Morgunblaðið - 29.02.2004, Side 41
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 29. FEBRÚAR 2004 41
nefndar og undirritaður fram-
kvæmdastjóri mótsins. Okkur
Skarphéðinsmönnum tókst á þessum
tíma að skapa slíka samstöðu og
metnað fyrir framkvæmd mótsins,
að seint verður við jafnað. Þátttaka
sambandsaðila UMFÍ var með meiri
glæsibrag en áður hafði verið og
dagskráratriði mótsins og sýningar
veglegri en nokkru sinni fyrr í sögu
landsmótanna.
Máttarvöldin kórónuðu svo allt
erfiðið með ótvíræðri blessun á
framtakinu, með því að leggja okkur
til eitt það besta sumarveður sem
gengið hefur yfir Suðurland og stóð
það alla mótsdagana.
Veðrið ásamt góðri kynningu á
mótinu átti stóran þátt í aðsóknar-
meti sem enn í dag er vitnað til og
erfitt verður að endurtaka.
Þegar ég nú horfi til baka við frá-
fall vinar míns Stefáns Jasonarson-
ar, þá finnst mér jafnvel að þessi
þáttur einn í félagsmálasögu hans og
raunar ungmennafélagshreyfingar-
innar í landinu hefði nægt til að
halda nafni hans á spjöldum sögunn-
ar, svo óskiptur var hugur hans og
metnaður fyrir því að svona tækist
til.
Að lokum vil ég geta þess, að
stjórnmálalega hlutum við Stefán
líka að tengjast órjúfandi baráttu-
böndum vegna okkar hugsjóna, þar
sem við fundum okkur vettvang í
Framsóknarflokknum.
Þar, sem víðar, var gott að vera í
sama liði og hann og oftar en ekki
unnum við þar sem víðar sameigin-
lega góða sigra.
En stærsti sigur Stefáns Jasonar-
sonar á lífsleiðinni var þegar hann
gekk að eiga eiginkonu sína, Guð-
finnu Guðmundsdóttur frá Túni,
þann 29. maí 1943. Einstök dugnað-
arkona og ljúf í allri umgengni.
Guðfinna var stoð og stytta þessa
mikla hugsjónamans, sem mátt hefði
sín lítils, án hennar óbilandi stuðn-
ings. Guðfinna lést árið 2000.
Þau Guðfinna og Stefán áttu miklu
barnaláni að fagna, sem öll hafa erft
dugnað og metnað foreldra sinna til
góðra verka í þjóðfélaginu.
Stefán vinur minn kvaddi þennan
heim þann 19. febrúar sl. á Kumb-
aravogi við Stokkseyri eftir síhrak-
andi heilsu síðustu árin.
Við Hildur sendum börnum hans
og aðstandendum öllum innilegar
samúðarkveðjur. Blessuð sé minning
þessa góða vinar.
Hafsteinn Þorvaldsson.
Nú hefur Stefán í Vorsabæ lokið
löngu ævistarfi og mun í dag leggjast
til hvíldar í kirkjugarðinum í Gaul-
verjabæ við hlið eiginkonu sinnar.
Honum var hvíldin góð eftir dvínandi
heilsu á síðustu árum. Stefán föður-
bróðir minn var einn hinna traustu
hornsteina tilveru minnar frá upp-
hafi en ekkert stendur að eilífu.
Margs er að minnast af þeim góðu
verkum sem Stefán í Vorsabæ lagði
fram á félagslegum og verklegum
vettvangi innan sveitar og utan.
Þessi fátæklegu kveðjuorð geta þó
aðeins lagt fátt eitt til þeirra mála.
Stefán var bóndi í Vorsabæ um
hálfrar aldar skeið. Þar bjó hann
ágætu búi ásamt sinni góðu konu og
þau komu fimm börnum til manns.
Hann var mikill félagsmálamaður og
lét til sín taka á vettvangi ung-
mennafélagshreyfingarinnar,
íþrótta, stjórnmála, blaðamennsku,
fréttamennsku, umferðarmála, bún-
aðarmála og menningarmála. Allt
þetta vann hann af hugsjón og án
þess að ætlast til endurgjalds. Hans
laun voru þau að þessi störf kæmu
landslýð og þá einkum æskunni að
gagni því Stefán var sannkallaður
vormaður Íslands.
