Morgunblaðið - 04.02.2008, Síða 25
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 4. FEBRÚAR 2008 25
FEBRÚARTILBOÐ
MOSAIK Hamarshöfða 4 - 110 Reykjavík
sími 587 1960 - www.mosaik.is
Á LEGSTEINUM OG
FYLGIHLUTUM
10-50% AFSLÁTTUR
✝
Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir
og afi,
KRISTINN GUÐNASON,
Furugerði 1,
áður Bólstaðarhlíð 33,
Reykjavík,
andaðist á Landspítalanum við Hringbraut laugar-
daginn 26. janúar.
Útför hans verður gerð frá Háteigskirkju
þriðjudaginn 5. febrúar kl. 13.00.
Blóm og kransar afþakkaðir en þeim sem vilja
minnast hans er bent á líknarstofnanir.
Ólína Kristjánsdóttir,
Guðni Kristinsson, Dagbjört Þyri Þorvarðardóttir,
Kristján Kristinsson, Birna Guðbjörnsdóttir
og barnabörn.
voru heimatilbúnu ullarfötin henn-
ar ömmu alltaf betri og hlýrri en
vetrarfötin úr búðunum.
Allar veiðiferðirnar í Hvamms-
vík eru líka eftirminnilegar. Amma
var dugleg að veiða og veiddi
marga fiska í þessum ferðum. Þar
kom hún auðvitað alltaf með
heimatilbúið nesti og sætabrauð.
Þó að við kæmum líka með sam-
lokur voru samlokurnar hennar
ömmu samt alltaf betri en okkar
sem voru því yfirleitt ósnertar.
Amma er með duglegustu mann-
eskjum sem við höfum kynnst.
Þegar hún veiktist gafst hún ekki
upp á lífinu heldur var ennþá sama
góða amman sem gerði allt sem
hún gat til að láta öllum öðrum í
kringum sig líða sem best.
Heiður Anna og Brynja.
Það var ekki ríkmannlegt um að
litast í rýrðarkotinu Miðbæ á
Krossi um miðja síðustu öld þegar
ég fór að venja komu mína þangað,
ungur maður á biðilsbuxum. Þar
bjó þá sómakonan Jónína Jóns-
dóttir, ekkja, ásamt þremur dætr-
um sínum. Aðalheiður yngst 10-12
ára.
Við kynni mín af móðurinni fyr-
irhitti ég einstaka sómakonu sem
virtist geta sigrast á hverri þraut í
erfiðri lífsbaráttu. Við kynni mín
svo af Aðalheiði mágkonu minni, í
áratugi sá ég alltaf betur og betur
hve „móðurmjólkin“ hafði orðið
henni hollt veganesti í lífinu.
Eftir að Alla mágkona eins og ég
nefndi hana lengstum fór að búa í
Reykjavík má segja að gestaher-
bergið hjá fjölskyldu hennar hafi
verið okkar annað heimili. Væru
allar okkar gistinætur þar lagðar
saman á árunum 1967-2003 yrðu
það líklega meira en tvö misseri.
Þegar ég sest niður og hugsa
með depurð til nýlátinnar mág-
konu minnar hvarflar hugurinn
heim í átthaga hennar á Krossi við
Berufjörð þar sem áður fyrr ríkti,
þrátt fyrir allt, glaðværð og ham-
ingja í Miðbænum hjá móður og
dætrum.
Nú hefur tímans tönn afmáð
flest það sem minnti á lífið og
störfin þar frá liðinni öld. Enn þó
tróna ógnvænleg klettabeltin yfir
byggðinni, sem fyrr og bylgjur
Atlantshafsins kallast á við Foss-
inn hvellum hljómi.
Mættu hagarnir kringum bæinn
eða klettadrangarnir, efst í túninu,
mæla hefðu þeir frá mörgu að
segja um leiki barna og lífið á
Krossi. Margur getur vitnað um af
eigin reynslu, hve mótandi áhrifin
eru af umhverfinu og amstri dag-
anna. Á Krossi hafði hver dagur
sitt hlutverk: Að smala, heyja,
hirða skepnur, gæta lambfjár,
stinga upp garðinn o.s.frv.
