Fréttablaðið - 26.09.2004, Blaðsíða 34

Fréttablaðið - 26.09.2004, Blaðsíða 34
18 26. september 2004 SUNNUDAGUR Það er eitt að verða gleyminn og annað að verða gleymdur. Eitt er að gleyma, annað að gleymast. Þetta er Jónu Hrönn Bolladóttur miðborgarpresti ofarlega í huga þegar hún ræðir opinskátt og af einlægni um heilabilun föður síns, sr. Bolla Gústavssonar fyrrum vígslubiskups á Hólum. Það reyn- ir á að tala um jafn alvarleg og sorgleg mál sem heilabilun ást- vinar er. Tár falla. Og það er líka hlegið enda Bolli og hans fólk glaðsinna. En það er gleymskan. „Það er mikill feluleikur með þennan sjúkdóm og margt fólk þorir ekki að nálgast hinn veika, óttast e.t.v. að hann þekki það ekki eða vill fremur muna hann eins hann var, meðan allt lék í lyndi. Það er mikilvægt að gæta þess að sjúkdómurinn loki ekki hinn heilabilaða og ástvini hans inni. Þegar slíkt gerist erum við farin að hegða okkur eins og með holds- veika fólkið á tímum Jesú. Enginn vildi nálgast það nema frelsar- inn.“ Jónu Hrönn er mikið í mun að þetta breytist. Að samfélagið muni eftir fólki, þótt það sé með heilabilun. Og kannski er þeim mun ríkari ástæða að muna eftir fólki einmitt af því það er haldið heilabilun. Hinn veiki og nánustu aðstandendur þarfnast aðstoðar. „Um leið og við skiljum sjúkdóm- inn betur, minnkar ótti okkar og við náum að umgangast hinn veika á afslappaðan og þægilegan hátt.“ Elskað upp á nýtt Sr. Bolli Gústavsson nýtur mikillar virðingar í samfélaginu fyrir störf sín innan og utan kirkjunnar. Hann var prestur í Hrísey og Laufási í tæp þrjátíu ár, áður en hann varð vígslubiskup Hólastiftis. Einnig liggja eftir hann bækur og mynd- verk. Auk þess eignaðist hann og ól upp sex börn með konu sinni, Matthildi Jónsdóttur. Jóna Hrönn á fallega mynd af föður sínum. „Hann var afar sterk fyrirmynd, mikill reglumaður og aldrei heyrði ég hann bölva eða tala illa um fólk. Hann gerði afar fá mistök og var mikill sómamað- ur. Hann hugsaði líka meðvitað um sig sem slíkan, vildi vera kirkjunni og fólki sínu til sæmdar.“ Það er til marks um það líf sem hann lifði að þegar hann hætti störfum fyrir nokkrum árum átti hann ekkert í veraldlegum efnum. Hvorki hús- næði né peninga. Þau hjónin vörðu peningunum sínum í að þjóna kirkjunni. Það kostar sitt að vera alltaf með fullt hús gesta og mega ekkert aumt sjá. Og það segir sitt um fyrirmynd- ina sem hann var börnum sínum að þrjú þeirra völdu að feta í hans fót- spor hvað starfsvettvang snertir. Tvö eru prestar og það yngsta að ljúka guðfræðinámi. „Ég man eftir því sem barn og unglingur að það versta sem ég gat hugsað mér var að valda pabba vonbrigðum. Ég elskaði þennan sterka mann sem var mér fyrirmynd í öllu. Þegar hann veikt- ist varð ég að læra að elska hann ekki bara í styrkleika sínum heldur einnig í vanmættinum. Guði þakkað Fyrst varð vart við sjúkdóm sr. Bolla fyrir fimm árum, þegar hann var 64 ára. Hann fékk áfall og var fluttur á spítala. Í kjölfarið fór hann í rannsókn og niður- staðan var heilabilun. „Eftir á að hyggja held ég að hann hafi vitað hvað klukkan sló og kiknað undan vitneskjunni og álaginu sem á honum hvíldi. Þetta var skömmu fyrir jól þegar annirnar í kirkj- unni eru miklar.“ Heilabilun var fjölskyldunni ekki ókunnug, Gústav, afi Jónu Hrannar, veiktist aðeins sextugur og það reyndi mjög á sr. Bolla. „Það var pabba ofboðsleg raun. Hann tók það mjög nærri sér að horfa upp á föður sinn hrörna með þess- um hætti. Og ég man að hann sagði: Þennan sjúkdóm vil ég ekki fá.