Fréttablaðið - 20.03.2009, Page 18

Fréttablaðið - 20.03.2009, Page 18
18 20. mars 2009 FÖSTUDAGUR FRÉTTAVIÐTAL: Steingrímur J. Sigfússon Nokkrir þingmenn Samfylkingar- innar hafa sagst gera það að skil- yrði fyrir áframhaldandi sam- starfi við VG, að það náist lending í ESB-málum. Hvers konar lending kemur til greina af ykkar hálfu? Samfylkingin gerir það upp við sig sjálf hvaða áherslum hún still- ir upp fyrir kosningar. Við störf- um á grundvelli okkar stefnu og hún liggur fyrir. Okkur er jafn- framt ljóst að það þarf að leiða þetta mál til lykta á uppbyggileg- an og lýðræðislegan hátt; af eða á. Við göngum því ekki til viðræðna með fyrirfram ákveðnum skilyrð- um. Okkar útgangspunktur í þessu máli, og mörgum öðrum stórum málum, er að íslenska þjóðin á sjálf að ákvarða örlög sín. Peningamálin í þessu ljósi: Hvernig sérðu fyrir þér þróun þessa grundvallarmáls á næstu misserum? Ég held að verkefnið hér og nú sé að ná stöðugleika í íslenskt efna- hagslíf, bæði hvað varðar verðlag, gjaldeyrismál og almennt. Það gerum við með þeim tækjum sem við höfum í höndunum. Síðan þarf að horfa til framtíðar og svara þeirri spurningu hvaða fyrirkomu- lag er vænlegast fyrir framtíðina. Það sér það enginn sem vænleg- an kost að við búum við lokað hag- kerfi með gjaldeyrishöftum og getum ekki átt eðlilegt samstarf og viðskipti við umheiminn. Við verðum að horfa á í hvaða stöðu Ísland er, og hvað gagnast okkur best til að komast í gegnum erfið- leikana. Þá eru bæði kostir og gall- ar að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil. Menn geta sagt að það verði erfitt til lengri framtíðar að hafa svona litla mynt í alþjóðlegum viðskipt- um. En á móti kemur að með raun- hæfri gengisskráningu getur það hjálpað okkur mikið við að búa útflutningsatvinnuvegunum hag- stætt umhverfi og reka utanríkis- viðskipti með afgangi til að borga niður þær miklu skuldir sem eru að hlaðast á okkur. Þetta er vanda- samt mat, einnig þegar litið er til þróunar þessara mála alþjóðlega. Það er stórt sem smátt í gagn- gerðu endurmati og svo kann að fara að gjaldeyrislandslag heims- ins verði gjörbreytt innan fárra ára. Ég tel að það sé of snemmt að svara spurningu þinni endan- lega, ég treysti mér alla vega ekki til þess. Eftir langan tíma í stjórnarand- stöðu ert þú kominn í þá aðstöðu að hafa aðgang að upplýsingum sem féllu til á stjórnartíma Sjálf- stæðisflokks, Framsóknarflokks og Samfylkingar. Hefur þú eða samráðherrar þínir séð gögn um að reynt hafi verið að hylma yfir viðkvæm mál; sérstaklega þegar litið er til banka- og efnahags- hrunsins? Nei, ég vil ekki orða það þannig að ég hafi séð gögn sem sanni yfirhylmingar. En það er ýmislegt sem er að koma upp í hendurnar á manni sem vekur spurningar um hvernig að málum var staðið. Ég myndi kannski segja að það vekti upp spurningar um það hvað var ekki gert. Hlutir sem hefði þurft að vinna betur og faglegar; það sem var brýnt að aðhafast en var ekki gert. Margt sem maður hefur á tilfinningunni, og annað sem ég hef séð, vekur upp spurningar um andvara- og aðgerðaleysi sem ríkti gagnvart alvarlegum og versnandi aðstæðum í íslenskum efnahags- málum á undangengnum árum. Ef það kæmu í mínar hendur sterk- ar vísbendingar um slíka hluti þá færi það sína boðleið. Hér starfar sérskipaður saksóknari