Morgunblaðið - 29.02.2004, Blaðsíða 32
LISTIR
32 SUNNUDAGUR 29. FEBRÚAR 2004 MORGUNBLAÐIÐ
H
ræringar í íslenskum út-
gáfuheimi hafa verið með
ólíkindum síðustu ár og
ekkert lát virðist vera á. Í
vikunni gekk Halldór Guð-
mundsson, fyrrverandi út-
gáfustjóri Máls og menn-
ingar og útgefandi Eddu – útfgáfu og
miðlunar, til liðs við JPV-útgáfu en eigandi
hennar er Jóhann Páll Valdimarsson, fyrr-
verandi samstarfsmaður Halldórs í Máli og
menningu og jafnframt einn af hörðustu
keppinautum hans. Raunar hefur svo margt
gengið á í samskiptum þessara tveggja
manna á útgáfumarkaðnum að ólíklegt hefði
mátt telja að þeir myndu fara í eina sæng að
nýju. En segja má að
með því að losa sig
undan útgáfusamningi
um ævisögu Halldórs
Laxness við Eddu nú í
vikunni og semja við
Jóhann Pál um útgáfu
þeirrar bókar hafi Halldór nú endanlega, eða
að minnsta kosti að sinni, rofið sambandið
við Mál og menningu en því forlagi hefur
Halldór tengst nánum böndum í rúma tvo
áratugi. Um leið virðist Halldór vera að öðl-
ast nýtt líf í útgáfuheiminum því hann mun
taka að sér störf sem ráðgjafi JPV-útgáfu á
sviði erlendra réttinda og sölu og kynningu
íslenskra bókmennta erlendis.
Er þetta upphafið að nánara samstarfi
þeirra Halldórs og Jóhanns Páls? Er þetta
hugsanlega upphafið að nýju stórveldi í ís-
lenskum útgáfuheimi?
Forvitnilegt væri að fá svör við þessum
spurningum en brotthvarf Halldórs frá Eddu
vekur fleiri spurningar. Hvers vegna vildi
Halldór losa sig undan samningi við Eddu
um útgáfu á ævisögu Halldórs Laxness en
samningurinn virðist hafa verið álitlegur?
Höfðu mál Hannesar Hólmsteins Giss-
urarsonar einhver áhrif þar á? Ætlar og get-
ur Halldór tekið með sér eitthvað af höf-
undum Máls og menningar til JPV-útgáfu?
Og er mögulegt að samningi Eddu við höf-
undarréttarhafa að verkum Halldórs Lax-
ness verði rift? Myndi JPV-útgáfa þá hafa
áhuga á að gefa verk Laxness út og þá
væntanlega með fulltingi Halldórs Guð-
mundssonar? Hér verður leitað svara við
þessum spurningum.
Jóhann Páll segir að ekkert hafi veriðákveðið um framhald á samstarfi hansog Halldórs eftir að samningu ævisög-
unnar lýkur.
„Ég vil taka einn dag í einu hvað þetta
varðar. En ég held þó að við skynjum það
báðir þannig að samstarf okkar geti þróast
með ýmsum hætti. Það er oft gangurinn í
þessum bransa að samstarf milli útgefanda
og höfundar heldur áfram og ég held að það
gæti orðið með einhverjum hætti í þessu til-
felli. Ég hef alltaf lagt áherslu á að halda
samstarfi áfram við fólk sem reynist mér
vel.“
Það hefur hins vegar ekki farið fram hjá
neinum á undanförnum árum að Jóhann Páll
og Halldór hafa eldað saman grátt silfur. Jó-
hann segist ekki óttast það enda verði að
greina á milli faglegra átaka manna á milli
og persónulegra samskipta.
„Við Halldór höfum alltaf getað talað sam-
an eins og maður við mann þrátt fyrir að
vera í harðri samkeppni á stundum.“
Halldór tekur í sama streng og segir að
þeir Jóhann Páll hafi einungis samið um út-
gáfu þessarar einu bókar og að samstarf
þeirra leggist vel í þá, en sú spurning hlýtur
að koma upp við þessa óvæntu vendingu
hvort hugsanlegt sé að einhverjir höfundar
Máls og menningar, sem Halldór átti langt
samstarf við, muni flytja sig yfir til JPV-
útgáfu.
Halldór segir að sem betur fer og honum
til ánægju hafi hann fundið að margir góðir
höfundar hafi gjarnan viljað hafa hann áfram
í þessari rullu. „En það er ekki á dagskrá
eins og er.“
Og Jóhann Páll segist auðvitað geta hugs-
að sér samstarf við ýmsa höfunda.
