Fréttablaðið - 27.10.2007, Page 16
greinar@frettabladid.is
Ég fór um síðustu helgi á ráðstefnu um hjónaband
samkynhneigðra. Þar söng Páll
Hjálmtýsson fallega um frelsið
til að elska. Það var fallegur
söngur. Það er í anda þess
jafnréttis og frjálsræðis sem
setur svip sinn á nútímann að
frelsi til ástar og umhyggju sé
sjálfsögð mannréttindi, án tillits
til trúar, kynhneigðar eða
sköpunar. Eiginlega þykir manni
það eðlilegasti hlutur í heimi að
allir standi jafnt gagnvart lögum
og siðferði og við bindum okkur
ekki á klafa bókstafstrúar, þegar
spurt er hvort fólk geti stofnað til
hjúskapar í krafti þeirrar ástar
sem það ber hvert til annars.
Engu að síður hefur þetta
vafist fyrir kirkjunnar mönnum,
sem nú hafa fallist á að heimila
blessun til staðfestrar samvistar
eftir mikið japl og jaml og fuður.
Það er spor í rétt átt. En af
hverju er ekki skrefið tekið alla
leið? Af hverju er kirkjan enn að
halda sig við þá íhaldssemi að
hjónabandið sé karls og konu?
Að samkynhneigðir séu enn
óhreinu börnin hennar Evu?
Þessir fordómar sæma hvorki
þjóðkirkjunni né nútímanum.
Hvort sem okkur líkar betur eða
ver, þá er sumt fólk skapað á
þann hátt, að það hneigist fremur
að sínu kyni en hinu kyninu.
Þetta fólk fellir ástarhug til
annarrar manneskju, karls eða
konu, án þess að mér komi það
við, hvað þá kirkjunni eða
löggjafanum. Erum við ekki öll
sköpunarverk Guðs?
Þetta þref og þessi íhaldssemi
er ennþá fáranlegri vegna þess
að hjónaböndin eru á undanhaldi,
bæði að vigt og viðgangi. Þau eru
ekki sama alvaran, ekki sama
ábyrgðin, ekki sama þungavigtin
og áður fyrr.
Langt fram eftir öldum var
algengast að foreldrar, einkum
feðurnir, réðu til um maka barna
sinna. Þá hafði það forgang að
tengja saman ættir og auð og
hjónaböndin voru nokkurs konar
innsigli á samstöðu og samheldni.
Fólk gifti sig til fjár eða félags-
legra metorða. Viðgangur
ættarinnar réði ráðahagnum.
Þessi viðhorf hafa útvatnast
með árunum. Fólk ákveður að
ganga í hjónaband vegna þess að
það telur sig elska hvort annað.
Og gerir það sjálfsagt oftast. Að
minnsta kosti meðan það gengur
upp að altarinu.
En ástin er hverful og heitin
skammvinn. Af hverjum fimm
hjónaböndum enda þrjú með
skilnaði. Oftast eftir tiltölulega
stutta sambúð.
Frelsið til að elska fær stundum
á sig mynd í fallegu brúðkaupi
ungra elskhuga. En í því brúð-
kaupi felst því miður ekki
endilega eilíf ást. Það sanna
dæmin og reynist mörgum erfitt
að þola allt sem fylgir með í
pakkanum: þola kæki og tiktúrur
makans, ganga í gegnum basl og
mótlæti, eiga skap saman, sætta
sig við breytt útlit, eta saman,
eldast saman. Já ganga til rekkju
við hliðina á sömu manneskjunni
kvöld eftir kvöld, í ár og áratugi.
Það þarf sterk bein til að þola
svona lífshlaup og það er ekki
bara undir sjálfum þér komið
heldur líka maka þínum og þegar
allt er núna á auknum hraða,
kröfurnar fleiri, hvatvísin meiri,
þá er það ekki nema hinir
þolinmóðustu einstaklingar, sem
halda þetta út.
