Morgunblaðið - 12.05.2004, Qupperneq 10
FRÉTTIR
10 MIÐVIKUDAGUR 12. MAÍ 2004 MORGUNBLAÐIÐ
„MINNIHLUTINN leggur til að
málinu verði vísað frá,“ sagði Bryn-
dís Hlöðversdóttir, þingmaður Sam-
fylkingarinnar og framsögumaður
minnihluta allsherjarnefndar, við
aðra umræðu um fjölmiðlafrum-
varpið á Alþingi í gær. Sagði hún
efni og formi frumvarpsins svo
ábótavant að málið væri ótækt til af-
greiðslu á þinginu. „Það hefur feng-
ið ótrúlega flýtimeðferð. Og ég vil
hér í upphafi máls míns lýsa yfir
vanþóknun minni á þeim vinnu-
brögðum sem meirihlutinn beitti í
hæstvirtri allsherjarnefnd.“
Bjarni Benediktsson, formaður
allsherjarnefndar Alþingis, vísaði
þessum fullyrðingum á bug. Sagði
hann að málinu til grundvallar lægi
skýrsla fjölmiðlanefndarinnar.
Megin niðurstaða nefndarinnar
væri sú að hér á landi væri komin
upp afar óæskileg staða í fjölmiðl-
um, þ.e. hér hefði átt sér stað meiri
eignaþjöppun en menn þekktu ann-
ars staðar. Mat nefndarinnar væri
að við þessu ástandi þyrfti að bregð-
ast. „Og nú þurfa menn að taka póli-
tíska afstöðu í þessu máli og hætta
að tala um málsmeðferðina,“ sagði
hann.
Önnur umræða um frumvarpið
hófst um kl. 14.30 í gær en upphaf-
lega stóð til að hún hæfist fyrir há-
degi. Var henni seinkað að ósk
stjórnarandstöðunnar. Vildu þeir fá
meiri tíma til að fara yfir málið, en
meirihluti allsherjarnefndar af-
greiddi sitt álit úr nefnd í fyrra-
kvöld. „Við hljótum að hafa sama
rétt og þingmenn stjórnarliðsins til
að geta lagt fram ítarleg og vel rök-
stutt nefndarálit,“ sagði Össur
Skarphéðinsson, formaður Samfylk-
ingarinnar, við upphaf þingfundar í
gærmorgun. „Þó að okkar fólk hafi
verið að vinna mestan part nætur
hefur það ekki tekist.“ Spurði hann
forsætisráðherra, Davíð Oddsson,
hvort ekki kæmi til greina að fresta
umræðunni til klukkan tvö. „Herra
forseti, mér finnst alveg sjálfsagt að
fresta málinu til klukkan tvö, eins og
um er beðið,“ sagði forsætisráð-
herra. Eftir nokkrar umræður var
umræðunni síðan frestað, eins og
áður sagði.
Alvarleg íhlutun
Bjarni Benediktsson mælti síðar
um daginn fyrir áliti meirihluta alls-
herjarnefndar, en gerð var grein
fyrir því áliti í Morgunblaðinu í gær.
Bryndís Hlöðversdóttir mælti fyrir
minnihlutaálitinu og sagði að fjöl-
margar athugasemdir hefðu verið
gerðar við frumvarpið í allsherjar-
nefnd. „Við meðferð nefndarinnar
komu fram athugasemdir sem fela í
sér alvarleg álitamál um hvort frum-
varpið standist stjórnarskrá lýð-
veldisins Íslands og var þar einkum
vísað til mannréttindaákvæða, at-
vinnufrelsis, tjáningarfrelsis, eign-
arréttar og jafnræðisreglu,“ sagði
hún. „Frumvarpið felur í sér alvar-
lega íhlutun í fjölmiðlamarkaðinn,
gengur mun lengra en nauðsynlegt
er í lýðræðissamfélagi og brýtur í
bága við meðalhófsreglu íslenskra
laga. Frumvarpið gæti reynst sam-
keppnishamlandi í stað þess að
tryggja samkeppni, dregið úr að-
gengi fjölmiðlafyrirtækja að fjár-
magni og nýrra aðila á markaðnum.
