Fréttablaðið - 30.03.2008, Side 14
14 30. mars 2008 SUNNUDAGUR
E
ggert hefur haft í nægu að
snúast enda tvær frumsýn-
ingar afstaðnar þessa vik-
una. Annars vegar er það
sýning á nýjum vinnustað
– Þjóðleikhúsinu – þar sem
hann leikur sitt fyrsta hlutverk í Engi-
sprettunum en hann hefur alla tíð starf-
að hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Kvik-
myndin Stóra planið var svo frumsýnd
á föstudaginn var þar sem Eggert segist
hafa unnið með undrabörnum og krafta-
verkafólki. Áður en undrabörnin eru
rædd frekar skyggnumst við aðeins í
æsku, gelgju og önnur skeið.
Fyrstur í blómajakka
Eggert hefur að vísu mest lítið um æsku
sína að segja. Hann hafi verið fremur
venjulegt barn og honum er lítt minnis-
stæð æskan. Hugðarefnin voru bara að
hoppa og skoppa. „Orkumikill? Jú, jú,
en það fór nú fljótlega af mér. Ég hef
alltaf litið á mig sem frekar latan og þá
meina ég blóðlatan. Ég hef náð að þróa
með mér djúpa leti með árunum.“ Egg-
ert ólst upp í hjarta Reykjavíkur og
sögur herma að þegar komið var í Haga-
skóla hafi hann verið aðaltöffarinn og
sá fyrsti til að ganga í blómajakka sem
hann var dauðöfundaður af. „Jú, það
passar. Ég man vel eftir þessum jakka
– afar hallærislegur. Gulur, úr gervi-
silki, með bleikum og ljósbláum blóm-
um og stuttum kínakraga. Ég keypti
hann af Jónasi R. Jónassyni sem þá var
í hljómsveitinni Flowers en hann hafði
hann keypt í London. Þetta var reyndar
eina hippadressið sem ég átti því svo
fór maður út í þann geira að vera meira
bara í belgjagerðarúlpum – þá þóttist
maður vera í einhverri andtísku – en
auðvitað var það viss tíska líka.”
Elti súmmarana
Næstu fréttir sem af Eggerti berast eru
á þá leið að hann sé orðinn arfasnjall
billjarðspilari, sé mikið á Billanum,
hangi með Súmmurum og öllum að
óvörum – birtist hann fólki í Sinfóníu-
hljómsveit Íslands, spilandi á klarínett.
„Jú, ég var mikið á Billanum og var held
ég slarkfær en nei, það eru nú ýkjur ef
einhver segir mig hafa verið efni í
atvinnubilljarðleikara. Á þessum árum
var ég staðráðinn í að fara í eitthvert
listnám og hengdi mig því óskaplega
lotningarfullur og fullur aðdáunar á
eldra listafólk. Ég hreifst af þessu fólki
og sýn þeirra á lífið, fannst eitthvað
fallegt við hugarfar þess. Það var nú
ástæðan fyrir því að einhverjir vissu af
mér eltandi þetta lið. Um þetta leyti, 18-
19 ára gamall, byrjaði ég svo í tónlistar-
náminu og var í því talsvert lengi –
nærri tíu ár og jú, ég var stundum
varadekk hjá Sinfóníuhljómsveitinni.
Ég hélt satt best að segja að mín örlög
yrðu að vera tónlistarmaður.“
Dúddi hafði hreint hjarta
Eggert hélt til London til frekara náms í
klarinettuleik en þegar hann kom heim
rétt fyrir 1980 datt hann inn í óvænt
verkefni sem var okkar ástkæra Stuð-
mannamynd – Með allt á hreinu. „Þá
hófst nýtt skeið. Ég fór að semja músík
í leikrit og leika og ég veit hreinlega
ekki hvernig þetta gerðist. Allt í einu
vaknaði maður og hugsaði: Já, allt í lagi.
Ég er þá væntanlega orðinn leikari.
Þráinn hringdi svo í mig, líklega eftir að
hafa séð Með allt á hreinu, og fékk mig
til að leika Þór í Nýju Lífi og þetta vatt
upp á sig.“ Þór er ekki síður eftirminni-
legur í hugum Íslendinga en Dúddi og
menn hafa ekki síður þörf fyrir að rifja
upp samræður úr þeim myndum við
Eggert en talnalásinn að bláa reiðhjól-
inu. „Ég kem nú yfirleitt af fjöllum
þegar fólk fer með þessar samræður og
finnst ég jafnvel ekki hafa séð mynd-
ina. En eftirlætiskarakter... ég veit það
ekki. Ég hafði gaman af Dúdda og hans
hreina hjarta og barnalegu einlægni.
Þór, sá borubratti lúser, var líka
skemmtilegur.“
Myndmál á kostnað textans
Margt hefur breyst frá því að Eggert
byrjaði að leika. Jafnt í kvikmynda-
bransanum sem og í leikhúsheiminum.
