Morgunblaðið - 17.10.2007, Qupperneq 29

Morgunblaðið - 17.10.2007, Qupperneq 29
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 17. OKTÓBER 2007 29 lagast starfsmannahópnum með sinni jákvæðu og glaðlegu fram- komu. Starf þjónustufulltrúa er yf- irgripsmikið og margt að læra fyrir nýja starfsmenn. Ekkert var ómögulegt fyrir Jóhönnu, alltaf tókst hún á við verkefni dagsins með það fyrir augum að leysa þau sem best. Í vor bárust okkur þau válegu tíð- indi að Jóhanna hefði veikst af al- varlegum sjúkdómi. Sjálf tók hún því af ótrúlegu æðruleysi og sagðist harðákveðin í því að sigrast á veik- indum sínum. Hún hélt góðu sam- bandi við okkur samstarfsfólk sitt og heimsótti vinnustaðinn sinn reglulega. Í haust var ljóst að hverju stefndi en alltaf sýndi Jó- hanna sama ótrúlega hugrekkið og æðruleysið. Elsku Jóhanna, takk fyrir stutt en ánægjuleg kynni. Guðjóni, Hel- enu, Rakel og öðrum aðstandendum vottum við okkar dýpstu samúð. Megi góður Guð styrkja ykkur í sorginni. Kveðja, samstarfsfólk í Spron á Skólavörðustíg. Þú komst til að kveðja í gær. Þú kvaddir og allt varð svo hljótt. Á glugganum frostrósin grær. Ég gat ekkert sofið í nótt. Hvert andvarp frá einmana sál, hvert orð sem var myndað án hljóms nú greindist sem gaddfreðið mál í gervi hins lífvana blóms. En stormurinn brýst inn í bæ með brimgný frá klettóttri strönd, því reiðum og rjúkandi sæ hann réttir oft ögrandi hönd. Því krýp ég og bæn mína bið, þá bæn sem í hjartanu er skráð. Ó, þyrmdu honum, gefðu honum grið. Hver gæti mér orð þessi láð? (Freymóður Jóhannesson) Þegar svo mikið skarð er höggvið og móðir, eiginkona, dóttir og systir er hrifin á brott, á besta aldri. Þá hlýtur að vera erfitt að halda í barnstrúna um algóðan Guð. Samt er hún eina huggunin og eftir lifir minningin. Minning um stórglæsilega konu sem heillaði fólk hvar sem hún fór með skemmtilegri og hressilegri framkomu. Þegar heyrðist frasi eins og „þú meinar“ þá vissi maður að Jóhanna var mætt á svæðið og þá var engin lognmolla á ferð. Hún var alin upp við að bera ekki vandræði sín og sorgir á torg og ekki er hægt annað en dást að því ótrúlega æðruleysi sem Jóhanna sýndi í þeirri snörpu baráttu sem nú er afstaðin. Ég kveð með ljóði Vilhjálms Vil- hjálmssonar, Skýið. Mín leiðin löng er síðan ég lagði upp í ferð. Ég er ei efnismikið og ekki lengi verð. Vertu fljótur vinur. Ég veitt get svör við því sem viltu fá að vita um veðurofsans gný. Vertu ei spar að spyrja. Og spjara vel þinn hug. Flýt þér áður feykja þér farvindar á burt. Mín bíður eitt það besta banamein á jörð. Að leysast upp í læðing sem litar tímans svörð. Jónas Helgason. Jóhanna var lífsglöð kona, hún var skemmtileg og hafði mikinn húmor og hláturinn virkilega smit- andi. Ég kunni vel að meta hrein- skilni hennar, en umfram allt var hún hlý manneskja. Ég kynntist Jóhönnu fyrir um það bil 25 árum þegar hún og Þórunn systir mín urðu hinar bestu vinkon- ur. Það var alltaf gaman þegar ég hitti þær vinkonur saman. Smitandi hláturinn ómar enn í huga mínum þegar ég rifja upp samverustund- irnar sem ég átti með þeim. Þetta var skemmtilegur tími. Svo skildu leiðir í nokkur ár. Ann- ar skemmtilegur tími tók við, sam- búðir og barneignir, fullt að gera hjá okkur sem eðlilegt var. Auðvitað hittumst við öðru hvoru en með allt- of löngu millibili. Því var það mikil gleði fyrir mig þegar hún kom til starfa í Spron, vinnustaðnum mín- um. Samskipti okkar í vinnunni urðu því miður mestmegnis í gegnum síma eða með skeytasendingum því hún vann í öðru útibúi. Jóhanna starfaði ekki lengi í Spron vegna veikinda sinna, en ég veit að hennar er sárt saknað af starfsfélögunum á Skólavörðustígnum, enda var hún áberandi persónuleiki. Ég er þakk- lát fyrir að hafa kynnst Jóhönnu og kveð hana með sorg í hjarta. Ég votta eiginmanni hennar, Guð- jóni, börnum þeirra, fjölskyldum og öðrum aðstandendum mína dýpstu samúð. Megi