Fréttablaðið - 21.10.2007, Blaðsíða 94
Í þessari fallegu ljóðabók eru þrjú
meginþemu sem fléttast þar
saman í margþátta rímu, og áskor-
un bókarinnar felst í því hversu
stórt er spurt – þemun eru: (1)
sköpunarverkið = náttúra = móðir
= maður = guð = sköpunarverkið
(2) uppruni = fæðing = sköpun =
feigð/örlög /mörk lífs
og dauða = hringrás
(3) orð = ljóð = sköpun-
arverk. Skáldið leitar
sjálfu sér skjóls í
þessu skáldlega ríki,
leitar sátta við föður
andans og móður nátt-
úru, rýnir í sígildar
ódáðarúnir fjalls og
manns (8), veit og skil-
ur þótt fjarskinn sé
djúpur (28), vinsar
kjarnann úr heilögu
riti (59) og stendur
vörð um lifandi nátt-
úru (35), spyr hvort
hún sé feig. Göfugt
markmið, gjöfull kveðskapur.
Eru þá ónefnd ýmis önnur djásn
þar sem rödd skáldsins er bundn-
ari brag og bókviti og veikari fyrir
vikið; haglega kveðin söguljóð,
dýr sléttubönd, beittar rímþrautir,
rómantísk danskvæði og nokkur
meinhæðin óaldarljóð með hefð-
bundnum siðvöndun-
artóni; „við ofgnóttir
alls við öreigar nútím-
ans heitum“ (45). En
beinum sjónum að
fyrsta þemanu og
fylgjum því eftir
gegnum örfá kvæði:
„Ég veit, ég rata“,
ég miða líf mitt við
náttúrumörk (5) segir
skáldið í upphafs-
kvæði bókarinnar og
rammar það inn í
brag sem rímar vel
við jarðbundna nátt-
úruna ... sem síðan
lifnar óðar við í næsta
kvæði er „villiskáld úr heiðnum
sið deyr í fjallið“ (8) og gæðir nátt-
úruna mannlegu eðli sem um leið
er guðleg vera sköpuð í mannsins
mynd og móður, því að „þitt er
ríkið, faðir vor“ (72-73) og jörðin
helg þótt móðurættin (moldin) eigi
sér heiðna rót. En þótt vafi leiki á
hvor skóp hvorn, guð eða maður-
inn, og hvor sé skár ortur (20) er
uppruna mannsins að leita í fljót-
andi móðurskauti náttúrunnar
(23) þaðan sem hann kemur og fer
og (skynvilltur 23-24) fellur á kné
og lofsyngur mátt hennar (25).
Skáldið holdgerir hana síðan á ný
með „formóður vorri Lucy“ (34)
sem raunar er holdlaus og tákn
forgengileikans (mannsins/efnis-
ins) gegn eilífum draumi lifandi
jarðar.
Og skáldið óttast um móður
jörð, teikn á lofti „hvítnaði andlit
jarðar“ (26-29) og maðurinn feig-
ur sömuleiðis og tími lífsins ámóta
óviss og dauðans. Því maðurinn
hefur villst af leið „gleymd er
samleið úr suðri“ (33) og „vestræn
gildi“ (kristin siðfræði) orðin tóm
ef þeim fylgir ekki breytni að eft-
irdæmi Krists „sem vér eigum
sitthvað ólært af“ (39). Skáldið
varar við hræsni, hnefaréttinum,
valdboði frekjunnar, blindri efnis-
hyggju, ofbeldi gagnvart helgri
jörð, afhelgun andans og undan-
haldi frá boðorði vors Föður:
„Sonur þinn er...einsog sammæðra
vitund vorri“ (73).
En maðurinn ber sjálfur alla
ábyrgð, verður að treysta sjálfum
sér til að finna almættið í eigin
blóði og náttúru. „Frjósemisást“
er „fullkomleikinn sjálfur, vor
sigur á dauða“ (73) því atgangur
mannsins lifir „út yfir dys og
dauða“ (58) þótt holdið sé mold;
upprisan er á eigin ábyrgð og
bundin veikri von því í jarðvist-
inni er „sálin föl“ (45) og syndin
lævís. „Helgi“ er sömuleiðis ver-
und (sprottin af vitund) og villandi
orð ef ekki fylgir gjörð – það er
glæpur gagnvart sköpunarverk-
inu að snúast gegn því; „undarleg
sýki að sækja í það að sigra fólk
hér á jörðu“ (61).
Hámarki nær þessi samhelgun
móður, náttúru, manns og guðs í
„Fæðingarhátíð á heiði“ (66-69)
þar sem skáldið yrkir sögu Sonar-
ins upp á íslenskri heiði og býður
fylgd „hinni fegurstu mey og
móður“, og í „Sálmi efasemdar-
manns“ (72-73) þar sem Faðirvor-
ið og bókin enda í spámannlegri
spurn.
Gullfalleg bók, ort af mikilli
íþrótt, víðskyggn kveðskapur og
mikið undir en sums staðar um of.
Sigurður Hróarsson
Fallega smíðar drottinn
Valgarður Egilsson rithöfundur.
