Morgunblaðið - 21.12.2003, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - 21.12.2003, Blaðsíða 12
12 | 21.12.2003 hreyfingu, fólk sem hefur ekki höndlað sannleikann heldur leitast við að vera höndlað af sannleikanum, verður nálgunin önnur, opnari og meira skapandi. Þá er leitin að sann- leikanum fagnaðarerindi í sjálfu sér, frjó, spennandi og skemmtileg.“ Tími myrkurs, þunglyndis – og gleði „Þær“ segja að Hjörtur Magni sé sætasti presturinn á landinu; ég deili ekki við „þær“ um það. Að kvöldi erilsams vinnudags í aðdraganda erilsamasta árstíma allra presta er ekki að sjá þreytu á unglegu andlitinu. Hann er hálffimmtugur og þau hjón- in, Ebba Margrét Magnúsdóttir, sérfræðingur í kvensjúkdómum og fæðingarlækn- ingum, eiga von á þriðja barni sínu. Hver dagur er púsluspil hjóna sem bæði gegna annasömum ábyrgðarstörfum. En það er létt yfir Fríkirkjupresti, í senn yfirvegun og ákefð þess sem veit hvert erindi sitt er. Þennan daginn hafði m.a. verið kistulagning, viðtal við aðstandendur um útför ástvinar, tvö sálgæsluviðtöl og afgreiðsla þriggja beiðna um mataraðstoð. Hann segir slíkar beiðnir hrúgast inn í vaxandi mæli, eink- um þó á aðventunni, og Fríkirkjan reyni að verða við þeim flestum með litlum líkn- arsjóði sem safnaðarfólk leggi til frjáls framlög. Stundum, þegar mest liggur við, verði þó að grípa til rekstrarfjár safnaðarins og sumum beiðnum verði að vísa til Rauða krossins, Hjálparstofnunar kirkjunnar, Mæðrastyrksnefndar og slíkra aðila. Beiðn- irnar komi frá fólki utan sem innan Fríkirkjunnar, flestar frá öryrkjum, einstæðum mæðrum og fólki sem býr við varanlegar eymdaraðstæður af einhverjum orsökum, líkamlegum eða andlegum. „Ég hef fundið töluverða aukningu matarbeiðna þessi tæpu sex ár sem ég hef verið Fríkirkjuprestur,“ segir hann. „Ég hef borið mig eftir því að kynna mér aðstæður þessa fólks gegnum árin, m.a. til að kanna hvort einhverjir séu að misnota sér þessa þjónustu, sem auðvitað eru dæmi um, og á heildina litið er um raunverulega og knýjandi þörf að ræða. Síðast í gær afgreiddi ég beiðni fjölfatl- aðrar konu sem þarf stöðugt að biðja um ölmusu til að komast af. Það er hryllilegur vitnisburður um það velmegunarþjóðfélag sem við teljum okkur búa í.“ Þegar ég spyr Hjört Magna hvort aðventan, jólin og áramótin séu kvíðvænlegur tími fyrir prest eða tilhlökkunarefni svarar hann: „Hvort tveggja í bland. Þunginn í starfinu er mikill og við prestar skynjum jafnframt vel hvernig þessi árstími leggst þungt á sinni margra. Þetta er sá tími þegar sorgin, missirinn og myrkrið sækja mest að þeim sem misst hafa. Hjá þeim sem glíma við þunglyndi yfirleitt eykst það á tíma þegar allir eiga að vera glaðir og í hátíðarskapi. Á þessum tíma á fjölskyldan að vera samstæð en er það ekki alls staðar. Margir kvíða því jólunum. Fyrir mig er þetta tími mikils þeysings og gott að vita af hvíldinni sem bíður handan við áramótin.“ Sjálfur verður þú ekki þunglyndur? „Nei. Auðvitað þyrmir yfir mann annað slagið, en þunglyndi sækir ekki að mér, sem betur fer. Ég á líka svo góða að.“ En er ekki hvað skemmtilegast að vera prestur á þessum tíma þegar kirkjusókn er mest og athyglin beinist meira að kirkjunni en á öðrum árstímum? „Að sumu leyti,“ svarar hann dræmt. „Það er ósköp já- kvætt að margir koma í kirkju sem ekki koma á öðrum tímum ársins; það er hluti af þjóðmenningarlegu ritúali og tengist ekki endilega trúargrunninum sjálfum. En þúsundir koma í kirkjuna árið um kring og þarf ekki jólahátíð til; það er ekki síður mikilsvert. Trúarþörf fólks er aðeins laustengd trúrækni, kirkjusókn á sunnu- dögum. Í nútímasamfélagi er svo mikil fjölhyggja og mikið um uppbrot hefða, sem sumir vilja kalla afhelgun samfélagsins en ég tel að mörgu leyti jákvæða þróun. Kirkjustofnunin hefur ekki náð að fylgja þessari þróun og laga sig að henni.