og rann- sóknanefnd og við munum að sjálf- sögðu veita þeim allar þær upp- lýsingar sem eðlilegt er að slíkir aðilar fái í þágu sinna starfa. Ég lúri ekki á neinu sem ég er að halda hér innandyra. Það hefur heldur ekkert sérstakt komið upp í mínar hendur, allavega enn sem komið er, sem ég tel ástæðu til að senda áfram. Þú minnist á andvaraleysi. Til hvers ertu að vísa? Mér finnst merkilegt að það liggi ekki fyrir greining á ört versnandi stöðu þjóðarbúsins á árunum 2005 til 2007. Þessar rosalegu skulda- súlur sem þá eru að dragast upp. Ég hef kynnt þetta nýlega þar sem þessi veruleiki er dreginn upp á hverri glærunni af annarri og þá spyr maður sig: Hvað voru íslensk stjórnvöld að hugsa? Ekki bara að láta þetta líðast heldur tönglast á því að hér væri góðæri, þegar við blasti hverjum hugsandi manni að landið var að sökkva í stórhættu- legar skuldir. Þegar maður hugsar til stjórnvalda í heild spyr maður: Hvað voru menn að hugsa, hvað voru menn að gera? Eða ekki gera öllu heldur. Hvaða málamiðlun ert þú og þinn flokkur tilbúinn að gera varð- andi umhverfismál ef sitjandi rík- isstjórn heldur áfram samstarfi að loknum kosningum eins og flest bendir til? Er stóriðjuuppbygg- inu lokið, ef frá er talinn Bakki og Helguvík? Það er mikil óvissa um bæði þessi mál sem þú nefnir. Flestir eru að horfast í augu við þá stað- reynd að það gerist sífellt fjarlæg- ari möguleiki að lagt verði af stað með risaálver. Ég efast reyndar um að slíkar verksmiðjur verði byggðar á Vesturlöndum næstu tíu til fimmtán árin, eins og horf- ir í áliðnaði og efnahagslífi heims- ins. Ég held að aðstæðurnar leysi þetta mál og svara því um leið að í kortunum séu ekki þær aðstæður að það komi til okkar kasta að gera miklar málamiðlanir, enda erum við föst fyrir ef til slíks kemur. Við drögum línuna þar að við sætt- um okkur ekki við óafturkræf og stórfelld umhverfisspjöll. Við telj- um þvert á móti að aðrar áhersl- ur í atvinnu- og efnahagsuppbygg- ingu séu vænlegri. Annað mun takmarka þetta og það er skulda- staða þjóðarinnar og lánskjör. Það er augljóst mál að það sem við verðum að leggja áherslu á eru greinar sem fela ekki í sér miklar lántökur og skuldsetningu, heldur það sem skilar virðisauka án mik- illar fjárfestingar. Ég treysti því að aðstæðurnar og skynsemin leysi þetta mál. Þeirri hugmynd hefur verið fleygt að eðlilegt sé að setja þak á laun háttsettra starfsmanna opin- berra stofnana og fyrirtækja. Ert þú þessarar skoðunar og við hvað á að miða? Já, ég held að við eigum að snúa ofan af ofurlaunavitleysunni sem hér hélt innreið sína, og var hluti af þessu sjúka ástandi sem hér myndaðist. Nú er það svo að allir kjarasamningar í landinu eru laus- ir í vor, sumar og haust. Öllum er ljóst hvaða verkefni bíður þar. Það er ekki að hækka hærri laun heldur að verja störf og kaupmátt lægri launa. Ég tel að í kjölfar þess hvernig landið teiknast í kjaravið- ræðum eigi líka að skoða hæstu launin og setja þeim einhver sið- söm efri mörk. Hvernig það verður gert verður að koma í ljós. Stendur þinn vilji til að VG og Samfylking gangi bundin til kosn- inga, svo kjósendur hafi skýrt val um hvað er fram undan? Okkar vilji stendur til þess að tryggja hér áfram vinstri ríkis- stjórn. Við erum tilbúin að tala skýrt í þeim efnum, já. Okkar hugur stefnir að