Morgunblaðið - 07.12.2003, Side 12
12 | 7.12.2003
iðum verkefnum, ber ábyrgð á þeim, tek ákvarðanir, stend og fell með þeim. Er bara
þannig gerður.“
Hann neitar því að hann hafi orðið svona áberandi talsmaður lögreglunnar fyrir
meðvitaða ákvörðun stjórnenda hennar um að breyta þyrfti ímyndinni. Þetta hafi
gerst smátt og smátt, og einkum eftir að hann varð yfirlögregluþjónn; það liggi í eðli
starfans. „Ég hef aldrei meðvitað breytt minni framkomu til að skapa einhverja
ímynd. Ég er bara svona eins og ég er. Ég er bara venjulegur maður og lít á mig sem
þjón almennings. Ég nýt þess að þjónusta fólk, hvort sem það er þakklátt fyrir þjón-
ustuna eða ekki. Hins vegar var þörf á því, og ég var talsmaður þess, að ímynd lög-
reglunnar breyttist. Það hefði gerst hvort eð er. Þjóðfélagið er orðið svo miklu opn-
ara. Ekki dugir að lögreglan segi við almenning gegnum fjölmiðla: Ykkur kemur
þetta ekkert við. Við hljótum að svara fyrir það sem við erum að gera, hvort sem það
er þægilegt eða ekki. Og það koma upp óþægileg mál. Það er t.d. óþægilegt að þurfa
að taka á mótmælendum á Austurvelli 17. júní. Slíkt veldur óhjákvæmilega deilum.
En við þurftum að gera það, þótt sumum hafi þótt of langt gengið og jaðri við lög-
brot, sem ekki hefur nú reynt á.“
Annað dæmi er þegar þú beittir fréttamann valdi við störf á vettvangi heimsóknar
Li Pengs. Voru það mistök?
„Nei. Ég hafði reynt að beita fortölum, skýringum og öðrum friðsamlegum lausn-
um, en það dugði ekki. Því miður þurfti ég að taka af skarið. Hiti hljóp í málið þegar
viðkomandi fréttamaður sá að fulltrúi annars fjölmiðils var inni á hinu lokaða svæði.
Sá var ljósmyndari Morgunblaðsins sem reyndist gestur hjónanna sem Li Peng var að
heimsækja og við höfðum ekki hugmynd um. Ég skildi vel að fréttamanninum
gremdist það, en við því var ekkert að gera. Ég varð að framfylgja þeirri ákvörðun
sem tekin hafði verið.“
Þegar lögreglan beitir rangindum
Eru svona mál erfið fyrir þig?
„Þau eru ekki skemmtileg. En þau verða til í hita leiksins og slíkt fylgir einfaldlega
starfinu. Maður þarf bara að vera sannfærður um það í hjarta sínu að það sem gert er
sé í samræmi við lög og starfsreglur. Yfirleitt þarf að taka svona ákvarðanir á sek-
úndubrotum og ríður á að andlegt jafnvægi manns sé gott. En utanfrá getur stundum
virst sem óþarfa valdi sé beitt. Til dæmis geta handtökur á fólki sýnst harkaleg vald-
níðsla frá sjónarhóli áhorfenda sem ekki þekkja til – að taka hendur aftur fyrir bak og
setja á handjárn. Komið hefur fyrir þegar menn eru að slást í miðborginni að fólk
kemur til okkar og spyr: Ætliði að láta þetta viðgangast? Ætliði ekki að taka á þessu?
Og svo þegar við tökum á málunum kemur kannski sama fólk og segir að við hefðum
ekki átt að taka á þeim með svona mikilli hörku. Því miður verðum við að taka á
svona málum með mjög ákveðnum hætti – en eftir reglunum.“
Og stundum kemur fyrir að lögreglumenn fara ekki eftir reglunum?
„Já, það hefur því miður gerst,“ svarar Geir Jón alvörugefinn.
Það vakti einmitt athygli þegar fram kom við réttarhöld vegna máls tveggja lög-
reglumanna sem nú hafa verið dæmdir í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa geng-
ið of harkalega fram gagnvart borgurum í miðbænum í vor að þú hefðir hvatt þol-
anda í öðru málinu til að kæra lögreglumennina. Og sjálfur barstu vitni við
réttarhöldin gegn undirmönnum þínum. Hvers vegna gekkstu svona fram fyrir
skjöldu í þessu máli?
