Morgunblaðið - 17.05.2007, Page 38
38 FIMMTUDAGUR 17. MAÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR MESSUR Á MORGUN
Með örfáum orðum
langar mig að minn-
ast vinar míns og
starfsfélaga, Kalla
Þórleifs. Okkar kynni hófust fyrir
alvöru árið 1987 þegar ég var svo
lánsamur að fá vinnu á teiknistof-
unni hjá honum þar sem ég starf-
aði síðan næstu ellefu árin.
Það var á þessum árum, eða upp
úr 1982, að tæknivæðingin við
vinnslu sjávarafurða til sjós hófst
fyrir alvöru og sífellt fleiri veiði-
skipum var breytt í vinnsluskip af
ýmsu tagi. Kalli átti stóran þátt í
þessu öllu þar sem vinnslulínur og
fyrirkomulag vinnslubúnaðar í
meirihluta íslenskra vinnsluskipa
allt frá upphafi þessa tímabils er
hannað af honum. Þess utan hann-
aði hann margar vinnslulínur í
landi og breytingar á skipum.
Vinnan var honum mikils virði,
hann var skipulagður, og það birt-
ist fyrst og fremst í því hversu af-
kastamikill hönnuður hann var og
ekki síst var hann frumkvöðull í
mörgu af því sem hann hannaði. Að
teikna og hanna var hans líf og
yndi. Ekki bara vinna, heldur líka
áhugamál, og það er alltaf gæfa
hvers manns þegar það fer saman.
Kalli var alltaf hress í viðmóti og
átti svo auðvelt með að fitja upp á
ólíklegustu hlutum til að ræða um,
ekki síst einhverju spaugilegu í líf-
inu. Hann hafði svo góða návist og
það var alltaf svo mikil ró yfir hon-
um.
Það var oft unun að fylgjast með
hvernig hann leysti úr vanda-
málum sem óhjákvæmilega komu
upp, ekki síst í kringum skip sem
voru í breytingum erlendis. Þá
komu stundum upp hnökrar milli
manna í skipaviðgerðarstöðvunum
annars vegar og fulltrúum útgerða
hins vegar þar sem oft stefndi í
mikil vandræði. Kalli leysti oftar
en ekki úr þessum málum á sinn
hægláta og markvissa hátt þannig
Karl Garðar
Þórleifsson
✝ Karl GarðarÞórleifsson
fæddist á Mið-
görðum í Grímsey
21. maí árið 1943.
Hann lést á heimili
sínu á Akureyri 30.
apríl síðastliðinn og
var útför hans gerð
frá Akureyrar-
kirkju 8. maí.
að allir fóru sáttir frá
borði.
Ég minnist Kalla
þar sem hann situr í
kyrrð og ró við
teikniborðið og teikn-
ar en síminn hringir
af og til. Hann gat
hinsvegar sparað sér
tíma við að leita að
númerum í símaskrá
þegar hann þurfti að
hringja. Hann mundi
nánast öll símanúmer
sem hann þurfti á að
halda, það voru að-
eins einstaka faxnúmer sem hann
mundi ekki.
Ég dáðist hins vegar oftar að
þessu sterka sjónminni sem hann
hafði. Það virtist vera nóg fyrir
hann að koma einu sinni um borð í
skip til að skoða aðstæður og eftir
það mundi hann nákvæmlega hvar
allir þeir hlutir voru staðsettir sem
skiptu hann máli varðandi fyrir-
hugaða hönnun. Og ef mig vantaði
einhverjar upplýsingar þá gekk
hann oft með mér að einhverjum
hillurekkanum, tók út möppu, opn-
aði hana nákvæmlega á þeim stað
sem þær upplýsingar var að finna
sem mig vantaði. Á þeim árum sem
ég starfaði á Teiknistofu KGÞ þá
handskrifaði Kalli allar verklýsing-
ar og annað sem frá honum fór.
Skrift hans var víða rómuð því
hann hafði svo fallega rithönd. Til
hans var leitað af aðstandendum
Andrésar Andar-leikanna og í
mörg ár skrifaði hann viðurkenn-
ingarskjöl keppenda á leikunum en
þeir skiptu hundruðum á hverju
ári.
Að leiðarlokum vil ég þakka fyrir
samverustundirnar Kalli minn. Ég
mun minnast þín með söknuði og
hlýhug, sem trausts vinar og góðs
drengs. Aðstandendum votta ég
hina dýpstu samúð.
Guðmundur Pétursson.
