Morgunblaðið - 09.10.2004, Blaðsíða 30

Morgunblaðið - 09.10.2004, Blaðsíða 30
30 LAUGARDAGUR 9. OKTÓBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ UMRÆÐAN E kki vildi ég vera ráð- herra. Skil satt að segja ekki þá sem sækjast eftir frama í stjórnmálum. Ei- líft argaþras og vesen. Fylgst með hverju fótmáli. Þeir eru á milli tannanna á fólki, skotspónn eft- irherma, grínista og spjall- þáttaspekinga. Lenda jafnvel á forsíðu Séð & heyrt, „flottir og framagjarnir“. Engin feilspor eru liðin, ekki liðin í þeirri merkingu að vegna þeirra er skammast, hneykslast og rifist, jafnvel kraf- ist afsagnar úr embætti. Það er hins vegar ekki til siðs að segja af sér hér á landi, á meðan ráðherrar víða í útlöndum fjúka við minnstu ágjöf. Þar bíða framagjarnir stjórnmálamenn í röðum eftir því að setjast í ráðherrastól, en hér er framboð af skornum skammti og eftirspurn kannski ekki eins áköf. Vonandi fá ráðherrar hvatningu og klapp á bakið heima fyrir, frá mökum sín- um og börnum, þegar þeir ganga út í morgunhúmið til sinna dag- legu starfa. Ekki er þeim mikið hrósað þegar út er komið, a.m.k. ekki af stjórnarandstöðunni, sem er reyndar skiljanlegt. Hún má ekki vera í klappliðinu, hún fær greitt fyrir að vera á móti. Kannski eiga ráðherrar ekkert að vera prísaðir, kannski er bara réttast að djöflast í þeim enda- laust og gefa þeim engin grið. ,,Þeir vildu þetta starf, þeim var nær,“ myndi einhver segja. Nei, þetta er hvorki eftirsóknar- né öf- undsvert starf. Ekki einu sinni myndi þetta freista manns fyrir fimmföld laun. Við höfum líka dæmi um stjórn- málamenn sem hafa gefist upp á álaginu og argaþrasinu sem ráð- herraembættinu fylgir og kosið sér friðsamlegra og hollara líf- erni. Mikið skil ég þá skynsömu menn, karla sem konur, er gerðu þetta sem betur fer á besta aldri. Nú er svo komið í okkar þjóð- félagi að ráðherrar mega ekki ráða fólk í eina einustu stöðu án þess að allt ætli vitlaust að verða. Umsækjendur sem ekki hlutu náð fyrir augum ráðherra verða fúlir margir hverjir – ekki allir – og sumir kæra. Orð eins og vald- níðsla, einkavinavæðing og kynja- misrétti heyrast. Stjórnarand- staðan fer í fýlu og talar um klíkuskap og pólitískar ráðningar. Auðvitað eru allar veitingar ráð- herra í opinberar stöður pólitísk- ar, hvað annað? Ráðherrar eru ekki einhver ráðningarfyrirtæki úti í bæ, þeir eru sem þingmenn kjörnir á Alþingi af þeim kjós- endum sem nýta sinn lýðræð- islega rétt. Samkvæmt lögum hafa þeir veitingarvaldið. Hægt er að hafa endalausar skoðanir á þessum stöðuveitingum, en skyn- samlegra væri að mínu mati að eyða kröftunum í eitthvað annað en að engjast yfir orðnum hlut. Það verður að vera hægt að treysta ráðherrum fyrir því verk- efni að ráða þá einstaklinga sem þeir telja hæfasta og heppilegasta hverju sinni. Prófgráður og starfsreynsla segja ekki allt, per- sónuleikinn hefur mikið að segja og hvort viðkomandi sé líklegur til að eiga gott samstarf við yfirboð- ara sína, undirmenn og almenn- ing. Það var nokkuð til í orðum lektors í opinberri stjórnsýslu, Ómars H. Kristmundssonar, er hann sagði í Morgunblaðinu ný- lega að ráðherrar hlytu að skipa ráðuneytisstjóra sem þeir þekktu að góðu einu, treystu til ábyrgð- arstarfa og vildu hafa sér við hlið. Er eitthvað óeðlilegt við það? Í þessu samhengi finnst mér það litlu skipta þótt ráðherrar veiti einstaklingum úr eigin stjórn- málaflokki stöður eða einhverja sem þeir þekkja. Sem fyrr segir eru ráðherrar ekki ráðningarfyr- irtæki, heldur stjórnmálamenn kjörnir af fólkinu í landinu, mennskir eins og við hin. Bæði ráðherrar