Fréttablaðið - 25.02.2005, Page 20
Minnisstæður opinber klofningur
varð í þingflokki Framsóknar-
flokksins í janúar árið 1993, þegar
greidd voru atkvæði um EES-samn-
inginn. Þáverandi formaður flokks-
ins, Steingrímur Hermannsson,
greiddi atkvæði á móti ásamt
nokkrum öðrum þingmönnum, svo
sem þeim Páli Péturssyni, Stefáni
Guðmundssyni og Ólafi Þ. Þórðar-
syni heitnum. Ekki kemur á óvart
að þá var núverandi þingmaður
framsóknar, Kristinn H. Gunnars-
son, einnig á móti. Hinn hluti þing-
flokksins, sem segja má að skipi
kjarnann í núverandi forustu Fram-
sóknar, fór gegn formanni sínum og
sat hjá, en öllum var ljóst að þessi
hópur var í hjarta sínu samþykkur
gerð samningsins. Þetta var fólk
eins og Halldór Ásgrímsson, Jón
Kristjánsson, Valgerður Sverris-
dóttir, Finnur Ingólfsson og
Jóhannes Geir Sigurgeirsson.
Því er þetta rifjað upp nú, rúm-
um 12 árum síðar, að segja má að í
þessari atkvæðagreiðslu hafi krist-
allast þær markalínur sem enn eru
til staðar í Framsóknarflokknum
gagnvart Evrópusamstarfi. Þessir
þingmenn endurspegluðu hver um
sig sjónarmið og viðhorf í baklandi
sínu. Þó svo að margir þessara þing-
manna séu nú horfnir af þingi lifa
viðhorfin enn meðal stuðnings-
manna flokksins þó hlutföll hafi
vissulega eitthvað breyst síðan
1993. Stóru línurnar eru enn þær
sömu. Það má raunar sjá í því að
hjásetuhópurinn, sem síðar varð
ráðandi forustuafl flokksins, hefur
verið mjög jákvæður í garð Evrópu-
samstarfs. Halldór Ásgrímsson
hefur haldið Evrópuumræðunni
vakandi, bæði í flokknum og á vett-
vangi utanríkisráðuneytisins þegar
hann var þar. Eðlilega hefur hann
hins vegar verið heftur af samstarfi
við Davíð Oddsson og Sjálfstæðis-
flokkinn. Jafnframt hafa framsókn-
armenn verið sér meðvitaðir um að
skoðanir eru skiptar í eigin röðum,
og markalínurnar úr atkvæða-
greiðslunni 1993 birtast til dæmis í
því að flokksmenn telja að ákveðið
jafnvægi felist í því að á meðan
Halldór sitji á formannsstóli sé
Evrópu-efamaðurinn Guðni Ágústs-
son í hlutverki varaformanns.
Þessi jafnvægisdans hefur nú
verið stiginn um nokkurt árabil og
framsóknarmenn hafa farið í gegn-
um mikla naflaskoðun varðandi
framtíð og möguleika EES, en ekki
tekið af skarið um hvað beri að
gera. Fyrir flokkþinginu sem hefst í
dag liggja hins vegar ályktunar-
drög, sem taka af allan vafa um
hvert flokkurinn eigi að stefna –
verði þau samþykkt óbreytt.
Drögin vilja Framsóknarflokkinn
og Íslendinga inn í ESB.
Gamalkunnugt átakaefni ólíkra
fylkinga hefur þannig verið virkjað
að nýju og talsvert púður mun
væntanlega fara í að koma því í slík-
an farveg að allir geti vel við unað.