góður Guð styrkja ykkur í sorginni. Lísa Kristín Gunnarsdóttir. Það var fyrir rúmlega 20 árum að ég kynntist Jóhönnu. Þessi fallega stelpa, svo glæsileg að eftir henni var tekið hvar sem hún kom. Síða, ljósa, krullaða hárið hennar heillaði alla, ekki síst mig þar sem ég var að læra hárgreiðslu á þessum tíma. Við áttum eftir að eiga margar ánægju- stundir saman sem fyrst um sinn snerust um að skemmta sér því lífið þá var áhyggjulaus leikur. Seinna er við urðum ráðsettari voru stundirn- ar okkar við kaffibolla í eldhúsinu eða þegar hún kom til mín á hár- greiðslustofuna. Margt var spjallað og líf okkar orðið ábyrgðarfyllra. Við bárum saman bækur okkar um uppeldi barnanna, vinnuna, heimilið eða rifjuðum upp gömlu dagana og oft var mikið hlegið. Jóhanna var ákveðin í skoðunum og stundum vorum við ekki sam- mála. Þá hófust miklar og fjörugar umræður sem þó alltaf enduðu með hlátri. Hún var hamhleypa til verka, allt sem hún tók sér fyrir hendur leysti hún af hendi hratt og örugg- lega. Ef hún tók að sér eitthvert verkefni gat maður verið þess full- viss að hún kláraði það með sóma og langt á undan áætlun. Hún átti fal- legt heimili sem bar vott um smekk- vísi hennar. Einhvern veginn gat hún gert hversdagslega hluti svo fallega, hvort sem það voru húsgögn eða föt. Hún var svo lífsglöð og kát manneskja að allt varð fallegt í kringum hana. Í veikindum hennar kom best í ljós styrkur hennar, hvernig hún hélt áfram af öllum mætti þar til hann að lokum þraut. Ég heimsótti hana daginn áður en hún fór á sjúkrahúsið. Ég sá að mikið var af henni dreg- ið og hún orðin virkilega veik. En hún var stolt og reyndi að láta á engu bera, svo fín í síða hvíta pilsinu sínu og nýju blússunni. Ég snyrti stutta hárið hennar því þau Guðjón ætluðu að gifta sig. En eins og hún sagði sjálf varð undirbúningurinn fyrir brúðkaupið öðruvísi en hún ætlaði. Við ræddum saman um ým- islegt, vissum báðar að hverju stefndi, tár féllu. Aðeins 10 dögum seinna var hún farin. Það er sárt að eiga ekki eftir að heyra röddina hennar og smitandi hláturinn. En sárastur er missir litlu fjölskyldunnar í Ennishvarfi. Elsku Guðjón, Helena og Rakel. Minningu ykkar um yndislega mömmu og eiginkonu geymið þið í hjarta ykkar og ég veit að sú minn- ing yljar ykkur á þessum erfiðu tím- um. Öllum aðstandendum votta ég samúð mína. Megi hún hvíla í friði. Þín vinkona Eyja E. Einarsdóttir (Daddý.) Hún Jóhanna er farin. Vinkona mín til 23 ára hefur kvatt þennan heim og sameinast englaher á himn- um. Svo óraunverulegt, ósanngjarnt og sárt. Svo allt of fljótt. Dagana síðan hún lést hef ég bara vafrað um, dofin, og get ekki meðtekið þessa staðreynd. Þó að vitað hafi verið sl. vikur að í þetta stefndi get ég illa skilið að baráttunni hennar sé lokið og að ég heyri hana aldrei eða sjái framar í þessari jarðvist. Að við eigum ekki eftir að hringjast á, eins og við gerðum a.m.k. einu sinni í viku, í öll þessi ár. Við Jóhanna kynntumst í Lands- bankanum, þar sem við vorum gjaldkerar, smullum saman og eign- uðumst sannan, óeigingjarnan vin- skap. Glaðar, ungar konur á uppleið. Ekkert gat stöðvað okkur. Ekki einu sinni Guðjón deildarstjóri sem færði okkur í sundur og setti hvora á sinn endann í gjaldkerabásaröð- inni því við hlógum svo mikið. Rétt eins og gert er í grunnskólum. Ólátabelgirnir fá ekki að sitja sam- an. Aumingja Guðjón sá á skömm- um tíma að þetta fyrirkomulag gat ekki gengið heldur og færði okkur saman aftur. Við hættum nefnilega ekkert að hlæja og tala. Við hróp- uðumst bara á og hlógum bara hærra. Hvoruga okkar skorti radd- bönd til að þenja og báðar hlógum við hátt og oft. Í apríl sl. var Jóhanna lögð inn á Landspítalann vegna mæði, meðal annars. Upp úr því kom í ljós að hún var með krabbamein. Vonin lifði. Vonin um meiri tíma með börnun- um, vonin um meiri tíma með eig- inmanninum, vonin um að geta verið við fermingu Helenu, svo