“ En lífið er nú einu sinni þannig að við veljum okkur ekki sjúkdóma. Niðurstaðan var óumflýjanleg og sr. Bolli tók örlögum sínum af stór- mennsku, eins og hans var háttur. „Mér finnst með ólíkindum hvernig pabbi tók sjúkdómnum af auðmýkt og æðruleysi. Þegar hann var að byrja að veikjast þakkaði hann Guði stöðugt fyrir það sem hann hafði gefið honum. Hann þakkaði fyrir öll þessi börn, barnabörn og tengdabörn. Þessa góðu konu, að hafa fengið að búa í Laufási og á Hólum, fengið að þjóna heilbrigður allan þennan tíma og hlotið öll þessi tækifæri. Hann þakkaði fyrir allt þetta líf.“ Og það var ekki einungis í dagsbirtunni sem Bolli þakkaði Guði sínum, hann vaknaði upp á nóttunni til að biðja og þakka. „Og það er svo merkilegt, að á meðan lífið var að ræna hann öllum sínum andlegu yfirburðum, þá þakkaði hann fyrir sig.“ Um fjölskylduna og trúna Líf Jónu Hrannar hefur breyst. Hún býr með fjölskyldu sinni und- ir sama þaki og pabbi hennar og mamma og álagið er mikið. „Það er mikið lagt á eina manneskju, eins og hana móður mína, að þurfa að hugsa um heilabilaðan mann. Og gengur reyndar ekki upp. Það er mjög mikilvægt að fjölskyldur standi saman og að ekki verði ójafnvægi í verkaskiptingu. Fjöl- skyldur geta hæglega splundrast ef ekki er passað upp á að dreifa álaginu.“ Og auðvitað er andlega álagið mikið. Jóna Hrönn segist hafa grátið meira þessi síðustu fimm ár en árin 35 þar á undan. Og hún hefur spurt sig hvort Guð sé til. „Stundum hef ég hugsað hvort ég myndi missa trúna ef ég yrði fyrir áföllum. Hvort ég myndi, ef á reyndi, halda í þá trú sem ég er að boða. Og þetta óttaðist ég þegar pabbi veiktist. Þá kom þessi skelfi- lega tilfinning yfir mig. Hann er Guðs maður, hefur alla tíð þjónað Guði af heiðarleika og sóma og svo er hann sviptur sinni andlegu getu. Það er mér því sérstakt þakkarefni hve mikill trúarvitnisburður pabbi hefur orðið mér. Í öllum sínum veikindum hefur hann sýnt meiri trúarstaðfestu en ég hélt að væri til. Þetta hefur veitt mér lífsfyll- ingu, veitt mér von og styrkt mig í trúnni.“ Lífið í dag Þó að skammtímaminni sr. Bolla sé nánast ekkert getur hann rifj- að upp liðna tíma. Hann sýnir til- finningar og þekkir sitt nánasta fólk. Hæfileikinn til að sinna daglegum verkum hefur hins- vegar máðst út hægt og bítandi. „Pabbi minn getur varla skrifað nafnið sitt lengur og það þarf raunar að hjálpa honum með alla hluti.“ Sr. Bolli getur þó enn lesið og það er bæði honum og Jónu Hrönn dýrmætt. „Ég las fyrir hann ljóð í vikunni, ljóð eftir hann sjálfan. Svo bað ég hann um að lesa ljóðið fyrir mig. Ég var skelfingu lostin þegar ég rétti honum bókina. Ég var svo hrædd um að hann gæti ekki lesið leng- ur. En hann gat lesið og hann vissi að ljóðið var eftir hann. Ég þakka fyrir að í þessari viku get- ur pabbi minn ennþá lesið.“ Það er dagamunur á fólki sem glímir við heilabilun og sr. Bolli á sína góðu og slæmu daga. „Ólaf- ur Haukur Símonarson kallaði það Græna landið í leikritinu sínu en ég segi stundum að hann sé kominn hálfa leið til himna. Þá er hann fullkomlega fjarlægur og þegar ég horfi í augun á hon- um finn ég að hann er einhvers staðar allt annars staðar.“ Nokkrir þættir fylla sr. Bolla gleði. Hann nýtur þess að sækja guðsþjónustur og tekur fullan þátt í helgihaldinu. Hann hefur yndi af að hlýða á tónlist og fer í sund og gönguferðir. Misjafnt er mannsins eðli Þegar sr. Bolli veiktist tók hann utan um Jónu Hrönn, horfði í augu hennar og tók af henni lof- orð um að hún segði honum alltaf satt. „Honum fannst mjög mikil- vægt að fá alltaf að heyra sann- leikann. Og ég lagði mig fram um að segja satt, leiðrétta ef hann ruglaði eða fór vitlaust með. En þetta er enginn leikur því ef þú ert alltaf að leiðrétta skaparðu mikinn vanmátt. Einu sinni gerðist það að við mamma sátum með honum við eldhús- borðið og ég leiðrétti hann. Þá brotnaði hann saman, grét og sagði: Er ég að verða okkur öll- um til skammar?