Fréttablaðið - 11.04.2008, Blaðsíða 16
16 11. apríl 2008 FÖSTUDAGUR
FRÉTTASKÝRING: Unglingar á hraðferð inn í harðan heim 1. hluti – Unglingamenning
Eflaust myndu margir segja að
unglingar væru ekki jafn áberandi
í bæjarlífinu nú eins og oft áður.
Sjoppuhangs heyrir nær alveg sög-
unni til, fjölmennar unglingasam-
komur eru ekki áberandi um þess-
ar mundir og fátítt er að sjá
unglinga að leik um allar koppa-
grundir. Hvar er þá mannskapur-
inn? Einhverjir þeirra sem eldri
eru kynna að halda að þeir sitji
auðum höndum en unglingarnir
sjálfir, foreldrar þeirra og þeir
sem vinna með þeim vita að það er
fjarri lagi. Fréttablaðið talaði við
hóp 10. bekkinga í Austurbæjar-
skóla og Rimaskóla og nokkra nem-
endur í Fjölbrautaskólanum í
Garðabæ. Síðan var leitað álits
fræðimanna og annarra sem starfa
með unglingum og geta því varpað
ljósi á hag þeirra og hátterni.
Grunnskólanemar í vaktstjórn
„Það er gríðarlegt vinnuálag á
unglingum,“ segir Árni Jónsson,
stjórnarmaður í SAMFÉS og fyrr-
verandi forstöðumaður í frístunda-
miðstöðinni Kamps, en hann hefur
fengist við félagsstarf unglinga í
áratug. „Þegar ég vann á félags-
miðstöðvunum þurftum við jafn-
vel að hafa samband við starfs-
mannastjóra á þeim stöðum þar
sem þau voru að vinna og biðja þá
um að minnka vinnuálagið. Til
dæmis voru einhverjir grunn-
skólanemendur orðnir vaktstjór-
ar.“
Í dreifibréfi sem Vinnueftirlitið
sendi verslunareigendum og
stjórnendum matvöruverslana í
janúar síðastliðnum segir að eftir-
litinu hafi borist kvartanir for-
ráðamanna ungmenna sem vinna í
matvöruverslunum vegna brota á
ákvæðum reglugerðar um vinnu
barna og unglinga, einkum er varð-
ar verksvið og vinnutíma þeirra.
Samkvæmt niðurstöðum rann-
sókna sem Rannsóknir og greining
gerði í samvinnu við menntamála-
ráðuneytið árið 2004 stunduðu um
64 prósent stúlkna á höfuðborgar-
svæðinu vinnu meðfram fram-
haldsskóla árið 2004 og rúmlega
helmingur pilta.
Allt eða ekkert
Fræðimenn sem Fréttablaðið talaði
við voru sammála um að ekkert
hálfkák viðgengist meðal ung-
menna í dag þegar þau á annað borð
tækju sér eitthvað fyrir hendur. Til
dæmis fækkar þeim stöðugt sem
neyta vímuefna en þeir sem á annað
borð neyta þeirra gera jafnframt
meira af því. Unglingum sem
stunda íþróttir fjölgar og flestir
láta ekki minna nægja en að stunda
þær fjórum sinnum í viku. „Það er
eins og gamla góða áhugamennsk-
an sé á undanhaldi,“ segir Þóroddur
Bjarnason, prófessor við Háskól-
ann á Akureyri, kankvís en hann
hefur gert margar rannsóknir á
hegðun unglinga.
Nemendum í Rimaskóla sem
Fréttablaðið ræddi við fannst sem
lítill gaumur væri gefinn að því að
atvinnuþátttaka og íþróttaiðkun
unglinga væri mikil en þeim mun
meiri athygli fengi það sem afvega
færi hjá fámennum hópi unglinga.
Þetta hefði þær afleiðingar að
heildin fengi að gjalda fyrir afglöp-
in sem fáir fremja en fjölmargir
fjölyrða um.
Samskipti á tækniöld
En hvað kemur fyrst upp í huga
unglinganna þegar þau eru spurð
hvar þau ali manninn? „Fyrir
framan tölvuna,“ segir Bjarki Geir-
dal Guðfinnsson, nemandi í Austur-
bæjarskóla, og kollegar hans sam-
sinna því. Þau eiga þó erfitt með að
henda reiður á það hversu miklum
tíma þau eyða við apparatið. Engan
skal þó undra að tölvan sé þeim
hugstæð enda verður veraldar-
vefurinn sífellt stærri þáttur í dag-
legu lífi unglinga sem og annarra,
jafnvel barna. Niðurstöður rann-
sóknar sem SAFT, Samfélag, fjöl-
skylda og tækni, lét gera notaði
innan við helmingur nemenda í 4.
til 10. bekk veraldarvefinn daglega
fyrir fimm árum en í fyrra var
þetta hlutfall tæp áttatíu prósent.
