Tíminn - 05.12.1992, Blaðsíða 4

Tíminn - 05.12.1992, Blaðsíða 4
4 Tíminn Laugardagur 5. desember 1992 Tíminn MÁLSVARI FRJÁLSLYNDIS, SAMVINNU OG FÉLAGSHYGGJU Útgefandi: Tlminn hf. Framkvæmdastjóri: Hrólfur Ölvisson Ritstjóri: Jón Kristjánsson ábm. Aðstoðamtstjóri: Oddur Ólafsson Fréttastjórar: Birgir Guðmundsson Stefán Ásgrímsson Auglýsingastjóri: Steingrímur Glslason Skrifstofur: Lynghálsi 9, 110 Reykjavík Sími: 686300. Auglýsingasími: 680001. Kvöldsímar: Áskrift og dreifing 686300, ritstjórn, fréttastjórar 686306, íþróttir 686332, tæknideild 686387. Setning og umbrot: Tæknideild Tlmans. Prentun: Oddi hf. Mánaöaráskrift kr. 1200,-, verð I lausasölu kr. 110,- Gmnnverð auglýsinga kr. 725,- pr. dálksentimetri Póstfax: 68-76-91 Kauptíð bókmenntanna Þrátt fyrir samdrátt og lítt upplífgandi framtíðarspár, láta íslenskir bókaútgefendur ekki deigan síga og mun útgefn- um titlum fyrir þessi jól ekki fækka frá metárinu í fyrra, nema síður sé. Það er gömul saga og ný að kvartað er yfir að langflestar bækur, sem hér eru gefnar út, komi á markað síðustu vikurnar fyrir jól. Einstaka útgefendur hafa reynt að bregða út af þessum sið, en síga oftast aftur í sama farið. En sú tilhögun að bókaflóðið skellur yfir á skömmum tíma og að allir útgefendur kjósa að gefa út bækurnar samtímis, hefur bæði kosti og galla. Kostirnir eru meðal annars þeir, að fólk er almennt mjög opið fyrir tíðindum af útkomu bóka á meðan flóðið hellist yfir. Fjölmiðlar gefa bókafrétt- um og bókarýni mikið rúm og öll sú umfjöllun leiðir til þess að nýjar bækur og forvitnilegar eru mjög í umræðu manna á meðal. Ævisögur þekktra manna og kvenna og bersöglismál hvers konar eru gott samtalsefni og skáldverk eru krufin í fjöl- miðlunum og af alþýðudómstólum bókmenntaþjóðarinnar og eru kannski misvel athuguð áður en dómar falla. Oft er haft á orði að mikið af léttmeti og miður menning- arleg bókverk fljóti með bókastraumnum. Það má vel satt vera, en fleira eru læsilegar og skemmtilegar bækur en þær sem gera kröfu til að vera kallaðar bókmenntaverk, og eng- inn hefur svo einhlítan smekk að hann geti skorið úr um svo óyggjandi sé hvað eru bókmenntir og hvað eitthvað annað. En sannleikurinn er sá að það er furðumikið af bókum á þeim jólamarkaði, sem nú er að hefjast, sem sýna að útgef- endur hafa metnað til að gefa út vandaðar bækur sem feng- ur er að. Skáldverk, innlend og erlend, eru mörg í þeim flokki sem vafalítið má telja til bókmennta. Fræðslubækur um aðskiljanlegustu efni eru margar og vel út gefnar. Ævisögur og sagnfræðirit eru mörg sem fyrr og sýnir það gjörla að áhugi á sögunni og þeim sem móta hana er síst að dala meðal þjóðarinnar og er það vel. Um hitt má deila hvernig einstökum höfúndum og fræðimönnum hefur tek- ist upp við að koma andblæ sögunnar og þeirra einstaklinga sem hana skapa, á milli kynslóðanna. Af fljótfærnislegri athugun má draga þá ályktun að ís- lenskar barna- og unglingabækur séu í sókn á þeim mark- aði sem alltaf er kenndur við jólin. Það er gleðilegt eins og hitt að gefnar eru út vandaðar og fallegar barnabækur, frumsamdar af íslenskum höfundum og margar hverjar frá- bærlega vel myndskreyttar. Þarna hafa útgefendur svarað erlendri samkeppni á myndarlegan hátt og íslenskir lista- menn sýna að þeir eru fyllilega samkeppnisfærir á þessu sviði. Ógetið er þeirra stórvirkja sem mörg útgáfufyrirtæki leggja metnað í, en það er útgáfa eldri bókmennta, fornra og frá síðari öldum. Margt er stórvel gert í þeirri útgáfu og þeim, sem þar leggja hönd að