Á MÖRKUM
Valgarður Egilsson JPV
Örlög drengjanna á Breiðavík eru
flestum kunn enda tíðrædd í fjöl-
miðlum í byrjun árs. Heimildar-
myndin Syndir feðranna er saga
þessara manna og samfélagsins
sem brást.
Aðdraganda myndarinnar má
rekja til ársins 2001 þegar Berg-
steinn Björgúlfsson kvikmynda-
gerðarmaður hóf rannsókn á mál-
inu. Hann mætti hvarvetna luktum
dyrum, bæði hjá yfirvöldum og
fyrrum starfsmönnum. Þó bar
fyrrum vistmönnum öllum saman
um hrikalega atburði sem áttu sér
stað á Breiðavík á árunum 1953-
1973, þar sem 128 drengir voru
vistaðir á heimilinu, flestir á aldr-
inum 9-14 ára. Sá yngsti aðeins 6
ára. Þegar málið komst í fjölmiðla
í ársbyrjun tók myndin á sig nýtt
form og Bergsteinn fékk til liðs
við sig Ara Alexander Ergis Magn-
ússon leikstjóra og Hrönn Krist-
insdóttur framleiðanda.
Sagan er rakin í gegnum frá-
sögn fimm manna sem voru vist-
aðir þar á mismunandi tímabilum.
Hún hefst á umfjöllun Kastljóss-
ins um málið og býður síðan upp á
ferðalag sem spannar frá upphafs-
árunum til nútímans. Þar kemur
fram að vistin hafi átt að gera
unga ógæfudrengi hæfa til að
þrífast í þjóðfélagi siðaðra manna.
Raunin var hins vegar allt önnur
og í staðinn máttu drengirnir þola
gríðarlegt ofbeldi, andlegt, líkam-
legt og kynferðislegt.
Syndir feðranna dregur engan á
tálar með tilfinningalegu klámi
eða ofsafengnu fári fjölmiðlanna.
Okkur er boðið að Breiðavík frá
lofti þar sem myndir ofsafenginn-
ar náttúru gefa til kynna einangr-
unina. Og þyrluhljóð í aðflugi
vekja hugmyndir um óhug á borð
við stríð. Atburðarásin fetar beina
leið og segir söguna fumlaust með
notkun gamalla mynda og viðtala.
Áróðursmynd um ágæti Breiða-
víkur, gerð til fjáröflunar á árun-
um 1950-60, rennur kaldhæðin
samhliða frásögn um margorðað
morð á sálum saklausra barna.
Leikstjórarnir segja þó sjálfir
að markmiðið sé ekki að hengja
einhvern sökudólg. Leiðarljósið
hafi frekar verið kærleikur, mann-
gæska og nærgætni við viðmæl-
endur. Svo þeir gætu sagt sögu
sína á eigin forsendum í tilraun
sinni til að öðlast mannlega reisn.
Eins konar ferðalag til helvítis og
mögulega aftur heim. Eins og
góðri heimildarmynd sæmir spyr
hún spurninga. Var þetta mann-
vonska eða bara tíðarandinn?
Hver er samfélagsleg ábyrgð
okkar allra og samfélagsleg með-
virkni? Ásamt aðalspurningunni:
Hvernig er hægt að vera vondur
við börn? Og minnir okkur í leið-
inni á að spyrja hvernig hafa börn-
in sem minna mega sín, í dag?
Syndir feðranna er vel unnin
heimildarmynd, sem nýtur þess
tíma sem hún fékk til að þroskast.
Hún skartar dásamlegum mynd-
um Bergsteins Björgúlfssonar
sem hefur að þrautseigju og næmi
fundið leið til að segja þessa erf-
iðu sögu, ásamt einstakri sagnalist
Ara Alexanders Ergis Magnússon-
ar. Hún er kröftug og átakanleg
samfélagsádeila sem leikstjórar á
borð við hinn sænska Stefan Jarl,
Nick Broomfield og jafnvel
Michael Moore reyna einnig að
túlka. Syndir feðranna gerir
nákvæmlega það sem hún á að
gera, hún vekur af værum svefni
og heimtar svar.
Rut Hermannsdóttir
SYNDIR FEÐRANNA
Leikstjórn: Bergsteinn Björgúlfsson & Ari Alexander Ergis Magnússon
Framleiðendur: Hrönn Kristinsdóttir & Bergsteinn Björgúlfsson
Meðframleiðandi: Sigurður Gísli Pálmason, Þorvarður Björgúlfsson og Ari
Alexander Ergis Magnússon
Handrit: Ari Alexander Ergis Magnússon, Kristján Loðmfjörð
Hljóðvinnsla: Ingvar Lundberg
Tónlist: Þór Eldon
Kvikmyndataka: Bergsteinn Björgúlfsson
Klipping: Kristján Loðmfjörð
Ráðgjafi: Jón Proppé
Syndir feðranna er vel unnin heimildarmynd, sem nýtur þess tíma sem hún fékk til að þroskast. ... Hún er kröft-
ug og átakanleg samfélagsádeila sem leikstjórar á borð við hinn sænska Stefan Jarl, Nick Broomfield og jafnvel
Michael Moore reyna einnig að túlka.