„Það var nú ekki alveg rétt fram sett,“ svarar Geir Jón, „að ég hafi hvatt þolanda til
að kæra. Ég hef einfaldlega ákveðna leiðbeiningarskyldu gagnvart fólki sem telur sig
hafa orðið fyrir rangindum af hálfu lögreglunnar. Í þessu tilfelli var það okkar mat í
framkvæmdastjórn lögreglunnar, eftir að embættinu hafði borist ábending frá fjöl-
miðlamanni, að maður hefði hugsanlega verið beittur slíkum rangindum af starfs-
mönnum sem heyra undir mig. Mér var því falið að skoða málið og við lestur frum-
skýrslu kom í ljós að frekari skýringa væri þörf. Þess vegna hafði ég að fyrra bragði
samband við þennan mann, kynnti honum hvaða leiðir væru færar fyrir hann til að
leita réttar síns og boðaði hann í skýrslutöku því málið væri þess eðlis að það þyrfti
rannsóknar við. Það var hans ákvörðun að kæra og ég lít ekki svo á að ég hafi hvatt
hann til þess. En þegar fólk kvartar við okkur yfir samskiptum við lögreglumenn för-
um við yfir málin eins og rétt er og sjálfsagt. Í 90% tilfella lýkur málunum í sátt og án
kæru. En við gerum mistök og þegar slíkt liggur fyrir er skylda okkar, hvort sem okk-
ur líkar betur eða verr, að benda þolanda á réttarleiðirnar. Málin eru þá rannsökuð,
ekki hjá okkur heldur hjá ríkissaksóknara, og ég get nánast fullyrt í 99% tilvika lýkur
rannsókn án þess að ákært sé. Og það er ég afskaplega ánægður með.“
Hinir dæmdu lögreglumenn hafa opinberlega sagt að Geir Jón hafi sagt ósatt við
réttarhöldin. Hann segir það fjarri lagi. „Allt sem ég sagði um þetta mál fyrir dómi
var sannleikanum samkvæmt. En ég er bara þeirrar gerðar að ég vil helst ekki svara í
sömu mynt; það væri í andstöðu við mín sjónarmið, kristilegt innræti og umburð-
arlyndi. Við stöndum einfaldlega frammi fyrir því að förum við ekki að lögum og er-
um dæmdir fyrir það verðum við að taka því. Ég er auðvitað hryggur yfir því að mál
skuli hafa farið svona og vona að almenningur átti sig á því að þrátt fyrir þennan dóm
leyfist engum að sýna lögreglunni dónaskap og ég tala nú ekki um að fara ekki eftir
fyrirmælum hennar. Það er alveg skýrt samkvæmt dómnum að öllum ber að hlýða
fyrirmælum lögreglu.“
Samstaðan ofar öllu?
Geir Jón segir að þetta mál hafi verið sér ákaflega erfitt, bæði persónulega og sem
lögreglumann. Ég spyr hvort það sé rétt að hann hafi ekki aflað sér aukinna vinsælda
innan lögreglunnar með framgöngu sinni.
„Ég hygg að það sé rétt. Ég hef fundið fyrir því og jafnvel verið hafður að spotti.
En það pirrar mig ekki og ég ber ekki kala til nokkurs manns. Partur af starfi yf-
irmanns er að þola umtal. Ég reyni bara að vera heiðarlegur í mínu starfi. Svo geta
verið skiptar skoðanir um hvort ég sé það. Almennt finn ég gott traust frá lög-
reglumönnum, sem betur fer.“
Alls staðar í heiminum virðist samstaðan út á við vera eins konar lykilatriði hjá lög-
reglumönnum – að hvað sem á dynur skuli lögreglumenn standa vörð hver um annan?
„Ég hef ekki upplifað þetta svona innan lögreglunnar hér, almennt talað. Lög-
reglumenn hafa mikla réttlætiskennd; þeir vilja ekki að lögreglan komi óorði á sjálfa
sig. En það getur komið fyrir, og hefur komið fyrir, að menn blindist og vilja ekki
skilja að yfirmaður er ábyrgur fyrir því að farið sé að lögum og starfsreglum. Nú er
málum þannig háttað, að það er á valdi ríkislögreglustjóra að ráða lögreglumenn eða
víkja þeim úr starfi, en ekki okkar. En ég held að nú, þegar öll þróun opinbers rekst-
urs færist æ meira í svipað horf og í einkageiranum, sé eðlilegra og nútímalegra að
forstöðumenn stofnana, eins og lögreglustjóraembættisins í Reykjavík, ráði sitt starfs-
fólk og, ef því er að skipta, reki.“
Geir Jón kveðst stoltur af reykvísku lögreglunni; hún vinni störf sín almennt vel og
af stillingu og taki því sem á henni dynur. „Eins og ástandið er oft í miðborginni, og á
heimilunum þar sem börn eru innanum ofbeldi, drykkjuskap og fíkniefnaneyslu,
vinna lögreglumenn starf sitt af slíkri stillingu, fagmennsku og lagni að þeir koma
hreinlega í veg fyrir að hér sé allt logandi. Við erum ekki fullkomnir og verðum það
aldrei, en við hljótum að vera á réttri leið þegar lögreglan er samkvæmt könnunum sú
opinbera stofnun sem almenningur ber næstmest traust til, næst á eftir Háskóla Ís-
lands. Slíkt þekkist ekki víða, ekki á öllum Norðurlöndunum.“
Hann viðurkennir að íslenskt samfélag sé á síðustu árum orðið mun flóknara og
erfiðara frá sjónarhóli löggæslunnar en áður var. Þar komi til nokkrir samverkandi
þættir og vegi þáttur fíkniefnanna einna þyngst. Fjölgun fólks af erlendum uppruna
kalli á nýja nálgun í samskiptum við það. „Við höfum falið sérstökum lögreglumanni
það verkefni að vera í sambandi við nýbúasamtök, miðla upplýsingum til þeirra og
leiðbeina. Margt af þessu fólki hefur slæma reynslu af lögreglunni í sínum fyrri heim-
kynnum og vantreystir henni þá hér líka. Við erum því að reyna að eyða fordómum
og vanþekkingu á báða bóga. En kannski er nú einn mesti vandinn sem löggæslan
fæst við þetta viðvarandi agaleysi í okkur Íslendingum sjálfum; við teljum okkur vita