Ungur varð hann formaður umf.
Samhygðar í Gaulverjabæjarhreppi
og leiddi félagið í meira en aldar-
fjórðung. Þetta litla félag var stórt á
stjórnarárum Stefáns því honum var
lagið að fá fjöldann með sér til verka
og alltaf gekk hann fremstur og dró
þyngsta hlassið. Hann var í farar-
broddi ungmennafélaga sem unnu að
byggingu Félagslundar, félagsheim-
ilis sveitarinnar. Það var tekið í notk-
un 1947 og áttu Samhygðarmenn þá
langflest handtökin sem komin voru
við húsið.
Stefán var ræðinn og málhress og
sparaði ekki orðin. Hann var óþreyt-
andi við að koma á framfæri sínum
áhugamálum í ræðu og riti. En hann
lét líka verkin tala. Stefán var rækt-
unarmaður lýðs og lands í fyllstu
merkingu þeirra orða. Hann beitti
sér fyrir því að Samhygð kom sér
upp skógræktarreit 1952. Stefán
trúði á mátt moldarinnar og sá
árangur náðist að nú er reiturinn við
Timburhóla gróðurperla þar sem
sveitungar koma saman árlega sér
til skemmtunar í skjólsælum lundi
umkringdum hávöxnum trjám.
Skógræktarreitur Stefáns sem hann
ræktaði sjálfur við Vorsabæ gefur
Timburhólum lítið eftir og sannar
orð hans um að skógur geti alls stað-
ar þrifist þar sem hlynnt er að hon-
um.
Stefán vann við smíðar á stríðs-
árunum í Reykjavík og víðar. Um
helgar vann hann aukavinnu og lagði
fé fyrir í stað þess að stunda
skemmtanalífið. Fimmtíu kýrverð
átti hann í handraðanum þegar þau
Guðfinna hófu búskapinn í Vorsabæ
1943. Hagleikur hans kom sér vel í
búskapnum þegar hann byggði upp
öll útihúsin í Vorsabæ. Stefán var
hjálpsamur granni og gaf vinnu sína
ómælt þegar hann hjálpaði til við
byggingu íbúðarhúss foreldra minna
árið 1960. Það gerðu margir sveit-
ungar einnig en Stefán átti flest
handtökin og taldi þau ekki eftir.
Hann leit oft inn í morgunkaffi hjá
okkur frændfólki og nágrönnum og
ræddi ástand og horfur mannlífsins.
Það var upplífgandi að umgangast
Stefán í Vorsabæ.
Hann var nemandi í Haukadals-
skóla hjá eldhuganum Sigurði
Greipssyni veturinn 1937–38. „Þar
var mannrækt, manngildi og sam-
starf einstaklinganna ofarlega á
baugi,“ sagði Stefán síðar í endur-
minningum sínum. Þau orð mátti
kalla einkunnarorð Stefáns sjálfs
síðar.
Stefán var alla ævi áhugamaður
um íþróttir. Hann var léttfær og
þindarlaus þolhlaupari. Hann sigraði
í víðavangshlaupi á Landsmóti
UMFÍ í Haukadal 1940. Tæplega 40
árum síðar keppti hann við Jónas
Kristjánsson, ritstjóra Dagblaðsins í
víðavangshlaupi á landbúnaðarsýn-
ingunni á Selfossi 1978. Þá var Stef-
án formaður Búnaðarsambands Suð-
urlands, orðinn næstum hálfsjötugur
að aldri og hélt uppi heiðri bænda-
stéttarinnar með því að gjörsigra
Jónas sem þó var þrjátíu árum
yngri. Stefán hlaut marga verð-
launagripi sem elsti keppandi í Víða-
vangshlaupi Íslands á sínum tíma.
Síðast tók Stefán þátt í hinu árlega
Víðavangshlaupi Samhygðar árið
1998 þá orðinn 83 ára gamall.
