Morgunblaðið - 25.07.2006, Side 18
18 ÞRIÐJUDAGUR 25. JÚLÍ 2006 MORGUNBLAÐIÐ
MINNSTAÐUR
Fljótsdalshérað | Sumarhátíð UÍA
var haldin á Fljótsdalshéraði um
helgina. Veðrið lék við keppendur og
gesti en á fjórða hundrað manns
keppti á Sumarhátíðinni.
Hátíðin hófst í keppni í golfi á
föstudagskvöld, en ekki hefur verið
áður keppt í greininni á hátíðinni.
Tíu keppendur mættu til leiks, í
tveimur flokkum og sigraði Hrafn
Gunnlaugsson í eldri flokki en Skúli
Arnarson í þeim yngri. Aðalkeppni
Sumarhátíðarinnar er í frjálsum
íþróttum, þar sem 237 keppendur
mættu til leiks, sumir langt að komn-
ir. Verðlaun fyrir besta afrekið í
flokki 14 ára og yngri hlaut Ásmund-
ur Hálfdán Ásmundsson, Val Reyð-
arfirði, en hann keppti í kúluvarpi. Í
flokki 14 ára og eldri náði Agnes Eva
Þórarinsdóttir, UFA, besta árangr-
inum fyrir þrístökk. Á Vilhjálmsvelli
var einnig keppt í knattspyrnu, þar
sem lið Hattar vann í stúlknaflokki
en þrjú lið urðu efst og jöfn í stráka-
flokki og Orkuboltanum þar sem
Frosti Sigurðarson sigraði. Orku-
boltinn var þríþraut, samsett úr
sundi, hlaupi og boltakasti.
Í Sundlaug Egilsstaða var keppt í
sundi, þar sem 87 keppendur voru
skráðir til leiks. Í flokki 15 ára og
eldri var Elínborg Hilmarsdóttir,
Þrótti Neskaupstað, verðlaunuð fyr-
ir árangur í 100 m fjórsundi en í
flokki 14 ára og yngri var það María
Björg Ríkarðsdóttir, Austra, fyrir
árangur í 50 m skriðsundi.
Gísli Sigurðarson, framkvæmda-
stjóri UÍA, segir keppnina hafa
gengið vel fyrir sig. „Veðrið lék við
okkur og gerði þetta enn betra. Við
vorum í ákveðnum vandræðum þar
sem okkur vantaði stundum starfs-
menn í frjálsar íþróttir en áhorfend-
ur brugðust ávallt vel við þegar til
þeirra var leitað og kunnum við þeim
hinar bestu þakkir fyrir.“
Morgunblaðið/Gunnar Gunnarsson
Upprennandi spjótkastari Margt efnilegt íþróttafólk tók þátt í sumar-
hátíð UÍA. Hér er einn ungur og upprennandi spjótkastari í atrennunni.
Á fjórða hundrað
keppenda á
Sumarhátíð UÍA
AUSTURLAND
LANDIÐ
Stykkishólmur | Það er gaman að
heimsækja Flatey á Breiðafirði á
fögrum degi. Auðvelt er að hugsa til
fortíðar þegar gengið er um plássið
þar sem öll gömlu húsin hafa verið
færð til upprunalegs horfs.
Flatey var miðstöð verslunar,
samgangna og fræðslu á nítjándu
öldinni og geymir því mikla sögu.
Í vor var opnað hótel í Flatey. Það
er Minjavernd sem hefur á síðustu
árum gert upp gömul pakkhús og
samkomuhúsið. Í Eyjólfspakkhúsi
eru nokkur tveggja og eins manns
herbergi og í samkomuhúsinu hefur
verið tekin í notkun veitingaaðstaða.
Næsta vetur verður farið í að endur-
gera Stóra-pakkhúsið og mun gisti-
rými aukast þegar þeim fram-
kvæmdum verður lokið.
Fréttaritari fór út í Flatey og leit
inn í samkomuhúsið og skoðaði gisti-
aðstöðuna. Er óhætt að fullyrða að
mjög vel hafi tekist til með breyt-
ingar. Samkomuhúsið lítur út sem
nýtt, en margt innandyra er látið
halda sér til að minna á gamla tím-
ann. Samkomuhúsið hefur sama
hlutverk og áður að laða til sín gesti
og hafa ofan af fyrir þeim. Þar er nú
boðið upp á veitingar þar sem góður
matseðill og góð þjónusta er í boði.
Ánægðar með móttökurnar
Konurnar í Samkomuhúsinu voru
ánægðar með móttökurnar sem þær
hafa fengið á þessum stutta tíma.
Það hefur verið mikið að gera frá
fyrsta degi. Þrátt fyrir leiðinlegt tíð-
arfar hafa margir gestir heimsótt
Flatey í sumar.
