norðdahl, Þorkell Sigurlaugsson og Þuríður Enarsdóttir sitja. Engan má útiloka frá þátttöku í samfélaginu Morgunblaðið/Sverrir Páll Skúlason segir að gefa verði fötluðu fólki tækifæri til að virkja hæfileika sína og krafta með virkri þátttöku í samfélaginu. Páll Skúlason háskólarektor efnir til málþings í tilefni Evrópuárs fatlaðra

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.