Morgunblaðið - 01.12.2007, Side 47
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 1. DESEMBER 2007 47
vel núna enda komin til hans afa og
ég veit líka að þið eigið eftir að
styrkja og vernda okkur sem eftir er-
um.
Góði Guð, geymdu og passaðu
hana ömmu mína.
Þín,
Inga Rún.
Elsku góða amma mín, mig langar
til að þakka þér fyrir öll góðu árin
okkar saman, bæði uppi og niðri á
Bröttugötunni. Þú hefur alltaf verið í
mínum huga eins og þessi súper-
amma úr barnabókunum sem alltaf
var til í að leika, spila, syngja og segja
sögur, það var alltaf svo gott og gam-
an að koma til þín.
Hérna áður fyrr komu alltaf
frændsystkinin úr Reykjavík í heim-
sókn og skiptust á að vera yfir sum-
arið. Okkur Ingu systur fannst nú að
við ættum einkarétt á þér þar sem við
bjuggum í sama húsi og vorum ekki
alveg til í að deila þér með neinum, en
svo lagaðist það nú og við lékum okk-
ur öll saman. Það var einkennandi
fyrir þig að þegar þú veiktist var
yngsti ömmustrákurinn, 10 ára, hjá
þér, en við elstu erum komin á fimm-
tugsaldurinn huuhummm! Auðvitað
eru svo öll langömmubörnin búin að
vera hjá þér í millitíðinni, og meira að
segja komin þrjú langalangömmu-
börn.
Það verður mjög skrítið að geta
ekki skroppið niður til þín í kaffi og
spjall, fá ráðleggingar og hlæja
svoldið saman elsku amma mín. Ég
sakna þín óendanlega.
Þín
Ragnheiður (Ransý).
Elsku amma, ég trúi því varla að
þú sért farin og að ég komi ekki til
með að geta hringt í þig og talað við
þig í marga klukkutíma og heyrt þig
hlæja og fengið ráð og ýmislegt hjá
þér. Þú varst amma, mamma, vin-
kona, trúnaðarvinur og margt fleira,
ef ég þurfti hjálp eða ráð varst þú
ansi dugleg að láta mig sjá sjálfa hvað
ég gæti gert. Okkar saga byrjar þeg-
ar þú varst viðstödd við fæðingu mína
í húsinu þínu við Bröttugötu, sem ég
fékk oft að heyra nákvæmar sögur
um. Amma mundi allt, hún hafði stál-
minni um öll smáatriði, vel gefin og
víðsýn kona. Við amma vorum alltaf
mjög nánar, ég þurfti aldrei að segja
mikið til að amma vissi að mér liði
illa. Ég var hjá ömmu og afa öll sum-
ur þangað til ég fermdist og stundum
var ég líka lengur fram á haustið,
mínar æskuminningar um dvölina í
Borgarnesi eru mína bestu minning-
ar og ég hef alltaf verið mjög stolt af
því að vera frá henni og afa komin.
Við fórum mikið í ferðalög með afa og
ömmu, veiðiferðir, sumarbústaða-
ferðir, fjöruferðir og margt fleira.
Það er mín mesta gæfa að hafa haft
ömmu svona lengi og ég hef oft þakk-
að ömmu fyrir það að mín lífssýn er
eins og hún er, að dæma engan og sjá
það góða í öllum, hvað er betra að
fara með út í lífið? Hún amma var
sterkasta kona sem ég þekki, hafði
mjög breitt bak fyrir alla sem þurftu
á henni að halda. Síðast samtal okkar
var frábært eins og vanalega, hún
stappaði í mig stálinu og sagði: þetta
verður allt í lagi með þig og þína. Ég
veit ekki alveg hvernig ég á að fara að
því vera án hennar, mér finnst svo
rosalega erfitt að hugsa allt án henn-
ar, hún spilaði alla tíð svo mikinn þátt
í mínu lífi. Ég veit að þú heldur áfram
að fylgjast með mér, amma mín, og
vera nálægt mér. Ég vona að mér
takist að fylgja ráðum þínum áfram í
lífinu því án þín er margt erfitt, elsku
amma mín. Mig langar að enda þetta
á bæn sem amma fór oft með á kvöld-
in, við rúmstokkinn hjá mér.
