Morgunblaðið - 24.12.2007, Side 6

Morgunblaðið - 24.12.2007, Side 6
6 MÁNUDAGUR 24. DESEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ FRÉTTIR Eftir Sunnu Ósk Logadóttur sunna@mbl.is LÍKLEGA eru fáir sem velja að vinna á aðfangadagskvöldi jóla, en þó eru þess dæmi. Þannig er því m.a. farið með hjúkrunarfræðing á Landspítalanum sem Morgunblaðið ræddi við og dómorganistanum finnst ómissandi að leika jólalögin í kirkjunni á aðfangadagskvöld. „Ég er alls ekki kvíðin að vinna um jólin, mig langaði að prófa að upplifa þetta þar sem ég hef aldrei áður unnið á aðfangadagskvöld,“ segir Viktoría Björk Erlendsdóttir, hjúkrunarfræðingur á bráða- móttöku Landspítalans á Hring- braut, sem verður á vaktinni frá 15.30-23.30 á aðfangadag. „Við reynum að hafa aðfanga- dagskvöld eins þægilegt og hátíð- legt og hægt er, fyrir bæði sjúk- linga og starfsfólk,“ segir hún. Spurð hvort jólaskapið komi þá nokkuð fyrr eftir vaktina segir hún það af og frá, hún sé þegar komin í mikið jólaskap. Hins vegar setji vinnan óneitanlega ákveðið strik í reikninginn og hún bíður t.d. með að opna pakkana með manni sínum þar til á jóladag. „Við fáum jólamat á spítalanum á aðfangadagskvöld, en ég held að mín jól verði í raun og veru á jóladag, ég seinka þeim bara aðeins,“ segir hún hlæjandi. Fylgst með orkunotkun Starfsmenn Orkuveitunnar verða líka á vaktinni til að sjá til þess að rafmagn slái hvergi út og að allir hafi heitt og kalt vatn í jólabaðið. Sjö vinnuflokkar verða í viðbragðs- stöðu víðs vegar um höfuðborgar- svæðið í þeim tilgangi að sinna út- köllum þegar mesta álagið er á milli kl. 16 og 19 á aðfangadagskvöld. Verkefnin eru margvísleg, allt frá því að aðstoða fólk við að skipta um öryggi í heimahúsum upp í að laga stærri kerfisbilanir, komi þær upp. Þá verða starfsmenn á vakt í stjórn- stöð Orkuveitunnar og fylgjast með því að allt gangi vel fyrir sig, til- búnir að grípa inn í geri bilanir vart við sig. Benedikt Einarsson er einn þeirra. „Nei, það er alls ekki ein- manalegt hér á aðfangadagskvöld,“ segir Benedikt. Fjölgað er á vakt- inni á aðfangadag enda orkunotkun mikil. „Álag í íbúðahverfum er meira á þessu kvöldi en gengur og gerist vegna eldamennsku. Þá getur ýmislegt komið upp á,“ segir hann, en bætir við að sem betur fer séu alvarlegar bilanir fátíðari nú en áð- ur fyrr. Starfsmenn OR sem verða á ferðinni fá jólanesti frá kokknum og þeir sem eru í húsi gæða sér einnig á ljúffengum jólamat í tilefni dagsins. Maturinn er tekinn snemma, því eftir að eldavélarnar í borginni fara að mala er í nógu að snúast hjá starfsfólki OR. Eftir að mesta álagið er yfirstaðið fer stærsti hluti starfsmannanna heim á leið. „Jólahald hefst því seinna hjá okkur en flestum öðrum,“ segir Benedikt. „En við mætum skilningi heima fyrir.