Morgunblaðið - 23.05.2007, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 23.05.2007, Blaðsíða 4
4 MIÐVIKUDAGUR 23. MAÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ FRÉTTIR „ÉG sækist auðvitað eftir því að hafa áhrif í stjórnmálum og það að gegna stöðu ráðherra er eitt af því,“ sagði Guðlaugur Þór Þórð- arson, Sjálfstæðisflokki, að loknum þingflokksfundi Sjálfstæðismanna í Valhöll í gærkvöldi, en hann tek- ur við embætti heilbrigðisráðherra í væntanlegri ríkisstjórn Geirs H. Haarde. Guðlaugur Þór var að vonum ánægður með ráðherraútn- efningu sína og ýmsir fleiri gengu glaðir í bragði af fundum sjálf- stæðismanna í Valhöll og samfylk- ingarfólks á Hótel Sögu í gær- kvöldi. Gera má þó ráð fyrir að mismikil ánægja hafi verið með skiptingu ráðuneyta milli þing- manna flokkanna og nefna má að ýmsir sjálfstæðismenn sögðu að þeir hefðu gjarnan viljað hafa veg kvenna meiri í ráðherraembættum flokksins. Spurður hvort áherslubreytinga væri að vænta svaraði Guðlaugur Þór að nýjum mönnum fylgdu ávallt nýjar áherslur. Um þá ákvörðun að breyta störfum heil- brigðisráðuneytisins með því að færa stór verkefni úr ráðuneytinu sagði Guðlaugur Þór að hann teldi það mjög skynsamlegt. „Við höfum talað fyrir því mjög lengi að gera það,“ sagði hann. Gert væri ráð fyrir því að almannatryggingar færu úr ráðuneytinu en sjúkra- tryggingar yrðu þar áfram. Guðlaugur Þór var spurður um hlut kvenna í ráðherraliði flokks- ins og hvort sú staðreynd að þar ætti aðeins ein kona sæti ætti ekki eftir að valda flokknum óþæg- indum. „Við eigum glæsilegan hóp sjálfstæðiskvenna á þingi og þær verða í forsvari í ýmsum málum og munu standa sig frábærlega eins og mun koma í ljós,“ sagði hann. „Það eru bara sex ráðherra- stólar og það er erfitt verkefni í þessum hópi að velja í þá,“ bætti hann við. Viðurkenning formanns og þingflokks og allra Björn Bjarnason, dóms- málaráðherra, var glaður í bragði þegar hann yfirgaf Valhöll að loknum þingflokksfundinum í gær- kvöldi. Hann kvaðst ánægður með að verða áfram í embættinu. Emb- ættisveitingin væri viðurkenning formanns flokksins, þingflokksins og allra sem að málinu hefðu kom- ið, á þeim störfum sem hann hefði sinnt sem ráðherra. Einar K. Guðfinnsson, sjáv- arútvegsráðherra, verður einnig landbúnaðarráðherra. „Það er mjög spennandi tilhugsun,“ sagði Einar. Framundan væru breyt- ingar og spennandi tímar í land- búnaði Einar sagði ekki liggja nákvæm- lega fyrir hvort ráðuneytin tvö yrðu sameinuð og ekki væri ljóst hvernig málin þróuðust á næst- unni. Spurður um áherslubreyt- ingar í sjávarútvegsmálum sagði Einar að fyrst og fremst yrði áhersla á að standa vörð um hags- muni sjávarútvegsins „en það er líka kveðið á um það að sér- staklega skuli skoða í því sam- bandi mál sem snúa að byggð- unum. Ég held líka að það sé mest knýjandi og það er eitt af því sem við munum vinda okkur í núna að fara betur yfir,“ sagði hann. Árni M. Mathiesen, fjár- málaráðherra, mun áfram gegna því embætti í nýrri ríkisstjórn. Hann kvaðst að þingflokksfund- inum loknum ánægður með ráð- herralistann og með að halda áfram að starfa í