“ Af þessu má sjá að margs ber að gæta. Jóna Hrönn segir líka að þeg- ar fólk hefur hitt þau á förnum vegi og tekið þau tali geti komið upp erfiðleikar. Það spyrji og hann svari og svarið er ekki endilega allskostar rétt. Svo eru það hinir sem veigra sér við að hitta þau og leggja lykkju á leið sína. „Það er algjörlega óréttlátt gagnvart hinum veika að fara í einhvern feluleik og ljúga til um einkennin. Það er líka óréttlátt að láta eins og viðkomandi sé ekki lengur til.“ Hún segir gesta- komum hafa fækkað. „Einstaka perlur koma enn í heimsókn og mæta pabba af óttaleysi og um- hyggju. Slíkt er ómetanlegt.“ Það er sorgleg staðreynd að gleymnir gleymast. Við sem munum getum breytt svo miklu í lífi minnissjúkra og aðstandenda þeirra. Munum það. bjorn@frettabladid.is Við gleymum oft þeim gleymnu Sr. Bolli Gústavsson greindist með heilabilun fyrir fimm árum. Jóna Hrönn, dóttir hans, lýsir hvernig líf hans og fjölskyldunnar hefur breyst. Hún segir feluleikinn mikinn og að fólk óttist að nálgast þá sem þjást af heilabilun. JÓNA HRÖNN BOLLADÓTTIR „Ég þakka fyrir að í þessari viku getur pabbi minn ennþá lesið.“ FR ÉT TA B LA Ð IÐ /G VA FYRSTU EINKENNI ERU OFT ERFIÐLEIKAR VIÐ AÐ: rata, einkum á ókunnugum stöðum muna orð sem nýlega eru sögð eða atvik nota einföld orð eða jafnvel setningar rétt lesa og skilja dagblöð og tímarit læra og skilja nýja hluti hafa stjórn á tilfinningum sínum taka réttar ákvarðanir og sjá fyrir afleiðingar gerða sinna ráða við innkaup, matargerð, fjármál og þess háttar taka á móti gestum eða fara í heimsókn til vina og ættingja SMÁM SAMAN ÁGERIST SJÚKDÓMURINN OG UM- TALSVERÐAR BREYTINGAR VERÐA Á ÁSTANDI EIN- STAKLINGSINS. málið hverfur, misjafnlega mikið og hratt áttunarleysi minnkaður áhugi ófyrirsjáanleg skapofsaköst tortryggni og ranghugmyndir svefntruflanir minnkandi líkamleg færni og viðbrögð þvag- og hægðamissir Alzheimer leiðir til hrörn- unar heilans og vitglapa Viðurkenning fyrir íslenskt mál í auglýsingum Íslensk málnefnd hefur ákveðið að veita viðurkenningu fyrir íslenska málnotkun í auglýsingum. Fyrir nokkrum áratugum voru alþekkt einkunnarorðin - af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá - í auglýsingum frá verslun þar sem m.a. fengust ávextir. Óskað er eftir ábendingum frá almenningi um góð einkunnarorð eða orðasambönd sem notuð eru í nýjum og nýlegum auglýsingum á prenti, í vefmiðlum, útvarpi eða sjónvarpi. Til greina koma hvers kyns auglýsingar þar sem möguleikar í íslenskri málnotkun eru nýttir á sérlega snjallan og smekklegan hátt í einkunnarorðum eða orðasamböndum. Tekið er við ábendingum í Íslenskri málstöð, Neshaga 16, 107 Reykja- vík, s. 552 8530, netfang: kari@ismal.hi.is. Frestur er til 31. október 2004. Stefnt er að því að veita viðurkenningu- na 20. nóvember á málræktarþingi Íslenskrar málnefndar sem verður haldið undir merkjum dags íslenskrar tungu. Góð ráð Jónu Hrannar: Virðum hinn veika Mig langar að gefa lesendum ráð í sam- skiptum við minnissjúka. Best er að rifja upp við hinn veika góðar minningar frá liðnum samverustundum, en alls ekki byrja að spyrja hann út úr deginum í dag. Það vekur vanmátt hjá hinum minnissjúka og ekki síður hjá aðstand- endum. Gætum þess líka að bera grundvallarvirðingu fyrir hinum veika, því þótt minnið sé farið þá skynjar hann kærleikann og virðinguna sem frá þér streymir. Þegar sá grundvöllur er fyrir hendi er jafnvel hægt að hlæja saman að ranghugmyndum og snúa þeim upp í góðlátlegt grín í stað þess að vera í sífellu að leiðrétta. 34-35 (18-19) helgin 25.9.2004 20:47 Page 2

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.