Fyrir kom að skroppið var í
kaupstað. En líklega hefur heima-
sætan á Krossi orðið að láta sér
nægja að horfa á dýrðina sem þar
blasti við í hillum. Fjölskyldunni
var löngum þröngur stakkur skor-
inn í efnahagslegu tilliti.
Stelpan Aðalheiður fékk að
kynnast öllu þessu með einhverj-
um hætti ásamt öðru því sem hér
er ónefnt. Það er sagt að mótlætið
göfgi manninn. Það er öldungis
rétt. Þeim sem alast upp við gnótt
alsnægta hættir frekar við að fall-
ast hendur í lífsbaráttunni þegar
móti blæs.
Ung kynntist Alla mannsefninu
sínu Hilmari Ólafssyni og eignuð-
ust þau fjögur mannvænleg börn.
Allt frá fyrsta degi stóðu hjónin
þétt saman í blíðu og stríðu. Áreið-
anlega var vinnudagurinn oft óhóf-
lega langur hjá hinni fórnfúsu hús-
móður í Hlaðbæ eða Langagerði.
Ungri lærðist henni að sleppa
helst aldrei verki úr hendi. Og
ungri lærðist henni að vera viðbúin
ef á móti blés. Slíkt kom sér vel
síðar í lífsins ólgusjó.
Þegar ég set þessi fátæklegu orð
á blað sækir á mig tregablandinn
söknuður. Ég er að kveðja, hinstu
kveðju, eina af ágætustu persónum
sem ég hef átt samleið með.
Hilmari og öðrum aðstandend-
um sendi ég dýpstu samúðar-
kveðju.
Heimir Þór Gíslason.
Alla frænka, móðursystir mín,
var einn af máttarstólpum fjöl-
skyldunnar alla tíð, besta frænka í
heimi. Eins og Jónína amma í geðs-
lagi, mild, umburðarlynd, hjálpfús,
ráðagóð, gestrisin og svo mörg fleiri
lýsingarorð yfir góðmennsku. Alla
frænka var eins og mamma og
amma, alltaf með eitthvað á milli
handanna, handverk af fínasta tagi,
greinilega í genunum.
Tréskurður var eitt, útprjón ann-
að, og liggur við allt handverk þar á
milli.
Mér var það mikill stuðningur
hvað Alla frænka var alla tíð tilbúin
að opna heimili sitt fyrir mér og að-
stoða, hvort það var þegar ég var
unglingur í framhaldsskóla eða þeg-
ar ég eignaðist Vilmu, og kom og
hjálpaði á heimilinu mínu þegar ég
átti þá syni mína.
Mamma og Alla frænka voru
ákaflega samrýndar systur og mikill
samgangur milli heimilanna, þannig
að nærri má segja að allir þekki alla
í fjölskyldunum. Í minningunni
verður Alla frænka eins og aðrar
konur úr fjölskyldunni íslenskur
kvenskörungur af bestu gerð.
Ég votta öllum aðstandendum
mína dýpstu samúð.
Helga Nína Heimisdóttir.
Það þykir vert frásagnar ef sama
bújörð hefur verið lengi í eigu sömu
ættar. Hins vegar er minna um það
rætt ef vinátta hefur haldist í
nokkra ættliði. En það er einmitt
slík vinátta sem er mér efst í huga
er ég minnist Aðalheiðar Helgadótt-
ur, hennar Öllu frænku, sem nú hef-
ur gengið á vit feðra sinna.
Árið 1883 fékk afi minn Sigurður
Antoníusson tvo þriðju jarðarinnar
Beruness að gjöf frá ömmu sinni
gegn því að sjá fyrir henni í ellinni.
Hann hóf þegar búskap á jörðinni,
þá einyrki, en til hans fluttist frændi
hans Jón Stefánsson með fjölskyldu
sinni. Kona Jóns dó í Berunesi árið
1899 frá fimm börnum. Yngsta
barnið var Jónína Kristborg móðir
Aðalheiðar sem þá var ársgömul.