„Við bjuggumst við að það kæmu
rólegir dagar hjá okkur inn á milli,
til að hlaða batteríin, en svo hefur
ekki verið,“ segir Ingibjörg Á.
Pétursdóttir, sem er í forsvari fyrir
hópnum sem sér um rekstur hótels-
ins.
Með opnun hótelsins er búið að
tryggja að ferðamenn geta notið
þess að skreppa út í Flatey á milli
ferða ferjunnar Baldurs eða gefið
sér lengri tíma í kyrrð og ró í fallegu
umhverfi.
Allir fá góðar
móttökur í Flatey
Eftir Gunnlaug Árnason
Morgunblaðið/Gunnlaugur Árnason
Konur við völd Samkomuhúsinu er stjórnað af konum og taka þær vel á móti gestum. Ingunn Jakobsdóttir, Ingi-
björg Á Pétursdóttir, Halla Guðmundsdóttir, Álfhildur Ingadóttir og Ásdís Benediktsdóttir.
Seyðisfjörður | Lunga, listahátíð
ungs fólks á Austurlandi, lauk á
Seyðisfirði um helgina. Á laugardag
fór fram vegleg uppskeruhátíð þar
sem þátttakendur í listasmiðjum
sýndu afrakstur vinnu vikunnar en
um kvöldið voru haldnir stórtónleik-
ar í Herðubreið þar sem fram komu
hljómsveitir á borð við Ghostdigital,
Foreign Monkeys, Miri og Ampop.
Aðalheiður Borgþórsdóttir, fram-
kvæmdastjóri hátíðarinnar, var
ánægð með hátíðina þegar Morgun-
blaðið ræddi við hana í gær, en áætl-
að er að á fjórða þúsund manns hafi
mætt á viðburði hátíðarinnar.
Þátttakendur komu frá
ellefu þjóðlöndum
„Þátttakendur í hátíðinni voru 120
talsins frá 11 þjóðlöndum svo það
var mjög alþjóðlegur blær yfir hátíð-
inni. Ungmennin sem komu erlendis
frá voru gríðarlega ánægð og langar
til að koma aftur,“ sagði Aðalheiður.
„Aðsókn á alla viðburði var mjög góð
og hátíðin tókst vel í alla staði og
þeir sem komu til að taka þátt í há-
tíðinni og horfa á voru mjög ánægð-
ir,“ sagði Aðalheiður.
Alþjóðlegur bragur á
listahátíð unga fólksins
Eftir Gunnar Gunnarsson
Morgunblaðið/Gunnar Gunnarsson
Stórtónleikar í Herðubreið Lunga, listahátíð ungs fólks á Austurlandi,
lauk um helgina með miklum tónleikum í félagsheimilinu Herðubreið.
FRANSKIR dagar verða haldnir á
Fáskrúðsfirði um næstu helgi, 27.–
30. júlí. Í ár verður fjölbreytt dag-
skrá og er hægt að nálgast hana á
heimasíðu Fjarðabyggðar.
Meðal dagskráratriða má nefna
tvenna tónleika í Fáskrúðsfjarð-
arkirkju á föstudag þar sem Berg-
þór Pálsson, Jóhanna Vigdís Arn-
ardóttir, Sigrún Eðvaldsdóttir og
Kjartan Valdemarsson flytja
franska kaffihúsatónlist, íslensk
stemmningslög og lög úr fyrsta ís-
lenska söngleiknum, Skrúðsbónd-
anum, eftir Björgvin Guðmundsson
frá Vopnafirði.
Þá verða sýningar í leikskóla og
verkalýðshúsi. M.a. verður sýning á
handverki heimamanna. Meðal
annarra dagskráratriða má nefna
kenderísgöngu að kvöldlagi, vígslu
nýrrar slökkvistöðvar, heyvagna-
akstur, flugeldasýningu og brekku-
söng, dansleiki og dorgveiðikeppni
svo nokkuð sé nefnt. Einnig verður
tjaldmarkaður í miðbænum laugar-
dag og sunnudag.
Franskir dagar hafa unnið sér
sess sem árleg bæjarhátíð
Fáskrúðsfjarðar. Brottfluttir koma
í heimsókn í bæinn, fermingar-
barnamót eru haldin og árgangar
mæla sér mót þessa daga.
Ljósmynd/Albert Eiríksson
Undirbúningur Ungir sem aldnir hafa lagt hönd á plóginn við undirbúning
Franskra daga á Fáskrúðsfirði. Börnin á myndinni létu sitt ekki eftir
liggja, en þau eru f.v.: Laufey Birna, Védís Elsa og Kristján Guðmundur.
Frönsk
kaffihúsa-
tónlist á
Fáskrúðsfirði
TENGLAR
..............................................
www.fjardabyggd.is