Morgunblaðið - 17.05.2007, Qupperneq 22
|fimmtudagur|17. 5. 2007| mbl.is
daglegtlíf
Litarefni sem notuð eru til að
lita klæði og skó hafa fundist í
kryddi og óleyfileg efni í
spænskum paprikum. » 24
neytendur
Hjónin Þorkell Erlingsson og
Margrét Sæmundsdóttir fóru
nýlega til Galapagoseyja og í
regnskóga Amazon. » 26
ferðalög
Jólapakkinn sem Birna Guð-mundsdóttir fékk eitt sinnsendan út til Kaup-mannahafnar lét ekki mikið
yfir sér. Engu að síður átti hann eftir
að valda ýmsum breytingum í lífi
hennar. Nú, tveimur árum síðar, er
hún búin að stofna fyrirtæki, minnka
við sig vinnu á sjúkrahúsinu þar sem
hún var í föstu starfi áður og stendur
í viðskiptum heimsálfa á milli. Þar
fyrir utan hefur hún endurnýjað
kynnin við strákpjakkinn sem fyrir
löngu kom til hennar í sveitina fyrir
austan, þá bara níu ára gamall.
„Ég skildi ekkert af hverju systir
mín var að senda mér ósköp venju-
legt hvítt kerti í hvítum pakka með
jólapökkunum alla leið til Danmerk-
ur,“ útskýrir Birna þegar hún rifjar
upp hvernig sagan hófst. „Þegar ég
kveikti hins vegar á kertinu var það
ást við fyrstu sýn. Ég gekk rakleiðis
inn á skrifstofu mannsins míns og
sagði við hann að svona kerti hefði
ég áhuga á að flytja inn til Danmerk-
ur.“
Leitaði í hálft ár
Kertið sem um ræðir er svokallað
litbreytingaljós og er þeirrar nátt-
úru að það skiptir litum á meðan log-
ar á því. Systir Birnu hafði keypt það
á bensínstöð hér heima eftir ábend-
ingu vinkonu sinnar. Þar var kertið
statt fyrir tilstilli móður framleið-
andans, Þrastar Jóhannssonar, sem
er búsettur í Hong Kong og á þar
nokkur fyrirtæki. Hið merkilega er
að Þröstur þessi var í sveit hjá Birnu
sem krakki „og lærði þar að vinna,“
eins og hann segir sjálfur í gegnum
símalínu frá Hong Kong.
Birna hafði þó ekki hugmynd um
að ljósið sem hafði heillað hana svo
væri sprottið úr smiðju krakkaorms-
ins sem fyrir löngu dvaldi hjá henni í
nokkur sumur í Flóanum. „Það tók
mig hálft ár að finna út úr því hver
framleiðandinn var – ég var alltaf að
leita á netinu en varð ekkert ágengt.
Svo las ég viðtal við Þröst þar sem
fram kom að hann væri með dans-
skóla í Hong Kong og í einhverri
aukalínu sagði að hann framleiddi
kerti.“
Í ljós kom að þetta voru litbreyt-
ingakertin sem Birna hafði leitað svo
mikið að. „Ég hringdi í mömmu
hans, fékk númerið hjá Þresti úti og
sagði við hann að það væru bara mín
örlög að gera þetta. Hann var meira
en til og er búinn að reynast okkur
rosalega vel enda með frábært
starfsfólk.“
Söng uppi á stól
Hún segir ótrúlega skemmtilegt
að endurnýja kynnin við Þröst. „Við
kynntumst þegar ég bjó austur í
Flóa en þá tók ég krakka í sveit á
sumrin. Þröstur kom til mín eftir að
foreldrar hans höfðu séð auglýsingu
frá mér. Hann var rosalega
skemmtilegur karakter og ég man
alltaf að fyrsta kvöldið hans í sveit-
inni sýndi hann úr hverju hann var
gerður. Ég sagði við hann í gríni að
það væri siður hjá okkur að þegar
nýr krakki kæmi í sveitina stæði
hann uppi á stól og syngi fyrir heim-
ilisfólk. Ég átti nú ekki von á að hann
myndi gera það en hann hikaði ekki
og fór upp á stól og söng. Þannig er
Þröstur.“
Sjálfur rifjar hann upp kynni sín
af sveitinni: „Ég hafði verið í sveit í
Borgarfirði í þrjár vikur sumarið
sem ég var átta ára og fannst það
mjög gaman. Þar fékk ég smjörþef-
inn af sveitalífinu en þó var dvölin
þar meira eins og að vera í sum-
arbúðum. Árið eftir var ákveðið að
ég yrði í sveit allt sumarið og nið-
urstaðan var sú að ég fór til Birnu.
