Tíminn - 15.11.1986, Blaðsíða 8

Tíminn - 15.11.1986, Blaðsíða 8
8 Tíminn Tíniinn MÁLSVARIFRJÁLSLYNDIS, SAMVINNU OG FÉLAGSHYGGJU Útgefandi: Framsóknarflokkurinnog Framsóknarfélögin í Reykjavík Framkvæmdastjóri Ritstjóri: Aðstoðarritstjóri: Fréttastjórar: Auglýsingastjóri: Kristinn Finnbogason NíelsÁrni Lund OddurÓlafsson BirgirGuðmundsson EggertSkúlason SteingrímurGíslason Skrifstofur: Síðumúli 15, Reykjavík. Sími: 686300. Auglýsingasími: 18300. Kvöldsímar: Áskrift og dreifing 686300, ritstjórn 686392 og 686495, tæknideild 686538. Setning og umbrot: Tæknideild Timans. Prentun: Blaðaprent h.f. Kvöldsímar: 686387 og 686306 Verð í lausasölu 50.- kr. og 60.- kr. um helgar. Áskrift 500.- Varalið Þorsteins Pálssonar Það mætti halda, að Þorsteini Pálssyni hafi brugðið illa við, þegar hann fékk Morgunblaðið í hendur á fimmtudagsmorguninn var. Þar gaf að líta stórum stöfum á baksíðu að samkvæmt nýgerðri skoðanakönn- un félagsvísindastofnun Háskólans hafi fylgi Sjálfstæðis- flokksins hrapað síðan í maí í vor úr 39,8% í 33,6%. Þetta er ekki lítið fylgistap á 5-6 mánuðum. Þegar nánar var að gætt þurfti Þorsteinn Pálsson þó ekki að vera ókátur. Flokkur sem í raun hefur lýst sig eindreginn stuðningsflokk hans sem forsætisráðherra og getur því talist eins konar varalið hans hafði ekki aðeins stækkað í sama mæli og Sjálfstæðisflokkurinn hafði minnkað, heldur talsvert meira. Alþýðuflokkurinn hefur á umræddum tíma aukið fylgi sitt úr 15,5% í 24,1%. í rauninni er því staða Þorsteins sem væntanlegs forsætisráðherra mun styrkari en í maí. Ástæðan fyrir því að Alþýðuflokkurinn er hér talinn varalið Þorsteins Pálssonar er einfaldlega sú að formað- ur flokksins, Jón Baldvin Hannibalsson, hefur lýst því yfir í tíma og ótíma á undangengnum mánuðum, að það stjórnarmynstur sem hann kjósi helst að afstöðnum næstu þingkosningum sé endurnýjun svokallaðrar við- reisnarstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins á árunum 1959-1971 en þar næst en þó talsvert síður endurnýjun hinnar svokölluðu nýsköpunrstjórnar Sjálf- stæðisflokks, Alþýðuflokks og Sósíalistaflokks á árun- um 1944-1946, formaður Sjálfstæðisflokksins var for- sætisráðherra beggja þessara stjórna og verður að sjálfsögðu forsætisráðherra nýrrar viðreisnarstjórnar eða nýrrar nýsköpunarstjórnar ef þær verða myndaðar. Til áherslu þeirrar stefnumótunar formanns Alþýðu- flokksins að hann kjósi helst endurnýjaða viðreisnar- stjórn eða endurnýjaða nýsköpunarstjórn leggur hann áherslu á að samvinna Alþýðuflokksins við Framsókn- arflokkinn komi alls ekki til greina og mjög hæpið sé að Alþýðuflokkurinn geti unnið með Kvennalistanum. Hins vegar útiloki hann ekki samvinnu við Alþýðu- bandalagið. Allra helst kjósi hann að vinna með Sjálfstæðisflokknum einum. Þorsteinn Pálsson þarf því ekki að óttast að hann geti ekki myndað stjórn, þótt Sjálfstæðisflokkurinn tapi ef Alþýðuflokkurinn vex að sama skapi eða meira. Þorsteinn Pálsson þarf ekki að sakna Árna Johnsens ef hann fær Magnús Magnússon í stað hans. Þorsteinn á öruggt varalið þar sem Alþýðuflokkurinn er. Þorsteinn Pálsson þarf heldur ekki að óttast það, að erfiðlega muni ganga að semja við varaliðsforingjann og fylgismenn hans. Varaliðsforinginn er mikill trúmaður á hlutafélög. Til dæmis virðist hann hafa dregið þá ályktun af rekstri hlutafélagsins Hafskips að fátt sé nú meira aðkallandi en að gera ríkisbankana að hlutafélög- um. Kjósendur geta af framangreindum ástæðum auð- veldlega dregið þá ályktun að þegar Alþýðuflokkurinn verður kosinn í næstu kosningum er i raun verið að kjósa formann Sjálfstæðisflokksins til stjórnarforystu. Laugardagur 15. nóvember 1986 ■II MENN OG MALEFNI Jafnaðargeðið Þegar flett er blöðunum frá síð- ustu viku ber þar vitaskuld einn atburð hæst. Það er athæfi erlendu hryðjuverkamannanna sem sökktu tveim hvalbátum í Reykjavíkur- höfn og eyðilögðu búnað í hval- stöðinni í Hvalfirði fyrir