vonin um ein jól enn. Hún bakkaði um tvö skref til að búa sér til pláss fyrir til- hlaup og ætlaði sér upp brekkuna. En krabbinn sigraði. Samskipti okkar voru mikil síð- ustu mánuði, tengslin enn sterkari, vonin alltaf efst og við vorum ákveðnar í að hún tæki þetta, annað var helst ekki til umræðu. Málin voru rædd fram og til baka af alvöru en samt var alltaf hægt að finna eitt- hvað til að hlæja að. Hláturinn hennar er eitt af því sem ég mun aldrei gleyma, smitandi, dillandi, innilegur og sannur. Jóhanna er og verður í minning- unni sterk kona sem gerði allt vel. Erfiðleikum tók hún á og hélt áfram, brosandi. Þrátt fyrir stað- reyndina um að lokin væru nærri barðist hún fram í síðasta andar- drátt, hún ætlaði að lifa lengur. Hún ætlaði að gefa börnunum sínum fleiri minningar. Eitt af því skemmtilegasta sem hún gerði á sumrin var að fara um helgar með fjölskylduna í fellihýsið. Hún ætlaði að fara að minnsta kosti eina ferð enn með börnunum sínum. Ætlaði svo margt en ráðin voru tekin af henni og nú hefur hún verið send í síðustu ferðina sína, himnaferðina. Hún fær nú að fylla lungun sín lofti, þenja út nýju, skínandi vængina og svífa. Það er mér sannur heiður og mik- il forréttindi að hafa fengið að vera vinkona hennar. Að hafa fengið að standa við hlið hennar í öll þessi ár, gegnum súrt og sætt, og aldrei bar skugga á. Ég fann líka að hún stóð mér við hlið allan þennan tíma og hvikaði hvergi. Sama hvað á gekk, alltaf gat ég treyst á hana, trygga, trúa, góðhjartaða og ljúfa. Ég sakna hennar. Farðu vel, mín kæra vinkona. Fríða Péturs.  Fleiri minningargreinar um Jó- hönnu Þorbjörnsdóttur bíða birt- ingar og munu birtast í blaðinu á næstu dögum. LEGSTEINAR Steinsmiðjan MOSAIK Hamarshöfða 4 • 110 Reykjavík sími 587 1960 • www.mosaik.is Fallegir legsteinar á góðu verði Englasteinar Helluhrauni 10 Sími 565 2566 - www.englasteinar.is Sendum myndalista ✝ Ástkær sonur okkar og bróðir minn, SIGURÐUR TRYGGVASON, Heiðargerði 86, verður jarðsunginn frá Langholtskirkju föstudaginn 19. október kl. 15.00. Þeim sem vildu minnast hans er bent á hjálparstarf kirkjunnar. Steinunn Ástvaldsdóttir, Tryggvi Sigurðsson, Ástvaldur Tryggvason. ✝ Innilegar þakkir færum við öllum þeim sem sýndu okkur samúð og hlýhug við andlát og útför okkar ástkæra AÐALSTEINS HELGASONAR, dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund. Sérstakar þakkir til starfsfólks Grundar fyrir alúð og góða umönnun. Fyrir hönd aðstandenda, Signý Þ. Óskarsdóttir. ✝ Bróðir okkar frá Gjábakka, JÓN GUNNLAUGSSON, lést á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja aðfaranótt 13. október. Útförin verður gerð frá Landakirkju í Vestmanna- eyjum föstudaginn 19. október klukkan 14.00. Blóm og kransar afþakkaðir. Systkinin frá Gjábakka. ✝ Elskulegur maðurinn minn og faðir okkar, BERNARD JOHN SCUDDER, er látinn. Sigrún Ástríður Eiríksdóttir, Hrafnhildur Ýr og Eyrún Hanna Bernharðsdætur. ✝ Móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, AUÐUR KRISTINSDÓTTIR, lést að kvöldi 29. september. Útför hennar fór fram í kyrrþey að hennar eigin ósk. Við þökkum innilega öllum þeim sem vottuðu minn- ingu hennar hinstu virðingu. Guðrún Árnadóttir, Ólafur H. Ólafsson, Kristín S. Árnadóttir, Friðrik Vagn Guðjónsson, og fjölskyldur. ✝ Okkar innilegustu þakkir til allra þeirra er sýndu okkur samúð og hlýju við andlát og útför ástkærs föður okkar, tengdaföður, afa og langafa, GUÐMUNDAR G. HALLDÓRSSONAR frá Kvíslarhóli á Tjörnesi. Innilegar þakkir til starfsfólks Dvalarheimilisins Hvamms og Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga fyrir góða umönnun. Steinþóra Guðmundsdóttir, Þórarinn Gunnlaugsson, Marý Anna Guðmundsdóttir, Halldór Sigurðsson, Aðalsteinn Guðmundsson, Jófríður Hallsdóttir, Stefán Brimdal Guðmundsson, Lára Ósk Gunnlaugsdóttir, barnabörn og barnabarnabörn.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.