Morgunblaðið - 20.05.2004, Qupperneq 37
LISTIR
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 20. MAÍ 2004 37
Upphengd klóset t
og innbyggðir kassar
ÉG hefði tæpast trúað því fyrir-
fram en það er hægt að halda stóra
sýningu í Galleríi i8, og liggur við að
hægt sé að kalla sýningu Gabríelu
Friðriksdóttur sem nú stendur yfir
yfirlitssýningu. Það er líkt og rými
gallerísins stækki við það hversu
mörgum verkum hún kemur þar fyrir
en það er fullkomlega í samræmi við
verk hennar sem að nokkru leyti má
tengja við myndlist frá fyrri hluta 20.
aldar þegar naumhyggjuframsetning
sú sem einkennir svo margar sýning-
ar í dag tíðkaðist ekki.
Gabríela leggur út af þemanu mel-
ankólía á sýningu sinni og nefnir hana
Kaþarsis, sem merkir hreinsun bæði
líkama og sálar, einnig það þegar
bældar tilfinningar eru þvingaðar
upp á yfirborðið. Í sýningarskrá er að
finna greinargóðan og upplýsandi
texta um sögu melankólíunnar og
ímyndir hennar í gegnum tíðina, bæði
í almennum skilningi og í verkum
heimspekinga, en melankólían hefur
löngum verið talin uppspretta sköp-
unar hjá listamönnum og að í gegnum
hana geti eins konar kaþarsis átt sér
stað.
Einn þeirra sem vitnað er til er
Kierkegaard og sagt að hann hafi lagt
til að besta lækningin við melankólíu
væri kaldhæðnin. Það er athyglisverð
hugmynd og hún á nokkuð vel við
verk Gabríelu sem og verk fleiri lista-
manna í dag. Um leið er hún helsta
tengingin við samtímann, því hug-
myndin um nútímamelankólíu sem
„syrgjandi, þunga og svimandi af
óendanleika“ eins og segir í sýning-
arskrá á mun meira skylt við róm-
antíkina en nútímann þegar nútíma-
melankólía er frekar flokkuð sem
sjúkdómur og gefin við henni lyf. Hið
sama má segja um hugmyndina um
melankólíuna sem uppruna sköpun-
arinnar og bústað snilligáfunnar,
þetta er hugmynd sem átti vel við fyr-
ir rúmum hundrað árum. Þessi tíma-
skekkja ef svo má segja er reyndar
einmitt það sem gefur verkum Gabrí-
elu aukna dýpt, í tilfinningunni fyrir
fortíðinni sem hluta af samtímanum
birtist hið stóra samhengi. Það felst
líka þarfur boðskapur í þessari um-
fjöllun um melankólíuna. Samfélag
okkar leggur áherslu á skilyrðislausa
hamingju, líkt og þeim sem ekki eru
alltaf glaðir hafi á einhvern hátt mis-
tekist. Það væri ólíkt hollara að virkja
svartagallið líkt og Gabríela gerir
hér, frekar en að bæla það niður.
Efnið talar
Sýningin í i8 byggist á teikningum,
málverkum og myndböndum, bæði
nýjum verkum og eldri. Myndböndin
Kaþarsis og Melankólía tengjast
þema sýningarinnar, hreinsuninni,
sterkast. Hér eins og í öðrum verkum
Gabríelu er að finna hárfínan leik
milli einlægni og kaldhæðni. Ofhlæð-
ið og dramatíkin eru slík að einungis
möguleikinn á kaldhæðinni afstöðu
listakonunnar bjargar verkunum frá
algerri sjálfhverfu og tengir þau við
samtímann. Svo virðist sem hér sé
sótt aftur í tímann, aftur í myrkar
miðaldir dýpstu Evrópu í leit að sorta
sálarinnar sem birtist á óþægilegan
hátt í eins konar uppvakningi. Til-
finningin fyrir hreinsun, fæðingu og
einhverju óþægilegu en ónefnanlegu
og líkamlegu í senn er mjög sterk.
Það fer ekki hjá því að myndbönd og
verk Matthews Barneys komi upp í
hugann, sérstaklega hvað varðar of-
hlæðistílinn. List hans er þó að öllu
leyti í meiri tengslum við og vinnur
beint með umhverfi sitt og samtím-
ann og það er reyndar spurning hvort
það sé eitthvað sem myndi auðga
verk Gabríelu og gera þau aðgengi-
legri. Sterkustu myndskeiðin í þess-
um myndböndum eru síðan tvímæla-
laust þau sem beina sjónum að
efninu, samhverfan dularfulla í Kaþ-
arsis er magnað og heillandi mynd-
skeið, maður veit ekki hvað er að ger-
ast en er gripinn föstum tökum,
fegurðin og ljótleikinn renna frábær-
lega saman í eitt. Þessi einstæða efn-
iskennd er ein af sterkari hliðum
listakonunnar og birtist einnig í með-
förum hennar með deig, bæði í þess-
um nýju verkum og eldri verkum á
borð við Operazione Pane sem er ein-
falt myndband, sýnt ásamt fleiri eldri
verkum undir stiganum. Í því krist-
allast einfaldar sköpunaraðferðir,
persónuleg og heillandi efnismeðferð,
óbeinn feminismi, barnslegur leikur
og svartur húmor, allt einkenni listar
Gabríelu.