miljónir króna. Þetta minnir okkur vægast sagt heldur óþægilega á þá bláköldu staðreynd að við íslendingar erum komnir í miðja þjóðbraut alheims- ins. Þetta þýðir að við getum ekki lengur talið okkur óhult og falin langt utan við allar brautir hryðju- og hermdarverkamanna. Vita- skuld vonum við öll í lengstu lög að slíkir atburðir gerist aldrei hér. En við verðum, því miður, að vera við því búin að hér geti komið upp atvik á borð við þau sem við fréttum af ljótustum erlendis frá. Níðvísa á nef hvert Aftur vekur annað athygli, þegar fari& er yfir umfjöllun fjölmiðlanna um þetta mál, og það er hvað menn þar virðast, þrátt fyrir allt, taka atburðunum út af hvalamálunum með mikilli stillingu. Það hefur, held ég, ekki heyrst ein einasta rödd sem hvetur til þess að þessu verði svarað í sömu mynt, þ.e.a.s. með ofbeldi gegn ofbeldi. Þarna er, að ég held, á ferðinni nokkuð ríkur þáttur í íslensku skaplyndi, ef við höfum á annað borð leyfi til að fara með alhæfing- ar af slíkri tegund. Þar er á ferðinni jafnaðargeð sem ég held að við getum öll verið stolt af og eigum að rækta með okkur áfram. Þctta cr af sömu ætt og við rekumst á í vísu sem Jón Þorláksson á Bægisá orti og er svona: Margur fengi mettan kvið, má því nærri geta, yrði fólkið vanið við vind og snjó að éta. Það þarf vissulega töluverða still- ingu og stjórn á skapsmunum sín- um til að yrkja svona, á tímum þegar hungurvofan gat hvenær sem var verið vakandi við hvers manns dyr. Og það sama má raunar segja um hann Garra okkar, sem við hér á Tímanum leyfum okkur að vera örlítið stoltir af svona undir niðri og af og til. Hann er að vísu hvefsinn, orðhákur og svo stór upp á sig að hann á það til að taka það illa upp cf menn á andstæðinga- blöðunum leyfa sér þann ósóma að vera honum sammála. En hann gerði það að tillögu sinni nú í vikunni að Islendingar gerðu nú að fornum sið það sem hann kallaði að yrkja níðvísu á nef hvert í landinu um Paul Watson. Síðan gætum við séð til hvort hér leyndust enn nægilega öflug krafta- skáld til þess að dallurinn sykki undan honum næst þegar hann hætti sér út á sjó. Þarna er á ferðinni talandi dæmi þess hvernig við íslendingar höfum oft átt það til að bregðast við þegar við höfum mætt alvarlegu and- streymi. Öryggismálin Og þetta leiðir líka hugann að því að til þessa hefur allt sem heitir öryggisgæsla utan um helstu ráða- menn þjóðarinnar verið í algeru lágmarki. Menn hafa verið fullviss- ir um að á slíku væri engin þörf. Svo dæmi sé tekið þá myndi Vigdís Finnbogadóttir forseti sem best geta fengið sér gönguferð innan um okkur hin, til dæmis hér niður Laugaveginn. Og það sama myndi líka til dæmis Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra geta gert. Það yrði vafalaust tekið eftir þeim, og ýmsir myndu án efa horfa á þau. En að nokkrum myndi detta í hug að þau væru þarna í Eysteinn Jónsson, áttræður á fimmtudaginn var. mögulegri lífshættu, það er af og frá. Það hefur verið eitt ánægjuleg- asta einkennið á íslensku þjóðfé- lagi hvað allir, sem á einhvern hátt hafa gnæft þar upp úr, hafa getað farið blessunarlega frjálsir ferða sinna. Sjálfur man ég til dæmis eftir því að þegar ég var strákur þá voru það einir tveir áberandi stjórnmálamenn sem kom fyrir að maður sá í strætó, og þótti engum tiltökumál. Þessir menn voru þeir Bjarni heitinn Benediktsson og Eysteinn Jónsson. Og raunar er stutt síðan cg hitti mann og það barst í tal að hann hefði verið í sama strætis- vagni og Davíð Oddsson borgar- stjóri nú um daginn. Ætli við óskum þess ekki öll að áberandi stjórnmálamenn á borð við þessa geti sem lengst haldið áfram að fara hér með strætó eins og við hin án þess að þurfa að vera uggandi um lr'f sitt eða öryggi. Eysteinn Jónsson Og talandi um Eystein Jónsson, þá átti hann áttræðisafmæli nú á fimmtudaginn. Þessa afmælishefur verið minnst hér í blaðinu, og kannski er það honum lítið til geðs að hér sé verið að bæta