Morgunblaðið - 14.09.2006, Side 18
18 FIMMTUDAGUR 14. SEPTEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
ERLENT
ÚR VERINU
BREZKA smásölukeðjan Waitrose
hefur tilkynnt að í fyrsta sinn á ein-
um áratug, hafi hún selt meira af
fiski en kjúklingi. Sala á fiski hjá
keðjunni hefur aukizt um 20% á síð-
asta ári. Sala á kjúklingi hefur á
sama tíma aukizt um 6%.
Þetta kemur fram á fréttavefn-
um Intrafish.com, sem hefur það
eftir Jeremy Ryland-Langley, sér-
fræðingi Waitrose í fiski, að það sé
fyrst og fremst feitur fiskur, sem
seljist meira og bendi það til þess að
neytendur séu að hugsa um holl-
ustu umfram annað. „Aukningin er
mikil og ljóst að kaupin stýrast af
nýjum lífsstíl fólks,“ segir Ryland-
Langley.
Jákvæðar fréttir um fiskneyzlu
hafa verið áberandi á Bretlandi síð-
ustu tvö árin. Manneldisráð lagði til
fyrir tveimur árum að neytendur
borðuðu tvær fiskmáltíðir á viku að
lágmarki og ætti önnur þeirra að
vera úr feitum fiski. Í síðustu viku
lögðu svo skólayfirvöld á Englandi
til að skólabörn borðuðu meira af
feitum fiski. Þegar talað er um feit-
an fisk má nefna tegundir eins og
lax, makríl og síld. Innihald fjöló-
mettuðu fitusýranna Omega 3 er
mikið í slíkum fiski, en þær eru ein-
staklega hollar.
Áherzla á sjálfbærni
Ryland-Langley segir ennfrem-
ur að þar sem Waitrose sé þekkt
fyrir að bjóða aðeins fisk úr sjálf-
bærum veiðum, hafi salan einnig
aukizt. Keðjan hafi gert fjölmargar
ráðstafanir til að tryggja sjálfbærni
sjávarafurða sinna. Nýlega hefur
keðjan lagt áherzlu á að kaupa að-
eins eldislax sem hefur verið alinn á
fóðri fengnu á sjálfbæran hátt síð-
ustu þrjú árin. Fyrr á þessu ári
hætti Waitrose að kaupa fisk veidd-
an í troll og selur nú aðeins fisk
veiddan á línu. Þess má geta að Wa-
itrose kaupir mikið af fiski frá Ís-
landi, bæði ferskan og frystan í
neytendaumbúðum. Ekkert land
selur meira af botnfiski til Bret-
lands en Ísland.
Waitrose hefur einnig lagt
áherzlu á að bjóða fisk, sem hefur
hlotið umhverfismerkingar MSC og
hefur sú sala margfaldazt á síðustu
tveimur árum í röð. Auk þess hefur
keðjan fengið viðurkenningar frá
MSC og Grænfriðungum fyrir
þessa afstöðu sína. Ryland-Langley
segir að þeir hafi trú á því að mik-
ilvægi sjálfbærni eigi eftir að hafa
veruleg áhrif á söluna í framtíðinni.
Auka hlutdeild
á kostnað annarra
Waitrose hefur unnið mikið í því
að skapa sér sess sem fisksali al-
mennt. Nú er keðjan með um 3,9%
markaðshlutdeild í sölu matmæla á
Bretlandi, en 10% hlutdeild í allri
sölu á ferskum fiski. Það telur Ryl-
and-Langley að bendi til þess að
Waitrose sé að auka hlutdeild sína á
kostnað annarra. Þá hefur sala
keðjunnar á fiski í neytendaumbúð-
um aukizt mikið líka, en hlutdeildin
hefur þó minnkað.
Það að fiskur seljist meira en
kjúklingur hjá Waitrose kann að
vera einsdæmi, en engu að síður
hefur sala sjávarafurða aukizt um
6% á ári og er það mesta aukning í
sölu matvælaflokka, sem byggjast á
próteini. Þótt fiskur seljist ekki eins
mikið og kjöt og fiðurfé, er hlutdeild
hans greinilega að vaxa.
Fisksala á Bretlandi eykst mikið og mun meira en á flestum tegundum af kjöti
Waitrose selur meira af fiski en
kjúklingi í verzlunum sínum
Morgunblaðið/Hjörtur Gíslason
Fiskur Sala á ferskum fiski hjá verzlanakeðjunni Waitrose vex miklu
meira en sala á kjúklingum og hlutdeild keðjunnar í fiski eykst.