Tvennt var það sem einkenndi sér-
staklega Stefán í Vorsabæ. Það var
glaðlyndið og atorkan. Stefán var
alltaf glaðbeittur og gekk fagnandi
til verka alla tíð. Hann sagðist alltaf
hlakka til morgundagsins og kunni
því vel að hafa nóg fyrir stafni. Enda
afkastaði hann miklu á lífsleiðinni.
Starfsdagurinn var oft langur hjá
bóndanum í Vorsabæ en þó munaði
mestu að hann var ekki einn að
verki. Það skein hamingjusól yfir
Vorsabæ 30. maí 1943 þegar Stefán
og Guðfinna Guðmundsdóttir frá
Túni hófu þar búskap. Guðfinna var
hljóðlát og hógvær kona en það mun-
aði meir en lítið um hennar framlag
og oft komu búverkin í hennar hlut
þegar bóndinn var fjarverandi við
ýmis félagsmálastörf sem virtust
dragast að honum eins og segull.
Sumum mönnum er þannig farið og
Stefán var einn af þeim en aldrei
kvartaði Guðfinna. Hún skynjaði að
félagsmálin voru Stefáni nauðsyn til
að njóta sín í samfélaginu. Þau voru
alltaf samhent hjón og þó aldrei eins
og þegar aldurinn færðist yfir. Með
dvínandi heilsu bættu þau hvort ann-
að upp. Stefán var augu Guðfinnu
þegar sjón hennar fór að bila og hún
leiðbeindi Stefáni þegar minni hans
fór að gefa sig. Þau héldu heimili í
Vorsabæ allt þar til Guðfinna lést ár-
ið 2000.
Stefán var náttúrubarn og starf
bóndans var honum hugleikið. Mér
er minnisstætt hvað Stefán gat
kjassað lömbin og folöldin á vorin,
ungviði og gróður voru hans líf og
yndi. Hann naut góðrar heilsu lengst
af og gekk „Stefánsgönguna“ á ári
aldraðra hringinn í kringum Ísland
er hann stóð á áttræðu. Hann var þá
löngu þjóðkunnur maður fyrir störf
sín og framlög til þjóðþrifamála.
Stefán Jasonarson var hamingju-
maður í sínu lífi. Ævi hans var helg-
uð ræktun lýðs og lands og þar náði
hann árangri. Ég vil votta honum
þökk mína fyrir ævilöng kynni og þá
fyrirmynd sem hann var mér og öðr-
um. Blessuð sé minning Stefáns Jas-
onarsonar í Vorsabæ.
Jón M. Ívarsson
frá Vorsabæjarhóli.
Það var um 1970 að upp kom
hreyfing til að varðveita gamla
rjómabúið á Baugsstöðum með bún-
aði, en það var þá eitt eftir af gömlu
rjómabúunum og því kjörið til að
vera fulltrúi þeirra til kynningar fyr-
ir framtíðina um þennan merka þátt
í atvinnu- og tæknisögu landbúnað-
arins hér á landi. Þarna tóku hönd-
um saman menn frá Búnaðarsam-
bandi Suðurlands,
hreppabúnaðarfélögum á starfs-
svæði rjómabúsins og Byggðarsafni
Árnesinga, þar með einnig ábúendur
á Baugsstöðum og fleiri áhugamenn.
Þetta leiddi til þess að 5. ágúst 1971
var stofnað Varðveislufélag um
rjómabúið. Það var gæfa þessa fé-
lagsskapar að Stefán Jasonarson,
sem þá var stjórnarformaður Bún-
aðarsambands Suðurlands, valdist í
upphafi formaður Varðveislufélags-
ins en hann hafði áður leitt undir-
búningsvinnu við stofnun þess. Var
ómetanlegt að fá Stefán þarna til for-
ystu hann var þrautþjálfaður félags-
málamaður, áræðinn og bjartsýnn
og fundvís á úrræði. Hann var vel
máli farinn og snillingur í því að
vinna menn á sitt band og mæla fyrir
því sem hann vildi láta fram ganga.
