Morgunblaðið - 17.05.2004, Síða 28
MINNINGAR
28 MÁNUDAGUR 17. MAÍ 2004 MORGUNBLAÐIÐ
✝ Viðar Birgissonfæddist í Reykja-
vík 22. maí 1958.
Hann lést á heimili
sínu 6. maí síðastlið-
inn. Foreldrar hans
eru Birgir Lúðvíks-
son, f. 3. maí 1937,
og Helga Brynjólfs-
dóttir, f. 30. des.
1936. Móðuramma er
Sigríður Erlends-
dóttir, f. 3. júlí 1917.
Systkini Viðars eru:
1) Lúðvík, skrifstofu-
maður, f. 12. feb.
1961, kvæntur Ásdísi
Önnu Sverrisdóttur flugfreyju og
eiga þau þrjú börn. 2) Sigríður,
sölumaður, f. 4. feb. 1965, gift
Brynjari Gauta Sveinssyni ljós-
myndara og eiga þau þrjú börn.
3) Guðríður, þjónustufulltrúi, f.
13.okt. 1966, gift Steingrími Gaut
Péturssyni kerfisfræðingi og eiga
þau tvö börn.
Eiginkona Viðars er Unnur
Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur,
f. 13. júní 1959. Þau gengu í
hjónaband 30. okt. 1982. Foreldr-
ar hennar eru Jakobína Þórðar-
dóttir, f. 9. sept. 1930, og Jón Þor-
láksson, f. 19. júlí 1928. Systkini
Unnar eru 1) Þórður, eðlisfræð-
ingur, f. 25. sep. 1953, í sambúð
með Violeta Calian, eðlisfræð-
ingi. 2) Helga, tölfræðingur, f. 27.
des. 1954, gift Helga Ragnars-
syni, trésmið. 3) Sig-
ríður, hjúkrunar-
fræðingur, f. 22.
des. 1957, gift Jak-
obi Magnússyni, við-
skiptafræðingi. 4)
Þorlákur, f. 29. sept.
1965, lífefnafræð-
ingur, kvæntur
Soffíu Hrafnkels-
dóttur, efnafræð-
ingi.
Viðar og Unnur
eiga fjóra syni. Þeir
eru: 1) Birgir, f. 7.
sept. 1981. Unnusta
hans er Björt Ólafs-
dóttir. 2) Axel, f. 4. júlí 1989. 3)
Ari, f. 30. mars 1994. 4) Már, f. 30.
mars 1994.
Viðar lauk stúdentsprófi frá
Fjölbrautaskólanum í Breiðholti
1979. Að námi loknu hóf hann
störf hjá Lífeyrissjóðnum Fram-
sýn og síðan Almennum trygg-
ingum. Árið 1988 réð Viðar sig til
starfa í tölvudeild Verslunar-
bankans sem síðar varð Íslands-
banki og þar starfaði hann til
dánardags.
Viðar var alla tíð mikill áhuga-
maður um íþróttir og stundaði
lengi bæði handbolta og fótbolta
af miklu kappi með íþróttafélag-
inu Fram.
Útför Viðars fer fram frá Dóm-
kirkjunni í dag og hefst athöfnin
klukkan 13.30.
Í dagsins önnum dreymir mig
þinn djúpa frið, og svo varð nótt.
Ég sagði í hljóði: Sofðu rótt,
þeim svefni enginn rænir þig.
En samt var nafn þitt nálægt mér
og nóttin full af söngvaklið
svo oft, og þetta auða svið
bar ætíð svip af þér.
Og þungur gnýr sem hrynji höf
mitt hjarta lýstur enn eitt sinn:
Mín hljóða sorg og hlátur þinn,
sem hlutu sömu gröf.
(Steinn Steinarr.)
Guð blessi minningu þína, ástkæri
sonur.
Mamma og pabbi.
Kæri tengdasonur, á þessari
kveðjustund er mér orða vant. Geri
ég því orð skáldsins Tómasar Guð-
mundssonar að mínum:
Í dimmum skugga af löngu liðnum vetri
mitt ljóð til þín var árum saman grafið.
Svo ungur varstu, er hvarfstu út á hafið,
hugljúfur, glæstur, öllum drengjum betri.