En Jón faðir Jónínu var þá orðinn
heilsulítill. Börnin fimm ólust því
upp í Berunesi hjá foreldrum sínum
og afa mínum og síðar einnig ömmu
minni þar til þau voru komin það á
legg að þau gátu staðið á eigin fót-
um. Sú vinátta sem var milli systk-
inasonanna Sigurðar og Jóns flutt-
ist áfram niður til móður minnar og
Jónínu, og hélst vinátta þeirra með-
an báðar lifðu.
Þegar ég fluttist til Reykjavíkur
var Jónína orðin ekkja og flutt
þangað, og Aðalheiður dóttir henn-
ar stofnaði þar sitt eigið heimili um
þær mundir þegar hún giftist Hilm-
ari Ólafssyni. Þessi tvö heimili, það
er heimili Jónínu og Aðalheiðar,
urðu mér tíðum athvarf í frístund-
um mínum og naut ég þar ómældrar
vináttu. Vinátta okkar Aðalheiðar
hélst áfram allt til hinstu stundar.
Oft hef ég verið gestur á heimili
þeirra Aðalheiðar og Hilmars og
notið gestrisni, gáska og ljúf-
mennsku þeirra hjóna. Sama má
segja um ýmsar sameiginlegar
ánægjustundir utan heimilis þeirra.
Það vakti snemma athygli mína
hversu blítt og kært var milli Jónínu
og barna hennar. Aðalheiður fékk
slíka ástúð í vöggugjöf og var alla
ævi veitandi á ást og kærleika, fyrst
og fremst manni sínum og börnum
en einnig öðrum vinum og kunningj-
um. Það hef ég fengið margsinnis að
reyna í samskiptum okkar og einnig
fjölskyldna okkar. Mér er því þakk-
læti efst í huga til Aðalheiðar
frænku minnar fyrir tryggð hennar
og vináttu nú þegar ég kveð hana.
Ég sendi Hilmari, börnum hans
og barnabörnum innilegar samúðar-
kveðjur frá mér, eiginmanni mínum
og börnum og bið þeim blessunar
Guðs. Ég veit að missir þeirra er
mikill.
Hanna Sigríður Antoníusdóttir.
Frænka mín, Aðalheiður Helga-
dóttir – oftast kölluð Alla – var fædd
á bænum Krossi á Berufjarðar-
strönd og undi þar sín bernsku- og
æskuár. Milli fólksins á Krossi og á
Berunesi, þar sem ég átti heima,
ríkti mikil vinátta. Margar minning-
ar koma upp í hugann. Jónína móðir
Öllu átti það til að baka tvíbökur
sem voru ekta, stökkar og góðar, og
sendi þá iðulega góðan skammt inn
á Berunes. Man ég þegar ég var
send á móti Öllu til að taka á móti
sendingunni og við mættumst á
Steinaborgarleitinu. Þetta voru ljúf-
ir tímar. Mæðgurnar fluttust til
Reykjavíkur þegar Alla var á ung-
lingsaldri. Þar hitti Alla ungan og
glæsilegan mann sem hún felldi hug
til. Fljótlega voru þau farin að búa
og eignast börn. Þegar ég fór sjálf
að venja komur mínar til bæjarins
var gott að eiga innhlaup hjá þeim.
Margar voru heimsóknirnar í
Langagerðið og síðan í Hlaðbæinn
og margar ánægjustundirnar áttum
við saman. Alla alltaf reiðubúin að
hlaupa undir bagga ef á þurfti að
halda. Í þá daga var ekki stokkið út í
búð að kaupa kjól fyrir árshátíð. Þá
var að velja sér efni og síðan settist
Alla við að sníða og hjálpa mér við
saumana. Eftir að ég kom heim frá
Kaupmannahöfn tókum við Alla aft-
ur upp þráðinn. Nú sakna ég göngu-
ferðanna og kaffihúsanna með
henni. Það var notalegt að vera í ná-
vist hennar. Dóttir mín og yngri
dóttir hennar eru jafnaldrar og léku
sér oft saman. Í Hlaðbænum ríkti
fjör og kátína og minnumst við hjón-
in margra dýrlegra veisla. Ekki dró
Hilmar niður fjörið. Það var gaman
þegar við brugðum okkur öll á ball
saman og hefði mátt vera oftar.