Framganga hans og annarra í
þágu rjómabúsins leiddi til þess að
það var opnað með viðhöfn sem sýn-
ingarsafn 24. júní 1975 að viðstödd-
um forseta Íslands og fjölda gesta.
Hefir það starfað síðan og verið sótt
af fjölda mörgum. Stefán var þar for-
maður til 1992 og þótt þetta starf
væri smærra í sniðum en margt ann-
að sem honum var á hendur falið
sýndi hann því sömu alúð og öðru er
hann tókst á við.
Félagsmálastörf Stefáns voru víð-
tæk og á mörgum sviðum þjóðlífsins
varð hann af þeim þjóðkunnur mað-
ur. Hann var fádæma duglegur og
hafði jafnan jákvæð og glaðsinna
lífsviðhorf og átti því auðvelt með að
laða aðra til samstarfs. Hann lifði líf-
inu lifandi í besta skilningi þeirra
orða. Sem betur fór ritaði Stefán
ævisögu sína sem út kom 1991, ber
hún öll merki þess að þar segir gæfu-
maður frá. Koma þar fram margar
merkar þjóðlífsmyndir og ættu þær
merkustu erindi í kennslubækur.
Þar stíga fram á sviðið frásagnir um
forn vinnubrögð en þó fyrst og
fremst um þróun mannlífs og bú-
hátta til nútíðar. Ég sagði að ævi-
saga Stefáns bæri þess merki að þar
segir gæfumaður frá sem vissi sjálf-
ur að hann var gæfumaður og kunni
að meta það og þakka, en það lífs-
viðhorf hafa ekki allir. Lífsgæfa hans
hófst í æsku á því menningarheimili
sem faðir hans og fóstra bjuggu hon-
um og systkinum hans. Þar eftir fór
hans eigin heimili eftir að hann sjálf-
ur varð bóndi í Vorsabæ þar sem
samhent fjölskylda hans, mikilhæf
eiginkona Guðfinna Guðmundsdóttir
og börn þeirra gerðu honum með
störfum sínum kleift að sinna þeim
margháttuðu félagsmálastörfum í
þágu almennings sem hann var til
kvaddur og hafði bæði hneigð og
hæfni til að sinna. Stefán Jasonarson
var að upplagi þrekmaður og bjó
lengst ævi við góða heilsu og hlífði
sér hvergi.
Allra síðustu æviárin mátti hann
líða þungbæran heilsubrest og nú er
ævigöngu hans lokið. Eftir lifir virð-
ing og þökk samferðamanna.
Helgi Ívarsson.
Ég var aðeins 5 ára snáði þegar ég
heimsótti Vorsabæ í fyrsta skipti en
upp frá þeirri stundu var mér tekið
sem einum af fjölskyldunni. Þetta
markaði upphafið að sveitadvöl
minni í Vorsabæ í Flóa. Næstu tíu
sumrin dvaldi ég hjá Guðfinnu og
Stefáni, allt frá því að skóla lauk á
vorin og þar til hann hófst að nýju á
haustin. Mér leið afar vel hjá þeim
heiðurshjónum og heimsótti ég þau
einnig í jóla- og páskafríum enda
móttökurnar ávallt góðar. Á þessum
árum kynntist ég bæði gamla og
nýja tímanum og ég bý að þeirri lífs-
reynslu sem fullorðinn maður í dag.
Á sama tíma og Stefáni hefur verið
lýst sem heimsborgara og glöggum
athuganda þess sem fyrir augu bar
var hann einnig maður sem vildi
halda í gömul gildi. Sem dæmi um
það má nefna að fyrstu árin mín í
sveitinni tók ég þátt í að viðhalda
flóðgörðum til að hægt væri að
hleypa áveitu á engjarnar en síðla
sumars voru þær síðan slegnar.