Og því varð allt svo hljótt við helfregn þína
sem hefði klökkur gígjustrengur brostið.
Og enn ég veit margt hjarta harmi lostið,
sem hugsar til þín alla daga sína.
En meðan árin þreyta hjörtu hinna,
sem horfðu á eftir þér í sárum trega,
þá blómgast enn, og blómgast ævinlega,
þitt bjarta vor í hugum vina þinna.
Viddi minn, ég þakka þér allar
samverustundir og allar góðu minn-
ingarnar. Enn gríp ég til orða skálds-
ins, Huldu, sem kvað:
Bak við Íslands fögru fjöll
finnst þér enginn líkur,
hjarta þitt er hreint sem mjöll,
hugurinn frjáls og ríkur,
vinur minn, uns von og trega lýkur.
Jakobína Þórðardóttir.
Viðar mágur minn og góður vinur
er farinn frá okkur langt fyrir aldur
fram eftir harða baráttu við erfiðan
sjúkdóm sem að lokum hafði yfir-
höndina.
Ég kynntist Vidda árið 1981 en við
vissum reyndar hvor af öðrum tölu-
vert fyrr á æskuslóðum okkar í Foss-
vogi. Þó að ég sé nokkrum árum
yngri þá fengum við sem yngri vorum
oftast að vera með í fótbolta sem var
mikið stundaður á vellinum fyrir neð-
an Búlandið. Viddi var mikið fyrir
íþróttir enda mikill Framari eins og
allir vita sem til hans þekktu og æfði
hann bæði handbolta og fótbolta hjá
Fram.
Við náðum mjög vel saman sér-
staklega á seinni árum og urðum góð-
ir félagar og vinir.
Í huganum hrannast upp margar
góðar minningar og þá sérstaklega
frá sumarbústaðnum í Hvalfirði
,,Framheimum“ þar sem Birgir og
Helga hafa byggt upp paradís fyrir
alla fjölskylduna. Þar áttum við
margar góðar stundir í faðmi fjöl-
skyldu og vina. Þá var það einnig
skemmtilegur tími þegar tvíburarnir
Ari og Már fæddust 30. mars, daginn
eftir fæddist Sveinn Bjarki okkar
Siggu en þeir eru nú tíu ára. Unnur
og Sigga lágu saman á fæðingardeild-
inni og að sjálfsögðu héldum við
Viddi uppá þetta stoltir feður með því
að skála í koníaki sem Birgir (tengdó)
hafði fært okkur.
Viddi var mikill fjölskyldumaður
og hann var stoltur af öllum strákun-
um sínum og hugsaði alltaf vel um þá
en hann var líka mjög greiðvikinn og
var alltaf manna fyrstur til að rétta
fram hjálparhönd ef eitthvað þurfti
að gera í fjölskyldunni. Það var líka
umtalað hjá öllum mínum vinum sem
þekktu Vidda hvað hann væri traust-
ur og þægilegur maður enda á ég eft-
ir að sakna hans mikið en hann lifir
áfram í hugum okkar allra.
Þótt ljóst væri um nokkurn tíma að
hverju stefndi þá er ekki nokkur
maður viðbúinn fráfalli ástvinar, allra
síst þegar fólk er á besta aldri en eftir
verður minningin um góðan vin og fé-
laga sem mun fylgja mér alla tíð.
Ég bið góðan Guð að styrkja alla
fjölskylduna og þá einkum Unni og
srákana Birgi, Axel, Ara og Má í
sorginni.
Brynjar Gauti Sveinsson.
Elsku Viddi. Takk fyrir að gera
systur mína hamingjusama móður og
eiginkonu í meira en 20 ár.
Takk fyrir að vera fjölskyldu þinni
óbrigðull, umhyggjusamur og trygg-
ur. Önnur eins ræktarsemi við sína
nánustu er ómetanleg. Þú hafðir ein-
staka hæfileika til að gefa af sjálfum
þér og varst ósérhlífinn og til staðar
fyrir Unni og strákana. Flest okkar
komust ekki í hálfkvisti við það þó að
tvöfalt lengri ævi væri gefin til að
reyna það.
Þú varst athafnamaður og ákveð-
inn en hafðir jafnframt hæfileika til
samvinnu, ósérhlífni og einlægni.