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson frá Presthólum)
Þín
Guðríður Anna (Gurrý).
Elsku besta amma mín Ég get eig-
inlega ekki lýst því hvað ég á eftir að
sakna þín.
Núna, þegar þú ert farin, finn ég
ennþá betur hvað ég var heppin að
eiga þig að, þó ég vissi alltaf hvers-
lags forréttindi það voru að koma til
þín og sérstaklega hérna áður fyrr
þegar ég átti sjálf erfitt.
Ég fór alltaf sterkari frá þér og þó
að það hafi tekið mig nokkur ár að
koma mér á rétta braut var ég svo
lánsöm að geta fengið styrkinn frá
þér. Þú ert mín hetja og verður það
alltaf.
Ég vildi óska þess að ég hefði kom-
ið oftar til þín og hjálpað þér meira í
ellinni en því miður gerði ég það ekki
og ég mun alltaf sjá eftir því, en ég
veit líka að þú myndir nú bara fussa
og segja að ég þyrfti að hugsa um mig
og mína og það er það sem þú vildir
líka að ég gerði og ég mun ætíð gera,
eins og þú gerðir fyrir þig og þína.
Síðast þegar við heyrðumst var ég á
leið í burtu og mér datt þá ekki í hug
að þú myndir kveðja okkur á meðan .
Ég og Sif vorum búnar að ákveða
að koma til þín og knúsa þig og
kreista og reyna að hjálpa þér við þrif
fyrir jólin, en svo kom fréttin og ég
held ég hafi gert mér strax grein fyr-
ir alvörunni. Ég vissi, amma mín, að
þú varst búin að vera kvalin svo lengi
og að skrokkurinn var farinn að gefa
sig, eiginlega fyrir löngu, svo ég veit
að það var bara gott að þú fékkst að
fara til afa sem beið eftir þér og
margir fleiri þannig að í dag sé ég þig
og afa saman ung í nýjum líkama,
engin gigt eða annað sem hrjáði ykk-
ur afa, bara hamingja og gleði. Ég
lofa þér, amma, að ég skal gera allt til
að vera þessi manneskja sem þú
sagðir alltaf að ég væri og ég vona að
ég eigi ekki eftir að valda þér von-
brigðum.
Þú ert minn bjargvættur og ég
vona að ég geti fetað í þín fótspor. En
eins og við sögðum alltaf að gamni,
enginn er fullkominn, síst af öllu við.
Ég elska þig, amma mín, og kysstu
afa frá mér og segðu honum að ég
elski hann.
Þín
Eva.
Nú er hún elsku besta amma mín
búin að kveðja þennan heim og er
komin í faðm afa. Ég hef í alllangan
tíma kviðið því að þurfa einn daginn
að kveðja hana ömmu mína, þar sem
að hún var orðin ansi öldruð og hefur
verið lengi veik. Amma var alltaf fljót
að gera lítið úr sínum veikindum; æ,
það er bara blessuð gigtin, sagði hún
alltaf. Þegar við fengum þær fréttir
að Ragga amma hefði fengið heila-
blóðfall og lægi þungt haldin á spítala
og ég óralangt í burtu, fannst mér líf-
ið svo ósanngjarnt. Af hverju er ég
ekki á Íslandi núna, haldandi í hönd-
ina á henni, fá að kyssa hana á kinn-
ina eða halda utan um hana og segja
henni að ég elski hana? Því miður er
ekki á allt kosið og ég veit að amma
hafði fullt af sínu fólki hjá sér, stór
fjölskylda og allir vildu fá að gera það
sama og ég. Nú höfum við eingöngu
góðar minningar eftir og eru þær svo
margar að það væri efni í heila bók.