Þegar ég lít til baka minnist ég
þess að Stefán átti sínar heilögu
stundir eftir hádegismatinn en þá
drakk hann í sig andlegt fóður með
lestri góðra bóka og undirbjó sig fyr-
ir annir dagsins. Hann var kappsfull-
ur hagleiksmaður sem féll aldrei
verk úr hendi. Allt lék í höndum hans
og þá skipti engu hvort það snerist
um handverk eða hugverk. Stefán
var jafnframt mikil félagsvera, tók
virkan þátt í félagsmálum á ýmsum
vettvangi auk þess sem hann sinnti
fjölmörgum trúnaðarstörfum. Oft
var gestkvæmt í Vorsabæ en þar
sem annars staðar sópaði að honum
og um hann lék ferskur blær lífsgleði
og andagiftar. Hann var málglaður
og vart minnist ég samfagnaðar án
þess að Stefán hafi haldið tækifær-
isræðu í tilefni dagsins. Hann var
einnig glaðbeittur og vart minnist ég
þess að hann hafi skipt skapi þótt ef-
laust hafi oft verið tilefni til.
Dvölin hjá Guðfinnu og Stefáni í
Vorsabænum er dýrmæt í minning-
unni og hefur reynst mér mikilvægt
veganesti í lífinu. Hún hjálpaði mér
að skilja tilgang lífsins auk þess sem
Stefán smitaði mig af áhuga sínum á
handverki og trjárækt. Það er mikil
gæfa að hafa kynnst þessu góða fólki
og ekki síður að hafa fengið að vera
þátttakandi í lífinu þar á bæ. Fyrir
það verð ég ávallt þakklátur. Blessuð
sé minning Stefáns frá Vorsabæ.
Bjarni Guðmundsson.
Um miðja síðustu öld dreymdi
mörg borgarbörn um að komast í
sveit. Ég var á tólfta ári og hafði ekki
náð að láta þann draum rætast þegar
við mæðginin tókum okkur far með
rútunni austur fyrir fjall á vordegi
1953 sem hinn kunni bílstjóri Bjarni
frá Túni ók þá. Við komuna til Sel-
foss birtist virðuleg eldri kona og
spurði hvort ekki væru einhverjir á
leið í Vorsabæ. Þar var komin Krist-
ín stjúpmóðir Stefáns Jasonarsonar,
sem þá bjó á Selfossi og hugðist taka
sér far með sömu rútu. Eitthvað ef-
aðist heiðurkonan um þekkingu
borgarbarnsins því hún lét orð falla
um hvort drengurinn þekkti nokkuð
haus frá hala. Þessar efasemdir um
kunnáttu mína voru því fyrstu kynni
mín af Vorsabæjarfólkinu. Þeirri
fjölskyldu sem ég átti eftir að eiga
ánægjulega dvöl hjá um nokkur
sumur.
Þegar ég kom að Vorsabæ voru
ýmsar umbreytingar í nánd. Enn var
þó unnið með eldri aðferðum. Slegið
var bæði með orfi og ljá og einnig
hestasláttuvél. Stefán bóndi sá einn-
ig fljótt til þess að ég lærði að mjólka
og handmjólkaði ég tvær til þrjár
kýr, sömu kýrnar á hverju máli að
jafnaði út hvert sumar.
Þótt mörgu væri að sinna á stóru
sveitaheimili gætti Stefán þess jafn-
an að snúningastrákurinn, eins og ég
var titlaður, fengi tíma til þess að
sinna leikjum og byggðum við Helgi
sonur Stefáns okkur bú þar sem leik-
ið var með hefðbundnum leikföngum
til sveita og leggir og skeljar léku
hlutverk húsdýra. Stefán var einnig
ötull að fara með heimilisfólki í ferðir
og þannig kynntist ég ekki aðeins því
sem var innan túngarðs í Vorsabæ
heldur einnig nágrenninu og sunn-
lenskum byggðum þar sem húsbónd-
inn miðlaði ýmsum fróðleik.
Stefán var hrókur alls fagnaðar
heima fyrir og eru kaffitímarnir með
honum og vinnufólki hans á Vorsa-
bæjarengjum einkar eftirminnan-
legir. Honum var létt um frásögn og
hafði gaman af að ylja fólki sínu með
skemmtilegum sögum í heyönnun-
um. Hann treysti einnig fólki sínu og
dæmi um það er að eftir að ég hafði
tekið bílpróf og fengið ökuréttindi
lánaði hann mér nýja jeppann sinn til
þess að ég kæmist í réttir en hafði þá
sjálfur verið ásamt öðrum gangna-
mönnum á fjalli.