því. Nákvæm- lega hvernig það yrði gert er ekki okkar einna að ákveða. Ég mun í minni setningarræðu á landsfundi senda skýr skilaboð um það að við erum tilbúin að halda þessu sam- starfi áfram. Í öllu falli viljum við beita okkar afli til að mynda hér vinstri- og umhverfissinnaða rík- isstjórn. Ísland hefur frekar þörf á því núna en kannski um langan tíma. Við í Vinstri grænum erum einn sá stjórnmálaflokkur, sem nú er spáð mönnum á þing, sem berum ekki ábyrgð á því að hafa komið Sjálfstæðisflokknum til valda og haldið honum þar. Og þess vegna er það besta trygging fólks fyrir því að hér sé áfram vinstrisinnuð ríkisstjórn að kjósa okkur. Bæði í ljósi sögunnar og fyrir hvað við stöndum. Síðan er það mín bjarg- föst sannfæring, og ég er alls ófeiminn við að segja það, að það sé fullgilt markmið í sjálfu sér að tryggja það að Sjálfstæðisflokk- urinn komist ekki aftur til valda í bráð. Það er komið nóg af slíku. Þessi átján ár, þegar upp er staðið, hafa ekki endað vel. Langur sam- felldur valdatími Sjálfstæðisflokks- ins skilur landið eftir í sárum og þar er ærinn starfi að greiða úr því. Ég held að sú vinna sé betur komin í höndum annarra en þeirra sem aðalábyrgðina bera. Mikill niðurskurður er fyrirséð- ur. Verður þessu mætt með aðhaldi í ríkisfjármálum eingöngu eða eru skattahækkanir ekki óumflýjan- legar? Það eru gríðarlegir erfiðleikar yfirstandandi og fram undan. Það er öllum hugsandi mönnum ljóst að við rekum ekki ríkissjóð ár eftir ár með 150 milljarða króna halla. Það leiðir til þess á undraskömm- um tíma að þjóðarbúið allt kyrk- ist í vaxtakostnaði. Við verðum að ná þessum halla markvisst og til- tölulega hratt niður, annars segir það sig sjálft að vaxtabyrðin verð- ur óviðráðanleg. Það er ekkert val í þeim efnum. Ef einhver getur bent mér á gáfulegri aðferð en að fara þar einhverja blandaða leið; spara og halda kostnaði í lágmarki og jafnframt að afla allra þeirra tekna sem að aðstæður bjóða með réttlátum hætti, þá væri ég feg- inn að fá að sjá slíkar hugmynd- ir. Ég held að þær séu ekki til. Ég held að það sé alveg sama hvaða ríkisstjórn yrði við völd á næstu árum, hún yrði að fara blandaða leið í þessu. Hvað telur þú að sé raunhæft að skera mikið niður á næstu fjárlögum? Það verður að sjálfsögðu að hefj- ast handa strax og draga úr þessum halla. Félagslega væri æskilegt að þurfa ekki að taka mjög stórt skref núna. Í sjálfu sér, byðu aðstæðurn- ar upp á það, teldi ég réttlætan- legt og einboðið að sætta sig við umtalsverðan halla á ríkissjóði og á sveitarfélögunum á meðan við værum að koma samfélaginu í gegnum mesta áfallið. Aðstæð- urnar setja þessu skorður, og þó ég sé eindreginn stuðningsmaður þess að það eigi að beita sameigin- legum sjóðum til sveiflujöfnunar, þá eru þessu takmörk sett. Það er því ekki um neitt að ræða annað en að hefjast handa. Vonandi er eitt- hvert svigrúm um hversu skrefið verður stórt á næsta ári. Þetta ár og næsta verður erfitt, og það væri ábyrgðarlaust að segja annað. Ég vil segja þjóðinni satt. Þetta verð- ur hunderfitt en svo vonum við að um léttist þegar hlutirnir fara að taka við sér. Treystir þú þér til að nefna tölur? Nei, það er svo mikil óvissa í þessu enn þá að það væri óábyrgt af mér að nefna tölur. En við tölum ekkert í minna en tugum milljarða hér, það er bara