Morgunblaðið - 16.12.2005, Qupperneq 51
fram vegna þess að bassalínurnar
hans eru svo fallegar og standa oft
sem sjálfstæðar laglínur. Já, afi vissi
hvað hann söng.
Nú hefur kór Bachs á himnum
fengið til liðs við sig góðan söngmann.
En við sem eftir sitjum söknum hans
hlýja söngs og hlýju nærveru.
Helga Rut.
Elsku afi minn er látinn. Eftir erf-
iða og hetjulega baráttu við sjúkdóm
varð líkaminn loks að játa sig sigr-
aðan, þrátt fyrir mikla lífslöngun. Það
eru eingöngu til góðar minningar um
afa, ég hef kynnst honum sem kær-
leiksríkum, ósérhlífnum og vingjarn-
legum sem alltaf vildi öllum vel. Hug-
takið „gestrisni“ lýsir ömmu og afa
vel. Að koma í heimsókn hefur alltaf
verið einstaklega notalegt. Rólegt og
hlýlegt yfirbragð og finna sig meira
en hjartanlega velkominn. Þegar þau
vissu að þau væru að fá heimsókn
þaut afi út í búð til að vera viss um að
til væri gos eða annað sem okkur
bræðrum þótti gott. Auðvitað var
amma tilbúin með kökur og góðgæti.
Spjallað var um daginn og veginn því
afi sýndi alltaf skilning og áhuga á því
sem barnabarn þeirra var að takast á
við í lífinu. Það er mér mjög minn-
isstætt í einu af skemmtilegu jólaboð-
um heima hjá ömmu og afa í Hvassó.
Alltaf var farið í leiki og sá vinsælasti
var að sjálfsögðu ,,Hver er maður-
inn?“. Í eitt skiptið var ákveðið að
fara í leikinn ,,Hver stal kökunni úr
krúsinni í gær?“. Ég gleymi ekki hvað
afi hló mikið þó hann væri alltaf fyrst-
ur úr leik. Afi var ekki sá allra besti í
þessum leik en hann naut sín vel og
ekki var annað hægt en að hlæja með.
Afi var virkur í starfi KFUM. Hann
var söngelskur sem kom vel fram á
hátíðarstundum heima. Hann var
mikill íþróttamaður og ekki amaleg
íþróttaafrekin sem hann sýndi mér
þegar hann skrifaði stutta grein um
dvöl sína sem drengur í Vatnaskógi í
blað Skógarmanna. Ég var og er
stoltur af afa. Amma og afi fylgdust
vel með nýjungum. Fyrir þremur ár-
um var kominn áhugi fyrir tölvum og
skemmtilegt tækifæri fyrir mig til að
koma oftar í heimsókn. Tölva var sett
upp. Amma var fljót að læra og sendi
tugi tölvupósta fyrsta mánuðinn. Afi
skráði og prentaði bókhald fyrir sam-
eignina í Lækjasmáranum. Það var
mér dýrmætt og gefandi að fá að
hjálpa þeim. Það hlýjar og styrkir við
þessa miklu sorg að vita að afi átti
einlæga trú á Guð sem hann sýndi
með allri framkomu sinni og nú hvílir
hann hjá honum.
Pétur Ragnarsson.
Ég gerði mér grein fyrir hversu
lánsöm ég var að eiga báðar ömmur
og afa á lífi þegar ég kynntist mann-
inum mínum sem hafði ekki verið jafn
heppinn. Ég átti ömmur og afa og
meira að segja ömmu- og afasystur að
í mínum uppvexti og vináttu þeirra
allra fram á fullorðinsár. Það er því
með söknuði sem ég kveð hann Einar
afa minn en ég er líka full þakklætis
fyrir að hafa átt hann að í þessi ár.
Ég á margar yndislegar minningar
um hann afa. Sérstaklega hlýjar eru
mér minningarnar frá sumarbústaða-
ferðum með afa og ömmu á Reyni-
völlum. Það var dýrmæt upplifun að
fara með ömmu og afa upp í sum-
arbústað og njóta ástar og umhyggju
þeirra samfellt í heila viku. Frá sum-
arbústaðnum fórum við í styttri ferðir
og skoðuðum náttúruna og á kvöldin
var spilað.