Á hátíðisdögum er okkur tamt að
tala um að fjölskyldan sé horn-
steinn samfélagsins. En hvað
gerum við svo við þessa blessaða
fjölskyldu nema kljúfa hana í
herðar niður í vinnu og streitu og
firringu og kapphlaupi um
gerviþarfir þannig að enginn
hefur tíma til að rækta ástina sem
var kveikjan að hjónabandinu? Og
svo er fólk svipt því frelsi að fá að
elska aðra, því það hangir á klafa
heitstrenginga frammi fyrir Guði
um eilífa ást til einnar tiltekinnar
manneskju. Og sú manneskja þarf
líka að halda sitt heit. Það þarf tvo
til. Aldrei hef ég til dæmis skilið
konu mína, hvernig hún heldur
þessa sambúð okkar út, sem felst í
því að hún eldar ofan í mig, þvær
af mér og hlustar svo á mig hrjóta
á kvöldin. Það er nú allt frelsið
sem hún fær!!
Nei, auðvitað styð ég baráttu
samkynhneigðra til að fá að ganga
í hjónaband og fá sitt frelsi til að
elska. Það er þeirra sjálfsagði
réttur. En það er ekki alltaf sopið
kálið, þótt í ausuna sé komið.
Hjónabandið er ekki alltaf
endastöð þess frelsis að fá að
elska.
Frelsið til að elska
En hvað gerum svo við þessa
blessaða fjölskyldu nema
kljúfa hana í herðar niður í
vinnu og streitu og firringu og
kapphlaupi um gerviþarfir og
enginn hefur tíma til að rækta
ástina sem var kveikjan að
hjónabandinu?
T
veggja ára stormasamri valdatíð íhaldsflokksins Laga
og réttar í Póllandi, sem tvíburabræðurnir Jaroslaw
og Lech Kaczynski fara fyrir, lýkur þann 5. nóvember,
en þá hefur forsætisráðherrann Jaroslaw Kaczynski
boðað að ríkisstjórn hans muni biðjast lausnar. Það
gerist í kjölfar þess að Lög og réttur tapaði í nýafstöðnum þing-
kosningum fyrir hinum borgaralega en öllu frjálslyndari flokki
Borgaravettvangi, sem Donald Tusk fer fyrir.
Síðastliðið rúmt hálft annað ár hefur Jaroslaw verið forsæt-
isráðherra (og næsta hálfa árið þar á undan stýrði hann ríkis-
stjórninni í raun, með lepp í forsætisráðherrastólnum) en Lech
Kaczynski var kjörinn forseti Póllands skömmu fyrir þingkosn-
ingarnar 2005 og kjörtímabili hans lýkur ekki fyrr en árið 2010.
Að eineggja tvíburar væru forseti og ríkisstjórnarleiðtogi þjóð-
ar er einsdæmi í sögunni. En eftir þessi tvö ár tvíburaræðisins
í einu fjölmennasta landi meginlands Evrópu var það orðið eins
og gamall brandari, enda sýndi sig í kosningunum nú að flestir
pólskir kjósendur voru búnir að fá nóg af því.
Segja má að stefna Kaczynski-stjórnarinnar hafi einkennzt af
þjóðerniseinangrunarstefnu. Hún stýrði landinu í margháttaða
árekstra við grannríki, einkum og sér í lagi Þýzkaland og Rúss-
land. Þá átti stjórnin í stöðugum erjum við Evrópusambandið.
Þessu olli ekki sízt heimóttarleg heimssýn hinna rammkaþólsku,
rammandkommúnísku og rammþjóðernissinnuðu Kaczynski-
bræðra, sem aldrei höfðu ferðast til útlanda þegar þeir komust
til æðstu metorða.
En ekki bætti úr skák að Lög og réttur fékk tvo popúlíska
jaðarflokka til að tryggja sér meirihluta á þingi. Annar þeirra,
Bandalag pólskra fjölskyldna, er ofstækisþjóðernissinnaflokkur,
og hinn er skrautleg blanda kaþólskrar þjóðernis-íhaldshyggju
og vinstripopúlisma undir forystu hins óútreiknanlega Andrzej
Lepper. Það kom ekki sérstaklega á óvart að stjórnarflokki
Kaczynski-bræðra héldist ekki lengi á slíkum samstarfsfélög-
um. Í sumar lauk því samstarfi endanlega og þar sem flokkurinn
sá þá ekki fram á að geta sem minnihlutastjórn komið sínum
málum í gegnum þingið varð það úr að kosningum var flýtt. Þar
sem efnahagsmálin standa sæmilega og tvíburunum hefur tek-
izt nokkurn veginn að viðhalda ímynd sinni sem baráttumönnum
gegn spillingu, sem mjög er til vinsælda fallið, var ekki útséð
um að Lög og réttur héldi völdum í kosningunum. En þegar nær
dró kosningunum tók Borgaravettvangur afgerandi forystu og
þegar talið var upp úr kjörkössunum reyndist hann hafa nær
tíu prósentustigum meira fylgi en Lög og réttur. Fyrrverandi
stjórnarsamstarfsflokkar Laga og réttar duttu út af þingi.
