Morgunblaðið - 25.07.2006, Síða 10
10 ÞRIÐJUDAGUR 25. JÚLÍ 2006 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
Eftir Egil Ólafsson
egol@mbl.is
ÓLÍKLEGT er að þrýstingur á ís-
lensk stjórnvöld um að gera breyt-
ingar á landbúnaðarstefnunni
minnki neitt við þá niðurstöðu sem
varð í Doha-viðræðunum í Genf í
gær. Ríkisstjórnin er með á borði
sínu tillögur um lækkun á tollum á
landbúnaðarvörum frá formanni
matvælanefndar. Ekkert liggur þó
enn fyrir um hvort tollar verða
lækkaðir.
Skýrsla formanns matvælanefnd-
ar forsætisráðherra hefur aukið
þrýsting á stjórnvöld að gera breyt-
ingar á landbúnaðarstefnunni. For-
ystumenn ríkisstjórnarinnar hafa
lagt áherslu á að breytingar á land-
búnaðarstefnunni þurfi að taka mið
af þeim breytingum sem sam-
komulag næst um á vettvangi WTO.
Búist hafði verið við að samkomulag
myndi nást á þessu ári og í fram-
haldi af því yrðu gerðar breytingar
hér heima í samræmi við það. Segja
má að breytingum á landbún-
aðarstefnunni hafi verið frestað
vegna þess að menn voru að bíða eft-
ir að niðurstaða kæmi í þessar við-
ræður. Nú er ljóst að samn-
ingamenn eiga langt í land. Í
fréttaskeytum í gær var talað um að
WTO-viðræðurnar hefðu „hrunið“.
Hvert framhaldið verður veit enginn
á þessari stundu.
Það er því ljóst að ráðherrar rík-
isstjórnarinnar, sem nú velta fyrir
sér viðbrögðum við skýrslu for-
manns matvælanefndar, geta ekki
horft til WTO með leiðbeiningar.
Ráðherrarnir standa nú frammi fyr-
ir tveimur kostum. Í fyrsta lagi að
halda áfram með að bíða eftir nið-
urstöðu í WTO en sú bið gæti tekið
nokkur ár. Í öðru lagi að gera breyt-
ingar á landbúnaðarstefnunni.
Viðmælendur Morgunblaðsins
eru sammála um að þrýstingur á
stjórnvöld um að gera breytingar á
landbúnaðarstefnunni muni ekki
minnka við þá niðurstöðu sem varð í
Genf í gær.
Kalla ódýrari innfluttar vörur á
arðbærari kúastofn?
Í tillögum formanns mat-
vælanefndar er lagt til að tollar á
landbúnaðarvörum verði lækkaðir
en á móti verði ríkisstyrkir til bænda
auknir. Stjórnvöld geta með einföld-
um hætti lækkað tolla á innfluttar
landbúnaðarvörur. Það er hins veg-
ar miklu flóknara að auka landbún-
aðarstyrki frá því sem nú er. Flestir
reikna með að þó að illa gangi að ná
samkomulagi innan WTO muni
menn ná saman á endanum. Sá
rammi að samkomulagi sem liggur á
borðinu gerir ekki aðeins ráð fyrir
að tollar á landbúnaðarvörum verði
lækkaðir heldur gerir einnig ráð fyr-
ir að ríkisstyrkir til landbúnaðar
verði einnig lækkaðir. Að vísu geta
einstakar þjóðir aukið styrki sem
ekki hafa markaðstruflandi áhrif.
Þar er átt við byggðastyrki, styrki til
rannsókna og styrki í þágu umhverf-
isins. Íslendingar geta hins vegar
ekki aukið beingreiðslur til bænda,
en í dag er meginhluti stuðnings rík-
isins við bændur einmitt í formi
beingreiðslna.
Meðal mjólkurframleiðenda er
veruleg andstaða við að atvinnu-
greinin verði skilgreind sem ein-
hvers konar hluti af byggðastefnu
stjórnvalda. Miklar breytingar hafa
átt sér stað í mjólkurframleiðslunni
með fækkun og stækkun búa. Ef
hins vegar tollar verða lækkaðir,
sem væntanlega mun þýða minni
markaðshlutdeild innlendrar fram-
leiðslu, vaknar sú spurning hvort
ekki þurfi að veita bændum heimild
til að nýta alla möguleika til hagræð-
ingar í greininni og þar með að
lækka verð. Fyrir liggur að hægt er
að auka arðsemi búanna um tugi
prósenta með því að flytja inn nýtt
og arðbærara kúakyn. Það hlýtur að
vera áleitin spurning fyrir íslensk
stjórnvöld og forystumenn bænda
hvernig hægt er að ætlast til að
bændur geti keppt við ódýrar inn-
fluttar búvörur ef þeir mega ekki
nýta sér arðbærari kúakyn líkt og
bændur í nágrannalöndunum okkar
nota.
Fréttaskýring | Hvaða áhrif hafa Doha-viðræðurnar á Ísland?
Ólíklegt að þrýstingur á breytingar minnki
Morgunblaðið/Benjamín Baldursson
Á bænum Hrafnagili hefur verið tekin í notkun svokölluð mjaltahringekja. Í hringekjunni sem, eins og nafnið gef-
ur til kynna, snýst í hring eru mjólkaðar 30 kýr samtímis. Á myndinni er Jón Elfar Hjörleifsson að mjólka.
