Fréttablaðið - 20.04.2006, Qupperneq 44
20. apríl 2006 FIMMTUDAGUR
Í GARÐINUM HEIMA
HAFSTEINN HAFLIÐASON SKRIFAR UM POTTAPLÖNTUR
Sánktipálían, Saintpaulia ionantha, er
líklega sú pottaplanta sem auðveldast
er að rækta og fá til að blómgast í
heimahúsum og um leið sú líklegasta
til að standa vanrækt og misskilin
einhversstaðar þar sem lítið ber á.
En sánktipálían á alla athygli og allt
gott skilið, því þegar vel tekst til getur
hún staðið sem stofustáss allt árið og
blómgast viðstöðulaust.
Þýskur barón og nýlenduherra
Hin ræktaða sánktipálía á ættir sínar
að rekja til einnar tegundar sem vex
í giljum og klettaskorum í hlíðum
Usambarafjalla í nýlendunni sem eitt
sinn hét Tanganyika en tilheyrir nú
ríkjasambandinu Tanzaníu í Austur-
Afríku. Þar var hún uppgötvuð af
þýskum baróni sem var landstjóri
í hinum þýska hluta nýlendunnar,
Walter von Saint Paul, árið 1892.
Baróninn sendi föður sínum nokkrar
plöntur heim til Þýskalands og þar
voru þær kynntar vísindunum. Í
staðinn fengu þeir feðgar þessa áður
óþekktu plöntuættkvísl nefnda eftir
sér. Í ættkvíslinni eru um 20 tegundir,
sem allar eiga sín ból í fjöllum Afríku.
Vekur móðurást
Upprunalega sánktipálían ber fjólublá
blóm, með sérkennilega holdmiklum
blómblöðum og djúpum, sindrandi
gljáa. En það kom líka í ljós við rækt-
unina að plönturnar vildu breyta sér
og fá aðra blómliti. Annað varð líka til
að auka vinsældirnar. Það var það, að
afar auðvelt var að fjölga plöntunum.
Það þurfti ekki annað en að halda
blaðstilkunum eða bút úr blaði á
rakri mold. Þá skaut það út rótum
og upp óx ný planta. Þessi eiginleiki
vakti móðurást og umhyggju hjá
fjölda fólks og fyrr en varði var búið
að stofna sánktipálíuklúbba víða um
lönd og enn í dag eru þessir klúbbar í
fullu fjöri, einkum í Breska Heims-
veldinu og í Bandaríkjum Norður-
Ameríku. Á ensku heitir sánktipálían
„African violet“.
Tók Ameríku með trompi
En á árunum eftir fyrri Heimsstyrj-
öldina, 1914-18, voru fleiri tegundir
ættkvíslarinnar komnar til sögunnar,
hver með sín sérkenni. Það sýndi sig
að auðvelt var að æxla tegundunum
saman en blendingarnir þóttu svo
sem ekkert taka frumtegundinni
fram, svo að lítið varð úr kynbótum af
þessu tagi hér austanhafs. Þegar svo
sánktipálían barst til Bandaríkjanna
um 1926 tók við henni maður af
þýskum ættum, Hermann Holtkamp
að nafni. Hann var ófeiminn við kyn-
bæturnar og hafði skýr markmið að
leiðarljósi. Það má eiginlega gera ráð
fyrir að allar þær sánktipálíur sem við
þekkjum séu frá honum komar. Holt-
kamp skapaði „sánktipálíustórveldi“
og kom sánktipálíum inn á hvert
heimili í norðanverðri Norður-Amer-
íku. Fjölskylda hans og afkomendur
halda enn uppi merkinu og árlega
koma tugir nýrra afbrigða fram og fara
í sölu frá þeim. Sagt er að amerískar
húsmæður séu snillingar í og setji
stolt sitt á að rækta fallegar sánkti-
pálíur.
Hóflegur raki og víðir pottar
Sánktipálían gerir ekki miklar kröfur.
Henni nægir að standa á björtum
stað, ekki í suðurglugga en gjarna
þar sem hún nýtur síðdegissólar.
Venjulegur stofuhiti á vel við hana og
fá hún ögn af „blóma“-áburði af og til
og ljós frá björtum lampa á veturna
má búast við því að hún standi í
blóma árið um kring. Dragsúgur, kalt
vatn og dýblaut mold eru fljót að gera
út af við hana og forðast skyldi að
bleyta blöðin mikið, heldur láta hana
draga upp volgt vatn neðanfrá í hvert
skipti sem hún er vökvuð. Sánktipál-
ían þrífst best í víðum og grunnum
pottum í loftríkri, jafnrakri mold. Er
illa við umpottun, en ungar plöntur
blómgast meira en gamlar.
Í stuttu máli:
Sánktipálía - Saintpaulia ionantha
hybr.
Ætt: Gesneriaceae / Sumargull-
sættin
Uppruni: Usambarafjöll í A-Afríku.
Notkun: Blómplanta.
Birta: Mikil birta - milt sólskin.
Kjörhiti: Stofuhiti - 18-25°C.
Vökvun: Haldið moldinni rakri, vökv-
ið neðanfrá og alltaf með volgu vatni.
Áburður: Blanda fyrir „blómstrandi“
vikulega á sumrin.
Umpottun: Getur staðið lengi í
sama pottinum. Endurnýið plönt-
urnar eftir þörfum.
Sánktipálía - góða stelpan sem
of oft er misskilin
Full búð af
nýjum vörum
PÍANÓSTILLING.IS
Kristinn Leifsson - Leifur Magnússon
S. 661-7909
Bæjarlind 6, Kóp. • s. 5347470 • www.feim.is
Opi› virka daga 10-18 og laugardaga 10-16
Gleðilegt sumar
Verðum með Bear Chair garðhúsgögnin
á sýningunni í Garðyrkjuskóla ríkisins
í Hveragerði í dag, sumardaginn fyrsta.
Sjón er sögu ríkari.
10% sýningarafsláttur
• Skúringafatan úr sögunni
• Alltaf tilbúið til notkunar
• Gólfin þorna á augabragði
• Fljótlegt og þægilegt
Húsasmiðjan - Byko - Daggir Akureyri - Áfangar Keflavík - Brimnes
Vestmannaeyjum - Fjarðarkaup - Litabúðin Ólafsvík - Parket og gólf - Rými -
SR byggingavörur Siglufirði - Rafsjá Sauðárkróki - Skipavík Stykkishólmi - Nesbakki
Neskaupsstað -Byggt og búið - Takk hreinlæti.
Heildsöludreifing: Ræstivörur ehf.