Í ljósi nýlegra breytinga á stóla-
skipan og vegna stjórnarsamstarfs-
ins í heild er þetta kannski ekki
þægilegasti tíminn fyrir Halldór
Ásgrímsson að fá samþykkta her-
skáa Evrópustefnu. Auk þess munu
einhverjir eflaust telja að tímara-
mminn í ályktunardrögunum um
aðildarumsókn sé óraunhæfur. Í
sjálfu sér er áhugavert að þetta mál
skuli koma inn á flokksþingið með
þessum hætti, en það verður enn
áhugaverðara í ljósi þess að tvö
önnur af fjórum helstu átakamálum
þingsins virðast falla nokkurn veg-
inn á átakaásinn frá 1993, rétt eins
og Evrópumálin gera. Þetta eru
hugmyndir manna um einkavæð-
ingu Landsvirkjunar og sameiningu
orkuframleiðslufyrirtækja annars
vegar og svo salan á grunnneti Sím-
ans hins vegar. Í öllum aðalatriðum
skiptast menn í fylkingar eftir
sömu línum í þessum þremur mál-
um; Evrópumálinu, Landsvirkjun-
armálinu og Símamálinu. Þegar er
ljóst að Guðni Ágústsson og ýmsir
sem eru honum pólitískt skyldir
hafa tekið mjög djúpt í árinni með
einkavæðingu Landsvirkjunar. Þar
eru línurnar því nokkuð skýrar.
Gagnvart Símanum er það í raun-
inni Halldór Ásgrímsson sem hefur
gefið upp boltann með því að gefa út
mjög afgerandi yfirlýsingar um að
fyrri ákvarðanir um að grunnetið
verði selt muni standa. Um það eru
hins vegar miklar efasemdir og
áhyggjur, eins og kemur berlega
fram í ályktunardrögunum sem
liggja fyrir þinginu. Þar kemur
grunnnetið við sögu á einum 5-6
ólíkum stöðum og alltaf talað um að
tryggja þurfi jafnan aðgang allra
landsmanna að því og að samkeppn-
in þar sé virk. Það er einmitt sú for-
senda sem gengið hefur erfiðlega
að sýna fram á að sé til staðar,
þannig að formaðurinn mun þurfa
að sýna Kristni H. Gunnarssyni og
öðrum flokksmönnum sínum fram á
slíkt með mjög sannfærandi hætti.
Ólíkt því sem virtist fyrir
nokkrum dögum kynni því að draga
til pólitískra átaka milli fylkinga á
flokksþinginu, einkum vegna þess
að þar munu koma upp þrjú hitamál
sem flokksmenn skiptast í svipaðar
fylkingar um. Fjórða málið sem lík-
legt er til að kynda undir átök er
hinar sérkennilegu uppákomur í
Kópavogi upp á síðkastið og um-
ræðan almennt um jafnréttismál og
þá kannski ekki síst hvort vinnu-
brögð forustunnar séu í þeim far-
vegi sem þau eigi að vera. Þau mál
hins vegar eru nokkuð annars eðlis
en til dæmis Evrópumálin og lúta
sínum eigin lögmálum.
En í ljósi þess að eitt vinsælasta
orðatiltæki í umræðunni um stjórn-
mál snýst um að draga fram hve
„ein vika sé langur tími í pólitík“, þá
er óneitanlega fróðlegt til þess að
hugsa hve stuttur tími 12 ár eru
þrátt fyrir allt í pólitík – í það
minnsta þegar kemur að flokka-
dráttum í Framsókn um Evrópumál
og fleira. ■
K ofi Annan framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur að undanförnu ritað greinar í þjóðblöð víða umheim til að árétta mikilvægi samtakanna fyrir alþjóðlegt
samstarf og frið í heiminum. Ein slík birtist hér í blaðinu í gær.
Vegna stöðu Fréttablaðsins á íslenskum blaðamarkaði var vel
við hæfi að það yrði valið til að flytja boðskap framkvæmda-
stjórans til Íslendinga.