„Það eru vissulega ákveðnir höfundar sem
mig hefur lengi langað til að starfa með. En
það er heldur ekkert markmið og hefur aldr-
ei verið markmið JPV-útgáfu að stækka,
þetta hefur alltaf átt að vera svona lítið og
notalegt. Kannski er það vegna þess að ég
hef svo gaman af því sem ég er að gera að
ég hef aldrei getað staðið við þær fyrirætl-
anir að auka ekki starfsemina.“
Jóhann Páll segir ennfremur að samning-
urinn við Halldór um útgáfu á ævisögu Hall-
dórs Laxness sé ekki hluti af neinu stóru
plotti um að ná útgáfurétti á verkum Lax-
ness til JPV-útgáfu.
„Vissulega þætti mér það mjög ánægjulegt
ef ég ætti þess kost að gefa út Halldór Lax-
ness en ég hef ekkert aðhafst í því sam-
bandi.“
En er þetta samstarf við Halldór Guð-
mundsson hugsanlega upphafið að nýju stór-
veldi í íslenskum útgáfuheimi?
„Ég vil lítið tjá mig um það, drambið er
varasamt í öllum viðskiptum,“ segir Jóhann
Páll.
Páll Valsson, útgáfustjóri Máls ogmenningar, kveðst ekki vita til þessað höfundar séu á leið frá Máli ogmenningu. Hann bendir á að Halldór
Guðmundsson hafi látið af störfum hjá Eddu
fyrir ári og það hafi vissulega verið stór
tímamót. Ævisöguritun hans sjálfs sé svolítið
annar handleggur.
„Ég er í góðu sambandi við mína höfunda
og veit ekki til þess að neinn sérstakur óró-
leiki sé hjá þeim, auðvitað þykir þeim leitt,
eins og mér, að Halldór skuli ætla að gefa út
bók sína annars staðar, en það er val hans
sjálfs og ekkert við því að segja. Ég gerði
samning við Halldór um ævisögu Halldórs
Laxness vegna þess að mig langaði til þess
að gefa hana út og það var mér vissulega
harmsefni að missa hana. Hann færði hins
vegar persónulegar ástæður fyrir ákvörðun
sinni sem ég virði.“
Jóhann Páll segir að sú hugmynd að JPV-útgáfa gæfi út ævisögu Halldórs Lax-ness eftir Halldór Guðmundsson hafi
þróast í tali milli sín og Halldórs.
Páll Bragi Kristjónsson, forstjóri Eddu,
segir að það hafi komið sér algerlega í opna
skjöldu að Halldór Guðmundsson skyldi óska
eftir því að losna undan samningi við fyr-
irtækið um útgáfu á ævisögu sinni um Hall-
dór Laxness.
„Við höfðum skrifað undir formlegan
samning um þessa útgáfu 26. nóvember síð-
astliðinn. Samkvæmt honum átti Halldór að
vera á launum hjá Eddu við ritun bók-
arinnar frá mánaðamótunum febrúar-mars
2004 en starfslokasamningur hans við fyr-
irtækið rann út 1. febrúar síðastliðinn. Hann
nefndi ákveðnar ástæður fyrir því að hann
vildi losna undan samningnum og ég hef
ekkert meira um það að segja.“
Þegar Halldór er spurður hvort ástæðan
fyrir því að hann vildi losna undan samn-
ingnum hafi með einhverjum hætti tengst
því að Edda hefur einnig gefið út fyrsta
bindi ævisögu Hannesar Hólmsteins Giss-
urarsonar um Halldór Laxness og þeirri
umræðu sem spratt um vinnuaðferðir við
ritun þeirrar bókar kveðst hann ekki vilja
svara því.
„Mér finnst ég satt að segja ekki skulda
neinum manni skýringu á þessu. Ég mat
þetta einfaldlega best fyrir mig og verk
mitt. Og þetta var gert í fullri sátt við
Eddu.“
Velta mætti vöngum yfir því hvort það
hefði ef til vill getað valdið einhverjum
óþægindum fyrir höfunda hinna tveggja
ævisagna Halldórs Laxness að koma út hjá
sama útgáfufyrirtækinu, ekki síst ef annað
bindi ævisögu Hannesar Hólmsteins yrði
jafn umdeilt og hið fyrsta. En Páll Bragi
segir að enn hafi ekki verið gerður neinn
samningur um útgáfu á öðru bindi ævisögu
Hannesar Hólmsteins.