Það var gaman að ræða við afa,
hann hafði ákveðnar skoðanir, sér-
staklega þegar kom að kristindómi og
pólitík. Það var einnig gott að leita til
hans. Ég man hvað hann tók mér vel
þegar ég bað hann um aðstoð við
gjaldkerastarfið hjá Kristilegum
skólasamtökum og hann tók að sér að
endurskoða bókhaldið.
Afi var mikill KFUM maður og í
þeim félagsskap á ég ófáar minningar
um hann. Þar mætast allar kynslóðir
og njóta þess að vera saman. Mér er
minnistætt samtal við afa eftir sam-
komu þar sem yngri kynslóðin spilaði
undir með rafmagnsgítar, bassa og
trommum. Afa fannst þetta ágætis
tilbreyting nema hvað varðaði uppá-
halds sálminn hans „Fögur er foldin“.
Ég veitti þessum sálmi eftirtekt og
hef haft mikið dálæti á honum síðan.
Hann minnir mig alltaf á afa. Ég söng
hann yfir þegar ég hugsaði til afa í
veikindum hans og þegar ég heyrði að
hann væri búinn að kveðja. Textinn 2.
versins á vel við:
Kynslóðir koma,
kynslóðir fara,
allar sömu ævigöng.
Gleymist þó aldrei
eilífa lagið
við pílagrímsins gleðisöng.
(Matthías Jochumsson.)
Síðasta línan í fyrsta erindinu ómar
einnig í huga mér því nú veit ég að afi
er í paradís með sigursöng.
Elsku amma, mamma, Didda
frænka og móðursystkini mín, ég bið
góðan Guð að styrkja ykkur.
Dóra Guðrún.
Einar, mágur minn, var einn hinna
mestu öðlinga, sem ég minnist, einn
hinn bezti og ljúfasti drengur. Ætíð
var hann hreinlyndur og góðvildin
sjálf, hverjum sem var að mæta. Trú-
lega sótti hann þar ekki sízt til móður
sinnar og tengdamóður minnar. Hún
var einhver mesti drengskaparmað-
ur, sem ég hef kynnzt. Þær sögur
heyrði ég fyrst af Einari, að hann
hefði þegar á barnsaldri haft óvenju
mikla og fagra söngrödd. Helga,
mágkona mín og þær systur, minnt-
ust þess gjarna, hversu gaman hefði
verið að heyra til hans, þegar hann
var kúasmali Ólsara. Kúareksturinn
fór ekki fram hljóðalaust, heldur
fengu blessaðar kýrnar fegursta
konsert.
Þau systkin, börn prestshjóna í
Ólafsvík, voru fimm. Einar var þriðja
barn. Þröngt mun hafa verið í búi hjá
prestshjónum eins og öðrum, á þeim
árum. Það kostaði nokkuð, að koma
fimm börnum til þroska og mennta.
Berklaveiki var landlæg í þorpinu,
eins og víðar. Grunur minn er sá, að
nokkur óhreysti og kröpp kjör hafi
valdið, að Einar var ekki settur til
langskólanáms, sem kallað var. Hann
var hins vegar mjög ungur, ráðinn
sendill til Eimskipafélagsins í
Reykjavík. Og þar vann hann alla
starfsævi sína, vann sér traust og vin-
sældir og óx upp til trúnaðarstarfa
með árum.
Þá sögu heyrði ég snemma, að
móðurbróðir hans, Magnús Thorla-
cíus, hæstaréttarlögmaður, hefði far-
ið með Einar á fund Péturs Á. Jóns-
sonar óperusöngvara og viljað koma
honum til söngnáms. Einar mun þá
enn hafa verið tæplega tvítugur, og
svo fór, að Pétri þótti hann of ungur,
en vildi fá hann til sín síðar. Af söng-
námi varð þó aldrei, því að Einar var,
fyrr en varði, orðinn fjölskyldumaður.
Ferill hans markaðist því snemma af
brauðstritinu annars vegar og hins
vegar af því, að hann var kristinn
maður frá hjartarótum og fram í fing-
urgóma. Prestur varð hann ekki að
embætti, þótt ættmenn hefðu óskað
þess. En hann var prestur og þjónn
Jesú Krists í orði og verki alla daga
sína. Það sást í dagfari hans. Og það
mátti sjá í því söngstarfi, sem hann
lagði lið í KFUM og í söfnuði sínum
og sókn, en hógværðin og lítillætið
voru ætíð söm. Hann var aldrei spar á
liðveizluna, þar sem hann gat að kom-
ið. Með söknuði er hann kvaddur. Það
var fjársjóður að þekkja slíkan mann
og vera honum tengdur. Hann átti
góða heimvon. Drottni sé þökk. Hann
heyri nú bænir hans fyrir ástvinum
og öllu því, sem honum var kært.