ENGINN árangur varð af Doha-við-
ræðunum innan Alþjóðaviðskipta-
stofnunarinnar, WTO, en fundalota
hefur staðið yfir undanfarnar vikur í
Genf. Í gær boðaði Pascal Lamy,
framkvæmdastjóri WTO, óvæntan
fund og lýsti því yfir að frekari
samningaviðræðum hefði verið hætt
og viðræður myndu liggja niðri um
ótiltekinn tíma. Guðmundur Helga-
son, ráðuneytisstjóri í landbúnaðar-
ráðuneytinu, segir að kenna megi
átökum milli Bandaríkjanna, Evr-
ópusambandsins og stærri þróunar-
ríkja eins og Brasilíu og Indlands um
árangursleysi viðræðnanna.
Þær viðræður sem strönduðu í
gær hafa staðið árum saman. Árið
1994 tókst samkomulag um tolla-
lækkanir og aukið frjálsræði í við-
skiptum með landbúnaðarvörur, en
þetta samkomulag er við Úrúgvæ.
Það tók 7–8 ára viðræður að ná
þessu samkomulagi. Árið 2001 var
samþykkt í borginni Doha í Katar að
ráðast í nýja samningalotu. Upphaf-
legt markmið var að ljúka viðræðun-
um á fjórum árum, en það tókst ekki.
Nú er fullkomlega óljóst hvert fram-
haldið verður.
Það hafa verið margar samninga-
lotur í Doha-viðræðunum en það sem
gefur árangursleysi þessarar samn-
ingalotu aukið vægi er að samnings-
umboð Bandaríkjastjórnar rennur
út á miðju næsta ári. Bandaríkjaþing
gaf Bush Bandaríkjaforseta sérstakt
umboð um frjálsræði í samningavið-
ræðunum og ef ljúka hefði átt við-
ræðunum innan þessa umboðs hefði
meginatriði samkomulagsins þurft
að liggja fyrir í lok þessa árs. Nú
bendir allt til að það takist ekki að
ljúka viðræðunum innan þessara
marka. Það mun ekki auðvelda
mönnum að koma Doha-viðræðun-
um á flot á ný ef Bandaríkjaforseti
þarf að leita eftir nýju umboði, ekki
síst ef haft er í huga að það styttist í
forsetakosningar í Bandaríkjunum.
Engin hreyfing í viðræðunum
Guðmundur Helgason, sem tekið
hefur þátt í Doha-viðræðunum und-
anfarin ár, var spurður hvers vegna
enginn árangur hefði náðist á fund-
unum í Genf.
„Það hefur engin hreyfing verið í
viðræðunum þrátt fyrir ítarlegur
viðræður síðustu vikurnar. Það er
samdóma álit allra sem að þessum
viðræðum koma að Bandaríkjamenn
þurfi að taka á sig meiri niðurskurð í
innanlandsstuðning við landbúnað
en þeir hafa verið reiðubúnir til að
gera. Það er mikill þrýstingur á Evr-
ópusambandið að veita meiri mark-
aðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur,
en sambandið hefur ekki verið tilbú-
ið að mæta þeim kröfum. Síðan vant-
ar mikið upp á að stærri þróunarríki,
sem eru lengra á veg komin eins og
Indland og Brasilía, sýni vilja til að
koma á móts við kröfur um að opna
markaði sína fyrir iðnaðarvörur. Það
má segja að viðræðurnar sitji fastar
inni í þessum þríhyrningi. Á meðan
ekkert þokast í samkomulagsátt um
þessi stóru ágreiningsmál gerist
ekki neitt,“ sagði Guðmundur.
Óljóst með framhaldið
Ísland situr í svokölluðum G-10
hópi og Guðmundur var einmitt á
leið til fundar við G-10 hópinn þegar
fréttir bárust af því að búið væri að
slíta Doha-viðræðunum. Ráðgert
hafði verið að fulltrúar G-10 hópsins
myndu hitta Pascal Lamy, fram-
kvæmdastjóra WTO, í dag, en vænt-
anlega verður ekkert af þeim fundi.
Aðspurður sagði Guðmundur að
G-10 hópurinn hefði ekki afl til að
þoka málum áleiðis meðan Banda-
ríkin, Evrópusambandið og stóru
þróunarríkin næðu ekki árangri í
stóru ágreiningsefnunum. Guð-
mundur treysti sér ekki til að spá
fyrir um næstu skref í Doha-viðræð-
unum.
Lamy hefði frestað viðræðum um
ótiltekinn tíma. Væntanlega þyrftu
samningamenn einhverja mánuði til
að kæla sig niður.
Doha-viðræðunum
frestað í ótiltekinn tíma
REUTERS
Pascal Lamy, framkvæmdastjóri WTO, sleit fundi í Genf í gær þegar ljóst
var að enginn árangur var að nást í viðræðum um aukið frelsi með land-
búnaðarvörur og lækkun á tollum á landbúnaðarvörum og iðnvarningi.Verða Valsstúlkur eina
ósigraða liðið í Lands-
bankadeild kvenna eftir tí-
undu umferðina?
á morgun