Þetta skapaði ótrúlega jákvætt and-
rúmsloft í fjölskyldunni. Þessa já-
kvæðni og góðu hæfileika hefur ykk-
ur Unni tekist að kenna öllum
drengjunum. Ég óska þess innilega
að þitt hátterni og þínir einstöku
mannlegu hæfileikar fái að lifa áfram
í drengjunum því að þá er ég viss um
að framtíð þeirra og Unnar verði
bjartari.
Helga.
Það er komið að kveðjustund. Sú
stund var fyrirséð því haustið 2002
greindist mágur minn, Viðar Birgis-
son, með banvænan sjúkdóm. Ástvin-
ir Viðars vissu hvert stefndi og
fimmtudaginn 6. maí kvaddi hann
þessa jarðvist eftir erfiða baráttu.
Þótt dauðinn sé hið eina sem víst er í
þessu lífi eigum við öll erfitt með að
sætta okkur við hann.
Hvar sem Viðar fór voru umræður
lifandi. Jákvæðar skoðanir hans
gerðu samtöl við hann eftirminnileg.
Áberandi var áhugi hans á skoðunum
annarra. Fremur en að ræða um
sjálfan sig hafði hann áhuga á að
heyra um störf og áhugamál þeirra
sem hann ræddi við. Áhugi Viðars á
fólki kom ekki einungis fram í sam-
tölum heldur ekki síður í verki því
hann var með eindæmum hjálpfús.
Allt fram undir það síðasta var hann
fyrstur til að bjóða fram aðstoð sína
til allra verka. Hann bar virðingu fyr-
ir öðru fólki og þess vegna naut hann
virðingar allra sem hann þekktu.
Þegar litið er til baka er mér efst í
huga hetjuleg barátta Viðars við þá
óþekktu stærð sem sá sjúkdómur var
er að lokum felldi hann. Sá kjarkur
og baráttugleði sem hann sýndi á að
vera okkur hinum fyrirmynd. Sjálfur
vildi hann sem minnst úr þessu gera
því hann vildi ekki íþyngja öðrum
með sínum vandamálum. Í síðasta
samtali okkar Viðars gerði hann lítið
úr sínum veikindum, en hafði mestan
áhuga að heyra hvað á mína daga
hefði drifið. Þarna var þessum dáða-
dreng best lýst.
Helga og Birgir, að missa frum-
burð ykkar í blóma lífsins er ólýsan-
legur harmur.
Til að lina þjáningarnar verðið þið
að minnast þeirrar gleði sem hann
færði ykkur.
Birgir, sem elsti sonur við föður-
missi er þín byrði margföld, því þú
þarft að vera bræðrum þínum styrk-
ur og stoð samfara þinni sorg. Axel,
Ari og Már, þið hafið orðið fyrir lífs-
reynslu, sem jafnaldrar ykkar þekkja
ekki. Rifjið upp þær stundir sem þið
áttuð með pabba ykkar og varðveitið
þær minningar um alla framtíð og
látið mótlætið styrkja ykkur til betri
manns. Lúlli, Sigga og Gauja, þið
verðið að leita styrks hvert til annars
og öll verðum við saman að styðja
ömmu Siggu í gegnum þessar raunir.
Við sem urðum þeirrar gæfu að-
njótandi að kynnast Viðari í lifanda
lífi getum huggað okkur við að við er-
um betra fólk fyrir það eitt að hafa
kynnst honum.
Elsku Unnur mín. Að þú skyldir
aldrei bugast á þessari þrautagöngu
og sá styrkur og æðruleysi er þú hef-
ur sýnt er mér ráðgáta og mundu að
… „Sá sem grætur deyr ekki; grátur
er lífsmerki; …“ (Ugla, Atómstöðin,
HKL.)
Megi minningin um góðan dreng
lifa.
Steingrímur Gautur Pétursson.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum.)
Ofangreind orð eiga einkar vel við
nú, þegar Vidda er minnst. Viddi var
einstaklega bóngóður, ósérhlífinn og
atorkusamur maður. Alltaf var hann
reiðubúinn að aðstoða fjölskyldu eða
vini ef hjálpar var þörf, og sjaldan féll
honum verk úr hendi. Minning hans
endurspeglar þessa einstöku per-
sónu, sem ég og eflaust allir aðrir
sem kynntust Vidda heilluðust af.