Málverk Gabríelu byggjast einnig
á næmri efniskennd sem og leik að
því falda og því sýnilega. Í þeim birt-
ist sá frjói leikur sem áhorfandinn
finnur í öllum verkum hennar, barns-
legur en þó aldrei naíf og sköpunar-
ferli verkanna er jafnan sýnilegt í
endanlegri útkomu þeirra. Svart
lakkið minnti mig á þegar börn fá að
mála svart yfir marglitað blað og
krafsa síðan skrautlega mynd úr
sortanum. Fígúrurnar sem birtast í
málverkum og teikningum listakon-
unnar eru bæði sætar og ógeðfelldar,
þó meira hið fyrra. Hér sýnist mér
kvenlíkaminn og hreinsun sú sem þar
á sér stað líka leika stórt hlutverk,
einnig sú freudíska ógn sem á að stafa
af starfsemi kvenlíkamans, en eitt-
hvað sem minnir á Vagina Dentata er
sýnilegt á nokkrum myndum. Að
mínu mati eru verk Gabríelu augljós-
lega af súrrealískum toga, sérstak-
lega teikningarnar sem minna til
dæmis á André Masson en líka á til-
vist íslenska súrrealistahópsins Med-
úsu og teikningar Einars Melax og
Bjarkar frá áttunda og níunda ára-
tugnum. Einnig má finna í þeim teng-
ingu við t.d. dýraristur Durers. Sam-
tíminn er síðan til staðar í
teiknimyndaþætti þeirra og þeim
húmor sem í þeim felst, en án þessa
yrði list Gabríelu óbærilega yfirdrif-
in.
Þessi sýning Gabríelu er kraft-
meiri en fyrri sýningar hennar, verk-
in fjölbreyttari og margþættari. Hún
verður fulltrúi Íslands á Feneyjat-
víæringnum næsta ár og virðist nú
þegar hafa burði í að standa undir
því, mér sýnist hún hafa stigið yfir
ákveðinn þröskuld í verkum sínum.
Hún sýnir klárlega löngun til að
halda lengra og taka meiri áhættu en
áður en það er einmitt það sem list
hennar þarfnast. Hér sést glögglega
að Gabríela er ein af okkar fremstu
og persónulegustu listamönnum í
dag, vaxandi með hverju nýju verki.
Sögur af brennandi eldhúsum
Ragnar Kjartansson og Magnús
Sigurðarson eiga það sameiginlegt
með Gabríelu að slá ekkert af í verk-
um sínum og innsetning þeirra í
Listasafni ASÍ er því til vitnis. Hér er
lagt út af þemanu einlægni. Mynd-
band í Gryfju sýnir sviðsett trúnaðar-
samtal tveggja vina, sviðsetningin er
fáránleg og helst í anda Monty Pyt-
hon. Ljósmyndir í Ásmundarsal sýna
vinina saman, daðrandi við samkyn-
hneigð undir væmnum söng tíu
trúbadúra sem allir flytja sama lagið,
af fyllstu einlægni auðvitað. Þeim
Ragnari og Magnúsi tekst að feta sig
milli einlægni, kaldhæðni og gráglett-
innar samfélagsádeilu á húmorískan
hátt og eru sjálfir ekki hafnir yfir að
vera skotmark. Væmnin, tilfinninga-
semin og sjálfsupphafningin sem oft
má sjá í fjölmiðlum í dag þar sem fólk
er hvatt til að úthella hjartasorgum
sínum er hér í brennidepli, einnig
listamaðurinn sem rökstyður verk sín
með tilfinningum sínum. Kaldhæðni
af þessu tagi getur verið ómerkileg
og tilfinningar annarra auðvelt skot-
mark en hér finnst manni að lista-
mennirnir séu einnig að einhverju
marki að tala í fyllstu einlægni, á milli
þess sem maður skellir upp úr. Þetta
gerir það að verkum að sýningin
verður annað og meira en fljótséður
brandari og líklegt að í bakgrunni fel-
ist alvarlegri vangaveltur um ímynd
listamannsins og karlmannsins í dag.
Einlægnin lekur af verkum þeirra félaga Ragnars og Magnúsar í ASÍ. Kafað í myrkur sálarinnar á sýningu Gabríelu Friðriksdóttur í i8.
Myndlist frá hjartanu
MYNDLIST
Gallerí i8
KAÞARS IS , BLÖNDUÐ TÆKNI,
GABRÍELA FRIÐRIKS DÓTTIR
Til 26. júní. Opið fimmtudaga og föstu-
daga kl. 11–18, laugardaga kl. 13–17.
Lis tas afn AS Í
TRÚNAÐUR, BLÖNDUÐ TÆKNI,
RAGNAR KJARTANS S ON OG
MAGNÚS S IGURÐARS ON
Til 6. júní. Listasafn ASÍ er opið þriðju-
daga til sunnudaga frá kl. 14–18.
Ragna S igurðardóttir