En tölvan er ekki aðeins tíma-
þjófur að sögn Hlífar Böðvars-
dóttur og Guðbergs K. Jónssonar,
verkefnastjóra SAFT, „Við megum
ekki gleyma því að í gegnum netið
eiga sér stað heilmikil samskipti,“
segir Guðberg. „Þannig getur tiltal
foreldra sem spyr barn sitt af
hverju það fari ekki og hitti fólk í
stað þess að hanga í tölvunni hljóm-
að undarlega því á sama tíma er
unglingurinn jafnvel að spjalla við
tíu vini sína á MSN. Og þau eru alin
upp við að þessi samskiptamáti hafi
alltaf verið til staðar svo hann er
ósköp eðlilegur í þeirra augum.“
100 þúsund barnaníðingar á netinu
Nemendum þykir nóg um þá
umfjöllun sem verið hefur um nei-
kvæð áhrif tölvunnar og veraldar-
vefsins. Sumir telja jafnvel að ótti
fullorðna við það hvað unglingar
og börn aðhafast á netinu sé til-
kominn af vanþekk-
ingu foreldranna
sjálfra. „Vissu-
lega eru ungling-
arnir yfirleitt fær-
ari á netinu en foreldrarnir. Það er
þó viss hætta á því að þeir sem eru
einangraðir og jafnvel veikir á
svellinu falli fyrir hættunum jafn-
vel þótt þeir séu ekki grunnhyggnir.
Svo er alltaf viss hætta á að fólk
ánetjist því,“ segir Eyjólfur Örn
Jónsson sálfræðingur en hann
hefur meðhöndlað mörg ungmenni
með netfíkn. Hann segir að sex til
tíu prósent þeirra sem noti netið
eigi á hættu að ánetjast því og
þegar kemur að tölvuleikjum sé
hlutfallið um 24 prósent. „Sam-
kvæmt heimildum bandarísku
leynilögreglunnar FBÍ má gera
ráð fyrir því að á hverju gefnu
augnabliki séu að minnsta kosti
100 þúsund barnaníðingar á net-
inu. Og í svona bloggvæddu þjóð-
félagi eins og Íslandi er þá eru
jafnvel glæpamenn sem sitja um
bloggsíður og fylgjast með því
hvenær einhver er að heiman svo
að þeir geti leitað lags með sín
myrkraverk. Aðrir óprúttnir reyna
svo að komast yfir kreditkorta-
númer. Og það er náttúrlega hægt
að nálgast nær allt sem hugurinn
girnist á netinu. Þar á meðal efni
sem við teljum óæskilegt fyrir
börn eins og til dæmis klám. Svo
er hætta á því að sá sem
útilokar sig frá
umheiminum
vegna tölvu-
notkunar staðni
hvað varðar
félagslegan
þroska þar sem
hann fær
lítil tækifæri til að takast á við
aðstæður augliti til auglitis.“
Ungu alheimsborgararnir
En sá er vafrar um óravíddir ver-
aldarvefsins verður líka margs
vísari enda er talað um að ungling-
ar í dag séu alheimsborgar. Þeir
sem nú eru á miðjum aldri fengu
fæstir mörg tækifæri til þess að
tala við jafnaldra sína frá fjarlæg-
um slóðum en þessu er allt öðru-
vísi farið í dag. Allir þeir sem
blaðamaður talaði við sögðu að
unglingar í dag væru almennt upp-
lýstari, víðsýnni og mörgu leyti
fróðari í dag en áður. Ekki verður
heldur annað séð en að enskukunn-
átta þeirra sé almennt svo góð að
fullorðnir geti hæglega talið sig
færa ef þeir standa þeim jafnfætis.
Sigþrúður Gunnarsdóttir, ritstjóri
barnabóka hjá Forlaginu, segir að
sífellt fleiri unglingar kjósi að lesa
bækur á ensku og þá jafnvel þykka
doðranta. Hún segir svo komið að
jafnvel ellefu ára börn lesi bækur
á ensku frekar en að rýna í þær
íslensku. Hún segir enn fremur að
síðustu tvo áratugi hafi framboð á
unglingabókum stórlega minnkað
á meðan mikil gróska sé í öðrum
flokkum. Sigþrúður telur að ein af
skýringunum geti verið sú ungl-
ingar séu að miklu leyti farnir að
lesa sömu bækur og þeir sem eldri
eru.
Beint í djúpu laugina
Það væri því líklega ekki rétt að
álykta sem svo að unglingar séu
lítt áberandi í okkar samfélagi.