Á menntaskólaárum mínum eyddi
ég mörgum stundum á þáverandi
heimili Vidda og Unnar systur minn-
ar í Sigtúninu. Fór ég gjarnan þang-
að eftir skóla og var fram eftir degi.
Þar var gott að vera, og var mér alltaf
vel tekið á heimilinu.
Viddi og Unnur voru einstaklega
samrýnd hjón – raunar hef ég aldrei
kynnst jafn samrýndum hjónum.
Heimili þeirra einkenndist af mikilli
samkennd, þar sem heildin varð
stærri en einstaklingarnir saman-
lagðir. Missir fjölskyldunnar er því
þeim mun meiri nú þegar þessi heild
er rofin. En jafnframt á hún yndis-
legar minningar til að ylja sér við og
sækja styrk í, á þessum erfiðu tímum.
Minningin um einstakan mann
mun auðvelda okkur öllum sem eftir
sitjum að sætta okkur við það hlut-
skipti að þurfa að lifa lífinu án Vidda.
Því þótt Viddi sé fallinn frá verður
hans minnst með gleði í hjarta og sem
einstaks félaga og fjölskylduföður.
Þorlákur.
Það er með miklum söknuði og
trega sem ég kveð vin minn og svila
Viðar Birgisson. Eitt og hálft ár er
síðan Viðar greindist með þann ill-
víga sjúkdóm sem að lokum hafði yf-
irhöndina, en á þeim tíma heyrði
maður aldrei Vidda, eins og hann var
oftast kallaður, kvarta yfir veikindum
sínum. „Þetta er allt að koma,“ hafði
hann ávallt á orði, og þrátt fyrir veik-
indi sín þá hugsaði hann alltaf fyrst
um aðra áður en hann hugsaði um
sjálfan sig. Jákvæðni, ósérhlífni, ljúf-
mennska og einstakt lundarfar voru
svo sannarlega hans aðalsmerki.
Þegar litið er um öxl þá er margs
að minnast. Ótaldar eru allar frá-
bæru gleðistundirnar, ferðalögin og
matarveislurnar sem fjölskyldur
okkar áttu saman. Unnur og Viddi
voru einstaklega samhent hjón og
voru saman í flestöllu því sem þau
tóku sér fyrir hendur, allt var gert af
þvílíkum myndarskap sem einkenndi
þeirra sambúð. Viddi var lífsnautna-
maður sem hafði yndi af góðum mat
og eðalvínum. Skíðaferðalög á fjar-
lægar slóðir voru Vidda sem okkur
hinum mjög hugleikin og voru
nokkrar ferðirnar farnar í ítölsku
Dolomitafjöllin.
Vidda féll sjaldan verk úr hendi. Ef
hann var ekki að dytta að húsinu, ut-
an sem innandyra, eða sinna erindum
hingað og þangað, þá var hann að
hjálpa öðrum. Við hjónin fórum ekki
varhluta af þeirri hjálp í gegnum tíð-
ina. Viddi var ávallt fyrstur á staðinn
óbeðinn, og það var sama hvers eðlis
verkin voru, hann gekk ávallt í þau
með þeirri ósérhlífni sem honum ein-
um var lagið.
Viddi hafði mikinn áhuga á íþrótt-
um og þá einkum og sérílagi fótbolta
á síðari árum. Hann var Frammari af
líf og sál og studdi sína menn af heil-
um hug. Hann fylgdist grannt með
fótboltanum hér heima og erlendis,
og oft var hann með kveikt á tveimur
til þremur sjónvarps- og útvarps-
tækjum í senn, því hann vildi ekki
missa af neinu, sem lýsti eldmóði
hans mjög vel. Drengirnir hans erfðu
fótboltabakteríuna frá pabba sínum
og eru þrír yngstu mjög efnilegir í
boltanum eins og hann sjálfur var á
sínum tíma.