og þeir sem fá stöðurnar, standa og falla með gjörðum sínum. Hinir sem sóttu um verða bara að sætta sig við niðurstöðuna, líkt og þeir sem tapa í fótboltaleik. Það getur verið sárt fyrst en lokatölum leiksins verður ekki breytt. Metn- aðargjörnu og hæfileikaríku fólki getur sárnað úrslitin en þá er bara að bíta á jaxlinn (eða bíta í öxlina eins og ung dóttir mín mis- skildi orðtakið á dögunum) og halda áfram sínu striki. Ekki missa þolinmæðina, koma dagar, koma ráð (herrar). Nú þekki ég ekkert þá ein- staklinga sem lent hafa í sviðsljós- inu fyrir umdeildar embættisveit- ingar. Ég geri hins vegar ráð fyrir að fyrst þeim var treyst fyrir stöð- unum sé eitthvað í þá spunnið. Þeir töldu að minnsta kosti eitt- hvað í sig spunnið fyrst þeir sendu inn umsókn. Varla var það gert í hálfkæringi. Efast til dæmis einhver um að Jón Steinar Gunnlaugsson verði góður hæstaréttardómari, eða að Tinna Gunnlaugsdóttir standi sig í stykkinu í Þjóðleikhúsinu? Hvað með Ragnhildi Arnljótsdóttur í félagsmálaráðuneytinu, eða dr. Ágúst Sigurðsson í Landbún- aðarháskólanum á Hvanneyri? Hefur Ólafur Börkur Þorvaldsson orðið vís að einhverjum afglöpum í Hæstarétti undangengið ár? Ekki hafa borist spurnir af því. Allt eru þetta lífsreyndir og vel menntaðir einstaklingar. Þeim var af viðkomandi ráðherrum treyst fyrir stöðum sínum, og við vonum bara allra vegna að það gangi eftir. Þetta fólk reynir að gera sitt besta í því sem það tekur sér fyrir hendur, líkt og við öll. Ef við stöndum ekki undir vænt- ingum og kröfum vinnuveitenda okkar, tökum við afleiðingunum á endanum. Ég vona líka að það eigi við um embættismennina sem hafa skipunarbréf ráðherra eða forseta undir höndum. Þeirra ábyrgð er mikil og þeir gera sér vel grein fyrir því, manna best. Já, ráðherrastarfið freistar ekki. Spurning með ráðgjafann… Ráðherra? Nei, takk Vonandi fá ráðherrar hvatningu og klapp á bakið heima fyrir, frá mökum sínum og börnum, þegar þeir ganga út í morgunhúmið til sinna daglegu starfa. Ekki er þeim mikið hrósað þegar út er komið. VIÐHORF Eftir Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is FÉLAGSFÆLNI er langvinn kvíðaröskun sem veldur vanlíðan og truflar félagslega getu verulega. Við félagsfælni myndast órökrænn, mik- ill, viðvarandi ótti gagnvart ákveðnum hlut, atburði eða að- stæðum. Sá sem þjáist af félagsfælni óttast að hann verði sér til skammar með því að roðna, stama, eða tapa þræðinum, eða þá að hann ímyndar sér að öðrum finnist hann lít- ilmótlegur og mis- heppnaður. Hann hugsar ekki um annað en innri vanlíðan sína, sem veldur því að hann nýtur ekki augnabliks- ins og getur ekki ein- beitt sé að þeim verk- efnum eða samskiptum sem fyrir liggja. Ný- legar bandarískar rannsóknir staðfesta að félagsfælni er með algengustu geðsjúkdómum og er í þriðja sæti á eftir þunglyndi og áfengisfíkn. Þrátt fyrir þetta virðist sem sjúkdómurinn sé oft falinn og uppgötvist ekki. Oftast hefst sjúk- dómurinn snemma eða á aldrinum 11–19 ára. Þegar rætt er við sjúk- linga telur um helmingur þeirra að veikindin hafi byrjað í kjölfar áfalls. Aðrir segjast alltaf hafa verið svona. Talsverður kynjamunur er til staðar því að sjúkdómurinn er helmingi al- gengari hjá konum. Konur hafa einnig oftar alvarlegri einkenni en karlar. Aftur á móti er oftar um að ræða áfengisfíkn samfara fælninni hjá körlum. Orsakir félagsfælni eru enn lítið þekktar en taugalífefnafræðilegar rannsóknir benda til truflunar í efnaskiptakerfum heilans. Einnig er talið að hormónaviðbrögð líkamans séu úr lagi. Erfðarannsóknir á tví- burum benda til sterkari