Stefán í Vorsabæ var um margt
óvenjulegur maður. Kvikur. Fullur
af eldmóði og sístarfandi. Hvort sem
hann vann að búrekstri eða áhuga-
málum er hann átti mörg og snertu
bæði sveit hans og samfélag með
ýmsu móti. Við störf heima fyrir eða
að áhuga- og félagsmálum á opinber-
um vettvangi naut hann ætíð stuðn-
ings trausts lífsförunautar, Guðfinnu
Guðmundsdóttur frá Túni.
Stefán var ræktunarmaður en
einnig mikill útivistarmaður og unn-
andi íþrótta. Taldi þær auka mönn-
um þrótt og þor og til marks um
áhuga hans á því efni lagði hann á sig
að hlaupa umhverfis landið er hann
var komin yfir sjötugt. Því verður
hans ekki aðeins minnst sem bónda
heldur einnig fyrir ötult starf að
margvíslegum félagsmálum sem
gerðu hann landskunnan.
Ekki verður skilið við Stefán Jas-
onarson og sveitadvöl snúninga-
stráksins í garði hans án þess að
minnast á framkvæmd nokkra í landi
Vorsabæjar. Erfitt var um neyslu-
vatn á þeim slóðum og réðst Stefán
bóndi einhverju sinni í að grafa
brunn í landi sínu. Snúningastrák-
urinn fékk að leggja gjörva hönd að
því verki. Einkum við að hala mold
upp úr brunninum í fötum á meðan
Stefán gróf með eigin hendi. Var
brunngröfturinn enn eitt dæmið um
hinn ötula manna sem aldrei dró af
sér þar sem hann taldi að verk þyrfti
að vinna.
Þótt þekking snúningastráksins á
endum kýrinnar væri dregin í efa í
byrjun þá varð dvölin í Vorsabæ hon-
um ánægjuleg og einnig lærdómsrík.
Kynnin af Stefáni Jasonarsyni og
fjölskyldu hans áttu þar stærstan
hlut að máli. Fyrir borgarbarninu
hafði opnast annar heimur sem því
miður er orðinn of fjarlægur þeim
kynslóðum sem nú eru að vaxa. Ég
votta aðstandendum þessa merka
bónda og heiðursmanns samúð mína.
Sigtryggur R. Eyþórsson.
MORGUNBLAÐIÐ birtir afmælis- og minningargreinar endurgjalds-
laust alla daga vikunnar. Greinunum má skila í tölvupósti (netfangið er
minning@mbl.is - svar er sent sjálfvirkt um leið og grein hefur borist)
eða á disklingi og þarf útprentun þá að fylgja. Nauðsynlegt er að til-
greina símanúmer höfundar og/eða sendanda (vinnusíma og heima-
síma). Tekið er á móti afmælis- og minningargreinum á 1. hæð í húsi
Morgunblaðsins, Kringlunni 1 í Reykjavík, og á skrifstofu Morgun-
blaðsins Kaupvangsstræti 1 á Akureyri. Ekki er tekið við handskrif-
uðum greinum. Minningargreinum þarf að fylgja formáli með upplýs-
ingum um hvar og hvenær sá sem fjallað er um er fæddur, hvar og
hvenær dáinn, um foreldra hans, systkini, maka og börn og loks hvaðan
útförin verður gerð og klukkan hvað. Ef birta á minningargrein á útfar-
ardegi verður hún að berast fyrir hádegi tveimur virkum dögum fyrr. Ef
útför er á sunnudegi, mánudegi eða þriðjudegi þurfa greinarnar að ber-
ast fyrir hádegi á föstudegi. Berist greinar hins vegar ekki innan hins
tiltekna skilafrests er ekki unnt að lofa ákveðnum birtingardegi. Þar
sem pláss er takmarkað getur þurft að fresta birtingu greina, enda þótt
þær berist á réttum tíma.
Birting afmælis- og
minningargreina