Mig langar að kveðja félaga
minn, öðlinginn Karl Garðar Þór-
leifsson, með fáeinum orðum. Leið-
ir okkar Kalla lágu fyrst saman
fyrir margt löngu þegar hann var
nýbúinn að opna eigin teiknistofu
og ég stýrimaður á Súlunni. Hann
var að vinna að breytingum á skip-
inu. Upp frá því „þekktumst“ við,
þótt ekki yrðu mikil samskipti okk-
ar í millum lengi vel, en þessi þægi-
legi maður hafði svo góða návist að
þó að ár liði milli þess að við hitt-
umst var það sem við hefðum rætt
saman í gær.
Eftir að ég hætti til sjós lágu
leiðir okkar Kalla saman á golfvell-
inum. Hann var fróður um golfið
og minnugur með afbrigðum um
atburði tengda golfi og golfkeppn-
um. Ekki að Kalli hafi spilað mikið
sjálfur, heldur var þar kominn fjöl-
skyldufaðirinn og stuðningsmaður-
inn sem fylgdi sonum sínum, sem
báðir voru góðir golfspilarar og
keppnismenn í golfi til fjölda ára.
Hann var „caddy“ fyrir þá á Ís-
landsmótum og einnig „dró“ hann
fyrir eiginkonu sína á mótum.
Þessi mót mundi Kalli nánast holu
fyrir holu, slíkt var minni hans.
Já við Kalli spiluðum mikið golf.
Það er óhætt að segja „mikið“ því
við höfðum oft í flimtingum að við
næðum miklu meiri æfingu út úr
hverjum hring en flestir, þar sem
við notuðum mun fleiri högg og
æfðumst því meira en aðrir. Við
höfðum færri orð um árangurinn,
enda ekki aðalmálið. Við áttum
okkar „einkahúmor“ á golfvellin-
um. Hann laumaði kannski út úr
sér: „Það er OK núna Sæmi minn,
hestarnir eru farnir,“ sem var til-
vísun í að undirritaður hafði eitt
sinn átt högg 90° á stefnuna og
boltinn hafnað í hrossahóp utan
girðingar. Einnig voru „Banka-
stjórabrekkan“ og „Karlsruhe“
okkar sérstöku viðmið með sína
sögu. Við tókum okkur mátulega
alvarlega í sportinu en höfðum því
meiri ánægju af þessum stundum.
Eftir að ég flutti suður á síðasta
ári var lítið um spilamennsku, við
höfðum þó samband af og til svona
rétt til að monta okkur, og ræða
um spilamennskuna. Þegar svo
Kalli veiktist fékk ég hjá honum
fréttir nokkuð reglulega. Eftir að
hann varð rúmliggjandi og mest á
spítala heyrðumst við lítið, þó
fylgdist ég með úr fjarlægð.
Kannski mitt hugleysi að vilja ekki
trúa hvert stefndi og vera meira í
sambandi.
Hann „hnippti“ þó í mig í tví-
gang síðustu dagana. Fyrst daginn
sem hann fékk að fara heim á Ak-
ureyri til að ljúka baráttunni, og
svo daginn sem hann kvaddi þessa
jarðvist.
Hann verður örugglega búinn að
bóka tíma fyrir okkur þegar þar að
kemur og við tökum hring á öðrum
velli í öðrum heimi.
Önnu Freyju og börnunum votta
ég mína dýpstu samúð, því þeirra
missir er mikill.
Sæmundur Friðriksson.
Elsku vinkona mín.
Ég er búin að vera
lengi að koma mér til
að skrifa þessar lín-
ur. Hvers vegna veit
ég ekki en einhvern veginn hef ég
ekki ennþá skilið að þú sért farin
héðan frá okkur og að ég geti ekki
haft samband við þig, nú sem áður.
Ég græt núna þegar ég skrifa
þessar línur. Þær eru skrifaðar að
kvöldi 1. maí og að loknum síðari
útvarpsþætti sem var gerður þér
til heiðurs og til minningar um þig.
Þann þátt hefði mátt gera áður en
þú yfirgafst þessa jarðvist því þá
hefðir þú heyrt og fundið hversu
mikla virðingu þú hefur haft meðal
tónlistarunnenda og vina. En, þá
rifjuðust upp svo margar minn-
ingar. Ég minnist þess til dæmis
þegar ég heyrði um þig fyrst. Þú
komst til Þorlákshafnar, til frænku
þinnar, „Öldu hans Franklíns“, og
strákarnir sem ég hélt að ég „ætti“
Bergþóra Árnadóttir
✝ Bergþóra Árna-dóttir fæddist í
Reykjavík 15. febr-
úar 1948. Hún lést á
sjúkrahúsinu í Ála-
borg í Danmörku 8.
mars síðastliðinn og
var útför hennar
gerð frá Hveragerð-
iskirkju 31. mars.
voru uppveðraðir því
það var komin ný
pæja í bæinn. Ég,
vitanlega, ákvað að
athuga hvað væri að
gerast og fór að hafa
auga með þér. Þá
kom upp úr dúrnum
meðal annars að þú
áttir frábæra útgáfu
af megrunarkúr sem
ég, auðvitað, þurfti
að reyna og heimsótti
þig til að fá upp-
skriftina. Þá var ég
sennilega fimmtán
ára gömul. Nokkrum árum síðar
lágu leiðir okkar saman á ný, ég þá
búin að eiga Helenu Rós og þú Jón
Tryggva, bæði fædd á sama ári.