erfðaþátta og mildari ósérhæfum umhverfis- og uppeldisáhrifum. Sjúkdómsgreining er framkvæmd af lækni, oftast af heilugæslulækni eða geðlækni og notast þeir við al- þjóðleg greiningakerfi. Ekki er til neitt ákveðið próf sem styðjast má við en læknirinn hlustar á sjúkra- sögu viðkomandi og fær þannig upp- lýsingar um hvenær einkennin hóf- ust og hvernig þau hafa þróast með tímanum. Spurningar læknisins gætu t.d. verið: Finnur þú til ótta innan um fólk eða forðast þú ákveðnar aðstæður? Hefur þetta truflandi áhrif á líf þitt? Oft eru gerðar almennar heilsufarsathug- anir til að útiloka að um einhvern annan sjúkdóm sé að ræða. Oft er spurt hver sé munurinn á feimni og félagsfælni. Þessari spurningu er ekki auðvelt að svara með einföldum hætti því að um talsverða skörun er að ræða. Þó má segja að feimnin er almenn og vægari upp- lifun og veldur minni skerðingu en fé- lagsfælnin er bundin við ákveðnar takmark- aðar aðstæður. Fé- lagsfælninni fylgja líka önnur einkenni kvíða. Þeir sem þjást af fé- lagsfælni eru alls ekki alltaf feimnir eða til baka í samskiptum. Helstu einkennum má skipta í eft- irfarandi flokka: 1) Algengustu fælnieinkennin er að: Að óttast að tala fyrir áheyr- endum. Að hræðast að ræða við hóp fólks. Hitta ókunnuga. Borða á veitingastað. Að verða miðpunktur athygl- innar. 2) Algengustu líkamlegu einkenn- in eru: Hraður hjartsláttur. Aukinn sviti. Skjálfti. Húðroði. Ónot og óróleiki frá ristli. Höfuðverkur. Stytt og grunn öndun. Þvaglátakennd. Til er áhrifarík meðferð gegn fé- lagsfælni: 1. Lyfjameðferð hefur verulega þýðingu til að draga úr einkennum kvíða, depurðar og fælni. Notuð eru venjuleg kvíða- og þunglyndislyf sem ekki valda slævingu eða hættu á ávanabindingu. Það var mikil nýjung þegar þessi lyf komu fram fyrir rúmum áratug og í ljós hefur komið að þau virka mun betur á fælniein- kenni en eldri lyfin. 2. Samtalsmeðferð er alltaf veitt samfara lyfjameðferðinni. Slík með- ferð er nauðsynleg til að fræða sjúk- linginn um veikindin, viðbrögð við þeim og notkun lyfjanna. Einnig er oft beitt sérhæfum meðferðum t.d. huglægri atferlismeðferð. Algengast er að samtalsmeðferð fari fram hjá geðlæknum en einnig stunda sál- fræðingar og margir heimilislæknar slíkar meðferðir. 3. Félagsþjálfun skiptir verulegu máli við að ná tökum á einkennum og fer fram í tengslum við samtals- meðferðina. Gerðar eru æfingar í samtölum þar sem máttur ímynd- unaraflsins er nýttur en einnig er beitt verklegri þjálfun. Einnig er kennd slökun og öndunaræfingar. Það að forðast erfiðar aðstæður dregur úr vanlíðan en leysir ekki undirliggjandi ótta. Yfirleitt gengur félagsþjálfunin mun betur samfara lyfjameðferð. Afleiðingar félagsfælni geta verið alvarlegar ef ekkert er að gert. Auk- in hætta er á þunglyndi og hætta er á að vinnu- og námsgeta skerðist. T.d. kom fram í erlendri rannsókn að félagsfælni var meginástæða þess að stúlkur hættu skólagöngu í menntaskóla. Félagsfælni hefur líka áhrif á að heilsu hrakar almennt. Það veldur aukinni notkun heilbrigð- isþjónustu og háum kostnaði. Án meðferðar er hætta á endurteknu og langvinnu ástandi jafnvel fötlun. Auðvitað eru horfur misgóðar eftir alvarleika einkenna en búast má við að um þriðjungur sjúklinganna nái fullum bata ef viðeigandi meðferð er gefin. (Á ensku nefnist félagsfælni Soc- ial anxiety disorders eða Social Phobia sem eru ágæt leitarorð á ver- aldarvefnum.) Fælni –falið vandamál Ólafur Þór Ævarsson fjallar um félagsfælni ’Án meðferðar er hætta á endurteknu og langvinnu ástandi jafnvel fötlun. ‘ Ólafur þór Ævarsson Höfundur er