Fréttablaðið - 11.01.2006, Síða 13
MIÐVIKUDAGUR 11. janúar 2006 13
Líkt og vant er þegar snjóar glöddust
börnin á höfuðborgarsvæðinu í
gær. Veturinn hefur nánast verið
snjólaus og því ekki hægt að bregða
sér í hefðbundna vetrarleiki með
snjókasti, snjóhúsum, snjókörlum
og -kerlingum, né heldur renna sér
niður brekkur á snjóþotum.
Þó að fá tækifæri hafi gefist til
snjóleikja fram til þessa kunnu börnin
vel til verka og báru sig fagmannlega
við leiki sína. Snjóboltar flugu í allar
áttir og líklega hefur stöku snjóhús
skotið upp kollinum.
BRUNAÐ NIÐUR BREKKUNA Snjóþotur voru
dregnar fram úr geymslum í gær.
FRÉTTABLAÐIÐ/HARI
Höfuðborgarsvæðið hvítt:
Börnin
kættust
Djúpstæður ágrenningur hefur sett
mark sitt á starf þorrablótsnefndar
Hornfirðinga í ár og segir Halldóra
Katrín Guðmundsdóttir, talsmaður
nefndarinnar, að hver höndin sé
uppi á móti annarri. „Ágreining-
urinn er þó ekki illskeyttur heldur
snýst um það að átta karlmenn af
þrettán, sem sæti eiga í þorrablóts-
nefndinni, vilja allir leika bæjar-
stjórann okkar á blótinu,“ segir
Halldóra.
Hefð er fyrir því að máttar-
stólpar samfélagsins á Höfn séu
teknir fyrir á þorrablóti Hornfirð-
inga og hefur Albert Eymundsson
bæjarstjóri oftar en ekki orðið
skotspónn þeirra sem skemmta.
„Til að freista þess að koma á friði
í nefndinni ákváðum við að leyfa
þeim öllum að taka þátt í áheyrn-
arprufu. Þriggja kvenna dómnefnd
mun svo velja besta Albertinn en
við teljum að hornfirskar konur
hafi fylgst betur með tilburðum
og kenjum bæjarstjórans en kyn-
bræður hans,“ segir Halldóra.
Áheyrnarprófið fór fram í gær-
kvöld en Halldóra vildi ekki gefa
upp hvar það fór fram og úrslit
verða ekki kunngerð fyrr en í
vikulok. - kk
Deilt um hlutverkaskipan:
Allir vilja bæj-
arstjórinn vera
BÆJARSTJÓRINN OG BÆJARSTJÓRINN
LEIKINN Hefð er fyrir því að Albert
Eymundsson sé tekinn fyrir á þorrablóti
Hornfirðinga.
Skemmti- og fræðasetur á sviði
vísinda og tækni verður að líkind-
um opnað í Reykjavík innan tíðar.
Samningur um stofnun félags
sem vinna mun að undirbún-
ingi setursins var undirritaður á
mánudag.
Kristín Ingólfsdóttir, rektor
Háskóla Íslands, Ólafur Proppé,
rektor Kennaraháskóla Íslands
og Alfreð Þorsteinsson, stjórnar-
formaður Orkuveitu Reykjavík-
ur, undirrituðu samninginn.
Frumkvöðullinn að þess-
ari hugmynd hér á landi er Ari
Ólafsson, dósent í eðlisfræði, en
að hans sögn er mikil þörf á því
að efla ímynd vísinda hér á landi
sem og annars staðar. „Að miklu
leyti snýst þetta mál um ímynd-
arsmíð. Raunvísindamenn eru
almennt frekar slakir áróðurs-
menn og það þarf að bæta ímynd
vísinda og tækni. Börn eru alin
upp við það í gegnum sjónvarps-
efni að vísindamenn séu brjál-
aðir og illgjarnir. Þessu þarf að
breyta og það er okkar von að
hægt verði að upplýsa börn um
það í tilraunahúsinu að raunvís-
indi geti verið bæði skemmtileg
og nærandi fyrir hugann.“
Skemmti- og fræðasetur á
sviði vísinda og tækni er að
finna í flestum stærri borgum
heims. Þau eru afar vinsæll
áfangastaður ungs fólks og gegna
mikilvægu hlutverki í því fræða
börn, unglinga og fullorðna um
hlutverk vísinda í lífinu.
Vonir standa til þess að hlutafé
muni hlaupa á hundruðum millj-
óna króna, en setrið á að vera allt
hið glæsilegasta. Félagið sem
stofnað verður mun leita bæði til
fyrirtækja og einstaklinga eftir
hlutafé. - mh
SAMNINGURINN HANDSALAÐUR Hafinn
er undirbúningur að stofnun skemmti- og
fræðaseturs á sviði vísinda og tækni. Er því
ætlað að auka áhuga á vísindum og tækni
og bæta ímynd greinanna.
FRÉTTABLAÐIÐ/GUNNAR
Stefnt að uppbyggingu skemmti- og fræðaseturs innan skamms:
Ímynd vísinda og tækni verði bætt