Ragga amma var einstök manneskja
og það er sárt að sjá eftir svona
sterkri konu, höfuð Kletts-ættarinn-
ar sem við erum stolt af og er það allt
ömmu að þakka. Ég var eingöngu 4
ára þegar ég fór að fara ein með rútu
frá Reykjavík til Borgarness, til að fá
að eyða hverju sumri hjá ömmu og
afa. Flestar mínar æskuminningar
koma þaðan og allar eru þær góðar.
Amma var ótrúlega uppátækjasöm
og gat alltaf fundið eitthvað handa
okkur frænkunum að gera, það var
föndrað, saumað, teiknað, spilað,
sungið og dansað og svo lengi mætti
telja. Amma hafði gaman af að segja
okkur sögur, hvort sem þær voru
sannar eða uppspuni og sagði hún
mér þær oft fyrir háttatímann, eftir
að maður hafði fengið flóaða mjólk og
kex. Ég þakka fyrir að hafa fengið
þennan tíma með ömmu minni og ég
kveð hana með sorg í hjarta mínu en
líka með gleði, yfir því að hún hefur
fengið hvíld frá þjáningum sínum.
Elsku amma mín, mér þykir leitt að
hafa ekki náð að hitta þig núna í des-
ember. Ég var farin að hlakka svo
mikið til að sýna þér hana Selmu litlu
og hvað strákarnir hafa stækkað
mikið síðan við fluttum til Kanada, en
ég veit að þú verndar og vakir yfir
okkur öllum. Hvíl í friði, amma.
Þín sonardóttir
Sif.
Elsku amma mín.
Mig langar bara til að fá að kveðja
þig með nokkrum fátæklegum orðum
um það hversu ríkulega þú blessaðir
mitt líf og fjölskyldu minnar. Það að
fá að vera hjá ykkur afa á sumrin á
barnsárum mínum og fram á tánings-
aldur er eitthvað sem ég hef búið að
alla mína ævi. Þið kennduð mér svo
ótalmargt og höfðuð svo mikil áhrif á
það hvernig líf mitt hefur mótast.
Ekki síst þegar þið keyptuð bassann
og bassamagnarann af Hauki rakara
heitnum til að gefa mér. Það var stór
stund fyrir mig og má segja að ég hafi
ekki sleppt bassanum síðan og gert
það að spila á hann að lifibrauði mínu.
Þið studduð mig alltaf í því sem ég
var að gera og fylgdust með. Svo þeg-
ar ég fór að stofna eigin fjölskyldu
vorum við öll alltaf velkomin og þú
tókst börnunum okkar svo vel. Eins
og þú gerðir með öll barnabörnin og
barnabarnabörnin. Þið áttuð sex syni
svo að þetta er enginn smá hópur.
Það sóttu allir í það fá að heimsækja
ykkur og alltaf varstu boðin og búin
til að taka á móti okkur. Fram á þinn
síðasta dag varstu að hugsa um allan
hópinn. Enda sagðirðu alltaf að þú
værir svo rík og að þú værir svo
heppin að eiga okkur öll. En málið er
það að við vorum svo ótrúlega lánsöm
að fá að hafa þig hjá okkur svona
lengi og er ég gríðarlega þakklátur
fyrir það. Það gaf mér svo mikið að
heimsækja þig og hringja til þín öðru
hvoru og heyra hvað þú varst hress
og skýr i andanum en ég vissi að lík-
amlega leið þér ekki vel. En ekki
kvartaðir þú í eitt einasta skipti og
þegar þú komst á spítalann kom í ljós
hversu ótrúlega sterk þú hefur verið
að gera það ekki.
Það er sárt að kveðja þig, amma
mín, en ég veit að þú ert vel að hvíld-
inni komin og ert umvafin þínu fólki í
himnaríki. Ég bið Guð að geyma þig
og þakka honum fyrir þá góðu gjöf
sem þú varst til okkar allra í fjöl-
skyldunni. Ég er og verð alltaf fyrsta
barnabarn Röggu og Jóa í Kletti.