verki, til sóma. Sé á heildina litið er engin ástæða til að amast við íslenskri bókaútgáfu, og alls ekki svokölluðu jólabókaflóði. Þótt menn hafi misjafna skoðun á bókum, er ekki hægt að neita því að útgefendur trúa því staðfastlega að þeir gefí út fyrir bókmenntaþjóð, þótt eitthvað af léttmeti fái að fljóta með. Hitt er svo umhugsunarefni hvort það jólabókaflóð, sem nú streymir um markaðinn, verði ekki hið síðasta. Um mitt næsta ár verður hár skattur lagður á alla menningarvið- leitni útgefenda og getur vel svo farið að þá verði ekki hægt að gefa út bækur, hvað þá kaupa þær. En vonandi sjá menn að sér og afstýra því stórslysi tímanlega. Atli Magnússon: Háskinn að búa á Islandi Merkilegri art og karaktér er fósturjörð vor búin, þetta „und- arlega sambland af frosti og funa“. Einn lýsir henni svo að aldingarð slíkan muni vart mega finna í víðri veröldu, en annar sem harðneskjuhrjóstrum þar sem hvert lífsbjargarstrá þarf að berja upp úr jarðveginum með harmkvælum. Eins hefur menn stöku sinnum greint á um feg- urð vors blessað lands. Einnig er að fríðleiknum kemur, hefur borið við að það ræðst af því hvaða augum menn skoða silfrið hvað þeim líst, ekki síst útlend- ingum sem vanir eru sítrónu- lundum og annarri gróðursæld. Til marks um þessar andstæður er að Norðmennirnir gömlu tóku sig upp í von um að geta mettað sig á smjöri sem þeir trúðu að læki af strái hverju, en amerískir geimfarar vegna þess að þeir vissu ekki um ákjósan- legri stað til þess að leika heim- sókn til tunglsins. Hið merkilega er að landið gat satt að segja upp- fyllt væntingar beggja, þótt stundum hafi eigi svo lítil tregða komið á flæði hins sflekandi smjörs í þjóðarsögunni. Óbrígðult leiksvið En sem leiksvið handa geimför- um sem fleirum er land vort aft- ur á móti alveg óbrigðult og ég átti orðræður við kunnan kvik- myndamann á dögunum sem sagði að það væri einmitt lands- lag íslands sem gerði kleift að búa hér til merkar kvikmyndir. „Landið leggur sjálft til leiktjöld- in,“ fullyrti hann og skýrði hvemig það vægi upp á móti full- komnum fflmstúdíóum í Amer- íku og fleiri ríkum löndum. Þar má að vísu panta Tróju, Amaz- onfrumskóginn og Alpana með skömmum fyrirvara — en vænt- anlega fyrir einhverjar milljónir króna og þó fremur pund og dali. Þetta er raunar alveg satt og þarf ekki að horfa á margar íslenskar kvikmyndir til að fá það staðfest. Landslagið þjónar líka forsetan- um og stjórnarherrunum hið besta, þegar þeir vilja skemmta velbyrðugum hátignum í heim- sóknum. Þeir geta venjulega reitt sig á að þótt gestirnir kunni að kveðja í hljóðri þökk til al- mættisins fyrir að hafa verið hlíft við að fæðast á slíkum voðastað, þá muni þeir verða að kannast við að þetta var „öðruvísi". Og nokkuð er fyrir það gefandi að geta boðið upp á eitthvað nýstár- legt, þegar sú tilfinning gerist áleitin að allt sé að verða eins, hvert sem litið er. Einnig þótt góða veðrið bregðist að þessum hátíðlegu tilefnum. Margir sikl- ingar, lafðir og stórhertogar hafa orðið að vinda úr pellhöttunum og purpurakápunum eftir að hafa staðið af sér þulu séra Heimis á barmi Almannagjár í stormhviðum með metúrkomu. En fyrir vikið má reiða sig á að heimsóknin mun seint líða við- komandi úr minni, hvort sem meira eða minna hefur setið eftir af fróðleiknum um Grím geitskó og Úlfljót. Þannig er ættjörðin ekki alveg atkvæðalaus, þegar henni er ætl- að að gagna sem leiktjöld, og það hafa bæði kvikmyndaleikstjórar og fyrirmenn þjóðarinnar orðið að sætta sig við. Þá kemur fyrir að hún tilreiðir mjög „sceniska effekta", sem hæfa vel stórvið- burðum í þjóðlífinu. Þannig reið gjörningaveður mikið yfir nótt- ina eftir gengisfellinguna, sem léði þessum merkisatburði vídd og stærð hinna grísku harm- leikja eða Wagneróperu. Daginn á eftir var himinninn marblár og drungalegur, eins og fagurlega átti við, en karlarnir í sjónvarps- auglýsingunni supu á steinolíu- brúsa meðan þeir sungu við raust: „Ég verð á reki um jól- in...!