Frekar væri að segja að unglinga-
menningin eins og margir þekkja
hana sé fyrir nokkru týnd og tröll-
um gefin. Hins vegar má spyrja sig
að því hvort unglingamenning sé
smátt og smátt að mást út og börn
sem ná unglingsaldri detti skyndi-
lega í heim sem verður sífellt lík-
ari heim þeirra fullorðnu. Þar sem
vinna, nám, tölvusamskipti og stíf
ástundun við viðfangsefnin skipa
stóran sess en áhugamennska, úti-
leikir og sjoppuhangs mega sín lít-
ils. En unglingar eru þó ekki hættir
að leika sér. Flestir leika þeir sér
í tölvuleikjum sem sumir hverj-
ir eru afar flóknir og krefjast
mikillar þekkingar. Það á þó
ekki einungis við um unglinga
og börn því fullorðnir eru
engu síður iðnir við kolann í
þeim efnum.
Með öðrum orðum má
álykta sem svo að unglinga-
menningin, rétt eins og ungl-
ingabókmenntirnar, sé að
þynnast út í heimi hinna full-
orðnu.
Enginn tími fyrir sjoppuhangs
Hagur og hátterni unglinga í dag er um margt ólíkt því sem áður var. Heilt yfir er mikið vinnuálag á þeim og ekkert er gefið eftir í íþrótta-
og tómstundaiðkun. Þeir eru alheimsborgarar sem vafra löngum stundum á veraldarvefnum og kjósa jafnvel lestur bóka á ensku fremur en
íslenskar unglingabækur. Þeir eru á hraðferð inn í harðan heim hinna fullorðnu og þeir sem skrikar fótur geta orðið illa úti.
NEMENDUR Í AUSTURBÆJARSKÓLA Bjarki Geirdal Guðfinnsson, Róbert Aceto, Kalman Christer, Fífa Jónsdóttir, Ragnheiður Elísa-
bet Þuríðardóttir og Rebekka Sverrisdóttir. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON
HVAÐAN SÖGÐUST FRAM-
HALDSSKÓLANEMAR AÐAL-
LEGA FÁ PENINGA TIL DAG-
LEGRA NOTA ÁRIÐ 2004
Stelpur Strákar
Frá foreldrum 25,5% 26,7%
Af sumartekjum 39,0% 55,2%
Af launum vegna
vinnu með námi 53,7% 35,9%
Af námslánum 2,8% 1,6%
Af dreifbýlisstyrk 6,4% 5,1%
Heimild: Rannsóknir og greining
IÐKUN ÍÞRÓTTA OG LÍKAMS-
RÆKTAR FRAMHALDSSKÓLA-
NEMA ÁRIÐ 2004
Stúlkur Strákar
Nær aldrei 15,7 13,3
Vikulega eða sjaldnar 25,7 20,4
2-3 sinnum í viku 30,4 25,6
4 sinnum í viku eða oftar 28,2 40,6
Heimild: Rannsóknir og greining
FRAMHALDSSKÓLANEMENDUR SEM UNNU MEÐ SKÓLA ÁRIÐ 2004
Höfuðborgarsvæðið Landsbyggðin
Stelpur Strákar Stelpur Strákar
Unnu ekki þann vetur 34,4% 49,3% 40,5% 54,8%
1-9 klst. 28,2% 22,1% 24,1% 19,9%
10-19 klst. 26,8% 19,1% 23,3% 15,5%
20 klst. eða meira 10,6% 9,5% 12,2% 9,7%
Heimild: Rannsóknir og greining. Tölur miðast við eina viku.
FRÉTTASKÝRING
JÓN SIGURÐUR EYJÓLFSSON
jse@frettabladid.is
VISSIR ÞÚ AÐ...
■ tæp 8 prósent drengja í 9. og 10.
bekk spila í hljómsveit með vinum
sínum?*
■ lestur dagblaða og tímarita meðal
9. og 10. bekkinga eykst?*
■ tæp 2 prósent 9. og 10. bekkinga
stunda golf?*
■ ROFLMAO er gjarnan notað á MSN
og þýðir að eitthvað sé afar fyndið?
(Rolling on the floor laughing my
ass off)
■ F2F þýðir augliti til auglitis?
*heimild Rannsóknir og greining
NEMENDUR Í
RIMASKÓLA Linda
Björg Björnsdóttir,
Henrý Guðmunds-
son, Kristín Björk
Smáradóttir og Alex
Pétursson.
FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN
HVAR ERU
UNGLINGARNIR?
„Eru þeir ekki bara í bílunum sínum,
mér sýnist allt benda til þess þegar ég
lít yfir bílastæði skólans.“
Þorsteinn Þorsteinsson, skólameist-
ari Fjölbrautaskólans í Garðabæ
„Eins og foreldrarnir eru þeir yfirbók-
aðir utan heimilis og undirbókaðir
innan heimilis.“
Ólafur Grétar Gunnarsson, fjöl-
skylduráðgjafi hjá ÓB ráðgjöf
„Fyrir framan tölvuna.“
Bjarki Geirdal Guðfinnsson, nem-
andi í Austurbæjarskóla.
„Ef einhver vill sjá hvað unglingar eru
að gera væri ráð að kíkja á nemenda-
félögin.“
Hjálmar Örn Elísson Hinz, nemandi í
Fjölbrautaskólanum í Garðabæ