Náttúrufræðingurinn - 1933, Blaðsíða 26
184
NÁTTÚRUFB.
þóttist eg vita um íslenzkar endur, að þetta hlytu að vera út-
rlendingar. En svo voru þær eld-styggar, að eg komast aldrei í
námunda við þær. Eg sá aðeins, að kollan var grá og steggurinn
skjóttur, með svartan eða dökk-grænan haus og háls, svo hvít-
ur og síðan einhvern veginn dökkur að ofan. En fæturnir voru
rauðir. Það sá eg, þegar fuglarnir tóku sig upp til flugs.
Að viku eða hálfum mánuði liðnum hurfu þeir með öllu,
<og taldi eg þá svo sem víst, að þetta hefðu verið einhverjir út-
lendir flækingar, sem við ber iðulega að hér sjáist í svip, og
hverfa síðan algerlega.
Svo leið og beið fram í júnílok. Þá bar það við að morgun-
lagi, að eg var í samanrekstri fjár á þessum sömu slóðum. Veit
eg þá ekki fyrri til en önd flýgur úr hreiðri rétt undan hestin-
um. Fyrst sýndist mér það rauðhöfðaönd. Stærðin var svipuð.
En þessi hafði rauða fætur. Þá datt mér í hug gráönd (Anas
strepera), því að hún hefir rauðleitar lappir. En þessi önd var
minni og fæturnir rauðari. Eggin voru áþekk hávellueggjum,
en ljósari, 9 að tölu og mjög unguð. Þau voru í topp í rak-
lendri sinuflesju. Það var ekki um að villast. Þetta var sama
öndin og eg hafði séð þarna rúmum mánuði áður.
Tveim dögum síðar kom eg svo að hreiðrinu aftur, en
þá var hún búin að unga út og farin með ungana. Og um sum-
arið varð eg aldrei framar var við þessa fugla, og ekki heldur
vorið eða sumarið 1932.
En vorið 1933 komu svo aftur hjón af sömu tegund, senni-
lega þau sömu. Og þá verpti svo þessi önd aftur og átti öðru
sinni 9 egg. Og þá loksins komst eg svo nálægt henni, að eg sá
hana mjög greinilega, hefði vel getað tekið hana með höndunum.
Það er sérstaklega nefið, sem sker alveg hreinlega úr um
það, að þetta er skeiðönd (Anas clypeata), brúnleitt, langt
og mikið nef og breikkar mjög fram eins og spaði
eða spönn.
Dr. Bjarni Sæmundsson hefir tjáð mér, að þessi fugl muni
einu sinni áður hafa sézt hér á landi, í Eyjafirði fyrir löngu
, síðan.
Sandi, S.-Þing., 14. nóv. 1933.
Bjartmar GuSmundsaon.