Eftir Hjört Gíslason
hjgi@mbl.is
Í HNOTSKURN
»Sala á fiski í Bretlandihefur aukizt um 6% á ári
undanfarin ár.
»Sala Waitrose á fiski hefuraukizt um 20% á síðasta
ári, en sala á kjúklingi um 6%.
»Manneldisráð Bretlandslegur til að fólk borði fisk
að minnsta kosti tvisvar í
viku.
»Umhverfismerkingar ogsjálfbærni hafa vaxandi
áhrif á söluna.
» Íslendingar selja Bretummeira af botnfiski en
nokkur önnur þjóð.
„ÞAÐ er mikið áhyggjuefni hve mikill
samdráttur hefur orðið í veiðum á upp-
sjávarfiski, einkum loðnu. Á hinn bóginn
er það ánægjulegt að veiðar á botnfiski
hafa aukizt lítillega milli ára,“ segir Ein-
ar K. Guðfinnsson
sjávarútvegsráðherra
um samdráttinn í fisk-
veiðunum á síðasta
fiskveiðiári.
Hann segir að síð-
asta loðnuvertíð hafi
verið mikil vonbrigði
en mælingar á stofn-
stærð hafi aðeins gefið
tilefni til að gefa út
veiðiheimildir sem
námu um 200.000 tonn-
um. Það hafi þó verið jákvætt að þessi
litli kvóti hafi skilað miklum verðmæt-
um, sem sýni vel hve sveigjanlegur sjáv-
arútvegurinn sé og fljótur að bregðast
við erfiðum aðstæðum. Þá sé staðan í
hörpuskel og rækju afskaplega slæm, lít-
il sem engin rækjuveiði og veiðibann í
skelinni.
Slæm áhrif á afkomu margra
Það sé enginn vafi á því að þessi staða
hafi haft mjög slæm áhrif á afkomu
þeirra, sem áður hafi stólað á þessar
veiðar og vinnslu, sjómenn, fiskverka-
fólk, útgerðir, fiskvinnslur og einstök
byggðarlög. Sama gildi um stöðuna í
loðnunni, en hún hafi lengi skilað mikl-
um verðmætum og verið útgerðunum og
fiskmjölsverksmiðjunum mikilvæg. Loks
sé staða loðnustofnsins slæm í ljósi þess
að hún sé undirstöðuæti fyrir þorskinn
og sá guli gjaldi þess nú að loðnugöngur
séu ekki eins og áður.
Aflinn á síðasta fiskveiðiári var sá
minnsti í síðastliðin 15 ár. Aflabrestur í
loðnu réði mestu um það, en nær engar
veiðar á skelfiski voru stundaðar.
Lítill afli af upp-
sjávarfiski er mikið
áhyggjuefni
Einar K.
Guðfinnsson
Eftir Boga Þór Arason
bogi@mbl.is
AÐALSAKSÓKNARINN í réttar-
höldunum yfir Saddam Hussein fyrir
meint þjóðarmorð á íröskum Kúrd-
um krafðist þess í gær að dómarinn í
málinu segði af sér. Dómarann var
sakaður um að draga taum Saddams
Husseins og sex annarra sakborn-
inga í málinu.
Saksóknarinn Munqith al-Faroon
sagði að dómarinn Abdullah al-Ameri
hefði tekið of mildilega á sakborning-
unum sem hefðu haft í hótunum við
saksóknara og vitni. Dómarinn hefði
einnig látið Saddam komast upp með
að halda „pólitískar ræður“ sem
vörðuðu á engan hátt sakargiftirnar.
Dómarinn hafnaði kröfu saksókn-
arans.
Saddam og sex fyrrverandi sam-
starfsmenn hans eru sakaðir um
þjóðarmorð vegna svonefndrar An-
fal-herferðar íraskra öryggissveita
gegn Kúrdum í Norður-Írak á árun-
um 1987-88. Saksóknararnir segja að
182.000 Kúrdar hafi beðið bana í
árásum öryggissveitanna.
Verði sakborningarnir fundnir
sekir eiga þeir dauðdóm yfir höfði
sér.
