Morgunblaðið - 21.05.2008, Page 28

Morgunblaðið - 21.05.2008, Page 28
28 MIÐVIKUDAGUR 21. MAÍ 2008 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR ✝ Hrönn Kristjáns-dóttir fæddist í Brekku á Dalvík, 14. ágúst 1925. Hún lést hinn 12. maí sl. Foreldrar hennar voru þau Anna Björg Arngríms- dóttir, f. 20.1. 1898, d. 3.7. 1991, og Kristján Eldjárn Jó- hannesson, f. 21.12. 1898, d. 11.10. 1990. Systkini Hrannar voru: Þórarinn, f. 13.6. 1920, d. 11.1. 1983, Ingunn Guðrún, f. 22.12. 1928 og Birna Soffía f. 9.10. 1932. Fóst- ursystir hennar var Guðlaug Þor- bergsdóttir, f. 1.3. 1939. Hrönn giftist hinn 25.9. 1948 Jó- hannesi Thorarensen Jónssyni skipstjóra, f. á Upsum, Dalvík 19.7. 1919 en hann lést 23.6. 1995. Börn þeirra: Kristján Már, f. 14.12. 1946, d. 13.7. 1958. Anna Baldvina, f. 4.3. 1949. Eiginmaður Skarphéðinn Pét- ursson, f. 1.4. 1951. Þau eiga fjögur börn og sex barnabörn. Guðlaug, f. 8.10. 1960. Eiginmaður Hákon Óli Guðmundsson, f. 8.6. 1961. Þau eiga tvær dætur. Birna Blöndal, f. 2.4. 1969. Eiginmaður Birgir Össurarson, f. 24.9. 1967. Þau eiga fjögur börn. Hrönn stundaði ýmis störf um ævina. Hún vann síðustu ár starfsævinnar á skrifstofu útibús Kaupfélags Ey- firðinga á Dalvík. Hrönn var alla tíð mjög virk í stjórmálum og félagsmálum. Hún starfaði fyrir Alþýðuflokkinn með- an hann var við lýði, í Slysavarna- félaginu á Dalvík og Lions- klúbbnum Sunnu á Dalvík. Útför Hrannar fer fram frá Dal- víkurkirkju, 21. maí kl. 13.30. Ég ætla að fara með þig í heimsókn til konu sem þú átt að búa hjá. Þetta er fyrsta minning mín tengd mömmu. Ég var 5 ára og á leiðinni til hennar í mína fyrstu heimsókn. Ég kallaði hana aldrei annað en mömmu, hún var mamma mín í 42 ár. Pabbi var á sjónum þessi fyrstu ár mín hjá þeim, en mamma var alltaf að gera eitthvað, föndra, vinna í garðinum, sauma. Ég var alltaf með henni í öllu og lærði af henni allt sem hún gerði. Það voru ekki ófár flíkurnar sem hún saumaði. Maður kunni nú ekki alveg alltaf að meta það að vera í fínasta heima- saumaða dressinu, þegar hinar stelp- urnar voru í gallabuxum sem þá voru að ryðja sér til rúms. En þetta voru auðvitað þvílíkt flottar flíkur. Það voru saumaðar heilu ferðatöskurnar af sumarfötum fyrir utanlandsferð- irnar og ekki voru þær flíkur af verri endanum. Ég held að það hafi ekki verið hægt að hugsa sér betri stað að alast upp á heldur en hjá mömmu og pabba. Ég segi alltaf að fyrst þetta átti að verða svona þá gat það ekki verið betra. Það hrúgast upp minningarnar núna þeg- ar komið er að leiðarlokum. Garður- inn kemur óhjákvæmilega oft upp í huga minn og auðvitað sótti ég mér skjól í garðinum mínum með hugs- anir og minningar. Garðurinn minn er samt bara lítill bleðill samanborið við garðinn á Hafnarbraut 10. Ég held að mér sé óhætt að segja að hann hafi árum saman verið stolt mömmu og pabba. Á vorin var auðvitað unnið sérstaklega mikið. Það var byrjað á því að moka snjónum úr kartöflu- garðinum, sækja mold, skít og síðan var unnið hörðum höndum, oft fram á nætur og takmarkið var að allt væri orðið fínt og flott fyrir stærsta hátíð- isdaginn, sjómannadaginn. Það er efni í heila bók að rifja upp allt sem hún gerði. Mamma gerði allt og gat allt. Ég held að það hafi ekki verið neitt sem hún gerði ekki. Auðvitað var pabbi mikið í burtu á sjónum framan af, en vegna veikinda þurfti hann