geðlæknir. ALÞJÓÐLEGI geðheilbrigð- isdagurinn er haldinn hátíðlegur í dag 9. október meðal annars með fyrirlestraröð sálfræðinga í Odda Háskóla Íslands, göngu niður Laugaveg og fjölbreyttri dagskrá í Ráðhúsi Reykjavíkur. Samkvæmt venju undanfarinna ára er valið þema dagsins. Að þessu sinni er þemað Samhliða raskanir – Tengslin milli lík- amlegrar og andlegrar heilsu. Margir aðilar sem láta sig geðheilsu landsmanna varða koma að skipulagningu dagsins og taka þátt, þar á meðal Rauði kross Íslands. Yfirskrift dagsins er vel við hæfi og tíma- bær því að mönnum er það sífellt betur og bet- ur ljóst að til að vera heilbrigður þurfa menn að búa við líkamlega, andlega og félagslega vellíðan. Flestum finnst sjálfsagt að tala um og stunda líkamsrækt en geðrækt er mönnum ekki eins töm í munni, þó að mikil breyting hafi orðið þar á undanfarin ár með aukinni umræðu. Geðheilsu sína þurfa allir að hugsa um og átta sig á hvaða þættir hafa áhrif á hana, einnig að bregðast fljótt við ef heilsu hrakar. Opin um- ræða um staðreyndir varðandi geð- heilsu og algengi geðraskana eykur skilning meðal almennings og dreg- ur úr fordómum gagnvart fólki sem á við heilsuleysi að stríða í þessum efnum. Rauði kross Íslands gerir reglu- lega kannanir á því hverjir standa höllum fæti í samfélaginu félagslega og fjárhagslega til að forgangsraða verkefnum sínum. Í síðustu tveimur landskönnunum kom greinilega fram að margir í þeirra röðum eru geðfatlaðir einstaklingar. Félagið hefur brugðist við þessu með því að hafa stuðning við geðfatlaða sem eitt af áherslu- verkefnum sínum. Deildir innan Rauða krossins hafa frá árinu 2000 staðið að grein- ingu á stöðu og þjón- ustuþörf geðsjúkra í öllum landshlutum og nú eru tvær í gangi á Norðurlandi og höf- uðborgarsvæðinu og að þessu sinni í samvinnu við Geðhjálp. Stefnt er að því að þeim ljúki vorið 2005. Ábyrgðarmaður rannsóknanna fyrir hönd Rauða krossins er Páll Biering lektor í hjúkrunarfræði við HÍ og meðrannsakandi Guðbjörg Daníels- dóttir sálfræðingur Geðhjálpar. Með þessari vinnu fást mikilvægar upp- lýsingar og betri tengsl á milli op- inberra aðila, heilsugæslu, fé- lagsþjónustu og annarra í málefnum þessa hóps. Niðurstöður þarfagrein- inga eru notaðar til stefnumótunar í málefnum geðfatlaðra, vali á verk- efnum og markhópum til fræðslu. Á vegum Rauða kross Íslands er einn- ig fyrirhuguð rannsókn á áhrifum þess að fá geðsjúkdómsgreiningu fyrir 25 ára aldur í umsjón Guð- bjargar Sveinsdóttur geðhjúkr- unarfræðings. Það er ljóst að í of mörgum tilvikum eru geðsjúkdómar seint greindir og þar með erfiðari viðfangs en þegar brugðist er fljótt við vandanum. Einn hópur er mikið áhyggjuefni margra en það eru geð- fatlaðir fíklar og ástæða er til að vekja athygli fólks ekki síst ungs fólks á að hættan á geðröskunum er mikil ef fólk neytir fíkniefna, en einnig má reikna með að þeir sem þjást af þunglyndi eða öðrum geð- sjúkdómum leiðist frekar til neyslu eiturlyfja ef viðhlítandi stuðningur og úrræði eru ekki fyrir hendi. Nú rekur Rauði krossinn fjögur athvörf fyrir geðfatlaða, Vin í Reykjavík, Dvöl í Kópavogi, Læk í Hafnarfirði og Laut á Akureyri og hefur aðsókn alls staðar verið mjög góð. Heilbrigði á sál og líkama Helga G. Halldórsdóttir skrifar í tilefni af alþjóðlega geðheil- brigðisdeginum ’Það er ljóst að í ofmörgum tilvikum eru geðsjúkdómar seint greindir og þar með erf- iðari viðfangs en þegar brugðist er fljótt við vandanum. ‘ Helga G. Halldórsdóttir Höfundur er sviðsstjóri innan- landssviðs Rauða kross Íslands.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.