Það var alvöru sveit því við krakk-
arnir tókum þátt í vinnunni á bæn-
um. Það var mjög góð reynsla og ég
fór mörg sumur eftir það eða alveg
þangað til ég varð 13 ára. Þarna var
grunnurinn lagður að því að maður
lærði að vinna og vera duglegur. Síð-
ar bauð Birna mér að vinna í sveit-
inni fyrir húsi og fæði og mér fannst
það mikill heiður enda hlýt ég þá að
hafa verið ansi duglegur.“
Ætlaði bara í sumarfrí
Hann varð því að vonum kátur
þegar Birna hringdi í hann og fal-
aðist eftir kertunum hans til end-
ursölu. „Það var ótrúlega skemmti-
legt enda mikil tilviljun að hún hafi
verið búin að leita að þessu svona
lengi. Það sýnir bara hvað heim-
urinn er lítill – hún í Danmörku og
ég í Hong Kong.“
Þröstur segir tilviljun hafa ráðið
því að hann fór í kertaframleiðslu,
sem er aðeins brot af starfsemi hans
í Hong Kong. „Ég fór upprunalega
sem gestakennari í samkvæm-
isdönsum. Á þeim tíma var ég í fullri
vinnu hjá Securitas en dansinn var
mikið áhugamál og ég kenndi dans á
kvöldin. Mér var boðið að koma til
Hong Kong sem gestakennari í sum-
arfríinu mínu en eftir tvær vikur var
mér boðinn tveggja ára samningur
hér úti. Mér hafði líka ákaflega vel
hjá Securitas og því var þetta erfið
ákvörðun og ekki hjálpaði til að ég
var nýbúinn að fá stöðuhækkun hjá
þeim. Yfirmenn mínir hjá Securitas,
Guðmundur Arason og Árni Guð-
mundsson, voru einstaklega skiln-
ingsríkir svo ég ákvað að taka boð-
inu um að vera áfram í Hong Kong
þessi tvö ár. Og hér er ég enn, ellefu
árum síðar.“
Í Hong Kong stofnaði Þröstur
dansskóla sem hefur vaxið og dafnað
úr því að vera eins manns fyrirtæki í
einn stærsta dansskóla borgarinnar
en hann hefur nú selt stóran hlut í
honum. Í dag rekur hann nokkrar
verslanir og fyrirtæki, m.a. Iceco
Ltd. sem framleiðir og selur ýmiss
konar dansvörur og hefur kerta-
framleiðsluna sem aukabúgrein.
„Kunningjafólk konunnar minnar
sem framleiðir rafmagnstæki sýndi
okkur einhvern tímann gróft eintak
af svona breytilegu ljósi til að setja
inn í kerti sem þau voru að prófa. Ég
varð svo hrifinn að ég ákvað að
keyra inn á þetta á fullu enda ekki
margir í þessu á þeim tíma sem við
byrjuðum. Við þróuðum þessa vöru
og byrjuðum síðan að selja hana, til
að byrja með ómerkta, en þegar
samkeppnin jókst tókum við upp
okkar eigið merki sem er SPA Cand-
les.“
Grænlendingar stórkúnnar
Kertin eru nú í dreifingu um allan
heim en Birna er með umboð fyrir
þau í Danmörku og á Íslandi í sam-
starfi við Bergþóru Guðbergsdóttur.
„Við seljum kertin undir nafninu
Heillaljós og nú er hægt að fá þau á
40–50 stöðum á Íslandi,“ segir Birna.
„Eins er ég að selja þau í Danmörku,
svolítið í Þýskalandi og Noregi og
Grænlendingar eru stórkúnnar.“
Þannig halda kertin góðu áfram
að dáleiða þá sem á horfa, hvort sem
þeir eru staddir í Hong Kong, Kaup-
mannahöfn, á bensínstöð á litla Ís-
landi eða í köldu þorpi á Grænlandi.
„Bling bling og Nornabúðin voru
fyrstu verslanirnar til að kveikja á
þessu hér heima,“ segir Birna.
Kannski er það ekki tilviljun. Það
býr eitthvað dularfullt og seiðandi í
marglitu og breytilegu ljósinu sem
af kertunum stafar. Og sennilega
kynngi magnaður galdur sem nær
að tengja horfna vini yfir heimsálfur
og ókunn höf.
Logandi
galdur
heimsálfa
á milli
Morgunblaðið/Ásdís
Á kínverska vísu Í heimsókn Birnu til Þrastar nýlega fékk hún far að hætti heimamanna hjá gömlum vini sínum.
Eldur Þegar Birna kveikti á fyrsta
kertinu var það ást við fyrstu sýn.
Seiðandi Kertin eru ekki bara til heimilisnota, heldur gjarnarn notuð á
nuddstofum og víðar þar sem skapa á róandi stemningu.
Látlaust kerti sem keypt var á bensínstöð varð hvati
viðskipta milli Hong Kong og Danmerkur. Grunnur
þeirra var hins vegar lagður í íslenskri sveit fyrir
meira en tuttugu árum. Bergþóra Njála Guðmunds-
dóttir lét töfrast af seiðandi litbreytingaljósi.
www.heillaljos.com
www.lysslottet.dk