Guðm. Óli Ólafsson.
Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta, sá er
gistir í skugga Hins almáttka, sá er segir
við Drottin: ,,Hæli mitt og háborg, Guð
minn, er ég trúi á!“
Drengskaparmaðurinn Einar
Thorlacius Magnússon mágur minn
er fallinn frá rúmlega áttræður að
aldri. Ofanrituð upphafsorð í 91. Dav-
íðssálmi komu í hugann þegar mér
var sagt frá andláti Einars. Hann
kaus blessun inn í líf sitt með því að
gjöra Hinn hæsta að athvarfi sínu.
Trúmennska var aðalsmerki hans.
Það eru mikil forréttindi að fá að
verða samferða slíkum manni. Hann
var heilshugar í trú sem verki. Hann
var sannur maður. Heiðarleiki og
hæverska einkenndi allt hans líf.
Þjónustu sína við Krist innti Einar
af hendi með alúð um meira en hálfr-
ar aldar skeið. Hann hafði fallega
söngrödd og mér fannst notalegt að
sitja við hlið hans í kirkju. Einar
komst næst því af öllum að ganga mér
í föðurstað.
Einar var oft kankvís og gaman-
samur hvort sem var við taflborðið
eða í öðrum leik. Þegar hann hallaði
sér stundum eftir matinn átti ég þá
smápolli það til að fjötra fætur hans
með bómullartvinna. Einari tókst
alltaf að slíta sig lausan.
Kærleikur og gleði geislaði frá Ein-
ari. Einfalt svar í símann: „Já komdu
nú blessaður“ geislaði svo sannarlega
af kærleika.
„Það er nú ekkert miðað við hvað
ég er þakklát fyrir að hafa átt svona
góðan mann.“ svaraði systir mín þeg-
ar ég minnist á erfiðleika hennar
stuttu fyrir andlát Einars. Hann var
mjög ástríkur fjölskyldufaðir.
Í kapellunni í Vatnaskógi eru letr-
uð orðin: „Skapa í mér hreint hjarta ó
Guð og veit mér nýjan stöðugan
anda.“ Hjartalag Einars var hreint.
Drottinn gaf honum af anda sínum.
Jesús sagði: „..hver sem lifir og trú-
ir á mig mun aldrei að eilífu deyja.“
Einar lifði lífi sínu Kristi. Samkvæmt
fyrirheiti heilagrar ritningar hlýtur
hann nú að gjöf morgunstjörnuna.
Á kveðjustundu er mér efst í huga
virðing og þakklæti fyrir allt sem
Einar var mér.
Guð blessi minningu Einars og
styrki ástvini hans.
Helgi V. Guðmundsson.
Í virðingu og þökk kveðja KFUM
og KFUK á Íslandi Einar Thorlacius
Magnússon, sem var einstaklega ljúf-
ur og trúfastur félagsmaður.
Einar kynntist ungur KFUM og
varð félagsmaður frá unglingsárum
og var alla tíð virkur félagsmaður.
Einar var alinn upp á trúuðu heim-
ili ásamt systkinum sínum og hann
átti lifandi trú á frelsara sinn Jesú
Krist og alla ævi bar hann frelsara
sínum vitni á sinn hógværa og hlýja
hátt. Hann tók þátt í starfi félagsins á
marga vegu og ræktaði samfélagið
eins lengi og hann gat. Hann gegndi
ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagið
og sat í stjórn þess um tíma. Í fjölda-
mörg ár kenndi hann við sunnudaga-
skóla KFUM og KFUK við Amt-
mannsstíg og fylgdi honum heill
hópur af börnum ásamt hans eigin.
Hann hafði góða söngrödd og hafði
ánægju af því að syngja og söng með
blönduðum kór KFUM og KFUK til
margra ára. Leikskóli félagsins sem
lengi var til húsa í Langagerði 1 naut
kunnáttu hans í bókhaldi en hann sá
um það í mörg ár. Þegar aldurinn
færðist yfir og heilsan tók að bila hélt
hann áfram að starfa í ríki Guðs.
Hann bað fyrir félaginu og allri starf-
semi þess. Ég veit að hann hitti
nokkra vini sína í KFUM-húsinu við
Holtaveg á mánudögum til að sinna
fyrirbænaþjónustu. Fyrir þá þjón-
ustu verður seint fullþakkað.