Með bestu kveðjum frá
Jóhanni, Sigrúnu og börnum.
Fleiri minningargreinar um
Ragnheiði Ingibjörgu Ásmundsdóttur
bíða birtingar og munu birtast í blað-
inu næstu daga.
eignaðist síðar og hluta Skálavíkur.
Það fór ekki framhjá neinum að
Breiðabóli var vel við haldið, garð-
urinn glæsilegur og vel hirtur. Allt
var gert af hófsemi og sjaldan leit-
aðir þú þér aðstoðar, vildir helst gera
allt sjálfur enda þolinmóður og
þurftir ekki að fá alla hluti strax. Þú
og mamma sátuð aldrei auðum hönd-
um á Breiðabóli enda alltaf næg
verkefni, mikið um gesti og svo kom-
um við systkinin og barnabörnin oft í
heimsókn. Þú og mamma virtust
óþreytandi við að sinna barnabörn-
unum sem dvöldu í lengri eða
skemmri tíma enda eruð þið einstak-
lega barngóð. Það var þér mikils
virði að þið Skálavíkurbændur urðuð
góðir vinir. Skálavík býður upp á svo
margt, margbrotið landslag, fjöl-
breyttan gróður, silungsá, opið úthaf
og marbreytilegt veðurfar. Því skil
ég vel að þú skulir ekki hafa talið þig
þurfa meira en Skálavík. Ég á svo
sannarlega eftir að fara með ný-
fædda dóttur mína í Skálavík.
Benedikt.
Það voru sorgarfréttir sem bárust
mér laugardaginn 24. nóvember.
Kveðjustundin var runnin upp,
elskulegi pabbi minn er dáinn. Miss-
irinn er mikill, en minningarnar um
pabba lifa í hjarta mínu, og ég verð
að trúa því að honum hafi verið ætlað
eitthvað merkilegt annars staðar.
Ekki hafði mig órað fyrir því að þessi
heilbrigði, hrausti og spengilegi
maður sem pabbi var, yfirgæfi þetta
líf svona snemma – aldrei.
Pabbi var mikill göngugarpur og
hafði mikla þörf fyrir að komast í
fjallgöngur, á gönguskíði og í innan-
bæjar gönguferðir í Bolungarvík
sem voru daglegar og nánast í hvaða
veðri sem var, hann klæddi sig bara
eftir veðri.
Það fór ekkert á milli mála, að þeir
sem þekktu pabba vissu að Skálavík-
in var hans uppáhaldsstaður – hún
var paradís þeirra pabba og mömmu.
Þar hafa þau byggt upp bústaðinn
sinn Breiðaból af mikilli natni og
myndarskap, bústaðinn sem pabbi
fékk eftir Tryggva, til hans fór pabbi
ungur í sveit að Hóli í Bolungarvík.
Þegar ég kom vestur á sumrin
með dætur mínar vildi pabbi alltaf að
við værum öll í Skálavík, því þar væri
alltaf gott veður og það var hægt að
merkja það á pabba hvað honum leið
vel í því umhverfi – ég tala nú ekki
um á kvöldin, þá var oftar en ekki
logn og ég veit að þar vildi pabbi
helst ekki missa af neinu kvöldi.
Pabbi þekkti hverja þúfu og hvern
stein í Skálavík og þar fór hann í ótal
margar gönguferðir, það var hans líf
og yndi að fara út í náttúruna.
Pabbi var rólegur og yfirvegaður
maður, hann var handlaginn og
vandvirkur við allt sem hann tók sér
fyrir hendur. Hann var alltaf nægju-
samur og þurfti ekki mikið fyrir
sjálfan sig. En ef hann frétti að
barnabörnin vantaði eða langaði í
eitthvað þá vildi hann alltaf hjálpa til
svo þau gætu eignast það fljótlega.