þannig. Hvernig á að skapa 20.000 störf hér á landi til að uppræta atvinnu- leysið? Það er röng nálgun að segja að við þurfum að skapa 20.000 störf. Það verða að verða til 20.000 störf og stjórnvöld þurfa að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að skapa aðstæður til að slíkt sé mögulegt. Ég held að það sé engin ein töfralausn til og við erum illa brennd af því Íslendingar, að það sé hægt að laga hlutina með einu stóru fixi, svo maður sletti nú aðeins. Það er arfur frá gam- alli tíð sem við verðum að leggja til hliðar. Ég hef sagt að við verð- um að fara með stækkunarglerið á alla þá staði sem mögulegt er til að skapa störf. Helst verðum við að horfa til þeirra sviða þar sem störf og verðmæti geta orðið til með litlum tilkostnaði. Margt smátt gerir eitt stórt. Þess vegna legg ég áherslu á að forsmá ekki hið smáa. Þrátt fyrir allt þá mun það sýna sig hér að helsta uppspretta nýrra starfa og verðmætasköpun- ar er hjá nýsköpunarfyrirtækjum og vexti lítilla og meðalstórra fyr- irtækja. Aðstæðurnar munu líka þrýsta okkur í þessa átt. Við verð- um ekki í færi, alla vega ekki af okkar eigin rammleik, við að veðja á atvinnuuppbyggingu sem bindur gríðarlegt fjármagn og hvert starf kostar einhver hundruð milljóna króna. Margir stjórnmálamenn af þinni kynslóð eru horfnir af sviðinu, hefur þú íhugað að fara að þeirra fordæmi og draga þig í hlé? Ég vil nú ekki skrifa undir að margir stjórnmálamenn af minni kynslóð séu hættir. Hins vegar er það hárrétt að ég hef næst- lengstu þingreynslu á eftir for- sætisráðherra, og það er sögulegt og skemmtilegt að við gömlu brýn- in, í þingreynslu talið, skulum hafa valist til að leiða ríkisstjórnina. En nei, það stendur ekki til í bili. Ég er blessaður af fullri starfsorku og hef enn brennandi áhuga á þjóð- málum. Á meðan ég nýt trausts og finn mig í þeim verkum sem mér er trúað fyrir, þá er ég tilbúinn að halda áfram. Ég hef þann metn- að að skila af mér góðu búi sem formaður VG og ég er bjartsýnn á að það geti tekist. Ég horfi með tilhlökkun til þess hversu margt glæsilegt fólk er að ganga í okkar raðir og veljast þar til forystu. Ég einsetti mér það líka að falla ekki á síðasta prófinu. Það er að kunna að hætta á réttum tíma og draga það ekki of lengi. Helst þannig að það sé eftirsjá að manni en allir séu ekki dauðfegnir að losna við mann. Vill áframhaldandi samstarf Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, segir að sinn vilji til áframhaldandi stjórnarsamstarfs sé ríkur. Hann finn- ur þess ekki stað að hylmt hafi verið yfir viðkvæm mál eftir bankahrunið en spyr hvernig yfirvofandi vandi gat farið fram hjá mönnum. Blanda réttlátra skattahækkana og aðhalds í ríkisrekstri sé eina færa leiðin til að stoppa upp í fjárlagagatið. VERKEFNIN FRAM UNDAN Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna og ráðherra fjármála, sjávarútvegs og landbúnaðar, segir að þrír til fimm ráðherrar hefðu nóg með að vinna úr þeim úrlausnarefnum sem hafa hlaðist upp í fjármálaráðuneytinu. FRÉTTABLAÐIÐ/PJETUR FRÉTTAVIÐTAL SVAVAR HÁVARÐSSON svavar@frettabladid.is Já, ég held að við eigum að snúa ofan af ofurlauna vitleys- unni sem hér hélt innreið sína, og var hluti af þessu sjúka ástandi sem hér myndaðist.

x

Fréttablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.