“ Hvernig getur hún lagað sig að henni? „Hún þarf að geta lesið samfélagið og gæta þess að festast ekki í stofnunarhugs- uninni. Íslendingar hafa búið við stofnunarkristindóm í þúsund ár og þekkja lítið annað en að kirkjan sé í nánum tengslum við ríkið. Ég held að kirkjustofnunin þurfi að leita aftur til upprunans, hlúa að frjálsum trúfélögum, sem búa hér við hróplega mismunun og ná ekki að blómstra af þeirri ástæðu.“ Jól þrisvar á ári Sem fjölskyldumaður segist Hjörtur Magni hlakka til jólanna. Þau hjónin eiga tvö börn saman, 12 ára dóttur og 5 ára son, og af fyrra hjónabandi á hann 17 ára son. Er þessi fjölskylda jafn mikið á kafi í gjafa- og neyslukapphlaupinu fyrir jólin og flestar aðrar? „Jájá, við gerum það að vissu marki. Reynum þó að hafa þetta í hófi. Við erum partur af þessu þjóðfélagi.“ Hann hefur enn ekki komið því á framfæri hvers hann óski sér í jólagjöf og hafnar tilboði um að gera það í þessu viðtali; segist ekki hafa hugsað út í það. „Ætli ég óski mér ekki gleðilegra og friðsælla jóla,“ bætir hann við. Jólahaldið á heimilinu er óhjákvæmilega sniðið að starfi prestsins; hann er með aft- ansöng á aðfangadagskvöld klukkan sex og svo aftur um miðnætti og borðhaldinu og gjafaúthlutun smeygt þarna á milli. Eldamennskan er í höndum Ebbu Margrétar en hann gengur frá á eftir. Jóladagsmessa er klukkan tvö og aðrar athafnir á annan í jól- um og skírnir inn á milli. Milli jóla og nýárs er svo jafnan fjöldi brúðkaupa. „Núna á gamlársdag verð ég líklega með fimm brúðkaup og tvær guðsþjónustur og nokkrar skírnir um áramótin. Við þekkjum því lítið annað en vinnumhverfi á jólunum, því oft er konan mín á vakt líka.“ Þá er þess ógetið að mikið verður um dýrðir í Fríkirkjunni um áramótin þegar haldið verður upp á 100 ára vígsluafmæli kirkjubyggingarinnar. Eftirminnilegustu jólin í huga Hjartar Magna voru haldin í Jerúsalem og Betlehem, þegar hann var við háskólanám í tvö ár í Ísrael og dvaldist einnig í Egyptalandi með- fram guðfræðideildinni við Háskóla Íslands. „Til að forðast þann gríðarlega túrisma sem er þarna á þessum tíma læddist ég inn í helgidómana þegar fæstir voru. Ég reyndi að upplifa stemninguna í mannlífinu eins og ég gat með vinum mínum sem voru kristnir arabar. Gyðingar halda ekki jól og ég sótti tíma á aðfanga- og jóladag í Hebr- eska Háskólanum. Jerúsalem er einn helgasti reitur þriggja helstu eingyðistrúar- bragða veraldar, íslam, kristni og gyðingdóms, og þar búa fulltrúar flestra trúarhópa innan þeirra. Þarna fer því fram látlaust en afar fjölbreytilegt helgihald. Austurkirkjan heldur t.d. sín jól á þrettándanum og Armenar hafa enn eitt tímatalið. Í Jerúsalem get- ur maður haldið jól þrisvar á ári og ég reyndi að gera það. Það var ákaflega gaman að kynnast öllum þessum ólíku siðum og hefðum, því okkur hættir til að halda að okkar séu þau einu réttu, sem er misskilningur. Siðir austurkirkjunnar eru á flestan hátt upp- runalegri og í þeim skilningi réttari. Í þeim er t.d. mun meiri dulúð en okkar. Við ýtt- um dulúðinni út úr okkar helgihaldi í siðbótinni, köstuðum barninu út með baðvatn- inu. Það er miður því í eðli sínu er kristin trú mjög dulúðug, byggist mun meira á andagift, karisma og tilfinningu en við höfum leyft í okkar stofnunarvædda átrúnaði. Þessu var heillandi að kynnast.