Frumvarpinu virðist beint gegn
einni tiltekinni sjónvarpsstöð þrátt
fyrir að orðalag þess sé klætt í al-
mennan búning.“ Bryndís sagði
ennfremur að breytingartillögur
meirihluta allsherjarnefndar eyddu
ekki þeirri óvissu sem ríktu um þau
álitamál sem fram hefðu komið
varðandi frumvarpið.
Fjölmargir þingmenn, einkum
þingmenn stjórnarandstöðunnar,
tóku þátt í umræðunum á Alþingi í
gær. Tóku þeir sér góðan tíma til að
fjalla um málið en ræðutími er ótak-
markaður við aðra umræðu um
þingmál, samkvæmt þingsköpum
Alþingis.
Ekki fallist á ítrekaðar óskir
um frestun umræðunnar
Stjórnarandstæðingar fóru ítrek-
að fram á það í gær að umræðunum
yrði frestað þar til menntamála-
nefnd Alþingis og efnahags- og við-
skiptanefnd Alþingis hefðu lokið
umsögnum sínum um fjölmiðla-
frumvarpið. Ekki var fallist á þá
kröfu þeirra og umræðan látin halda
áfram.
Þingmenn Frjálslynda flokksins,
Magnús Þór Hafsteinsson og Sig-
urjón Þórðarson, spurðu Bjarna
Benediktsson m.a. að því hvers
vegna svo lægi á að afgreiða frum-
varpið. Bjarni svaraði því m.a. til að
á málinu þyrfti að taka. Í allsherj-
arnefnd hefði farið fram vönduð
vinna; kallað hefði verið eftir sjón-
armiðum og þeim hefði verið mætt
með breytingartillögum. „Á málinu
þarf að taka og menn þurfa að gera
það af alvöru og festu en ekki með
því að klóra sér í hausnum og hugsa
sig um í mörg ár.“
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir,
varaþingmaður Samfylkingarinnar,
sagði m.a. að markmið frumvarpsins
væri að stöðva tiltekið ástand,
þagga niður í tilteknum aðilum og
koma tilteknum fjölmiðlum í hendur
nýrra aðila. Sagði hún að stjórnar-
liðar vildu m.ö.o. standa að sértæk-
um lögum. „Lög eigi ekki að snúa að
tilteknum einstaklingum – allt að
því nafngreindum,“ sagði hún.
Þorgerður K. Gunnarsdóttir
menntamálaráðherra gagnrýndi
ræðu Ingibjargar og sagði hana
hafa verið fulla af bræði, heift og
bulli. Sagði hún að Ingibjörg hefði
verið að forðast hina efnislegu um-
ræðu. Ingibjörg kom aftur í pontu
og sagðist hafa farið yfir það lið fyr-
ir lið hvernig frumvarpið stangaðast
á við stjórnarskrá og grundvallar-
reglu íslenska ríkisins. Sagði hún
ennfremur að Samfylkingin vildi
ekkert annað en efnislega og lýð-
ræðislega umræðu. „Þetta er sér-
tækt frumvarp og það er það sem
okkar málefnalega gagnýni byggir
á, virðulegi forseti,“ sagði Ingibjörg.
Saknar framsóknarmanna
Steingrímur J. Sigfússon, for-
maður Vinstrihreyfingarinnar –
græns framboðs, gagnrýndi einnig
frumvarpið en líka hina „nýju frjáls-
hyggjukynslóð“, eins og hann komst
að orði, sem hefði „stigið svo glæst
inn á þing vor sem leið“. Vísaði hann
þar til þingmanna Sjálfstæðis-
flokksins Sigurðar Kára Kristjáns-
sonar, Guðlaugs Þór Þórðarsonar
og Birgis Ármannssonar. „Ég hef
miklar áhyggjur af þessum piltum,“
sagði hann. „Ég tel að það sé búið að
fara hroðalega með þá.“ Sagði hann
þá hafa étið ofan í sig allt sitt tal um-
frelsi og frjálsræði.