Full ástæða er til að gefa orðum Kofi Annan gaum. Að Sam-
einuðu þjóðunum er sótt frá hægri og vinstri á stjórnmálavett-
vangi. Einstrengisfullir ákafamenn í mörgum löndum vilja sam-
tökin feig. Margir bandarískir hægrimenn telja að þau séu
Þrándur í Götu nauðsynlegrar krossferðar í þágu lýðræðis og
markaðshyggju sem Bandaríkin eigi að hafa forystu um í Þriðja
heiminum. Valdastéttir í ýmsum löndum eru óánægðar með af-
skipti samtakanna af stjórnarfari sínu. Þær vilja geta farið sínu
fram án alþjóðlegs eftirlits og athugasemda. Hófsamir aðilar
þurfa við þessar aðstæður að slá skjaldborg um Sameinuðu
þjóðirnar í nafni þeirra hugsjóna sem þær voru stofnaðar um og
ekki síður í ljósi reynslunnar á alþjóðavettvangi þar sem til-
raunir einstakra ríkja og ríkjahópa til að taka sér lögregluvald
óháð alþjóðalögum hafa skapað stórkostleg vandamál.
En beint tilefni skrifa Kofi Annan er dapurlegt. Stjórnendum
á vegum samtakanna hafa orðið á margvísleg mistök. Hneyksl-
ismál hafa riðið yfir samtökin á undanförnum mánuðum. Ber
hæst uppljóstrunina um fjársvikastarfsemi í tengslum við skipti
á mat og olíu í Írak. Fólskuverk sem friðargæsluliðar Samein-
uðu þjóðanna unnu í Kongó og víðar í Afríku hafa einnig verið í
brennidepli. Það ber hins vegar að segja samtökunum til hróss í
þessum málum að á þeim hefur verið tekið af festu og myndug-
leika. Þeir sem hafa gerst brotlegir verða látnir svara til saka.
Mistök og jafnvel afglöp eru líklega óhjákvæmileg í starfi
jafn umsvifamikilla samtaka og Sameinuðu þjóðanna. En með
virku og opnu eftirlitskerfi hlýtur að vera hægt að draga úr
líkum á slíkum atvikum. Það er ljóst að Kofi Annan vill af
mikilli einlægni leggja sitt af mörkum til að alþjóðasamfélagið
og heimsbyggðin öll geti verið stolt af Sameinuðu þjóðunum.
Rökin fyrir starfrækslu samtakanna eru jafngild og í upphafi.
Án þeirra er heimurinn óöruggari og hættulegri. Allir ábyrgir
aðilar þurfa að gera sér grein fyrir þessu og leggja sitt af
mörkum til þess að vanhugsaðar atlögur að samtökunum verði
þeim ekki að fjörtjóni. Ekki er nóg að stjórnvöld ríkjanna átti sig
á þessu. Almenningur þarf líka að sýna hug sinn í verki. „Sam-
einuðu þjóðirnar munu ekki þrífast á tuttugustu og fyrstu öld-
inni nema venjulegu fólki finnist að þær séu að gera eitthvað
fyrir það sjálft,“ skrifar Kofi Annan. „Okkur verður að takast að
snúa við blaðinu í baráttunni við sjúkdóma og hungur, rétt eins
og í baráttunni við hryðjuverk, útbreiðslu gereryðingarvopna og
glæpi.“
Þetta eru orð að sönnu. Þetta eru hin stóru verkefni sem ráða
munu úrslitum um framtíðargengi Sameinuðu þjóðanna. ■
25. febrúar 2005 FÖSTUDAGUR
SJÓNARMIÐ
GUÐMUNDUR MAGNÚSSON
Boðskapur Kofi Annan á erindi við Íslendinga.
Sameinuðu
þjóðirnar eru
mikilvægar
FRÁ DEGI TIL DAGS
Í DAG
EVRÓPUMÁLIN
OG FRAMSÓKN
BIRGIR
GUÐMUNDSSON
Tónleikar á Nasa fös. 25. og lau. 26. febrúar kl.23.00
NOJAZZ ( franskur elektró-jass ) og JAGÚAR
Forsala 700.kr Miðaverð 1000 kr.
af.ismennt.is / nasa.is
Paris
Tólf árum síðar
Eins og á öðrum söfnum
Hlýhugur sá sem húsverndarmenn hafa
sýnt Laugaveginum í umræðunni um
niðurrif gamalla húsa við götuna fær
misjafnar undirtektir meðal íbúanna
(sem raunar eru ekki mjög margir).