“ Á reki um jólin Margur er gripinn þeirri tilfinn- ingu, sem tjáð er í söng þeirra fé- laganna, að hann verði á reki þessa jólahátíð. Dapurlegt Al- þýðusambandsþing er rétt af- staðið, þar sem fulltrúarnir skildu hvergi sáttir og forystan var fengin gömlum málamiðlun- armanni í hendur. En hvenær hafa menn viljað hafa ráð Njáls, sem ekki var aðeins vitur heldur forvitri og sagði fyrir um óorðna atburði, eins og Þjóðhagsstofnun og hagfræðideild Seðlabankans og engum dettur í hug að muni standast. Enginn tók heldur mark á kerlingunni, sem vildi láta færa arfasátuna að húsbaki á Bergþórshvoli sem notuð var til að kveikja í bænum. Það var líka eins gott, því hefði verið farið að bænum kerlingar er óvíst að tekist hefði að magna eldinn svo að dugað hefði til að brenna Njál, Bergþóru, sonarson þeirra og syni inni. Þá hefði eng- in Brennu-Njálssaga verið skrif- uð og íslensk menning verið stórum fátækari, væri hún á annað borð til. Svona getur það haft heillavæn- leg áhrif að fara ekki að góðum ráðum hinna framsýnu, því lítið væri um dramatíkina í sögunni eða lífinu yfirleitt, ef farið væri að ráðum þeirra sem gerst vita. Það er annars einkennandi fyrir öll ráð Njáls hins spakvitra, sem farið var eftir, að þau leiddu alltaf til ófamaðar. Því er líklegast best að láta kylfu ráða kasti og láta guð og lukkuna ráða um alla framvindu, eins og gert hefur verið allt frá því að Ingólfur elti öndvegissúlur sínar um úfinn og straumharðan sæ og fram á okkar daga, að engar alvarlegar ákvarðanir em teknar að forsögn hinna forspáu og af skynsamlegu viti, heldur hrapað að framkvæmdum og samninga- gerðum án þess að gera sér nokkra grein fyrir til hvers at- hafnasemin leiðir. Eðli lands og náttúm em á þann veg að engum spám er treystandi. Bændur vita aldrei hvenær óhætt er að slá, því alltaf er hætta á að fá ofan í flatt. Sjó- menn eiga aldrei á vísan að róa, hvorki hvað varðar gæftir né aflabrögð, og er meira að segja ekki einhlítt að treysta á afla- kvóta, hvorki hvort hægt er að veiða upp í aflamarkið eða hvort viðbótarkvóti verður leyfður. Og enn síður er hægt að vita hvað fæst fyrir aflann, þegar þar að kemur. Erfitt er að búa sig að heiman að morgni, því enginn veit hvernig veðurlagið verður að kvöldi, og reynslan kennir að varlegt sé að treysta opinbemm veðurspám. Svona er ísland. Maður veit aldrei hvaða leiðir eru færar, þegar lagt er upp, né hvaða háski eða blómabrekkur eru hinum megin við næsta leiti. Áður fyrr króknuðu menn í túnjaðrinum heima hjá sér eða dmkknuðu í bæjarlæknum, en nú veltast þeir í jeppum sínum í miðjum snjó- flóðum eða hrapa niður hlíðar og gilskorninga í stoppuðum dún- fatnaði með vísindalega mann- brodda á enn vísindalegri fjalla- skóm. Háskinn að búa á íslandi er ávallt hinn sami, því menn læra hvorki á bæjarlækinn né skrið- jöklana. Og það gerir lífið spenn- andi og þess virði að því sé lifað — þar til yfir lýkur. Allir vita samt hvar dansað verður næstu jól, en hver þorir að spá hvar sporið verður stigið að ári?

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.