Morgunblaðið - 14.09.2006, Blaðsíða 21
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 14. SEPTEMBER 2006 21
SUÐURNES
AUSTURLAND
„VERULEGAR breytingar verða á
rennsli Jökulsár á Dal með tilkomu
Kárahnjúkavirkjunar“ sagði Óli
Grétar Blöndal Sveinsson, deild-
arstjóri rannsókna á verkfræði- og
framkvæmdasviði Landsvirkjunar,
á opnum fundi um virkjunarfram-
kvæmdina sem haldinn var á
Fljótsdalshéraði
fyrir skemmstu.
Byrja á að safna
vatni í Hálslón á
allra næstu dög-
um.
„Þegar lónið
fyllist fer vatnið
á yfirfall og það
mun jafnan ger-
ast síðsumars og
eitthvað fram á
haustið. Þetta er
eina jökulvatnið sem kemur í ána
eftir Kárahnjúkavirkjun, annars er
eingöngu um bergvatn að ræða.“
Óli Grétar segir göngin frá lóninu
eðli málsins samkvæmt aðeins
rúma það vatnsmagn sem virkjunin
geti tekið við, ríflega 100 m3/sek og
þegar lónið sé fullt taki yfirfallið af-
ganginn.
„Sum ár eru mjög mögur og þá
mun Hálslón ekki fyllast og ekkert
jökulvatn koma í ána. Í blautustu
árum mun vatn koma á yfirfall
Hálslóns um miðjan júlí. Reiknað er
með að annað hvert ár komi vatn á
yfirfallið fyrir miðjan ágúst og verði
á yfirfalli fram eftir september. Það
vatn sem kemur á yfirfallið eykst
smám saman byrjar frá engu og vex
upp í tæplega dæmigert núverandi
rennsli Jöklu. Góður aðdragandi er
að því þegar vatn byrjar að renna á
yfirfalli og tilkynnt verður um það
sérstaklega.“
Vatnasvið Jökulsár á Dal er um
4000 km² að stærð. Þar af kemur
vatn af 1800 km² í Hálslón, en þar af
eru 1400 km² á jökli.
Af vatnasviði Brúar á Jökuldal
rennur Reykjará í Jöklu og enn neð-
ar, milli Brúar og Hjarðarhaga
renna ár eins og Hrafnkela, Hölkná,
Eyvindará og Gilsá ásamt minni
sprænum. Því munu áfram verða
vorflóð frá þessum dragám í farvegi
Jöklu.
„Almennt er það þannig með lón
og stöðuvötn að stundum eru stíflur
ekki endilega byggðar til að safna
vatni til rafmagnsframleiðslu, heldur
til áveitna, flóðvarna og til að dempa
flóð“ segir Óli Grétar.
„Stór flóð sem munu koma í fullt
Hálslón skila sér ekki óbreytt niður
Jökuldalinn, heldur munu þau demp-
ast töluvert af völdum lónsins. Í júlí
og ágúst er mesta bráðnunin úr Brú-
arjökli og þá er mesta innrennsli í
Hálslón. Þar sem ár renna gegnum
lón minnka flóðtoppar og lengjast
vegna þeirrar geymslu sem er í lón-
inu. Innrennslið í Hálslón fer í að
hækka yfirborð þess en afgangurinn
rennur um yfirfallið. Það getur flutt
allt að 2250 m3/sek og er hannað til
að geta tekið við aftakaflóðsatburð-
um; stærsta mögulega flóði miðað
við eðlisfræði loftsins og vatnasviðs-
ins, sem á ekkert skylt við líkindi. Ef
við ímyndum okkur að miklar nátt-
úruhamfarir, svo sem eldgos í Vatna-
jökli, geti átt sér stað, þá er hluti
Desjarárstíflu byggður veikari og
hefur svokallað flóðvar. Fari rennsli
á yfirfalli Kárahnjúkastíflu yfir 2250
m3/sek, á þessi hluti Desjarárstíflu
að gefa sig og getur flutt aukalega
6000 rúmmetra vatns á sekúndu og
er til að varna því að stíflurnar fari í
slíku hamfaraflóði.“
„Við erum að taka eitt aurugasta
fljót landsins til virkjunar og hluti af
því verður fluttur yfir á annað vatna-
svið, sem er einsdæmi hér á Íslandi.