að koma í land 1971. En það mikilvægasta af öllu var að hún var til staðar fyrir okkur öll, allar dæturnar og fjölskyldur þeirra, alltaf. Hún var með fram á síðustu stundu og gerði allt sem hún tók sér fyrir hendur með sömu reisninni. Það var ómetanlegt fyrir okkur fjölskylduna í Berjarimanum að hafa hana hjá okkur síðastliðin tvenn jól. Hún var okkur öllum hugleikin og við áttum öll góðar og skemmtilegar stundir saman. Síðasta minningin mín um hana verður ferðin með hana í Hveragerði, þar sem hún ætlaði að fá bót á fótaveikindum sínum. Hún vildi geta haldið áfram að keyra upp í „fellihýsið“ sitt uppi á Hamri og vera þar að stússa með blómin sín. Ég tók fallegu fötin hennar upp úr töskunni og gekk frá þeim, fyrir hana og sagði við hana í leiðinni. „Mamma þú verð- ur langflottust hérna“. Þú heldur áfram að vera langflottust hvar sem þú verður. Elsku mamma, takk fyrir allt. Þín dóttir Guðlaug og Hákon. Mamma er konan. Aldrei hefur það verið mér ljósara en núna. Mamma var bæði mamma mín og amma, en fyrst og fremst var hún mamma mín. Ég er óendanlega stolt af því að vera dóttir Hrannar Kristjánsdóttur. Hún var ekki alltaf auðveld í sam- skiptum og sambúð, en hrein og bein og kom til dyranna eins og hún var klædd. Hún vissi hvað hún vildi og sótti það, ekki bara fyrir sig sjálfa heldur líka fyrir alla þá sem henni var annt um. Mamma gekk í gegnum ýmislegt á sinni ævi og tók erfiðleikum af miklu æðruleysi, en þeir settu mark sitt á hana, líf hennar og lífssýn. Hún kenndi mér margt um lífið og til- veruna sem er ómetanlegt og við sem fengum að kynnast henni og læra af henni erum lánsöm. Mamma var ætíð fín og falleg til fara og mikil pjattrófa. Tignarleg er orðið sem kemur upp í hugann, stolt og hnarreist var hún og sjálfstæð. Bar sig eins og drottning allt fram á síðasta dag. Mamma gat allt og var mér allt. Það er skrýtið og erfitt að kveðja kon- una sem hefur skipt mig öllu máli síð- ustu 39 árin og mér er þungt um hjartað að þurfa að kveðja.. Ég sé ekki hvernig lífið verður án hennar. En ég er þakklát fyrir að hafa fengið að ganga í gegnum lífið með þessari ótrúlegu konu. Hún fékk að fara eins og hún vildi og ég er líka þakklát fyrir það. Dætur mínar hafa misst mikið, en þær búa að því að hafa fengið að kynnast mömmu. Sonur minn mun aldrei hitta hana en við sjáum til þess að hann viti hversu góð kona amma hans Hrönn var. Minningu hennar verður haldið á lofti, ég sé til þess. Ég kveð mömmu mína með sökn- uði en fyrst og fremst með virðingu fyrir þeirri manneskju sem hún var og því sem hún stóð fyrir. Ég geymi hana í hjartanu og vona að hún fylgi mér og mínum áfram. Hvíl í friði, elsku mamman mín. Við sjáumst síðar. Birna. Glæsileg kona, tignarleg, traust, kraftmikil og áreiðanleg. Þannig, meðal annars. minnist ég Hrannar. Það er óhætt að segja að einstök kona sé fallin frá. Drottning ættarinnar hefur yfirgefið þennan heim en hefur án nokkurs vafa séð til þess að afkom- endur taki við því hlutverki. Ég bar ómælda virðingu fyrir Hrönn. Þegar ég kynntist Birnu fyrir 20 árum síðan, vissi ég ekki hvers lags ofur-tengda- mamma fylgdi með. Tengdamamma sem átti eftir að hafa svo mikil áhrif á líf mitt og minna barna. Við bjuggum fyrst í sama húsi á Dalvík, hún flutti með okkur til Bret- lands, við vorum síðan nágrannar á Akureyri áður en hún fluttist á Dalbæ. Ég