Steingrímur vakti einnig athygli á
„gríðarlegri fjarveru“ framsóknar-
þingmanna í umræðunni í gær, eins
og hann orðaði það. Sagði hann að
gott hefði verið að hafa þó ekki væri
nema eitt eintak í þingsalnum. Þess
má reyndar geta að framsóknar-
þingmennirnir Hjálmar Árnason,
Jónína Bjartmarz og Kristinn H.
Gunnarsson voru öll á mælendaskrá
í gærkvöld.
Á tólfta tímanum var þó óvíst hve-
nær röðin kæmi að þeim, en þá voru
nítján þingmenn enn á mælenda-
skrá. Ekki lá þá heldur fyrir hvenær
umræðunni myndi ljúka í nótt. Þó
var gert ráð fyrir því að hún myndi
halda áfram í dag.
ÞORGERÐUR K. Gunnarsdóttir menntamálaráðherra
sagði aðspurð í samtali við Morgunblaðið í gærkvöld að
hún væri sátt við þær breytingar sem meirihluti alls-
herjarnefndar Alþingis leggur til að verði gerðar á fjöl-
miðlafrumvarpinu. Ennfremur sagði hún að sátt væri
um breytingartillögurnar innan ríkisstjórnarinnar. Þó
væri vitað að Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður
Framsóknarflokksins, myndi ekki styðja frumvarpið.
„Mér sýnist að allsherjarnefnd hafi unnið þetta mál
afar vel. Hún hefur hlustað á þessar helstu gagnrýn-
israddir og reynt að komast mjög til móts við þær,“
sagði ráðherra. Minnti hún á að meginmarkmið frum-
varpsins væri að setja almenn lög um eignarhald á fjöl-
miðlum, þannig að áfram yrði hægt að hlúa að þeirri
fjölbreytni sem við vildum sjá í íslenskri umræðu og í
íslensku samfélagi. „Við viljum ekki að einn og sami að-
ilinn ráði öllu; markaðnum og fjölmiðlunum,“ útskýrði
ráðherra og bætti við: „Það getur verið einn aðili í dag
og annar á morgun. Við erum að
hugsa til framtíðar.“
Engar efnislegar tillögur
Þorgerður sagðist eftir að hafa
fylgst með umræðunum á þingi í gær
sakna raunverulegra efnislegra til-
lagna frá stjórnarandstöðunni, ekki
síst frá Samfylkingunni. Sagði hún
Samfylkinguna bara bulla og blaðra
og vilja vísa málinu frá, en koma
ekki fram með efnislegar tillögur.
Sagði hún að Samfylkingin vildi kannski að á Íslandi
myndaðist ástand sem kennt væri við Murdoch og
Berlusconi. „Öðruvísi mér áður brá,“ sagði ráðherra
eftir að hafa rifjað upp að þingmenn Samfylking-
arinnar hefðu síðustu árin kallað eftir leikreglum á
fjölmiðlamarkaði.
Margir á mælendaskrá þegar önnur umræða hófst um fjölmiðlafrumvarpið
Minnihlutinn segir málið
ótækt til afgreiðslu á þinginu
Önnur umræða um fjöl-
miðlafrumvarp ríkis-
stjórnarinnar hófst á
Alþingi í gær. Var frum-
varpið eina dagskrár-
málið. Nítján þingmenn
voru enn á mælenda-
skrá um miðnætti í gær.
Morgunblaðið/Árni Torfason
Þingmennirnir Kristján L. Möller, Hjálmar Árnason og Magnús Þór Hafsteinsson fylgjast með umræðum um fjölmiðlafrumvarpið.
Sátt við breytingartillögur
Þorgerður Katrín
Gunnarsdóttir