Góðar eru líka minningar okkar Ey-
steins frá því þegar Alla og Hilmar
heimsóttu okkur til Kaupmanna-
hafnar. Þá var ýmislegt brallað,
gaman að geta loks verið í hlutverki
„leiðbeinandans“ – eða svo fannst
okkur við vera – og Alla og Hilmar
tilbúin að taka þátt í uppátækjum
okkar af lífi og sál.
Við söknum Öllu mjög mikið. Við
sendum Hilmari og öðrum nánustu
ástvinum hennar samúðarkveðjur af
heilum hug.
Aldís Hjaltadóttir.
Sæl elskan mín.
Með þessum orðum heilsaði Að-
alheiður ömmusystir mín mér alltaf,
hún gekk reyndar aldrei undir öðru
nafni en Alla frænka í mínum huga.
Alla frænka var ein af mínum hvun-
dagshetjum og þeim kostum gædd
að hafa óendanlega þolinmæði,
mikla gæsku og síðast en ekki síst
hafði hún yndislega nærveru.
Þær systur Aðalheiður og Sigríð-
ur amma mín voru ákaflega sam-
rýndar og nánar. Því var umgangur
mikill á milli fölskyldnanna, þó svo
að búið væri sitt í hvorum landshlut-
anum og alltaf var hægt að leita til
Öllu frænku ef eitthvað bjátaði á.
Veiðiskapur átti hug þeirra hjóna
á sumrin og komu þau Hilmar oft í
heimsókn til fjallagrasabændanna,
ömmu minnar og afa upp á Möðru-
dalsheiði. Ég minnist þess er ég
veiddi minn fyrsta silung með Öllu
frænku. Það var stolt dama sem
landaði honum með frænku sinni á
fallegum sumarmorgni í heiðinni.
Gamanið kárnaði þó þegar átti að
rota greyið og þurfi frænkan á end-
anum að sjá um þá hlið mála. Hún
hló dátt að klaufaskap mínum.
Alla stóð eins og klettur við hlið
okkar allra þegar amma lést og að
þurfa að horfa á hana kljást við
sama sjúkdóm núna, rúmum fjórum
árum seinna, var erfiðara en orð fá
lýst.
Elsku Hilmar og fjölskylda, við
Brynjar vottum ykkur okkar dýpstu
samúð.
Vilma Kristbjörg.
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt.
Þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
(Þórunn Sig.)
Hún Alla var ein af fyrstu starfs-
mönnum Álfalands, fyrstu árin á
næturvöktum og síðan í eldhúsi.
Alla var með eindæmum dugleg
kona og féll sjaldan verk úr hendi.
Hún annaðist börnin í Álfalandi af
ást og umhyggju og þau löðuðust að
Öllu og sum þeirra kölluðu hana
„Öllu ömmu“, þau fundu sig örugg í
fangi hennar og umsjá. Hún Alla
vann ekki með hávaða og látum, en
kom ótrúlega miklu í verk á stuttum
tíma. Það sýndi sig best þegar hún
fór að vinna í eldhúsinu í Álfalandi
þar sem hún eldaði ljúffengan og
heimilislegan mat og bakaði góðar
kökur. Konfektið sem hún bjó til
fyrir hver jól var hreinasta lostæti,
allskonar tegundir og algjört lista-
verk, hún var svo vandvirk hún Alla.
Prjónana skildi hún aldrei við sig og
það voru ófáar flíkurnar sem hún
hannaði og prjónaði og liggja verk
hennar víða.
En handan við fjöllin
og handan við áttirnar og nóttina
rís turn ljóssins
þar sem tíminn sefur.
Inn í frið hans og draum
er förinni heitið.
(Snorri Hjartarson)
Elsku Hilmar og fjölskylda, við
vottum okkar dýpstu samúð. Öllu er
sárt saknað og minningin um góða
konu mun lifa í hjörtum okkar, hafi
hún þakkir fyrir allt. Megi góður
Guð geyma elsku Öllu.
