Morgunblaðið - 06.04.2004, Síða 22
AUSTURLAND
22 ÞRIÐJUDAGUR 6. APRÍL 2004 MORGUNBLAÐIÐ
Egilsstaðir | Hreindýr hafa verið
talsvert í byggð í vetur og hafa
skógarbændur á Fljótsdalshéraði
nokkrar áhyggjur af því að hrein-
dýrin muni skemma trjáplöntur í
ungskógi. Frá þessu segir á vef
Héraðsskóga.
Þau svæði sem hafa verið girt og
friðuð um nokkurt skeið eru vin-
sæl af hreindýrunum og virðist
nokkur hætta á að þau dvelji um
lengri tíma í ungskógi.
Skaði sá er hreindýrin valda á
skógi er kannski ekki stórvægileg-
ur í hlutfalli við þá miklu skógrækt
sem er stunduð á Héraði, hins veg-
ar er um tilfinningalegt tjón að
ræða og hálfömurlegt að sjá
tveggja til þriggja metra há tré
sem búið er að urga af allan börk-
inn nánast frá rót og upp í topp.
Oftast er um að ræða tré sem
standa í jöðrunum á skógarsvæð-
unum, en svo virðist sem hrein-
dýrin fari ekki inn í skógarreitina
eftir að trén hafa náð vissri hæð
og þéttleika. Algengast er að það
séu hópar hreindýrstarfa sem
koma í ungskóginn, 10–30 dýr í
hóp. Þegar hornin eru að byrja að
vaxa vaknar þörfin fyrir að urga
þeim við eitthvað og virðist törf-
unum lítast afar vel á tré til þeirr-
ar iðju
Morgunblaðið/Sigurður Aðalsteinsson
Hreindýrin sólgin í nýgræðinginn: Skógræktarmenn hafa áhyggjur af
skemmdum á ungskógi.
Hreindýr valda
skaða í ungskógi
www.heradsskogar.is
Reyðarfjörður | Í liðinni viku voru 24 japönsk
ungmenni í heimsókn hjá Grunnskóla Reyð-
arfjarðar. Hallfríður Bjarnadóttir, fréttaritari
á Reyðarfirði, tók einn af gestunum, Yuko
Morizane, tali.
Yuko er 19 ára laganemi frá Nakanosho
Iyomishima, sem er á eyju sunnarlega í Jap-
an. Íbúar þar eru um 30.000 en þar voru þrjú
sveitarfélög sameinuð 1. apríl sl. og mun þá
sveitarfélagið í heild heita Shikokuchuo.
Yuko er einbirni en foreldrar hennar eru
fasteignasalar.
Hún stundar nám við Háskólann í Ehime
sem er 400 þúsund manna bær. Þar leigir hún
sér litla íbúð, les lögfræði, heimspeki, ensku,
þýsku og hagfræði.
Ferðin til Íslands er fyrsta utanlandsferð
Yuko og hún hafði aldrei flogið áður. Um Ís-
land hafði hún lesið í bókum; um heita vatnið,
að eyjan væri mjög vogskorin með langa firði
sem skerast inn í landið, um eldfjöllin og jökl-
ana.
Dagur í lífi Yuko
Fer á fætur kl 7.30, morgunmatur er súpa,
hrísgrjón, þurrkaður fiskur, mjólk og jap-
anskt te. Hjólar í skólann en það tekur um 15
mín. Skólinn er frá kl 8.30 til kl 16. Þegar
heim er komið hvílir hún sig en mestur tími
hennar fer í nám. Kvöldverður kl. 18–19 og er
hann hefðbundinn; hrísgrjón og sushi. Á
kvöldin horfir hún á sjónvarp en mestur tími
fer þó í lestur námsbóka. Fer að sofa um kl.
23.
Helstu áhugamál Yuko eru lestur góðra
bóka, kvikmyndir og júdó. Hún fer í bíó a.m.k.
einu sinni í mánuði og þá oftast á mið-
vikudögum því þá eru bíómiðar ódýrari og
kostar miðinn 1000 yen.
Á fimmtudagskvöldum er hún í kvöldskóla
að læra viðskipafræði
og á föstudagskvöldum stundar hún Kendo
sem er japönsk bardagaíþrótt upprunnin í
skylmingalist samúræja. Notuð eru hlífðarföt
en keppendur eigast við með bambusstöngum
eða trésverðum og reyna að hæfa andstæðing-
inn í höfuð, háls, úlnliði eða hliðar. Hver við-
ureign tekur um 3 mínútur og nægja tvö högg
til sigurs.
Um helgar fer Yuko heim til foreldra sinna.
Lítið er um diskó eða pöbba en fólk hittist í
lokuðum klúbbum. Sumarfrí í háskólanum er
6–8 vikur en almennt fær fólk ekki nema um
tvær vikur í leyfi.
Og hvað segir Yuko svo um Íslands-
heimsóknina og dvölina á Reyðarfirði? „Ísland
er fallegt land og allir svo glaðir og skemmti-
legir,“ segir Yuko. „Ég hef aldrei séð svona
mikinn snjó og svo sá ég norðurljós stutta
stund. Takk, takk fyrir mig.“
Morgunblaðið/Sigurður Aðalsteinsson
Japönsku krakkarnir höfðu aldrei séð snjó áður en þau komu til Ís-
lands: Þau fóru á skíði í Oddsskarði og stóðu sig bara vel.
