Fréttablaðið - 27.10.2007, Page 74

Fréttablaðið - 27.10.2007, Page 74
Það er alltaf gaman að sjá þegar íslenskri tísku er hrósað á alþjóðavísu. Síðustu helgi voru á landinu bæði þau Yvan Rodic, sem er betur þekktur sem „Facehunter“, og Lauren Bastide, blaðamaður franska Elle, til þess eins að forvitnast um íslenska tísku á tónlistarhátiðinni Iceland Airwaves. Rodic tók fjöldann allan af myndum af fólki úti á götu og á tónleikum og hélt ekki vatni yfir „einstökum stíl“ Íslendinga. Blaðakonan birti nokkur myndskeið á vefnum elle.fr þar sem hún kannar nokkrar verslanir í miðbænum. „Paradís „vintage“-búðanna,“ segir Lauren um borgina okkar og útskýrir að meðan konur í öðrum heimsborgum reiði sig aðallega á Zöru og H&M séu reykvískar dömur meistarar í að blanda saman notuðum fötum til þess að skapa einstakt útlit. KronKron var lýst sem „Colette“ Íslands og augljóst var að blaðakonan var gersamlega ástfangin af öllu sem fyrir augu hennar bar. Eins skemmtilegt og það er að heyra íslenskri tísku hrósað svona óspart er ekki laust við að ég kannist ekki alveg við þessa frábæru tískuborg Reykjavík þegar ég horfi á allt þetta litskrúðuga og fallega fólk á bloggsíðu Rodics. Af einhverjum ástæðum finnst mér alltaf meirihluti þeirra sem ég sé á götum borgarinnar íklæddur flíspeysum eða þessu týpíska „hnakka“lúkki og blandast allir í einn sauðskinns- litaðan strípugraut. En glöggt er gests augað og mér fannst dásamlegt að skoða myndirnar af litskrúðugu fólki með einstakan stíl á síðu Rodics. Eitt sem mér finnst þetta þó sýna er hversu sterkur miðbærinn kemur inn sem hátískustaður. Það er ekki svo langt síðan verslanir kepptust um að flýja Laugaveginn og færa sig í verslunarmiðstöðvar í úthverfunum. Þær standa auðvitað fyrir sínu og ekkert að því að ná sér í „basics“ einmitt í Zöru eða TopShop eða hvað þetta nú allt heitir. En það sem gerðist í kjölfarið var að undanfarin ár hefur Laugavegurinn breyst til hins betra og allskyns áhugaverðar búðir hafa fest sig í sessi þar. Ferðamenn sem ganga upp og niður þessa undarlegu ósamstæðu aðalgötu okkar geta sökkt sér í stórkostlegar hátískuverslanir, auk þeirra fjölbreyttu „vintage“-búða sem auka svo sannarlega flóruna. Því segi ég húrra fyrir Laugaveginum og þeirri sköpunargrósku sem þar blómstrar. Þeir sem vilja svo skoða íslenska tísku í allri sinni einstöku dýrð geta skoðað www.facehunter.org. Tískuparadísin Reykjavík? Víða á tískusýningunum fyrir vor- og sumartískuna 2008 mátti sjá útgáfur af smóking-jakkanum sem hönnuðurinn Yves Saint-Laurent gerði frægan árið 1966. Buxnadragtin „Le Smoking“ var endursniðinn fyrir konur og öðlaðist ómældar vinsældir. Margir töldu Saint-Laurent hafa gefið konum aukin völd með því að veita þem þann valkost að klæðast fötum sem eitt sinn klæddu aðeins ríka og valdamikla karlmenn. Svarti smókingjakkinn er alltaf klassískur kvöldklæðnaður fyrir konur á öllum aldri og getur óneitanlega verið kynþokka- fullur. Hjá Dior, Ann Demeulemeester, Lanvin, Victor&Rolf og MiuMiu mátti sjá skemmtilegar útgáfur af smóking og slaufum í svörtu og hvítu.

x

Fréttablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.