Margt kvöldið sat ég hjá þér á
þeim árum á H-götunni og hlustaði
á þig spila og semja lög við ljóð
eftir Stein Steinar eða Pál J. Árdal
og fleiri. Ég var vitanlega ekki sú
baráttukona sem þú varst og því
var ég bara þiggjandi í þessari
sköpun þinni.
Þrátt fyrir að við veldum ólíkar
slóðir á lífsleiðinni voru samskipti
okkar alltaf eins og við værum
heima í Þorlákshöfn eða hefðum
hist í gær. Ég man að við vorum
að undirbúa frumsýningarpartý
fyrir Leikfélag Þorlákshafnar,
sennilega árið 1975. Við vorum
heima hjá mér og vorum að búa til
brauðtertur og annað álíka góð-
gæti. Þá fór rafmagnið allt í einu
af húsinu. Þér fannst það nú lítið
mál. Við gætum vel haldið þessu
áfram við kertaljós ef þess þurfti.
Og vitanlega hristum við hnallþór-
urnar fram úr erminni sem átti að
eta um kvöldið. Margar stundirnar
áttum við á Laugalæknum, á
Skólavörðustígnum og uppi í
Mosó. Stundum voru samveru-
stundirnar þannig að það kom ekki
til greina annað en að ég eða þú
gistum hvor hjá annarri. Ég var
svaramaður þinn þegar þið Valdi
giftuð ykkur og átti margar góðar
stundir með ykkur. Ég heimsótti
ykkur Peter til Brovst í Danmörku
og þar var ekkert lát á viðurgjörn-
ingi og gestrisni. Þú sagðir við mig
þegar ég flutti til Ólafsfjarðar að
þar hefðir þú aldrei sungið, nú
væri full ástæða til þess að koma
þangað. Af því varð þó aldrei. Við
náðum þó, í síðustu ferð þinni
hingað heim til Íslands, að smala
saman gamla góða saumaklúbbn-
um og eiga þar góða stund saman.
Það eitt sannar að maður skal
aldrei geyma til morguns, það sem
maður getur gert í dag.
Elsku Begga. Ég kem til með að
hitta þig hinum megin þegar minn
tími kemur. Þar getum við rokkað
eins og okkur sýnist. Bið að heilsa
öllum englunum. Öllum þínum
nánustu sendi ég samúðarkveðjur.
Þín vinkona,
Ásta Gríms.
AKUREYRARKIRKJA: Uppstigningardag-
ur. Dagur aldraðra. Hátíðarmessa kl. 14.
Meðhjálpari, Birgir Styrmisson og prestur,
Óskar Hafsteinn Óskarsson flytja sam-
talspredikun. Kór aldraðra syngur. Organ-
isti: Petra Björk Pálsdóttir. Kaffiveitingar í
Safnaðarsal á eftir. Allir velkomnir.
ÁRBÆJARKIRKJA: Hátíðarguðsþjónusta
kl. 14. Karlakórinn Stefnir syngur ásamt
hluta af kirkjukórnum. Organisti Krisztina
Kalló. Hátíðarkaffi í safnaðarheimilinu í
boði Soroptimista-kvenna.
ÁSKIRKJA: Helgistund á Hjúkrunarheimil-
inu Skjóli kl. 13. Guðsþjónusta kl. 14. Kór
Áskirkju syngur, organisti Kári Þormar. Ein-
söngur Oddný Sigurðardóttir. Kaffiveiting-
ar í boði Safnaðarfélags Ásprestakalls í
safnaðarheimilinu að guðsþjónustu lok-
inni. Kl. 17 heldur Rósa Jóhannesdóttir
burtfararprófstónleika frá Söngskólanum í
Reykjavík í Áskirkju. Kirkjubíllinn ekur.
BORGARNESKIRKJA: Messa kl. 14.
Organisti Steinunn Árnadóttir.