Morgunblaðið/Hallfríður Bjarnadóttir
Tekist á í japanskri glímu: Japanskir gestir í Grunnskóla Reyðar-
fjarðar buðu upp á matarveislu og skemmtiatriði, m.a. glímu.
Morgunblaðið/Hallfríður Bjarnadóttir
Valdi Reyðarfjörð sem fyrsta áfangastað sinn
utan Japan: Laganeminn Yuko Morizane og
gestgjafi hennar, Anna S. Einarsdóttir.
Fyrsta ferð Yuko út
fyrir landsteina Japan
Austurbyggð |
Lilja Rut Arn-
ardóttir, nítján
ára Stöðfirðingur
og nemandi í
fjórða bekk við
Menntaskólann á
Akureyri, hefur
verið valin í
landsliðið í efna-
fræði. Landsliðið
tekur þátt í Ól-
ympíuleikum sem
fram fara í Kiel í
Þýskalandi í júlí
næstkomandi.
Alls skipa fjórir nemendur á mennta-
skólastigi landsliðið, en auk Lilju Rutar
eru tveir piltar úr Menntaskólanum í
Reykjavík í landsliðinu og einn úr Mennta-
skólanum í Hamrahlíð. Lilja hefur verið
afbragðs námsmaður alla sína skólagöngu.
Hún fékk m.a. hvatningarverðlaun Forseta
Íslands árið 2001, en þau voru veitt fram-
úrskarandi grunnskólanemendum á land-
inu. Frá þessu greinir á vefnum aust-
urbyggð.is.
Stöðvarfjarðarsnót í
efnafræðilandsliði
Lilja Rut Arnardóttir
frá Stöðvarfirði.
Neskaupstaður | Innan skamms
verður hafist handa við endurgerð
kaupfélagshússins í Neskaupstað, en
fyrirhugað er að koma þar upp 15
leiguíbúðum. Kaupfélagshúsið er
byggt árið 1948, stórt og mikið hús
sem setur sterkan svip á umhverfi
sitt. Það hefur þarfnast endurbóta að
utan um nokkra hríð og ljóst að þess-
ar framkvæmdir munu verða andlits-
lyfting fyrir miðbæ Neskaupstaðar.
Heppilegur tími núna
Það eru Tröllaborgir ehf. í eigu
Magna Kristjánssonar og Sigríðar
Sjafnar Guðbjartsdóttur, sem hyggj-
ast breyta húsinu í leiguíbúðir, en síð-
ustu ár hafa verið þar gistiheimili og
Tryggvasafn. Gistiheimilið er aflagt
en Tryggvasafni hefur verið fundinn
annar staður.
Að sögn Magna var léleg nýting á
þessu stóra húsi og eins og staðan er í
dag þá bráðvantar leiguíbúðir í Nes-
kaupstað. „Það var því mat allra að
þetta væri heppilegur tími,“ sagði
Magni í samtali við fréttaritara.
Íbúðirnar tilbúnar
um næstu áramót
Fyrirhugað er að hefja fram-
kvæmdir eftir páska og ráðgert að
ljúka þeim og útleigu um næstu ára-
mót. Nú þegar er töluvert spurt um
íbúðirnar hjá Magna og segir hann að
það líði varla sá dagur að ekki sé
spurt um íbúðir, sérstaklega litlar
íbúðir.
Byggingarkostnaður er áætlaður
um 150 milljónir og er verkið að
mestu fjármagnað af Íbúðalánasjóði,
sem lánar 90% af byggingarkostnaði.
Það fé fæst hins vegar ekki fyrr en að
byggingartíma loknum. Nýlega
gerðu Tröllaborgir ehf. og Frjálsi
fjárfestingarbankinn með sér samn-
ing um fjármögnun á byggingartíma
og því ekkert að vanbúnaði að hefjast
handa. Það er Þormóður Sveinsson
arkitekt sem hannar áætlaðar breyt-
ingar en húsið var hannað á sínum
tíma af Árna Hoff-Möller og Þóri
Baldvinssyni arkitektum.
Mikil ásókn í leiguhúsnæði í Neskaupstað
Svona kemur suðurhlið Tröllaborga til með að líta út.
Morgunblaðið/Kristín Ágústsdóttir
Með Tröllaborgir í bakgrunni: Ei-
ríkur Óli Árnason, deildarstjóri hjá
Frjálsa fjárfestingarbankanum, og
Magni Kristjánsson, framkvæmda-
stjóri Tröllaborga, innsigla samn-
ing um leiguíbúðir í Neskaupstað.
Tröllaborgir í
kaupfélagshúsið
Egilsstaðir | Það er at hjá körlunum á þökum
bæjarins þessa dagana. Verið er að klæða
þak Samkaupaverslunar Kaupfélags Hér-
aðsbúa og gamla mjólkurstöðin, sem áður
fyrr hýsti einnig bakarí bæjarins, Hús hand-
anna og fleiri fabrikkur, er nú í uppherslu ut-
an dyra sem innan og fær næst inn á sig verk-
fræðistofu.
Þökin klædd með kurt
og pí fyrir vorið
Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
Sparisjóður | Sveinn Árnason mun láta af
störfum sem sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Norð-
fjarðar 1. október nk. Hann tilkynnti stjórn
Sparisjóðsins starfslok sín á aðalfundi í síð-
ustu viku. Sveinn hefur gegnt starfi spari-
sjóðsstjóra frá árinu 1988. Frá þeim tíma hef-
ur markaðshlutdeild bankans farið vaxandi og
útibú Sparisjóðs Norðfjarðar á Reyðarfirði
hefur dafnað.