Eggert, sem sjálfur segist vera af bóka-
kynslóðinni, segir að vissrar togstreitu
gæti milli sinnar kynslóðar og þeirrar
sem ólst upp framan við vídeótækin og
sjónvörpin. „Í leikhúsinu eru að eiga
sér stað viss kynslóðaskipti að ég held.
Menn leiðrétta mig bara ef þetta er vitl-
eysa en ég hef á tilfinningunni að það sé
að verða svolítið rof með yngri kynslóð-
inni. Hún skilur myndmálið mun betur
en við bókakynslóðin og les það eins og
Andrésblöð. Þess vegna er togstreita í
leikhúsinu, annars vegar á milli textans
og hins vegar sjónræna leikhússins.
Okkur gömlu skröggunum finnst yngri
kynslóðin valta yfir textann eins og
hann skipti engu máli og setur upp, jú,
flottar sýningar en maður spyr sig:
Hvar er leikritið? Þetta á eflaust eftir
að breytast þegar þessi kynslóð fer að
skrifa sín eigin leikrit. En þetta er
deigla sem vonandi kemur eitthvað
skemmtilegt út úr.“
Chaplin er meistarinn
Ólíkt mörgum öðrum leikurum er það
lítið mál fyrir Eggert að fólk flokki
hann fyrst og fremst sem gamanleik-
ara. „Já, ég gengst alveg við því.
Dramatísk hlutverk geta átt vel við mig,
en það fer alveg eftir því hvernig þau
eru. Ég held til dæmis að mér sé ekki
ætlað að leika mikla Shakespeare-harm-
leiki en aftur á móti gæti ég trúað því að
ég gæti leikið Tsjekhov sæmilega.“ Er
hægt að læra að verða gamanleikari –
læra að láta fólk hlæja? „Nei, það held
ég ekki. Að geta látið fólk hlæja liggur
að mínu mati fyrst og fremst í afstöðu
➜ VISSIR ÞÚ AÐ...
Mér þótti
fátt betra
en að geta
komið
fólki til að
hlæja. Og
það upp-
götvaði ég
snemma.
Maður
þurfti
auðvitað
að stækka
sig svolítið
með því að
vera fynd-
inn.
Kómísk afstaða til lífsins
Hann gekk inn í leikhúsheiminn inn um aðrar dyr en flestir leikarar og á að baki áratugsnám í klarínettuleik í stað leiklist-
arnáms. Dúddi og bláa reiðhjólið voru upphafið að leikaraferli sem inniheldur meðal annars margar af okkar bestu gaman-
myndum. Stundum á nóttunni er hringt í Dúdda og hann beðinn um að segja hvernig lásinn á bláa reiðhjólinu var. Á daginn er
hann hins vegar að leika og nýjasta kvikmynd hans var frumsýnd nú um helgina – Stóra planið. Júlía Margrét Alexandersdóttir
ræddi við Eggert Þorleifsson um nýjan vinnustað, bíómynd og vídeókynslóð.
...Eggert Þorleifsson er bróðir
Þórhildar Þorleifsdóttur leikstjóra.
...Eggert Þorleifsson er með mjög
græna fingur og finnst fátt betra
en að vera með rassinn upp úr
beðum í garðinum hjá sér.
...Eggert Þorleifsson ræktar þá
helst bara fjölær blóm.
...Eggert Þorleifsson er fæddur
18. júlí 1952 og er því krabbi en
fólk í því stjörnumerki þykir mikil
náttúrubörn.
...Eggert Þorleifsson er ákaflega
nákvæmur í vinnu og þakkar
hann tónlistarnámi sínu það að
nokkru leyti.
manns til lífsins. Að geta séð lífið með
kómískum augum. Ég á mér einn stóran
meistara þótt ég hafi ekki horft á hann í
mörg á en það er Chaplin. Lífið er auð-
vitað bara táradalur, eymd og vesæld
mannskepnunnar er stöðug, og þá er
svo fallegt að sjá fólk sem svona ein-
hvern veginn veit það og sættir sig við
það en reynir jafnframt að sjá það kát-
lega við þetta hlutskipti. Á meðan aðrir
takast á við þetta af ægilegum þunga og
alvöru.“ Hefurðu sjálfur alltaf haft
kómíska afstöðu til lífsins? „Ég orðaði
hana kannski ekki svona þegar ég var
ungur en ég gekkst alltaf mikið upp í
því að fólki fyndist gaman að vera í
kringum mig og mér þótti fátt betra en
að geta komið fólki til að hlæja. Og það
uppgötvaði ég snemma. Maður þurfti
auðvitað að stækka sig svolítið með því
að vera fyndinn.“
Nýfermdur leikstjóri
Stóra planið fjallar einmitt um tragíska
hluti, en sjónarhornið er gamansamt og
erfitt er að flokka myndina annaðhvort
sem gamanmynd eða tragík. Eggert
segir vinnuna við myndina hafa verið
mjög skemmtilega og sú fagmannleg-
asta sem hann hafi hingað til kynnst.