“ Gaman að flytja jólalög Marteinn H. Friðriksson, organ- isti í Dómkirkjunni, segir það hluta af jólunum að spila í kirkjunni kl. 18 á aðfangadagskvöld. „Ég þekki ekki annað en að spila á aðfangadagskvöld, það hef ég gert frá mínum menntaskólaárum,“ seg- ir Marteinn, en hann er ættaður frá Þýskalandi og hefur starfað í Dóm- kirkjunni í nær þrjá áratugi. „Það er yndislegt að flytja jólatónlist, hún er svo falleg. Þetta gæti ekki verið skemmtilegra viðfangsefni.“ Eiginkona Marteins, Þórunn Björnsdóttir kórstjóri, syngur oft í kirkjunni þegar Marteinn leikur, en á aðfangadagskvöld er hún heima að undirbúa jólamatinn. „Það er beðið eftir mér heima og ætlast til að ég flýti mér heim,“ segir Mar- teinn og hlær. Hann segir stemn- inguna í kirkjunni á aðfangadags- kvöld einstaka. „Það er svo mikil eftirvænting í fólki. Núna er mess- unni líka útvarpað og það hlusta ótrúlega margir og eru með okkur þessa kvöldstund. Það finnst okkur yndislegt.“ Í fangageymslu um jólin Um 20 manna lið lögreglunnar verður á vakt á höfuðborgarsvæð- inu á aðfangadagskvöld. „Það er yf- irleitt ekki mjög mikið að gera en þó meira en maður óskaði að væri,“ segir Sigursteinn Steinþórsson, varðstjóri hjá lögreglunni á höfuð- borgarsvæðinu, sem verður á vakt- inni. Mál sem upp geta komið eru margskonar. „Það hefur komið fyrir að við höfum þurft að skerast í leik- inn í heimiliserjum og svo er ógæfu- fólk á ferðinni á þessu kvöldi.“ Þá fer jólamaturinn, reykta kjötið, stundum illa í fólk og dæmi um áföll af þeim sökum sem lögreglan þarf að sinna ásamt sjúkraflutn- ingamönnum. Meðal þess sem lögreglan sinnir er eftirlit í hverfum borgarinnar. „Það halda ekki allir jólin hátíðleg, sumir eru að spá í eitthvað allt ann- að eins og að brjótast inn og stela,“ segir Sigursteinn. Hann segir þó reynt að hafa vaktina hátíðlega og klæðist lögreglan t.d. hátíðarbún- ingi á þessum degi. Borðaður er góður matur og jólakort með hlýj- um kveðjum og hvatningarorðum eru opnuð. Sigursteinn hefur oft staðið vaktina um jólin. „Við höfum lent í því að þurfa að stilla til friðar í slagsmálum og höfum alltof oft haft fólk í fangageymslum okkar á aðfangadagskvöldi. Þetta er að aukast.“ Sigursteinn á von á því að opna pakkana er hann kemur heim á miðnætti og jafnvel fá sér smá bita af jólamatnum. „Það gleðilegasta við þessi jól hjá mér er að sonur minn og tengdadóttir sem búa í Bandaríkjunum komu óvænt heim,“ segir hann. „Það bjargar jólunum hjá mér.“ Morgunblaðið/Ómar Organistinn „Ég þekki ekki annað en að spila á aðfangadagskvöld, það hef ég gert frá mínum menntaskólaárum,“ segir Marteinn H. Friðriksson, organisti í Dómkirkjunni. Standa vakt- ina á aðfanga- dagskvöld Á meðan þorri landsmanna rennir niður jólasteik- inni á aðfangadagskvöld í faðmi fjölskyldunnar eru aðrir á vaktinni að sinna sjúklingum, öryggis- málum og orgelleik við aftansöng. Morgunblaðið/Eggert Hjúkrunarfræðingurinn Hátíðlegt á spítalanum, segir Viktoría Björk. Morgunblaðið/Ómar Morgunblaðið/Brynjar Gauti Varðstjórinn Sigursteinn Steinþórsson gætir öryggis borgaranna. Deildarstjórinn Benedikt Einarsson hjá OR fylgist með orkunotkun.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.