Fréttablaðið - 20.08.2005, Side 24

Fréttablaðið - 20.08.2005, Side 24
24 20. ágúst 2005 LAUGARDAGUR Gri›asta›ur úr jör›u Vi› Skri›uklaustur er smám saman a› ver›a til ein- stæ› mynd af íslensku klaustri á sí›mi›öldum. Sú mynd gæti a› ‡msu leyti gerbreytt hugmyndum manna um starfsemi klaustra hér á landi á fyrri tí›. Hallgrímur Helgi Helgason tala›i vi› Steinunni Kristjánsdóttur fornleifafræ›ing. Neðan við bæinn Skriðu íFljótsdal hefur síðustusumur verið að opnast ný sýn á fortíð okkar. Þar hefur al- þjóðlegur hópur fornleifafræð- inga undir stjórn dr. Steinunnar Kristjánsdóttur unnið að því að grafa upp rústir klausturs sem hér var stofnsett árið 1493 og starfaði næstu 50 árin til siða- skipta en var þá lagt af. Þar sem menn vissu lengstum ekki betur en væri slétt tún er að koma í ljós stærðarinnar miðaldaklaustur; 1200 fermetra kerfi bygginga með klausturkirkju, vistarverum, kapellu, matsal og eldhúsi, sjúkra- húsi og kirkjugarði svo eitthvað sé nefnt. Þessar byggingar eru um leið að breyta viðtekinni mynd af bæði gerð klaustra á Íslandi og þeirri starfsemi sem þar fór fram. Hér hefur verið sannkallaður griðastaður á ólgu- og ófriðartím- um í sögu þjóðarinnar. Hin ósýnilega Íslandssaga „Það hefur verið vani í sagnfræði okkar til skamms tíma að beina at- hyglinni helst að höfðingjum og valdastéttum,“ segir Steinunn. „Hópar eins og sjúklingar, fátæk- lingar, smábændur og konur, þeir hafa hins vegar orðið útundan. Það hefur ekki þótt svo mikilvægt að eyða bleki á fátæklingana. Á síðari árum hafa sjónarmið þó verið að breytast með tilkomu örsögunnar og hinnar félagslegu sögu af al- þýðu landsins. Þá er ekki lengur verið að rekja sögu „stóratburð- anna“ heldur skoða aðra þætti og daglegt líf almennings.“ Klaustur á Íslandi tilheyrðu ýmist reglu heilags Benedikts eða Ágústínusar. Ágústínusarklaustrin voru heldur lausari undan ströngu bænahaldi og þar gafst meira svig- rúm til að sinna þáttum eins og að- hlynnningu sjúkra og fátækra. Þar var jafnvel stundað skólahald fyr- ir utanaðkomandi. Á Skriðu- klaustri var til dæmis slíkt „ytra skólahald“ áreiðanlega rekið í ein- hverjum mæli. Í reglum heilags Benedikts um klaustur segir að munkar skuli taka á móti gesti eins og þar væri Kristur á ferð. Þeir eigi að fagna honum í allri auðmýkt bæði með bænum og beina. Sérstaka um- hyggju skyldi sýna fátæklingum og pílagrímum því að í þeim öðr- um fremur væri tekið á móti Kristi. Þvílíkt viðmót á þrautatím- um hefur auðvitað dregið að sér mikinn fjölda þurfandi fólks. Þegar hefur fundist fjöldi grafa víðs vegar um klaustur- svæðið. Mörg beinin eru illa farin vegna sjúkdóma, beinbrota og áverka hverskyns og ljóst að ýms- ir krankleikar og mein hafa hrjáð viðkomandi. Hér hafa margir aumir og sárir leitað lækninga og huggunar. En einnig höfðingjar og efnafólk sótti í klaustrin. Þetta var allajafna svonefnt próventu- fólk. Það lagði klaustrinu til nokkurn styrk eða próventu og í staðinn var beðið fyrir því allt til efsta dags. Síðan fékk það kannski legstað í klaustrinu sjálfu, jafnvel í kirkjunni. Tengd evrópskri hefð „Þegar rætt hefur verið um klaustur á Íslandi höfum við haft tilhneigingu til að sjá fyrir okkur munka að biðjast fyrir í moldar- kofum,“ segir Steinunn. „Sú mynd er dálítið greipt í vitund okkar. Um leið hefur verið ýtt undir þá hugmynd að við Íslendingar höf- um alla tíð verið svo sérstakir, hér hafi allt verið með öðrum hætti en annars staðar. En svo kemur bara allt annað í ljós. Klaustrin voru al- þjóðlegar stofnanir og reist og rekin alls staðar eftir nánast sömu forskrift.