ráðuneyti fjár- mála. Hefði viljað fleiri konur Þorgerður Katrín Gunn- arsdóttir, varaformaður Sjálfstæð- isflokksins og menntamálaráð- herra, sagðist ánægð með niðurstöðuna þótt hún drægi ekki dul á það að hún hefði viljað sjá fleiri sjálfstæðiskonur gegna ráð- herraembætti. „En þetta er nið- urstaðan. Þetta er tillaga for- mannsins og að sjálfsögðu styðjum við hana. Það var mikil eindrægni á fundinum,“ sagði Þorgerður Katrín. Hún sagði að nýja ríkisstjórnin yrði greinilega mjög öflug. „Við vorum að sjá ráðherralistann hjá Samfylkingunni og ég hef trú á að þetta verði mjög samhent rík- isstjórn sem fer í þessi verk sem framundan eru,“ sagði Þorgerður Katrín. Sturla Böðvarsson, samgöngu- ráðherra, eini ráðherra Sjálfstæð- isflokksins, sem hverfur úr ráð- herrastól, mun taka við embætti forseta Alþingis. Hann kvaðst ósáttur við að hverfa úr ráðuneyt- inu enda væru þar mörg skemmti- leg verkefni. „Það er auðvitað vont að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki með það ráðuneyti að gera, en svona gerast kaupin á eyrinni,“ sagði Sturla. Sturla sagði það heiður fyrir sig að verða forseti Alþingis. Hann hefði þó heldur kosið að gegna embætti ráðherra áfram. „En þetta er niðurstaðan og ég virði hana að sjálfsögðu,“ sagði Sturla. Sagði að hún kæmi aftur Flokksstjórnarfundi Samfylking- arinnar lauk skömmu fyrir kl. 22 í gærkvöldi. „Ég sagði við starfsfólk mitt að ég myndi koma aftur í ráðuneytið, og nú er ég að standa við það,“ sagði Jóhanna Sigurð- ardóttir en hún gegndi embætti félagsmálaráðherra í sjö ár fram til ársins 1994. Jóhanna mun nú taka við ráðuneytinu að nýju en því hefur verið gefið starfsheitið velferðarráðuneyti. „Nú er þetta orðið miklu umfangsmeira ráðu- neyti. Innan félagsmálaráðu- neytisins eru mörg brýn málefni. Ég vil nú sérstaklega nefna á þessari stundu jafnréttismálin, ég mun taka þau mál föstum tökum,“ sagði Jóhanna. Þórunn Sveinbjarnardóttir verð- ur umhverfisráðherra í nýju stjórninni. „Í stjórnarsáttmálanum eru í raun og veru mjög skýr markmið fyrir umhverfisráðu- neytið til þess að starfa eftir á næstu árum. Við munum þurfa að vinna hratt og vel og það þarf að ljúka við gerð rammaáætlunar. Verkefnið er að ná sátt í samfélag- inu um umhverfismál og ég mun leggja mig alla fram við það,“ sagði Þórunn. Spurð um stóriðju í stjórnarsáttmála sagði hún að gert væri ráð fyrir tveggja ára stór- iðjustoppi og samkomulag um að ljúka gerð rammaáætlunar á næstu tveimur árum, fyrir árslok 2009. „Þá hefur það orðið að sam- komulagi milli flokkanna að það verði ekki farið í nein óröskuð svæði á þeim tíma.“ Björgvin G. Sigurðsson, sem verður viðskiptaráðherra, var spurður um skiptingu iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis á milli tveggja ráðherra. Svaraði hann því til að í skiptingunni fælist stefnuyfirlýs- ing út af fyrir sig. „Það er stefnu- yfirlýsing í sjálfu sér að gera neyt- endamálum, samkeppnismálum og þessum almennu lífskjaramálum sem snúa að fjármálalífi og al- mennri afkomu fjölskyldnanna mun hærra undir höfði heldur en hefur verið gert áður. Við munum sjá þess stað með öflugri