KFUM og KFUK hafa mikið fyrir
að þakka að hafa átt Einar Thorlacius
Magnússon að félaga og samstarfs-
manni. Einkunnarorð KFUM eiga
vel við hann „Allir eiga þeir að vera
eitt“ Jóh.17.21.
Við biðjum Guð að blessa Petrínu,
börn þeirra og fjölskyldur.
Guð blessi minningu Einars Thor-
laciusar Magnússonar.
F.h. stjórnar KFUM og KFUK
Kristín Sverrisdóttir.
Með Einari Th. Magnússyni er
genginn sannur heiðursmaður sem
ég þakka fyrir að hafa kynnst og um-
gengist.
Einar var heilsteyptur maður, ein-
lægur og áreiðanlegur. Kristin trú
hans var bjargföst og samofin öllu lífi
hans. Á lífsleiðinni þurfti hann að tak-
ast á við ýmis áföll en hvikaði aldrei
frá þeim lífsgrundvelli sem hann
byggði líf sitt á frá unga aldri, frels-
aranum Jesú Kristi.
Það var ánægjulegt að kynnast
honum þegar ég var kjörinn í stjórn
KFUM í Reykjavík ungur að árum og
gott að eiga þau hjónin að allt fram á
þennan dag. Sérstaklega var uppörv-
andi nú seinni árin þegar Einar og
Peta komu til gömlu kirkjunnar sinn-
ar, Grensáskirkju, en þangað sóttu
þau reglulega meðan heilsa Einars
leyfði. Aldrei bar skugga á í sam-
skiptum okkar og að leiðarlokum
þakka ég Einari alla góðvild hans í
minn garð og brennandi áhuga hans á
málefni Guðsríkis.
Við söknum og þökkum og fögnum
því sem við eigum í vændum en Einar
er orðinn þátttakandi í hinni eilífu
jólagleði, laus við þraut og þjáningu.
Blessuð sé minning Einars Th.
Magnússonar. Megi trúarvitnisburð-
ur lífs hans og bjargföst von vera okk-
ur öllum fyrirmynd.
Ólafur Jóhannsson.
Hann Einar Th. Magnússon var
yndislegur maður, hvers manns hug-
ljúfi, þægilegur í viðmóti, hlýr og
nærgætinn. Hann var maður sem
gott var að leita til, afar traustur og
innilegur. Maður sem kunni að
hlusta. Hann var hreint ekki skoðana-
laus, var ákveðinn en fór snyrtilega
með það.
Hann var viðkvæmur, næmur,
skilningsríkur og sanngjarn, sam-
vinnuþýður og liðlegur í öllum sam-
skiptum og samstarfi, áhugasamur
og umhyggjusamur, uppörvandi og
þakklátur. Þá var hann hreinskiptinn
á sinn ljúfa og fágaða hátt, samvisku-
samur og heiðarlegur. Eftirsóttur var
hann til vinnu og samstarfs enda hús-
bóndahollur svo af bar og drengur
góður í alla staði.
Ekki er hægt að hugsa sér betri
mann til vinnu, samninga eða sam-
starfs. Umfram allt var hann einlæg-
ur trúmaður. Fagnaðarerindið um
Jesú Krist var honum allt. Kom það
ríkulega fram í umhyggju hans og
áhuga fyrir velferð fjölskyldu og vina,
samherja og samferðamanna.
Það var gott að vita af Einari Th.
Magnússyni og fá að vera honum
samferða.
Góður Guð blessi fjölskyldu hans
og vinum bjartar minningar um góð-
an og heilsteyptan mann.
Sigurbjörn Þorkelsson.
Einar Th. vann mest af sinni starfs-
ævi hjá Hf. Eimskipafélagi Íslands.
Þegar ég hóf störf hjá Eimskipafélag-
inu hitti ég fyrir Einar Th. Hann var
einn þeirra traustu manna, ljúfur og
dagfarsprúður með afbrigðum. Hann
vann náið með bókhaldi og endur-
skoðendum félagsins, lengst af við
innri endurskoðun og var í forsvari
fyrir Lífeyrissjóði starfsmanna. Ein-
ar gætti þess af einlægni að unnið
væri í samræmi við þær starfsreglur
sem settar voru og hafði áhrif á
vinnutilhögun og vinnubrögð.