BÚSTAÐAKIRKJA: Guðsþjónusta klukkan
14. Sr. Pálmi Matthíasson þjónar fyrir alt-
ari. Þar prédikar Ellert B Schram, nýkjörinn
alþingismaður. Glæðurnar, kór Kvenfélags
Bústaðakirkju, syngja undir stjórn Arnhild-
ar Valgarðsdóttur. Organisti er Renata Ivan
og einsöngvari Erla Berglind Einarsdóttir.
DIGRANESKIRKJA: Messa kl. 14. Dagur
aldraðra. Sr. Sigurður Pálsson prédikar.
Sr. Gunnar Sigurjónsson og sr. Magnús B.
Björnsson þjóna fyrir altari. Kór Digranes-
kirkju syngur. Organisti Kjartan Sigurjóns-
son. www.digraneskirkja.is.
DÓMKIRKJAN: Kl. 14. Norsk messa á
þjóðhátíðardegi Norðmanna, ræðumaður
er Siv Friðleifsdóttir, sr. Jón Dalbú Hró-
bjartsson, prófastur, þjónar fyrir altari.
Organisti er Marteinn Friðriksson. Drengja-
kór dómkirkjunnar í Niðarósi syngur.
DÓMKIRKJAN: Kl. 11 messa á degi aldr-
aðra. Ræðumaður er Örnólfur Thorlacius
en sr. Jakob Ágúst Hjálmarsson sér um
helgihaldið. Dómkórinn syngur, organisti
er Marteinn Friðriksson. Einsöng syngur
Björg Þórhallsdóttir. Að lokinni messu er
gestum boðið í kaffi í Safnaðarheimilinu.
FRÍKIRKJAN í Reykjavík: Messa kl. 14 fyr-
ir eldri borgara og fjölskyldur þeirra. Mess-
una leiða sr. Hjörtur Magni Jóhannsson og
sr. Ása Björk Ólafsdóttir en almennan
safnaðarsöng leiða Anna Sigríður Helga-
dóttir og Carl Möller. Messukaffi í Safn-
aðarheimilinu á eftir í boði Kvenfélags Frí-
kirkjunnar.
GRAFARVOGSKIRKJA: Dagur eldri borg-
ara. Hátíðarguðsþjónusta kl. 14. Séra
Ólöf Ólafsdóttir fyrrv. prestur á Skjóli pré-
dikar. Prestar safnaðarins þjóna. Kór
Grafarvogskirkju syngur. Organisti: Gróa
Hreinsdóttir. Kaffiveitingar í boði sóknar-
nefndar og Safnaðarfélags Grafarvogs-
kirkju.
GRENSÁSKIRKJA: Uppstigningardagur,
dagur aldraðra. Guðsþjónusta kl. 11.
Samskot í Líknarsjóð. Kirkjukór Grensás-
kirkju syngur. Organisti Árni Arinbjarnar-
son. Prestur sr. Petrína Mjöll Jóhannes-
dóttir. Málsverður að lokinni messu í
safnaðarheimili.
HAFNARFJARÐARKIRKJA: Guðsþjónusta
kl. 14. Ath tímann. Eldri borgurum boðið
sérstaklega til kirkju. Prestar: sr. Þórhallur
Heimisson og sr. Gunnþór Þ. Ingason sem
prédikar. Organisti: Guðmundur Sigurðs-
son kantór. Einsöngvari: Þóra Björnsdóttir
bæði í kirkju og í kaffisamsæti í Hásölum.
Kór: Kór Hafnarfjarðarkirkju. Kaffisam-
sæti eftir messu í Hásölum Strandbergs.
Þórunn Björnsdóttir syngur einsöng og
Hjörtur Howser leikur tónlist og sumarlög
á Friðriksflygilinn.
HÁTEIGSKIRKJA: Messa kl. 11. Gerðu-
bergskórinn syngur undir stjórn Kára Frið-
rikssonar. Barnastarf á sama tíma undir
stjórn Erlu Guðrúnar Arnmundardóttur og
Þóru Marteinsdóttur. Veitingar eftir
messu. Organisti Douglas Brotchie. Helga
Soffía Konráðsdóttir.
HÁTEIGSKIRKJA: Uppstigningardagur,
dagur aldraðra. Messa kl. 11. Veitingar
eftir messu. Organisti Douglas A. Brotc-
hie. Prestur Tómas Sveinsson
HJALLATÚN, dvalar og hjúkrunarheimili:
Helgistund verður á Hjallatúni á uppstign-
ingardag, kl. 15.
HRAFNISTA: Hrafnista í Reykjavík. Guðs-
þjónusta verður haldin á uppstigningardag
kl. 15.30 í samkomusalnum Helgafelli.