Að meðaltali erum við því að auka
rennslið í Lagarfljóti um það magn
sem við flytjum yfir, eða um 90 m3/
sek sem settir eru jafnt og þétt í
Lagarfljót.
Það var eitt af skilyrðum umhverf-
isráðherra til að varna hækkaðri
vatnsborðsstöðu í fljótinu að lækka
klapparhaft við Lagarfoss. Eftir slík-
ar aðgerðir og m.v. óbreytt rennsli
lítur út fyrir að mesta meðalvatns-
hæð á sumrin verði svipuð og áður
við Lagarfljótsbrú við Egilsstaði, en
töluvert lægri niðri við Lagarfoss.
Eins og áður verða lokur Lagarfoss-
virkjunar notaðar til að auka rennsli
framhjá Lagarfossvirkjun frá vori og
fram á haust.“
Hálslón verður 2350 milljón rúm-
metrar (örlítið stærra en Lögurinn
að flatarmáli en aðeins minna að
rúmmáli) og af því nýtast um 2100
rúmmetrar til miðlunar. Núverandi
aurburður í Jöklu mun að mestu leyti
setjast til í lóninu og miðað við nú-
verandi framburð mun lónið fyllast á
um 400 árum. Skerðing á lónrýmd
mun ekki hafa nein teljanleg áhrif á
rekstur virkjunarinnar a.m.k. fyrstu
100 árin.
Jökla rennur vart
meir um Jökuldal
Morgunblaðið/RAX
Breytingar Innan skamms verður byrjað að safna vatni í Hálslón og í kjöl-
far þess verður sjaldgæft að jökulvatn renni í Jöklu. Í farveg hennar neðan
stíflu renna margar dragár sem munu skila bergvatni niður farveginn og
þar mun gæta vorflóða í framtíðinni.
Í HNOTSKURN
»Bergvatn aðliggjandidragáa mun renna í far-
vegi Jöklu, auk jökulvatns af
yfirfalli Hálslóns þegar það er
fullt síðari hluta sumar.
»Hálslón mun dempa áhrifstórflóða undan jökli af
völdum náttúruhamfara eða
hlýnunar andrúmsloftsins
»Ekki er gert ráð fyrirvatnsborðsbreytingum í
Lagarfljóti nema á vetrum
þegar það minnkar vegna
stækkunar farvegarins við
Lagarfoss.Óli Grétar Blöndal
Sveinsson
Vatnsleysuströnd | „Fuglinn hag-
aði sér alveg eins og taminn fugl.
Við fréttum fljótlega að franski vís-
indamaðurinn hefði sleppt mávi áð-
ur en skipið fórst og því datt okkur
í hug að þetta væri fuglinn hans,“
segir Símon Kristjánsson, fyrrver-
andi bóndi og sjómaður, á Neðri-
Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd.
Sérfræðingar töldu þó ólíkegt að
um sama fugl væri að ræða.
Franski leiðangursstjórinn á Po-
urquoi-pas?, dr. Charcot, fóstraði í
káetu sinni særðan máv sem leitaði
til skipverja við Grænland. Þegar
útséð var um björgun skipsins eftir
að það steytti á skerjum við Mýrar
í september 1936 opnaði Charcot
búrið svo fuglinn gæti bjargað sér.
39 skipverjar fórust en einn bjarg-
aðist.
Um miðjan janúar, fjórum mán-
uðum eftir slysið, birtist frétt í
Morgunblaðinu um að mávur dr.
Charcots kynni að hafa fundist.
Drengur á Vatnsleysuströnd hefði
veitt taminn máv. Umræddur
drengur, Símon Kristjánsson, var
tvítugur þegar hann náði fuglinum
en verður níræður næstkomandi
mánudag. „Fuglinn kom hér á land.
Við tókum eftir honum úti á túni
og þegar við löbbuðum til hans
kom hann strax til okkar. Hann var
greinilega taminn,“ segir Símon
þegar hann er beðinn að rifja þessi
atvik upp.
Hann segir að það hafi frést
fljótlega að leiðangursstjóri Pour-
quoi-Pas? hafi sleppt mávi áður en
skipið fórst og því hafi menn talið
hugsanlegt að þetta væri fuglinn
hans.