er og verð óendanlega þakklátur fyrir allar samverustund- irnar. Allt sem hún kenndi mér um líf- ið og tilveruna, kennsluna í garðrækt og mannrækt. Þakklátur fyrir allt sem hún gerði fyrir dætur mínar. Hún markaði djúp spor í líf þeirra. Gaf þeim ómetanlegar stundir þar sem sest var niður, spilað og spjallað. Stundir sem skipta svo miklu máli í hinum hraða heimi sem við búum í. Ég er þakklátur fyrir árin 20 sem við eyddum saman. Hún hafði mikil áhrif á mig og reyndist mér svo vel. Hrönn, ég er stoltur af því að eiga dóttur sem ber þitt nafn, stoltur af því að hafa fengið að kynnast þér. Takk fyrir allt. Birgir. Ég vissi alltaf að sá dagur mundi koma fyrr eða síðar þar sem ég mundi setjast niður og skrifa kveðjuorð til ömmu Hrannar, ég hélt samt að sá dagur kæmi ekki alveg strax. Kallið kom fljótt og óvænt og þó það sé óhjá- kvæmilegt að þurfa að kveðja ömmu sína er þetta samt rosalega sárt og vont. Amma mín var sennilega ein merkilegasta manneskja sem ég hef kynnst og ég tel mig ólýsanlega hepp- inn að hafa fengið að eiga hana að í þetta langan tíma. Það væri auðvelt að vera langorður um alla þá hluti sem ég kem til með að sakna í hennar fari, frekar kýs ég að hugsa um þá hluti sem ég er þakklátur fyrir núna þegar hún er farin. Ég er þakklátur fyrir allar sögurnar af lífinu eins og það var áður en ég komst til vits, það var yndislegt að sitja og hlusta á frá- sagnir hennar. Ég er þakklátur fyrir allar stundirnar sem ég átti með henni uppi í sælureitnum hennar við að gróðursetja plöntur og brasa í hinu og þessu. Ég er þakklátur fyrir hversu vel hún tók á móti konunni minni þegar ég kom með hana norður til að hitta fjölskylduna mína, hún tók henni opnum örmum kyssti hana og sýndi henni væntumþykju fram á síð- asta dag. Ég er þakklátur fyrir gömlu siðina sem hún kenndi mér þegar ég var lítill og passaði að ég héldi upp á fram á fullorðinsárin. Ég er þakklát- ur fyrir vináttuna sem myndaðist okkar á milli og þróaðist með árun- um. Ég er þakklátur fyrir húmorinn sem hún hafði fyrir sjálfri sér og lífinu í heild, henni þótti rosalega skemmti- legt að segja mér sögur af óförum sín- um og oftar en ekki endaði hún á því að segja „Bjarmi, þú segir engum frá þessu“. Ég gat aldrei á mér setið. Ég er þakklátur fyrir hvað ég sé mikið af henni í mömmu minni og systur minni. Ég er þakklátur fyrir stundina sem ég átti með henni stuttu áður en hún fór, spjallið sem við átt- um er mér ólýsanlega dýrmætt. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að keyra hana heim í hinsta sinn. Ég er þakklátur fyrir hversu mikið hún elskaði son minn, hann missir mikið en kemur til með að alast upp við sög- ur af nöfnu sinni þar sem heimilið okkar er fullt af hlutum sem eru komnir frá henni. Ég er þakklátur fyrir að geta syrgt hana með gleði í hjarta. Elsku amma, hvíldu í friði. Þinn Bjarmi. Þetta er í fyrsta skipti sem ég missi einhvern náinn mér. Það er vont, eins og að vera slegin í andlitið Versta tilfinning sem ég veit. Ég leyfði mér aldrei að hugsa um að hún gæti farið að fara. Mér leið bara eins og hún yrði alltaf hérna. Allavega til að sjá Jóhannes þegar hann kemur, barnið mitt þegar ég eignast það, og kannski eiga eitt stórafmæli í viðbót af því það var svo ótrúlega gaman síð- ast. Maður getur ekkert gert… og ég veit ekkert hvað ég á að segja. Ég vildi að ég hefði