“ Úr æskuuppreisn í götuprédikanir Hjörtur Magni ólst upp í Keflavík, á trúuðu heimili. „Móðir mín, Sigríður Jóns- dóttir, var og er mjög trúrækin kona og tók virkan þátt í starfi m.a. hvítasunnufólks og aðventista. Hún á vini í mörgum trúfélögunum, er opin fyrir sjónarmiðum annarra og ég er ánægður með að hafa fengið það í arf frá henni.“ Hann er yngstur fjögurra barna þeirra Sigríðar og Jóhanns Hjartarsonar húsa- smíðameistara. „Ég hugsa að eldri systkini mínum hafi fundist ég dekraður og fengið alla athyglina. Ég tek auðvitað ekkert mark á því! Vona bara að ég hafi verið ósköp eðlilegt barn, hafði áhuga á íþróttum, spilaði mikið fótbolta og borðtennis, tefldi, gekk þokkalega í skólanum þangað til ég gerði uppreisn á unglingsárunum. Þá fór ég út að leita að sjálfum mér.“ Í hverju fólst uppreisnin? „Hún var nú ekki mjög merkileg. Ég vildi sannreyna hlutina, taka ekki öllu því sem gefnu sem ég hafði verið alinn upp við. Vildi prófa sjálfan mig og aðra.“ Hvernig prófaðirðu sjálfan þig? „Með því að reyna ýmislegt það sem jafnaldrar manns gerðu. Ég tók inn stemningu bítlabæjarins á 7. áratugnum, djammaði með félögum mínum, fór á böll og kynntist hinu kyninu. Foreldrar mínir létu þetta yfir sig ganga og gáfu mér það svigrúm sem ég taldi mig þurfa. Þetta var eðlilegt þroskaferli, á flestan hátt jákvæð reynsla.“ Í lok uppreisnarskeiðsins fór Hjörtur Magni á biblíuskóla á Suður-Englandi. Hann kveðst þó ekki hafa verið búinn að finna lífskúrsinn heldur verið enn að þreifa fyrir sér. „Og ég er ennþá að leita. Ef ég hætti að leita verður ekki gaman að lifa. Að hluta til var þessi ferð því ævintýramennska, reist á löngun til að komast út í heim. Mig hafði alveg frá barnæsku dreymt um að fara til annarra landa. Þessi biblíuskóli var þver- kirkjulegur en mótaður af hvítasunnumönnum. Hluti af náminu var að nemendur og nokkrir kennarar fóru til Mið-Austurlanda í þrjá mánuði. Við keyrðum um þessi svæði, bjuggum í tjöldum eða sváfum úti; ég kynntist ýmsum skordýrum mjög vel á þessum tíma! Þessi skóli byggðist nokkuð á bókstafshyggju; hún getur verið ágæt svo langt sem hún nær, en getur einnig verið skaðleg, sem ég áttaði mig ekki á fyrr en síðar. Samt fann ég þarna ákveðna festu og grunn sem ég þurfti á að halda. Þegar ég kom hingað heim úr þessari ferð fór ég að starfa á þeim grunni. Við vorum ungt fólk í Keflavík, kölluðum okkur Kristið æskufólk, og störfuðum í tengslum við Ungt fólk með hlutverk, boðuðum kristna trú dálítið að hætti hvítasunnumanna, fórum m.a. til Siglufjarðar, þar sem Gústi guðsmaður var fyrir, og dvöldum þar við trúboð í einn mánuð, þó ekki í samkeppni við Gústa, fórum á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í sama tilgangi og vorum hér í miðbæ Reykjavíkur með helgileiki, svo ég nefni dæmi. Þetta var mjög gaman.“ Hann var 18–19 ára og farinn að prédika á torgum. Fann hann sig strax í því? „Mér fannst það skemmtilegt, þótt prédikanirnar væru öðruvísi en þær sem ég flyt núna og sjónarhorn mitt á trúna hafi breyst.“ Á sumrin vann Hjörtur Magni m.a. á Keflavíkurflugvelli, í gömlu flugstöðinni, hjá MAÐUR MEÐAL MANNA „Í ÖLLUM MANNLEGUM SAMSKIPTUM ER BEST AÐ VE

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.