Að beiðni Morgunblaðsins fór
Símon með mávinn til Reykjavíkur
þar sem hann var á ritstjórn blaðs-
ins hluta úr degi. Magnús Björns-
son náttúrufræðingur var fenginn
til að skoða fuglinn. Sagði hann að
þetta væri ísmávur, hreinræktaður
Grænlendingur, eins og hann
komst að orði í Morgunblaðinu.
Fuglar af þessari tegund skipta um
lit tvisvar á ári, eins og rjúpan, eru
grábrúnir á sumrin en snjóhvítir
um vetur. Hins vegar taldi Magnús
að mávurinn væri um það bil
þriggja ára og þar með var talið
útilokað að þetta væri fugl Char-
cots því sá hafði verið tekinn ungi
við Grænland um sumarið.
Síðar um daginn kom konsúll
Frakka og frú á Morgunblaðið til
að skoða mávinn. Þau höfðu bæði
séð fugl dr. Carcots og þekktu vel.
Þvertóku þau fyrir að þetta væri
sami mávurinn.
Drapst úr leiðindum
Út frá þessu sló Morgunblaðið
því föstu í grein sem birtist 28. jan-
úar 1937 að þetta væri ekki máv-
urinn frægi frá Pourquoi-Pas? en
lesendur voru skildir eftir með þá
ráðgátu hverjir hefðu náð þessum
fugli norður í Íshafi og tamið. Sím-
on og fleiri Suðurnesjamenn telja
enn þann dag í dag að mávurinn
sem hann fann kunni að hafa verið
fugl Frakkans. Símon segist hafa
alið fuglinn lengi en hann hafi
veikst og drepist. „Hann gæti alveg
hafa drepist úr leiðindum. Það er
ekki ósennilegra en hvað annað,“
segir Símon.
Hvað varð um mávinn?
Taminn Báðir mávarnir voru afar gæfir eins og sést á myndinni af dr. Charcot og Símoni Kristjánssyni. Á myndinni til hægri er Símon á heimili sínu.
Morgunblaðið/Helgi BjarnasonLjósmyndastofa Lofts
Eftir Helga Bjarnason
helgi@mbl.is
Grindavík | Börn í Grindavík fengu
óvænt tölvuskeyti frá Írlandi í gær.
Tvær ungar konur frá Dyflinni
fundu flöskuskeyti sem pabbi krakk-
anna hafði
sent af
Flæmska
hattinum fyr-
ir sex mán-
uðum.
Þegar Stef-
án Jónsson úr
Grindavík var
á íslenska
skipinu Pétri
Jónssyni á
Flæmska
hattinum við Nýfundnaland í mars-
mánuði datt honum í hug að senda
flöskuskeyti. Hann bað börnin sín,
Leon Inga sem er sex ára og Ólafíu
Elínborgu sem er að verða fimm ára,
að koma með spurningar fyrir hugs-
anlega viðtakendur. Þau vildu spyrja
viðkomandi hvað hann væri gamall
og í hvaða leikskóla hann væri.
Stefán henti einu flöskuskeyti í
sjóinn á dag, í heilan mánuð. Gekk
kirfilega frá þeim í hálfslítra kók-
flöskum en bjóst ekki við miklum ár-
angri og þá helst frá Grænlandi eða
Ameríku. Það kom því skemmtilega
á óvart þegar tölvubréf kom frá kon-
um sem höfðu fundið eitt skeytið á
strönd í norðvesturhluta Írlands.
Stúlkurnar svöruðu spurning-
unum samviskulega, sögðust 22 ára
gamlar og að þær væru ekki lengur í
leikskóla. Hins vegar báðu þær
krakkana um að senda bóndanum á
bænum kort, hann væri afar ánægð-
ur með þennan fund.
Svöruðu
flösku-
skeytinu
Sverrir Kristinsson, löggiltur fasteignasali
Bújörð á Suðurlandi
Fjársterkur viðskiptavinur hefur beðið okkur um að útvega fallega
jörð í uppsveitum Suðurlands til kaups. Æskileg fjarlægð frá
Reykjavík er 1-1½ klukkutíma akstur. Staðgreiðsla í boði fyrir réttu
jörðina.
Nánari upplýsingar veitir:
Óskar Rúnar Harðarson hdl. og löggiltur fasteignasali í síma 824 9092.