getað kvatt hana. Ég vildi að ég hefði náð að heimsækja hana einu sinni í viðbót. Ég óska þess líka að hún viti það… og að hún viti hvað allir elskuðu hana mikið. Hún hefði gert allt fyrir okkur. Ég er svo stolt að heita í höfuðið á henni. Síðustu daga hefur maður verið að rifja upp gamlar minningar um ömmu. Þegar hún var alltaf að sauma föt á bangsann minn og svo gleymist gulldressið mitt seint. Þegar ég lét hana segja mér „gamladaga-sögur“ á kvöldin. Þegar við keyptum upp Kaupfélagið af nammi og snakki og gistum í hjólhýsinu. Hún var svo sterk, gekk í gegnum ýmislegt yfir ævina en var alltaf til staðar fyrir þá sem elskuðu hana. Alltaf svo fín, ég sá ömmu varla í öðru en pilsi eða kjól með hárið sitt í krull- um. Þó ég óski þess að hafa hitt hana allavega einu sinni enn áður en hún kvaddi, er ég þakklát fyrir yndislega kvöldið sem ég sá hana seinast. Hún var svo glöð og ánægð og það er þann- ig sem ég vill muna eftir henni. Endalaus söknuður og ást. Hrönn. Amma Hrönn var alltaf mjög góð en ég vissi samt alltaf að hún myndi deyja. En við áttum mjög margar og góðar stundir saman, við spiluðum saman og þegar við fluttum til Bret- lands þá kom hún með. Við áttum saman herbergi sem var bleikt á lit- inn. Allir deyja einhvern tímann og það hlaut að koma að því, amma var orðin gömul og hún var góð kona en hún var orðin veik í hjartanu sínu. En við öll söknum hennar mjög mjög mikið og við geymum ömmu alltaf í hjarta okkar. Harpa Mukta Birgisdóttir. Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð, hjartans þakkir fyrir liðna tíð, lifðu sæl á ljóssins friðarströnd, leiði sjálfur Drottinn þig við hönd. (G.J.) Með þessum ljóðlínum kveð ég þig, elsku Hrönn frænka. Margs er að minnast þegar litið er til baka, ég man þig fyrst glæsilega unga konu með mikla reisn og þeirri reisn hélst þú til síðasta dags. Ég var í fyrstu dálítið hrædd við þig en samt vildi ég verða svona kona, þegar ég yrði stór. Árin liðu og ég var svo lánsöm að fá að kynnast þér betur og starfa með þér að ýmsum félagsmálum, þú varst heil í öllu sem þú tókst þér fyrir hendur, það sást best á því hve ötullega þú vannst að slysavarnamálum en um árabil starfaðir þú fyrir kvennadeild- ina á Dalvík og varst sæmd gullmerki SVFÍ fyrir vel unnin störf. Vil ég fyrir hönd slysavarnafólks þakka þín óeig- ingjörnu og góðu störf. Ung að árum fórst þú að starfa fyr- ir Alþýðuflokkinn. Einu sinni sagðir þú við mig „Ég held að ég sé dálítið mikið pólitísk“ en þú flíkaðir því ekki frekar en öðrum tilfinningum þínum. Fyrir tuttugu og einu ári gekkst þú til liðs við Lionshreyfinguna og varst virkur félagi þar til síðasta dags. Mik- ið yndi hafðir þú af allri ræktun, sulla í mold, sá og planta út á vorin, það voru þínar ær og kýr. Hann var fal- legur á sumrin unaðsreiturinn þinn á Hamrinum. Eitt af því síðasta sem þú sagðir við mig áður en þú fórst var: „Frænka hvernig tókst sáningin hjá þér?“ „Vel.“ „Jæja, ég fæ þá blóm þegar ég kem heim.