“ Steinunn kom að þessu verki fyrir hvatningu heimamanna. Þá fýsti að vita hvar klaustrið hefði staðið, því það var hreint ekki vit- að með vissu. „Þá töldu menn að klaustrið hefði staðið ofar í land- inu, nærri bænum sjálfum. Mig langaði hins vegar að kanna svæð- ið fyrir neðan, þar sem gamla kirkjan stóð áður. Enda eru kirkj- ur alltaf hluti af evrópskum klaustrum. Þar var að vísu bara sléttað tún og engin sýnileg um- merki klausturs. Við jarðsjár- rannsóknir þar komu hins vegar strax í ljós greinilegar bygginga- rústir á 1200 fermetra svæði rétt undir yfirborðinu. Við ákváðum að gera lítinn tilraunaskurð; og þá reyndust rústirnar liggja ofan á gjóskulagi frá árinu 1477. Hér var því gríðarstór bygging frá því skömmu eftir þann tíma.“ „Síðar fengum við úthlutað úr Kristnihátíðarsjóði og gátum haf- ið uppgröft sumarið 2002. Enn var þó efast um þetta verk og við ef- uðumst líka um það sjálf. Svo árið 2003 kom kirkjugarðurinn í ljós og byggingarnar í kring. Árið 2004 var loks engin spurning leng- ur um að þetta væri klaustrið og að það hefði gegnt þessu tiltekna hlutverki.“ Að iðja og biðja „Hingað til hefur klaustrið verið talið fámennt, – en nú er spurning hvort við þurfum að endurskoða þá hugmynd eins og aðrar ef marka má stærð og umfang klaustursins,“ segir Steinunn. Yfir klaustrinu ríkti príor og síð- an hafa munkar verið um 6 hverju sinni. Þá er óljóst um fleiri ábú- endur; t.d. er ekki að fullu ljóst hverjir stunduðu lækningarnar. En þær hafa meðal annars kallað á sérlega þekkingu á lækningar- jurtum. Enda heyrði náttúrufræði til menntun klausturfólks; náttúr- an var hluti af sköpunarverki Guðs og öll þrungin merkingu. „Það er vitað að hér átti sér stað skipulögð ræktun,“ segir Steinunn. „Ýmsir hafa haldið því fram að mikið af jurtum úr ís- lenskri náttúru séu upprunnar úr klaustrunum, svo sem kúmen. Við höfum látið greina frjókorn héðan bæði fyrir og eftir klausturbygg- inguna. Á klausturtímanum hófst greinilega skipulögð ræktun hér, og þrjár af tíu tegundum sem þá voru ræktaðar voru ekki til hér á landi áður. Síðan bendir ýmislegt til þess að hjúkrun hafi verið stunduð á þessum stað meira að segja fyrir tíma klaustursins. Þessum þætti sögunnar hefur bara ekkert verið sinnt.“ Fjörbrot kaþólskunnar En hvers vegna rís klaustur svo seint á Austurlandi, þegar klaust- ur í öðrum landsfjórðungum risu mörg hundruð árum fyrr? „Ég gæti trúað að ástæður þess séu margþættar. Ef við horfum á Ísland þá voru flest klaustrin stofnuð hér á 12. og 13. öld. Síðan voru aftur stofnuð klaustur í lok 15. aldar. Hliðstæð þróun var í öðrum löndum, nema bara svolítið fyrr; þar risu fyrstu klaustrin á 10., 11. og 12. öld og síðan aftur rétt fyrir siðaskipti. Þetta gæti bent til þess að mönnum hafi þótt ástæða til að styrkja stofnanir kaþólsku kirkjunnar gegn aðvíf- andi ógn. Þetta er líkt og með heiðnina; margar sterkustu minj- ar um heiðnina eru frá því rétt fyrir kristnitöku, þegar hún átti hvað helst í vök að verjast.“ En nú skellur á Pestin síðari í lok 15. aldar, skömmu áður en klaustrið hér er stofnað. Getur það líka hafa ýtt undir stofnun klaustursins hér? „Mér finnst það ekki ólíklegt. Hér á Austurlandi var ekkert klaustur lengi vel. Ég vil meina að það hafi hreinlega verið orðin til þörf á því. Þetta hefur verið afar stór stofnun og skipt verulegu máli, a.m.k. hér í fjórðungnum. Við sjáum það bara á byggingunum, þær hafa verið einir 1200 fermetr- ar á tveimur hæðum. Kirkjan sjálf er a.m.k. nokkur hundruð fermetr- ar. Kórinn einn er 75 fermetrar.