Hann var einstaklega barngóður
maður og vildi alltaf gera allt til þess
að barnabörnin gætu komið og dvalið
hjá honum og mömmu, og með þeim
varði hann mörgum gæðastundum.
Karitas Guðrún og Íris Mjöll
þurftu svo oft að tala við afa sinn í
símann þegar þær voru að tala við
ömmu sína. Þær voru svo heppnar að
fá að eyða viku tíma í Bolungarvík
með Óskari afa og Kæju ömmu í
byrjun nóvember sl. það voru þeirra
síðustu samverustundir með afa sín-
um. Íris Mjöll sagði, þegar sorgar-
fréttirnar bárust okkur, að nú gæti
hún aldrei sungið fyrir afa lagið (Með
sól í hjarta og söng á vörum) sem
hann bað hana alltaf um að syngja
fyrir sig. Ég sagði henni að við gæt-
um sungið lagið fyrir afa því núna
væri hann engill á himnum og hann
myndi hlusta á okkur.
Mér finnst að pabbi hafi borið ein-
staklega fallegt hjartalag og að því
mun ég búa alla ævi. Ég hugga mig
við það, að pabbi þurfti ekki að þjást
þegar hann lagði upp í þessa lang-
ferð sem hann var kallaður til. Hann
var ávallt léttur á fæti og gekk rösk-
lega í sínum gönguferðum, og það
hefur hann örugglega líka gert í
þessari ferð.
Ég kveð elskulega pabba minn
með tárum og söknuði – en góðri
minningu í hjarta.
Ingibjörg.
Ég veit að enginn lifir endalaust,
en samt átti ég ekki von á því að þú
færir strax. Það hefur alltaf verið tal-
að um að reglufólk sem hvorki reykir
né drekkur og hreyfir sig reglulega
verði langlíft, þannig að allavega
hvað mig áhrærir gerði ég ráð fyrir
því að geta heimsótt þig næstu ára-
tugina.
Ég kynntist þér þegar við Dóra
fórum að vera saman fyrir um 12 ár-
um. Það sem kom mér mest á óvart
og ég hef oft talað um, er hversu
reglu- og vanafastur þú varst. Það
voru göngutúrarnir eða skíðin á
helgum yfir vetrartímann og Skála-
vík um hverja helgi yfir sumartím-
ann, þessi svakalega reglusemi, sem
var alltaf til staðar, var ný fyrir mér.
Það var nú þannig að það sem þú
vildir gera og þig langaði til að gera
virtist að langmestu leyti tengjast
Breiðabóli í Skálavík. Ég hef oft sagt
við Dóru að ef að þú ynnir stóra vinn-
inginn í Víkingalottóinu væru eflaust
jarðgöng út í Skálavík efst á óskalist-
anum.
Þegar við Dóra fengum okkur
kindur fyrir þremur árum fylgdist
þú með þeim fyrir okkur eins og
hægt var. Við merktum þær meira
að segja með bílalakki til þess að
geta séð hvort þær gengju í Breiða-
bólshlíðinni. Alltaf þegar ekið var út í
Skálavík taldir þú kindurnar á leið-
inni og leitaðir að Perlu og Móru,
kindunum ykkar Kæju.
Þegar við gerðum upp húsið á
Hafnargötunni miklaði ég fyrir mér
að taka gluggalistana í lengd og taldi
þetta vera eitthvað sem ég yrði mjög
lengi að brasa við því að það þurfti að
þynna þá, taka snið á þá og mæla.
Þegar þú fréttir það komst þú til mín
og við mældum alla gluggana á mjög
skömmum tíma. Við komum okkur
síðan saman um að hittast daginn
eftir í skúrnum hjá þér og vinna í
listunum, en þegar ég mætti þá varst
þú með þetta allt klárt og meira að
segja búinn að bora fyrir skrúfun-
um.