ofan á það lof sem hann fékk þar og fyllilega að verðugu. En vonandi verður það ekki virt á þann veg að hér sé verið að efna til óhóflegrar persónudýrkunar á Eysteini Jónssyni þótt minnst sé aðeins á hann aftur í tilefni af þessum tímamótum. Hann er nú einu sinni bæði einn af helstu leiðtogum Framsóknarflokksinsog samvinnuhreyfingarinnar á okkar öld. Sjálfur kynntist ég honum persónulega þegar á unglingsárum og má segja að ég hafi verið meira eða minna í námunda við hann allar götur síðan eins og margir fleiri. Ég tel sjálfur að kynni mín af honum hafi orðið mér bæði lær- dómsrík og ánægjuleg. Ég minntist á jafnaðargeð íslendinga hér áðan, og kannski hefur það orðið mér einna lærdómsríkast í samskiptum mínum við Eystein Jónsson að fá tækifæri til að kynnast því gífurlega mikla jafnaðargeði sem hann býr yfir. í persónu hans er án efa á ferðinni einn af snjöllustu stjórn- málamönnum sem þjóðin hefur alið, og fer þar saman góð greind, rökfesta og snerpa í hugsun, svo fátt eitt sé nefnt. En það sem kannski dregur mest er það hvað honum hefur tekist vel að losna við að láta frama sinn og árangur stíga sér til höfuðs. Þar er á ferðinni eitt besta dæmi um jafnaðargeðið í Islendingum sem ég þekki. Af þeim sökum er Eysteinn Jónsson í mínum augum kannski fyrst og fremst persónugervingur eins þess eiginleika sem ég þekki bestan í fari íslensku þjóðarinnar. Flokksþingið Og á flokksþingi framsóknarm- anna um síðustu helgi vakti það sérstaka ánægju hvað menn voru baráttuglaðir. Þar var hins vegar ekki fyrst og fremst um að ræða þá baráttugleði, sem snýst að því að takast á við pólitíska andstæðinga og reyna að fella þá, þótt vissulega væri nóg af henni þar líka. Þar bar hins vegar miklu meira á þeirri baráttugleði sem beinist að því að reyna í sífellu að bæta kjör og lífsafkomu íslensku þjóðarinnar allrar og sækja stöðugt fram á við. Það er ánægjulegt að verða þess var að eftir því að dæma, sem frá þessu flokksþingi kom, þá er ekki annað að sjá en þar hafi enn verið skíðlogandi sá gamli eldur sem brann í brjóstum frumherjanna forðum þegar þeir voru að stofna ungmennafélögin, búnaðarfélögin og kaupfélögin. Þeir menn bjuggu yfir þeirri trú á framtíð íslensku þjóðarinnar, sem aldrei bifaðist, og tóku hana langt fram yfir sína eigin hagsmuni. Það er trúlega eðlilegt að nú á tímum myndbandatækja, afrugl- ara, bílasíma, eða hvað annað sem mætti nefna, geti það komið fyrir okkur að dálítið dragi niður í þessum gamla hugsjónaeldi. En þar þurfum við þó að gæta að okkur. Hvað sem líður yfirvinnunni og lífsgæðakapphlaupinu þá verða menn að gæta þess að gleyma því aldrei að við erum, hvað sem öðru líður, ein þjóð og búum í landi sem á að geta skapað okkur öllum ágætis lífskjör ef við höldum skynsamlega á spilunum. Við erum að eðlisfari bjartsýn þjóð, íslend- ingar, og lítið fyrir það að láta skapsmunina hlaupa með okkur í gönur. Og sagan kennir okkur að út úr öllum erfiðleikum okkar á liðnum öldum hefur okkur tekist að krafsa okkur bara aldeilis dável þegar í heildina er skoðað. Á þetta er minnst hér m.a. vegna þess að í næstu viku hefst í Reykjavík árleg fundalota kaup- félagsstjóra og annarra framám- anna í samvinnuhreyfingunni. Eins og menn vita er við ýmis erfið vandamál tengd rekstri innan hreyfingarinnar að stríða, kannski ekki síst á sviði smásöluverslunar, fiskvinnslu og útgerðar. Þegar menn setjast niður þar til þess að ræða vandamálin, nú í vikunni og síðar, er kannski rétt að setja fram þá frómu ósk að menn megi bera gæfu til að gera það með sama hugarfari og frumherjarnir gerðu, þeir sem hér voru nefndir. Þótt vandinn geti verið og sé vissu- lega oft stór, þá eru vandamálin nú einu sinni ekki til annars en að leysa þau. Og ráði bjartsýni, ásamt trú á landið og þjóðina, ferðinni þá þarf ekki að efast um að farsælustu lausnirnar láta ekki á sér standa. -esig

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.