Einn þeirra, Guðmundur Ólafsson, hag-
fræðikennari við Háskóla Íslands, sem
búsettur er á Lauga-
vegi 61, segist í
blaðagrein í gær
óttast að friðun
gömlu húsanna
muni kosta eig-
endur þeirra
stórfé eða tekju-
tap vegna kvaða
sem stjórnvöld
gætu lagt á
þá. Hann vill að borgin eða ríkið kaupi
þær eignir sem verði friðaðar. „Að öðr-
um kosti verði eigendum og íbúum við
Laugaveg heimilað að taka gjald af
vegfarendum og húsaskoðunarfólki,
eins og tíðkast á öðrum söfnum,“
skrifar hann. Kannski ekki svo galin
hugmynd. Hvað ætli menn væru til-
búnir að borga fyrir að fá að líta inn
hjá hagfræðingnum?
Tíðinda að vænta?
Skeytin fljúga á milli Páls Sigurðssonar
lagaprófessors og Sigrúnar Klöru
Hannesdóttur landsbókavarðar. Páll er
ósáttur við sparnaðaraðgerðir sem
stjórnendur Landsbókasafns gripu til
þegar í ljós kom verulegur halli á rekstri
stofnunarinnar í fyrra. Er hann raunar
ekki einn á báti í því efni því hópur
fræðimanna hefur opinberlega deilt á
safnstjórnina sem hefur svarað því til að
gagnrýnin sé byggð á misskilningi. Í gær
birti prófessor Páll enn eina ádeilugrein-
ina á safnið í Morgunblaðinu og gerir
þar fjármálastjórnina að umtalsefni.
Minnir hann á að forstöðumenn beri
ábyrgð á fjárhag stofnana. „Geta veruleg
frávik ... varðað hlutaðeigandi stjórnvöld
viðurlögum ef áminningar koma fyrir
ekki,“ skrifar hann. Og síðan lætur hann
þessi athyglisverðu orð falla: „Með fjár-
málum stofnunarinnar er nú fylgst mjög
náið af hálfu þar til bærra ríkisstjórn-
valda – og er aldrei að vita nema ein-
hverra tíðinda sé að vænta úr þeirri átt,
án þess að neitt verði fullyrt í þeim efn-
um.“ Hvað skyldi búa hér að baki?
gm@frettabladid.is
ÚTGÁFUFÉLAG: 365 – prentmiðlar RITSTJÓRI: Kári Jónasson FRÉTTARITSTJÓRAR: Sigurjón M. Egilsson og Sigmundur Ernir Rúnarsson AÐSTOÐARRITSTJÓRI: Jón Kaldal FULLTRÚI RITSTJÓRA:
Guðmundur Magnússon RITSTJÓRNARFULLTRÚI: Steinunn Stefánsdóttir AUGLÝSINGASTJÓRI: Þórmundur Bergsson RITSTJÓRN OG AUGLÝSINGAR: Skaftahlíð 24, 105 Reykjavík AÐAL-
SÍMI: 550 5000 SÍMBRÉF Á FRÉTTADEILD: 550 5006 NETFÖNG: ritstjorn@frettabladid.is og auglysingar@frettabladid.is VEFFANG: visir.is UMBROT: 365 – prentmiðlar PRENTVINNSLA:
Ísafoldarprentsmiðja ehf. DREIFING: Pósthúsið ehf. dreifing@posthusid.is Fréttablaðinu er dreift ókeypis á heimili á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Akureyri. Einnig er hægt að
fá blaðið í völdum verslunum á landsbyggðinni. Fréttablaðið áskilur sér rétt til að birta allt efni blaðsins í stafrænu formi og í gagnabönkum án endurgjalds. ISSN 1670-3871
LESTU GREININA Á VISIR.IS
OG SEGÐU SKOÐUN ÞÍNA