“ Hér hefur auk kirkjunnar ver- ið kirkjugarður, klausturgarður með brunni, svefnskálar, matsal- ur og eldhús. Þar hefur einnig verið upphitað herbergi sem not- að var til læknisaðgerða. Enda hafa fundist þar lækningatól þess tíma, svokallaðir bíldar til blóð- töku og glös. Við kór kirkjunnar hefur síðan að líkingum verið það sem oft er nefnt parlatorium (sbr. parler: að tala); sérstakar vistarverur til samræðna klaust- urbræðra; en ekki var ætlast til að menn sætu á skrafi hvar sem er á slíkum stað. Kannski skiptir bakgrunnur fræðimannsins máli Fornleifauppgröftur er annars þolinmæðisverk. Er eitthvað sem rekur Steinunni áfram öðru fremur við svona verk? Einhver leiðandi hugsun eða spurning? „Ég hef bara brennandi áhuga á þessu. Ég er kannski svona of- boðslega tengd mínu áhugasviði. En ég hef tekið eftir því, og kannski er það að framkallast betur með þessum póstmódern- isma og örsögu á síðari árum, að ég hef sífellt meiri áhuga á því sem er síður sýnilegt. Ég fékkst við sambærileg verk í doktors- verkefninu mínu þar sem ég kannaði vísbendingar um kristni- töku almennings í gegnum forn- leifar. Kristnitakan hefur hingað til nánast eingöngu verið skoðuð í gegnum ákveðna valdhafa. Ég pæli oft í því hvort slík afstaða tengist bakgrunni þess sem er að rannsaka.“ „Þessi staður skilur sig ann- ars frá öðrum þar sem forn- leifagröftur hefur farið fram hérlendis vegna þess að hann er svo afmarkaður,“ segir Steinunn. „Fornleifagröftur getur oft orðið eilífðarverkefni. En hér getum við lokið verkinu af og fengið grunnupplýsingar sem hægt er að nota á mörgum stöðum öðr- um.“ Erlendir starfsmenn verkefn- isins eru styrktir af Evrópusam- bandinu. En sá styrkur er skil- yrtur styrknum frá Kristnihátíð- arsjóði. Og nú er sá styrkur að verða uppurinn. „Á næstu vikum er von á hóp erlendis frá sem mun ganga frá svæðinu svo hægt sé að skoða það. Reistir verða 50 cm háir veggir og þeir fylltir, sett við- arkurl í herbergin og svo skilti. Hins vegar verðum við að skilja talsverðan hluta svæðisins eftir ókannaðan. Það er sem sagt ein- sýnt að hætta verður verkinu nánast í miðjum klíðum nema annað komi til.“ „Mér hefur flogið í hug hvort ekki megi nota hluta fjárins vegna sölu Landsímans til að efla rannsóknir á Íslandi, líka rann- sóknir á íslenskri menningu. Einnig mætti stofna sérstakan fyrirtækjasjóð í sama skyni. Því þetta er nú einu sinni saga okk- ar,“ segir Steinunn Kristjáns- dóttir að lokum. STEINUNN KRISTJÁNSDÓTTIR OG RAGNHEIÐUR GLÓ GYLFADÓTTIR yfir einni gröfinni. Beinin bera mörg merki sjúkdóma og meina og á þessa vantaði bæði allar tennur og fæturna. UPPDRÁTTUR AÐ ÁGÚSTÍNUSARKLAUSTRI í Utstein í Noregi en klaustrið að Skriðu er sömu gerðar og það. Stökktu til Costa del Sol 24. eða 31. ágúst frá kr. 29.990 Bjóðum frábært tilboð til Costa del Sol í ágúst. Njóttu lífsins á þessum vinsælasta áfangastað Íslendinga í sólinni. Þú bókar og tryggir þér síðustu sætin og 4 dögum fyrir brottför færðu að vita hvar þú býrð. 29.990 í viku / 39.990 í 2 vikur Netverð á mann, m.v. hjón með 2 börn, 2-11 ára, í íbúð. Flug, gisting, skattar og íslensk fararstjórn. Stökktu tilboð 24. og 31. ágúst í 1 eða 2 vikur. 39.990 í viku / 49.990 í 2 vikur Netverð á mann, m.v. 2 í herbergi/stúdíó/íbúð. Flug, gisting, skattar og íslensk fararstjórn. Stökktu tilboð 24. og 31. ágúst í 1 eða 2 vikur. Síðustu sætin

x

Fréttablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.