“ Það voru ófáar ferðirnar sem við fórum saman í sambandi við þessi áhugamál okkar, klingjandi hlátur þinn og léttleika mun ég geyma í minningabankanum. En þó þú værir liðtæk í félagsmálum ásamt vinnu þá var það fyrst og fremst fjölskylda þín sem átti hug þinn og hjarta. Elsku Hrönn, nú ert þú hætt að vera þreytt og komin til betri heima, til vinanna þinna og vonandi farin að dansa við hann Jóa þinn eins og þið gerðuð svo glæsilega í Ungó í gamla daga. Við hjónin þökkum þér og Jóa þín- um allan ykkar hlýhug og vináttu, einnig vottum við dætrum ykkar, fjöl- skyldum þeirra og öðrum aðstand- endum innilegustu samúð. Verið ætíð góðum Guði falin. Þin frænka, Kolbrún Páls. Seinustu daga hefur hugurinn reik- að til hennar ömmu. Rifjaðar hafa verið upp allar góðu stundirnar og minningarnar. Við eigum alveg hell- ing af fallegum hlutum eftir hana. Hún var svo rosalega flink í höndun- um. Vettlinga, hekluð teppi, rúmföt, lampa og skrín. Það er dýrmætt að eiga þetta allt saman núna. Berjat- ínsla, hjólhýsið, spilamennska, heitt súkkulaði og handavinna, allt yndis- legar minningar. Hún kenndi okkur svo margt og siðaði mann til. Hún var alltaf svo glæsilega, hún amma. Það var yndislegt að fá að hafa hana hjá okkur seinustu tvenn jól, það var sjaldan sem við höfðum ömmu hjá okkur jafn lengi og þá. Nú ertu komin til hans afa, við vitum að þú lítur niður til okkar og passar okkur. Minning þín lifir. Saknaðarkveðjur, Stefanía og Björg Hákonardætur. Í dag verður kvödd hinstu kveðju frá Dalvíkurkirkju jafnaðarkonan Hrönn Kristjánsdóttir. Hún var af al- þýðufólki komin, dóttir Kristjáns Jó- hannessonar hreppstjóra, með meiru, og Önnu Arngrímsdóttur konu hans. Þeim hjónum kynntist ég reyndar ekki en heyrði sögur af. Þau voru rót- grónir Alþýðuflokksmenn og af þeirri kynslóð sem lét verkin tala og hafði ekki um það mörg orð. Ójafnréttið blasti víða við og kröpp kjör hjá stórum, barnmörgum fjölskyldum. Samstaða, náungakærleikur, mikil umhyggja og trúin á það að allir ættu að fá að njóta virðingar bjargaði þá mörgum. Úr þessum jarðvegi spratt Hrönn og fylgdi frá unga aldri Al- þýðuflokknum og stefnu hans og boð- skapur uppvaxtaráranna fylgdi henni í gegnum lífið. Á Dalvík hafa orðið til ýmsar blöndur flokka í framboði til sveitarstjórnar og vandi að velja fyrir þá sem ekki voru ákveðnir. Hrönn hvikaði hins vegar aldrei frá sinni trú og sama hvaða nafni framboð nefnd- ust þá var stefnan um jafnrétti og bræðralag leiðarljós hennar í gegnum lífið. Hún fór ekki mikinn þótt hún tæki sæti á lista en hafði sínar skoð- anir og lét þær í ljós á ákveðinn en ró- legan og yfirvegaðan hátt. Hún kunni líka að rétta hjálparhönd þar sem þess var þörf þótt hún væri ekki að básúna það út um stræti og torg. Fyrir hönd Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi vil ég með þessum orðum þakka henni störf, samfylgd og stuðning og senda fjöl- skyldu hennar samúðarkveðjur. Kristján L. Möller. Mæt kona er gengin. Hrönn Krist- jánsdóttir er borin til grafar frá Dal- víkurkirkju í dag, 21. maí. Með nokkr- um orðum vil ég minnast vinkonu minnar. Leiðir okkar Hrannar lágu Hrönn Kristjánsdóttir ✝ Ástkær eiginkona mín, móðir okkar, tengdamóðir og amma, HRÓÐNÝ GUNNARSDÓTTIR, Mánabraut 6, Þorlákshöfn, andaðist á líknardeild Landspítalans í Kópavogi fimmtudaginn 1. maí. Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu. Hafsteinn Sigurgeirsson, Halldóra Hafsteinsdóttir, Tryggvi Samúelsson, Gunndís Hafsteinsdóttir, Hróðmar Hafsteinn Hafsteinsson, Bryndís Hafsteinsdóttir, Sæmundur Steingrímsson, Gunnur Hafsteinsdóttir, Stefán Jónsson, Snædís Anna Hafsteinsdóttir, Stefán Geir Þórisson, barnabörn og barnabarnabörn.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.