„Það kunni auðvitað enginn á bíóbrans-
ann í byrjun, ekki ég frekar en aðrir og
þetta var allt voðalega mikið hark hér
áður fyrr – vinnan snerist aðallega um
að hanga í illa upphitaðri rútu með
gamalt kaffi og allir dottnir úr stuði
þegar loks kom að tökum.“ Eggert segir
aðstæður gjörbreyttar í dag og vinnan
við Stóra planið sé um það bil skemmti-
legasta kvikmyndavinna sem hann hafi
verið í. „Ég þurfti nú eiginlega ekkert
að hugsa mig um þegar Óli litli undra-
barn hringdi í mig. Hann Ólafur
Jóhannesson er hálfgert fyrirbæri í
þessum bransa. Ég veit ekki eiginlega
hvað hann er gamall – sjálfsagt nýfermd-
ur? Ég hef aldrei spurt hann. En hann er
allavega helvíti borubrattur og ákaflega
gott að vinna með honum. Hann er auð-
vitað ekki af bókakynslóðinni eins og ég
en er samt mjög opinn fyrir því að lesa
ef maður gaukar einhverju að honum og
mjög næmur á öll blæbrigði í texta
þegar við fórum til dæmis að ræða
senur. Hann er drengur sem hefur
greinilega alist upp við vídeótæki og
tölvur þannig að tæknin og myndmálið
leikur allt í höndunum á honum.“
Leikur með klisjur
Handrit Stóra plansins er lauslega
byggt á skáldsögu Þorvalds
Þorsteinssonar – Við fótskör meistar-
ans – og Eggert hefur leikið í nokkrum
verkum eftir Þorvald áður og segir
textann hans jafnan mjög vel fallinn til
leiks. „Þorvaldur hefur gaman af því
að leika sér með klisjur, og karakterar
sem í fyrstu virðast bara fara með ein-
tóma klisju eru, þegar nánar er skoðað,
í raun afskaplega áhugavert fólk með
djúpa leyndardóma sem það felur. Það
er það sem mér finnst svo spennandi
og áhugavert við sögupersónur hans og
gaman að leika og vera með eitthvað
leyndó inni í þér sem þú einn þekkir.
Fólk grunar allavega að það er eitthvað
meira þarna undir en fólk segir. Og það
er sannarlega raunin með þessa mynd.“
Eggert segir karakterinn sinn, leigu-
salann Harald, í raun ekki vera sér með
öllu ókunnugan og hann hafi borið á
góma í samtölum hans við Þorvald.
Undirheimar áhugaverðir
Leigusalinn Haraldur leigir Pétri
Jóhanni, sem er í hlutverki smáglæpa-
manns, út húsnæði og í myndinni er
Pétur Jóhann í raun í tveimur heim-
um – annars vegar heimi handrukk-
arafélaga sinna og svo þar sem hann á
í samskiptum við Harald. Þannig hitti
Eggert stórstjörnuna og Sópranos-
leikarann, Micael Imperioli, aldrei
nema einu sinni yfir bjórglasi því
hans eini mótleikari var Pétur. „En ég
er mikill Sopranos-aðdáandi og man
vel eftir honum úr Goodfellas. Hann
slagar alveg upp í íslensku leikarana
– stóð sig alls ekkert verr en þeir,“
segir Eggert og kímir. „Pétur Jóhann
hafði ég heldur aldrei hitt né eigin-
lega séð leika neitt áður. En hann ber
myndina uppi og er það sem gagnrýn-
andi nokkur sagði eitt sinn um kollega
minn: Náttúrutalent. Og hlutverkin
öll eru mjög vel skipuð.“ Þetta er
önnur „undirheimamyndin“ sem
Eggert leikur í þótt af öðrum toga sé
en hann lék einnig í Sódómu hér um
árið. Er eitthvað sem heillar við und-
irheimana? „Já, sjálfsagt. Fólk sem
hefur orðið undir eða er á jaðrinum
hefur oft eitthvað áhugavert við sig. Í
fyrsta lagi er hlutskipti þeirra svolítið
brjóstumkennanlegt því það fer eng-
inn á þennan stað nema aðstæður hafi
rekið það þangað. Og sá staður er
allur annar en maður sjálfur lifir á í
sínu borgaralegu lífi í ríkasta landi
heims. Þetta fólk þarf að bjarga sér á
meðan aðrir eru bornir á höndum
traustra fjölskyldna og velferðar.
Sagan á bak við er það sem heillar.“
ÞURFTI EKKI HUGSA SIG UM
„Ég þurfti nú eiginlega ekkert
að hugsa mig um þegar Óli litli
undrabarn hringdi í mig. Hann
Ólafur Jóhannesson er hálfgert
fyrirbæri í þessum bransa. Ég veit
ekki eiginlega hvað hann er gamall
– sjálfsagt nýfermdur?“ segir Eggert
Þorleifsson um aðkomu sína að
kvikmyndinni Stóra planið sem
frumsýnd var um helgina.
FR
ÉTTA
B
LA
Ð
IÐ
/VA
LLI