Organisti Kári Þormar. Félagar úr kór Ás-
kirkju syngja ásamt kór Hrafnistu. Einsöng
syngur Oddný Sigurðardóttir. Prestur sr.
Svanhildur Blöndal.
ÍSLENSKA KIRKJAN Í SVÍÞJÓÐ: Malmö/
Lundur. Guðsþjónusta verður í Arlövkirkju
á uppst. 17. maí kl. 14. Íslenski kórinn í
Lundi syngur undir stjórn Huldu Birnu Guð-
mundsdóttur. Örn Arason leikur einleik á
gítar. Stefán Arason leikur á orgel. Þórir
Jökull Þorsteinsson predikar. Ágúst Ein-
arsson þjónar fyrir altari. Kirkjukaffi.
KEFLAVÍKURKIRKJA: Á uppstigingadag,
kl. 14 verður guðsþjónusta í Keflavíkur-
kirkju. Sr. Björn Jónsson predikar og sr.
Skúli S. Ólafsson þjónar fyrir altari. Eldeyj-
arkórinn syngur. Að athöfn lokinni verður
myndlistarsýning Sossu opnuð. Dr. Gunn-
ar Kristjánsson flytur erindi.
KÓPAVOGSKIRKJA: Guðsþjónusta kl. 14
á uppstigningardegi, kirkjudegi aldraðra.
Sr. Stefán Lárusson predikar og sóknar-
prestur þjónar fyrir altari. Félagar úr kór
Kópavogskirkju syngja og leiða safnaðar-
söng. Organisti Julian Hewlett. Kaffi í
Borgum eftir guðsþjónustu.
LANGHOLTSKIRKJA: Guðsþjónusta kl.
14, ath tímann. Einsöngur og upplestur
eldri borgara. Guðfreður Hjörvar Jóhann-
esson syngur og segir nokkur orð. Kaffi-
veitingar og handavinnusýning úr starfi
eldri borgara eftir stundina. Prestur sr Jón
Helgi Þórarinsson. Organisti Jón Stefáns-
son.
MÖÐRUVALLAKIRKJA: Guðsþjónusta
verður fyrir allt prestakallið í Möðruvalla-
kirkju á uppstigningardag kl. 14. Eldri
borgarar boðnir sérstaklega velkomnir
með fjölskyldum sínum. Messukaffi á
prestssetrinu á eftir með söng við píanóið.
NESKIRKJA: Guðsþjónusta á uppstigning-
ardag kl. 14. Litli kórinn – kór eldri borgara
í Neskirkju syngur undir stjórn Ingu J.
Backman. Organisti Reynir Jónasson. Sr.
María Ágústsdóttir, héraðsprestur, prédik-
ar. Sr. Örn Bárður Jónsson þjónar fyrir alt-
ari. Eftir guðsþjónustu verður boðið upp á
kaffiveitingar.
NJARÐVÍKURKIRKJA (Innri-Njarðvík):
Guðsþjónusta á uppstigningardag kl. 11.
Sr. Kjartan Jónsson, héraðsprestur, þjón-
ar og Eldey, kór eldri borgara á Suðurnesj-
um, syngur undir stjórn Alexöndru Pitak.
Organisti er Dagmar Kuánková og með-
hjálpari Kristjana Gísladóttir.
SELFOSSKIRKJA: Messa kl. 11 á upp-
stigningardag. Ágústa Skúladóttir, Kjartan
T. Ólafsson, Ólafur Ólafsson og Hjörtur
Þórarinsson lesa ritningarorð. Kirkjukórinn
syngur undir stjórn organistans, Jörgs E.
Sondermanns.
SELJAKIRKJA: Guðsþjónusta kl. 14. Sr.
Guðmundur Þorsteinsson, fyrrum prófast-
ur, prédikar. Sr. Valgeir Ástráðsson þjónar
fyrir altari. Kirkjukórinn leiðir sönginn. Org-
anisti Jón Bjarnason. Aldraðir boðnir sér-
staklega velkomnir.
VÍÐISTAÐAKIRKJA í Hafnarfirði: Guðs-
þjónusta fyrir eldri borgara á uppstigning-
ardag kl. 14. Prédikun: Eysteinn Orri Gunn-
arsson, guðfræðinemi. Gaflarakórinn
syngur undir stjórn Kristjönu Þ. Ásgeirs-
dóttur. Kaffiveitingar í safnaðarheimilinu.
Rúta: Frá Hjallabraut 33, kl. 13.40 og frá
Hrafnistu kl. 13.50.
Guðpspjall dagsins:
Biðjið í Jesú nafni.
Jóh. 16
Morgunblaðið/KristjánAkureyrarkirkja