Starfsfólk Skamm-
tímavistunar, Álfalandi.
Kæra Alla, nú hefur þú fengið
hvíldina eftir mikil og erfið veikindi.
Mig langar í örfáum orðum að
minnast ljúfrar og yndislegrar
konu, nágrannakonu foreldra minna
í Langagerðinu til fjölda ára.
Ég á þér mikið að þakka, elsku
Alla, artarlegheitin og umhyggjuna
við foreldra mína á meðan faðir
minn var á lífi og ekki síst alúðina
við hana mömmu eftir að pabbi féll
frá.
Það leið varla sá dagur að ekki
væri litið inn til þeirra eða slegið á
þráðinn til að vita hvernig þau hefðu
það. Pabba, sem hafði verið sjúk-
lingur til fjölda ára, fylgdust þú og
Hilmar vel með og voru ófá skiptin
sem þú komst með nýbakað brauð
eða köku til þeirra. Þá glaðnaði yfir
andliti pabba og hann hrósaði
myndarskapnum í henni Öllu
þeirra. Og Hilmar var heldur aldrei
langt undan ef einhverja aðstoð
þurfti.
Eftir að mamma varð ein fóruð
þið Hilmar oft með hana með ykkur
í bíltúr eða kölluðuð á hana yfir til
ykkar í kaffi eða mat. Yndislegri ná-
granna var ekki hægt að hugsa sér
fyrir fullorðna foreldra mína, stöð-
ugt samband og eftirlit. Og mömmu
varst þú líka góð vinkona.
Um leið og ég kveð ljúfa konu,
votta ég Hilmari, Helga, Binnu, Óla,
Jónínu og fjölskyldum þeirra samúð
mína og bið Guð að vera með þeim.
Minning þín lifir, elsku Alla.
Sigríður Bergmann.
Aðalheiði þekkti ég sem Öllu,
mömmu Jónínu vinkonu minnar.
Alla var ljúf kona sem var gott að
vera í návistum við. Hún var ein-
staklega gestrisin og hafði einlægan
áhuga á því sem ég var að gera og
hvernig mér leið.
Þegar ég minnist Öllu sé ég fyrir
mér skemmtilega, hlýja og um-
hyggjusama konu. Ef orðatiltækið
„henni var margt til lista lagt“ á ein-
hvern tímann við þá átti það við
Öllu. Það virtist allt leika í hönd-
unum á henni, hvort sem það laut að
matseld og hannyrðum eða útskurði
og húsgagnasmíði. Hún var einn
besti kokkur sem ég hef komist í
kynni við – jafnvíg að elda þjóðlegan
svartfugl eða nýjustu grænmetis-
réttina. Að auki ræktaði hún bæði
blóm og tré og var fallegi garðurinn
í Langagerði henni mikill gleðigjafi.
Í huga mínum geymi ég margar
skemmtilegar myndir af Öllu, t.d.
við að tína ánamaðka í rigningunni
til að nota í veiðiskapinn sem var
eitt áhugamál þeirra hjóna eða að
prjóna lopapeysur og ungbarna-
sokka í öllum stærðum og gerðum.
Dýrmætastar eru minningarnar um
óendanlega hlýjuna og kærleikann
sem hún gaf mér, kransakökuna
sem hún bakaði og gaf mér á brúð-
kaupsdaginn minn og samveru-
stundirnar sem ég átti með henni,
Hilmari og Jónínu í Amsterdam.
Alla sýndi mikla þrautseigju í erf-
iðum veikindum og þá eins og æv-
inlega stóð fjölskyldan þétt saman.
Yndisleg kona er farin en styrkur,
ástríki og lífsgleði Öllu lifir áfram í
börnum hennar og barnabörnum.
Ég sendi Hilmari, Jónínu og allri
fjölskyldunni mínar innilegustu
samúðarkveðjur.
Sólborg.
Fleiri minningargreinar um Að-
alheiði Helgadóttur bíða birtingar og
munu birtast í blaðinu næstu daga.