sam- keppnislöggjöf, öflugri neyt- endavernd og á mörgum sviðum samfélagsins,“ sagði Björgvin. Kristján Möller verður sam- gönguráðherra í ríkisstjórninni. Kristján sagði samgöngumálin af- ar spennandi málaflokk og mörg verkefni biðu úrlausnar. Lagði hann m.a. áherslu á að lokið yrði við langtímasamgönguáætlunina. „Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé ákaflega mikilvægur málaflokkur sem ég er að taka við. Ég er bara mjög ánægður með það og vona að ég verði traustsins verður,“ sagði Kristján. Hann kvaðst vera ánægður með stjórn- arsáttmálann og samstarf þessara flokka. „Þetta er niðurstaða kosn- inganna.“ Sagði hann að eindrægni hefði ríkt á fundi samfylking- arfólks í gærkvöldi og það sýndi að flokksmenn væru allir mjög ánægðir með stjórnarsam- komulagið. Bjartsýnn á framhaldið Össur Skarphéðinsson tekur við sem iðnaðarráðherra. Hann sagði ljóst að miklar deilur hefðu tengst iðnaðarráðuneytinu og þeim tökum sem mál hefðu verið tekin þar í valdatíð fráfarandi ríkisstjórnar. „Við þurfum að skapa sátt um nýt- ingu landsins, þannig að jafnvægis sé gætt milli nýtingar og vernd- unar og það verður mitt mikilvæg- asta verkefni, í anda þeirrar stefnu sem kemur mjög skýrt fram í stjórnarsáttmálanum, þar sem þessir tveir flokkar hafa orðið sammála um ákveðna aðferðafræði í málaflokknum,“ sagði Össur. Hann telur það einnig forgangs- verkefni að byggja upp þekkingar- og hátækniiðnað hér á landi, með áherslu á sprotafyrirtæki. „Við ætlum í senn að skapa mjög hag- fellt umhverfi fyrir þennan kima atvinnulífsins með almennum að- gerðum, og við munum jafnframt beita, eftir því sem við á, sértæk- um aðgerðum í hans þágu.“ Spurð- ur um aðrar málefnaáherslur sagði Össur að fjármálaþjónustan væri okkar merkilegasti útrásariðnaður og í örum vexti. ,,Það þarf að skapa henni mjög traust umhverfi. Þessi ríkisstjórn vill tryggja sem besta umgjörð um það mál.“ Össur segist bjartsýnn á að stjórnarsamstarfið með Sjálfstæð- isflokknum eigi eftir að einkennast af þeim góða anda sem fjölmiðla- mönnum hafi verið tíðrætt um í aðdraganda stjórnarmyndunar. „Við Geir Haarde vorum saman þingflokksformenn stjórnarflokka í fyrri ríkisstjórn jafnaðarmanna og Sjálfstæðisflokks. Við erum vanir að starfa saman og ég þekki þetta fólk út og inn og það fer því mjög vel á með okkur,“ segir Össur og bætir við að í stjórnarmynd- unarviðræðunum hafi flokkunum tveimur tekist vel til við að sam- eina það besta úr stefnu beggja flokka. Ráðherrar boða breyttar áherslur í stefnuyfirlýsingu nýrrar stjórnar  „Hef trú á að þetta verði mjög samhent ríkisstjórn“  „Við þurfum að skapa sátt um nýtingu landsins“ Morgunblaðið/Sverrir Glöð Guðlaugur Þór Þórðarson tekur við heilbrigðisráðuneytinu í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Morgunblaðið/Golli Ánægð Össur Skarphéðinsson verður iðnaðarráðherra og Þórunn Sveinbjarnardóttir verður umhverfisráðherra. Morgunblaðið/Sverrir Úr ráðherrastól Sturla Böðvarsson lætur af embætti samgönguráðherra en samþykkt hefur verið að hann verði forseti Alþingis.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.