Donald Tusk er nú að mynda tveggja flokka stjórn með hóf-
sömum bændaflokki. Tusk hefur þegar boðað að ríkisstjórn hans
muni koma samskiptunum við grannríkin og Evrópusambandið
í eðlilegt horf. Jafnframt muni hún einbeita sér að því að efla
pólskt efnahagslíf til að skapa forsendur fyrir því að þær tvær
milljónir landsmanna sem hafa yfirgefið heimaland sitt til að
freista gæfunnar vestar í álfunni snúi heim og taki virkan þátt í
uppbyggingunni. Ekki er því við öðru að búast en að þessi stjórn-
arskipti verði heillaskref, bæði fyrir pólsku þjóðina sjálfa og
tengsl hennar við vinaþjóðir innan sem utan Evrópu.
Heillaskref
Come2 Scandinavia, Vesterbrogade 17
1620 Kaupmannahöfn.
Á leið til Skandinavíu?
Við hjá Come2 Scandinavia aðstoðum þig að finna bestu verðin
á flugi, gistingu, bílaleigubíl og annarri afþreyingu.
Erum með tvær stórar og rúmgóðar íbúðir á Vesterbrogade til
leigu. Frábær lausn fyrir hópa og fjölskyldur.
www.come-2scandinavia.dk - info@come2scandinavia.com - +45 33 25 64 25
COME2 SCANDINAVIA
Ípistli í Fréttablaðinu 25. október („Nöfn segja sögu“) leggur
Þorvaldur Gylfason til að fleiri götur
verði kenndar við stórmenni þjóðar-
innar en hingað til hefur verið gert, en
leggur þó til að farið verði varlega í
sakirnar, byrjað verði á því að breyta
nafni Suðurlandsbrautar í Laxness-
braut.
Suðurlandsbraut heitir svo vegna tengsla við
Suðurlandið, til að minna á ferðir bænda og
búaliðs í kaupstað. Því til áréttingar stóð
myndastytta eftir Sigurjón Ólafsson við þá braut
þegar ég var að alast upp, það var að mig minnir
hryssa með klyfjar og fylgdi folald.
Nefndin sú sem velur nöfn á götur í borginni
hefur blessunarlega verið í tengslum við
menningu þjóðarinnar hingað til; það hefur
verið leitað til sagnaarfsins, þjóðsagna, örnefna
um landið, skáldverka. Stórmennin hafa sjálf
séð um að reisa sína minnisvarða, Halldór
Laxness með bókum sínum. Þær eru orðnar
sameign þjóðarinnar; því tel ég
réttara að láta persónu Halldórs hvíla
í friði en nefna þá heldur götur
kenndar við persónur þær sem hann
skapaði og eru hugfólgnar þeim sem
lesa bækur hans.
Á þann hátt væri jafnframt hægt að
gera almúgafólki hátt undir höfði, en
eins og lesendur Halldórs vita leitaði
hann til þess í skáldskap sínum, bæði
hvað tungutakið varðar og yrkisefni.
Þá yrðu ekki ófáar götur kenndar við
kvenmenn, en samkvæmt þinni
upptalningu telst engin þeirra í stórmenna-
flokki.
Þá væri enn hægt að halda í þá trú sem
kannski er villa, að á Íslandi ríki meiri jöfnuður
en víða um lönd. Jafnvel þótt að í sama blaði sé
fyrirsögnin „Björgólfur Thór fái hálfan Hallar-
garðinn“, þar sem ætlunin er að tekið verði af
opinberu svæði borgarbúa, þar sem þeir hafa
komið saman meðal annars til að fagna þjóð-
hátíð, hálfur garðurinn til hans einkanota, svo að
þar megi rísa safn um langafa hans sem telst í
stórmennatölu.
Höfundur er kvikmyndagerðarmaður.
Götunöfn í Reykjavík