Þegar ég talaði við þig síðast varst
þú að tala um að fara að virkja bæj-
arlækinn fyrir ofan Breiðaból með
Sigga Hjartar. Það var eitthvað sem
þig hafði lengi langað að gera. Þú
varst búinn að fylgjast með þessum
smávirkjunum í mörg ár og virkj-
unarframkvæmdirnar alltaf verið
svo fjarlægar. Það var fyrst núna
sem þetta virtist geta gengið kostn-
aðarlega séð og tæknibúnaður orð-
inn það þróaður að framkvæmdin
væri líkleg til að takast. Mér þykir
mjög leitt að geta ekki fengið að taka
þátt í virkjuninni með þér en ég er
þó viss um að þú virkjar bara annars
staðar með félögum þínum, þeim
Gunnari Leós og Ármanni.
Einar, afastrákurinn þinn, bað
mig að skila því til þín, að það sem
stóð upp úr hjá honum í Skálavík var
að fara niður að á með þér að bleyta
færi eða að fleyta bátum eftir ánni.
Ég veit líka að heyskapurinn með
þér og hjólböruferðirnar voru hátt
skrifaðar.
Hvort sem það eru tilviljanir eða
ekki í lífinu þá var mjög sérstakt
hvað Dóra var ákveðin í að senda
Einar vestur á dögunum að hitta
ykkur og ákvað síðan sjálf að fara og
vera í nokkra daga. Eftir á að hyggja
eru þau mjög ánægð með að hafa
heimsótt þig.
Ég þakka þér kærlega fyrir sam-
veruna og óska þér alls hins besta á
nýjum stað.
Guðmundur Bjarni.
Það var laust eftir hádegi sl. laug-
ardag að okkur barst sú harmafregn
að hann Óskar hefði orðið bráð-
kvaddur. Hann Óskar okkar sem
hafði verið verslunarstjóri hjá okkur
í nokkur ár. Óskar var hæglátur,
dagfarsprúður maður sem rækti
starf sitt af mikilli kostgæfni og sam-
viskusemi. Hann var stundvís og
vildi hafa allt í röð og reglu, snyrti-
menni var hann og reglusamur.
Hann hafði mjög gaman af að ræða
um lífsins gagn og nauðsynjar og gat
verið fylginn sér og rökfastur. Hann
vildi hag Bolungarvíkur sem mestan
og var ekki alltaf sammála um leiðir
og stefnur. Hann hafði gaman af að
fara á mannamót og þar líkaði hon-
um lífið, kominn úr jakkanum, dans-
andi ræla og valsa. Óskar hafði gam-
an af gönguferðum og þá gjarnan
fram til dala og upp til heiða og voru
það ófá skipin sem fundum okkar bar
þar saman, hann annaðhvort fót-
gangandi, á gönguskíðum eða vél-
sleða.
Óskar og Kæja héldu sitt annað
heimili á sumrin úti í Skálavík á
Breiðabóli þar sem hann undi sér vel.
Það var gott að koma við og þiggja
rjúkandi kaffi og heimabakað bakk-
elsi og það er svo ótrúlega stutt síðan
við þáðum það síðast. Hann þekkti
hverja þúfu og gerði sér far um að
hafa allt snyrtilegt í kringum bæinn.
Hann var náttúruunnandi og dýra-
vinur, hann hafði sérstaklega gaman
af að fylgjast með tófunni og hrafn-
inum og sagði hann okkur margar
skemmtilegar sögur af því. Óskar
hafði gaman af og fylgdist vel með
íþróttum og var Manchester United
hans uppáhaldslið og var oft skegg-
rætt um úrslit og gengi liðanna. Nú
verður ekki oftar farið í kaffi til Ósk-
ars í búðina því fallinn er frá góður
drengur sem sárt verður saknað.
Elsku Kæja, börn og aðrir ástvin-
ir, megi góður guð styrkja ykkur í
sorg ykkar.
Víðir Benediktsson,
Benedikt Benediktsson.
Fleiri minningargreinar um
Óskar Hálfdánsson bíða birtingar og
munu birtast í blaðinu næstu daga.