Viðar varð aðnjótandi mikillar
gæfu í lífi sínu. Hann eignaðist ein-
staka eiginkonu og fjóra yndislega
drengi ásamt því að eiga frábæra fjöl-
skyldu í báðar áttir og mjög góðan og
traustan vinahóp sem studdi hann
ávallt af heilum hug. Í veikindum sín-
um var Viddi umvafinn ástúð, hlýju
og kærleik fjölskyldunnar og vin-
anna. Allir lögðust á eitt um að gera
honum lífið sem þægilegast og
ánægjulegast, þrátt fyrir veikindin.
Ég þakka forsjóninni fyrir að hafa
kynnst þvílíkri öðlingspersónu sem
Viddi var og er þess fullviss að ég er
betri maður eftir allar samveru-
stundirnar með honum og hans fjöl-
skyldu.
Elsku Unnur, Birgir, Axel, Ari og
Már, missir ykkar er mikill. Megi guð
styrkja ykkur í þessari miklu sorg.
Jakob Magnússon.
Elsku frændi, það er erfitt að trúa
því að þú hafir kvatt þennan heim.
Þín er sárt saknað af fjölskyldu og
vinum og þú skilur eftir þig stórt
skarð sem erfitt verður að fylla. Þú
varst einstaklega notalegur, hlýr og
ljúfur maður og barst mikla um-
hyggju fyrir þínum nánustu. Fyrir
einu og hálfu ári greindist þú með ill-
kynja sjúkdóm í höfði. Þú gekkst
undir tvær aðgerðir, en því miður
hafði þessi vágestur tekið sér ból-
festu. Barátta, jákvæðni og þraut-
seigja þín var einstök. Þú barðist í
hljóði og kvartaðir aldrei. Um tíma
hafðirðu betur en varðst að lokum að
gefa eftir fyrir skaðvaldinum.
Við hlið þér stóðu Unnur, synir og
fjölskylda eins klettur og studdu þig
eins og þau best gátu.
Margar góðar minningar koma
fram í hugann frá æsku okkar. Mér
er minnisstætt þegar ég fór einu
sinni með þig í kerru frá Hverfisgöt-
unni inn í Sigtún þar sem þú bjóst
með foreldrum þínum hjá ömmu og
afa. Mamma var frekar stressuð yfir
þessari ferð minni af því ég var svo
ung og var búin að fara yfir allar leik-
reglur með mér. Ábyrgðin hvíldi svo
þungt á mér að þegar ég mætti á
áfangastað sigri hrósandi var ég
komin með háan hita og þurfti að
leggja mig þar til ég var sótt og borin
út í bíl. Bræðurnir, feður okkar,
byggðu saman hús í Glaðheimunum
og þar bjuggum við um tíu ára skeið
eða þar til þið fluttuð í Fossvoginn og
við tímabundið í Sigtúnið til afa og
ömmu. Mikill samgangur var þar af
leiðandi milli fjölskyldnanna og mörg
skemmtileg atvik frá þessum árum
tengjast okkur krökkunum. Segja
má að heimili þitt hafi verið mitt ann-
að heimili. Það var gott að geta troðið
sér í mat heima hjá þér ef mér líkaði
ekki maturinn heima eða klagað í
mömmu þína ef mér fannst eitthvert
óréttlæti í gangi heima hjá mér. Þú
varst elstur systkina þinna og fimm
árum yngri en ég. Barnfóstran kom
snemma upp í mér og þrátt fyrir
þennan tiltölulega litla aldursmun
man ég eftir því þegar ég var að
drattast með þig. Enda átti ég síðar
meir eftir að passa systkini þín meira
og minna. Margar góðar stundir átt-
um við á uppvaxtarárum þínum, t.d.
VIÐAR
BIRGISSON
Móðir okkar, tengdamóðir, amma og lang-
amma,
LILJA ÞORFINNSDÓTTIR,
áður til heimilis
í Suðurhólum 16,
Reykjavík,
lést á hjúkrunarheimilinu Eir mánudaginn
10. maí.
Útförin fer fram frá Árbæjarkirkju mánudaginn 17. maí kl. 13.00.
Gísli Guðmundsson, Oddrún Sverrisdóttir,
Davíð Ágúst Guðmundsson,
Lilja Guðmundsdóttir, Teitur Gunnarsson,
Kristinn Guðmundsson, Hulda Lilja Ívarsdóttir,
Þorfinnur Guðmundsson, Liv Anita Brekke,
barnabörn og barnabarnabörn.