Fyrirtæki mótast af þeim einstak-
lingum sem hjá því starfa. Ímynd
Eimskipafélagsins einkenndist af
trausti og heiðarleika. Einar átti
drjúgan þátt í að skapa þá ímynd.
Ég við að leiðarlokum þakka Ein-
ari samfylgdina og sendi fjölskyldu
hans mínar innilegustu samúðar-
kveðjur.
Þórður Magnússon.
Við fráfall Einars Th. Magnússon-
ar kemur mér í hug eftirfarandi er-
indi úr minningarljóði eftir Jónas
Hallgrímsson:
Gráti því hér enginn
göfugan föður,
harmi því hér enginn
höfðingja liðinn.
Fagur var hans lífsdagur,
en fegri er upp runninn
dýrðardagur hans
hjá drottni lifanda.
Hér er vissulega höfðingi kvaddur
með fagra lífsdaga að baki. Einar var
ljúfmenni og það var gott að vera í ná-
vist hans. Kynni okkar spanna tvö
tímabil. Hið fyrra var í Grensássókn á
7. og 8. áratug síðustu aldar. Báðir
störfuðum við í kirkjunni og var Ein-
ar safnaðarfulltrúi í mörg ár og
gegndi stundum störfum meðhjálp-
ara.
Man ég vel, þegar þessi látlausi og
myndarlegi maður gekk upp að alt-
arinu og las bænirnar fyrir og eftir
messu. Bæði sungu hjónin í kór kirkj-
unnar. Eins og gengur voru fyrstu ár
safnaðarins erfið, þar eð húsnæði var
ekki fyrir hendi. Fyrst voru sungnar
messur í Breiðagerðisskóla, síðar
keypt bráðabirgðahúsnæði á Háaleit-
isbraut, meðan safnaðarheimilið var í
byggingu. Það var því fagnaðarrík
stund, þegar heimilið var vígt árið
1973. Löngu síðar reis svo hin veg-
lega Grensáskirkja. Einar var frá
barnsaldri félagi í KFUM, trúaður og
trúfastur og kirkjurækinn alla tíð.
Eftir 20 ára dvöl austur á landi vildi
svo skemmtilega til, að við Einar og
konur okkar hittumst aftur hér í
Lækjasmára 2 í Kópavogi haustið
1997 og höfum átt heima hér sl. 8 ár
með hinu ágætasta fólki. Geta vil ég
þess einnig, að hér voru fyrir þau séra
Jónas Gíslason og kona hans, Arn-
fríður Inga Arnmundsdóttir. Séra
Jónas var sóknarprestur í Grensás-
kirkju frá 1970–1973 og hér var því
fyrrum félögum og vinum að mæta.
Að mörgu er að hyggja í fjölbýlishús-
um, m.a. að velja fólk í stjórn hús-
félagsins.
Sakir mannkosta sinna og þekking-
ar á bókhaldi var Einar kjörinn gjald-
keri húsfélagsins og sinnti þeim störf-
um fyrstu árin af þeirri
samviskusemi, sem einkenndi hann
alla tíð. Einar og Petrína voru sam-
hent hjón. Þau sýndu málefnum húss-
ins og húsfélagsins mikinn áhuga,
mættu manna fyrst á fundum og tóku
ríkan þátt í uppgræðslu og viðhaldi
lóðarinnar. Með slíku fólki er gott að
vera.
Íbúar í Lækjasmára 2 þakka Ein-
ari Th. Magnússyni fyrir samstarf og
samvinnu liðinna ára og framúrskar-
andi góð kynni. Konu hans, Petrínu
Steinadóttur, fjölskyldu og vinum öll-
um sendum við okkar innilegustu
samúðarkveðjur.
Megi hann eiga sína dýrðardaga …
hjá drottni lifanda.
Guðmundur Magnússon.
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 16. DESEMBER 2005 51
MINNINGAR
REYNSLA • UMHYGGJA • TRAUST
Þegar andlát ber að höndum
Önnumst alla þætti útfararinnar
ÚTFARARSTOFA
KIRKJUGARÐANNA
Vesturhlíð 2 • Fossvogi • Sími 551 1266 • www.utfor.is
Fleiri minningargreinar um Ein-
ar Th. Magnússon bíða birtingar og
munu birtast í blaðinu næstu daga.
Höfundar eru: Ragnar Gunnarsson
og Þórir S. Guðbergsson og Rúna
Gísladóttir.