Fann yfir 60 lík
Íraska lögreglan kvaðst í gær hafa
fundið 64 lík í Bagdad á einum sólar-
hring. Flest líkanna fundust í hverf-
um súnní-araba í vesturhluta borg-
arinnar en fimmtán þeirra fundust í
hverfum sjíta í austurhlutanum. Lög-
reglan sagði að ekki væri vitað hvort
hinir látnu væru úr röðum súnní-
araba eða sjíta. Þeir hefðu verið
pyntaðir, með hendur bundnar fyrir
aftan bak, áður en þeir voru skotnir
til bana.
Að minnsta kosti 28 manns létu líf-
ið í tveimur bílsprengjuárásum í Bag-
dad í gær. Tugir manna særðust í til-
ræðunum.
Áformum um
sambandsríki frestað?
Mahmud al-Mashhadani, forseti
íraska þingsins, sagði í viðtali við The
Washington Post í gær að umdeild-
um áformum um að koma á fót sam-
bandsríki og skipta Írak í þrjú sjálf-
stjórnarsvæði yrði að öllum líkindum
frestað í að minnsta kosti fjögur ár.
Bandalag sjíta á þinginu hefur lagt
fram lagafrumvarp sem myndi gera
sjítum kleift að stofna sjálfstjórnar-
svæði í suðurhluta Íraks, líkt og
Kúrdar í norðurhlutanum. Margir
súnní-arabar eru andvígir þessum
áformum á þeirri forsendu að þau
verði til þess að landið skiptist í
þrennt, í olíurík svæði Kúrda í norðri
og sjíta í suðri en auðlindasnautt ríki
súnníta í miðju landsins.
Mashhadani, sem er súnní-arabi
og þriðji æðsti embættismaður Íraks,
sagði að ekki kæmi lengur til greina
að koma áformunum í framkvæmd
þar sem þau myndu verða til þess að
stofnað yrði „íslamskt öfgaríki“ í
Suður-Írak.
Sagður draga
taum Saddams
Tugir líka fundust í Bagdad og ekkert
lát á mannskæðum sprengjuárásum
ÞÝSKA fyrirsætan Regina Deutinger hefur komið sér fyrir við svanavatn í
München og ekki er hún illa til höfð. Er hún í Drindl-kjól, bæverskum þjóð-
búningi, sem er alsettur svokölluðum Swarovski-steinum. Eru þeir 150.000
að tölu og er kjóllinn metinn á rúmlega níu milljónir íslenskra króna. Er
hann sá dýrasti sinnar tegundar í heimi.
AP
Dýrasti þjóðbúningurinn
prýddur 150.000 steinum
MAHMOUD Ahmadinejad, forseti
Írans, hélt í gær í opinbera heim-
sókn til Senegals en mun einnig
koma við í Venesúela og Kúbu á tíu
daga ferð sinni til ríkja sem eru hlið-
holl utanríkisstefnu landsins. Þá
mun forsetinn ávarpa allsherjarþing
Sameinuðu þjóðanna í New York í
byrjun næstu viku.
Á föstudag hefst þing Samtaka
hlutlausra ríkja, NAM, á Kúbu sem
Íransforseti mun sitja. Er um að
ræða 116 ríki, sem flest eru skil-
greind sem þróunarlönd, en búist er
við að þau muni leggja áherslu á þá
kröfu, að öll ríki hafi rétt til að þróa
kjarnorkutækni. Jafnframt er
reiknað með að þau muni kalla eftir
„skilyrðislausum“ viðræðum um
kjarnorkuáætlun Írana. Alþjóða-
samfélagið grunar að Íranar séu að
nota áætlunina sem yfirskin til að
smíða kjarnorkuvopn.
Ahmadinejad hét því á þriðjudag
að Íranar myndu aðstoða Íraka við
að koma á „fullkomnu“ öryggi í
Írak, að loknum fundi með forsætis-
ráðherra landsins, Nuri al-Maliki.
„Íranar munu veita aðstoð til að
koma á fullkomnu öryggi í Írak, því
að öryggi Íraka er öryggi Írana,“
sagði Íransforseti eftir fundinn.
Forsætisráðherra Íraks sagðist
ánægður með viðræðurnar. „Við átt-
um ánægjulegar viðræður,“ sagði
al-Maliki. „Jafnvel í öryggismálum
eru engar hindranir fyrir sam-
vinnu.“
Írans-
forseti
gerir
víðreist