„Við gerum ekki samninga um slíkar bæk-
ur fyrr en handritið er komið í hús og búið
er að lesa það og meta. Halldór Guðmunds-
son var undantekningin enda naut hann sér-
staks trausts okkar til verksins.“
En hvað með verk Halldórs Laxness?Eru þau á leið frá Eddu? Það vekur óneitanlega athygli aðá síðustu misserum hafa þrír menn
sem hafa sérstaka þekkingu á verkum Lax-
ness og útgáfumálum hans yfirgefið Eddu,
Ólafur Ragnarsson, fyrrverandi eigandi
Vöku-Helgafells og stjórnarformaður Eddu
– miðlunar og útgáfu, Pétur Már Ólafsson,
fyrrverandi útgáfustjóri Vöku-Helgafells, og
Halldór Guðmundsson.
Páll Bragi segir að verk Halldórs Laxness
verði áfram gefin út hjá Vöku-Helgafelli.
Samningurinn um útgáfu verka hans gild-
ir til ársins 2008. Og síðastliðinn föstudag
var undirritaður viðauki við samning Auðar
Laxness og Vöku-Helgafells um verk Hall-
dórs sem felur í sér að á vegum forlagsins
verði starfrækt Skrifstofa Halldórs Laxness.
Samkvæmt þessum samningi mun Skrifstofa
Halldórs Laxness hafa það að meginmark-
miði að stuðla að sem víðtækastri útbreiðslu
á verkum skáldsins og halda nafni Halldórs
Laxness hátt á lofti. Hún mun hafa allsherj-
arumsjón og yfirsýn með upplýsingagjöf um
verk Halldórs Laxness ásamt allri samn-
ingagerð um notkun á verkum hans í hvaða
formi sem kann að vera. Skrifstofan mun
beita sér fyrir sérstakri kynningu á verkum
hans þegar tilefni gefast vegna afmæla eða
annarra tímamóta er tengjast skáldinu og
standa fyrir fyrirlestrum um Halldór og
verk hans bæði heima og erlendis.
Páll Bragi segir að með þessum viðauka
sé útgáfusamningurinn um verk Halldórs
Laxness styrktur til muna.
„Laxness er því ekki á leiðinni frá Eddu.“
Jóhann Páll Valdimarsson hefur veriðáberandi í þeim hræringum sem orðiðhafa í íslenskum útgáfuheimi undanfarin
ár. Þegar hann er spurður um ástandið í
þessari atvinnugrein um þessar mundir segir
hann það hættulega tvísýnt.
„Þessi grein á í erfiðleikum. Ég hef miklar
áhyggjur af því að útgáfunni kunni að fara
hnignandi. Vegna fjárhagsstöðu munu útgef-
endur þurfa að sýna æ meiri varfærni og ég
óttast að það dragi úr stórhug sem einkennt
hefur íslenska bókaútgáfu lengi. Það er ljóst
að það þarf að koma til opinber skilningur á
stöðu þessarar greinar. Við verðum að hafa í
huga að Menningarsjóður hefur verið lagður
niður sem útgáfufyrirtæki. Það eru því ein-
göngu einkaaðilar að starfa við þessa grein.
En til þess að útgáfuflóran verði nægilega
fjölbreytt og til þess að stór og kostn-
aðarsöm verk haldi áfram að koma út verður
að vera einhver skilningur fyrir hendi hjá
hinu opinbera á erfiðleikum þessarar at-
vinnugreinar. Það verður að búa þessum fyr-
irtækjum góðar aðstæður. Þetta er spurning
um menningarlegan metnað þjóðarinnar. Í
nágrannalöndum okkar og á meginlandi Evr-
ópu er rækilega stutt við þessa starfsemi
enda öllum ljóst, jafnvel meðal stórþjóða, að
bókaútgáfa þarfnast stuðnings.“
Ljóst má vera að fyrirtæki í bókaútgáfu á
Íslandi hafa verið að minnka að umfangi síð-
ustu misseri. Tilraunin til þess að stofna eitt
stórt útgáfu- og miðlunarfyrirtæki virðist
hafa mistekist. Spurningin er hvort nú hafi
náðst jafnvægi á þessum markaði, þar sem
þrjú fyrirtæki eru mest áberandi, eða hvort
fyrirtækin eiga enn eftir að verða minni og
fleiri. Hugsanlega er rúm fyrir eitt í viðbót.
Það myndi þýða að skriður kæmist á höf-
undahópinn.
Hræringar í útgáfuheimi
Halldór Guðmundsson ætlar að gefa ævisögu Halldórs Laxness út hjá JPV-útgáfu, en skyldu verk Laxness einhvern tímann verða gefin út á þeim bæ?
AF LISTUM
Eftir Þröst
Helgason
throstur@mbl.is