Fréttablaðið - 04.07.2009, Blaðsíða 20
20 4. júlí 2009 LAUGARDAGUR
UMRÆÐAN
Helgi Sigurðsson skrifar um lán
til hlutabréfakaupa starfsmanna
Kaupþings
Í umræðum um lán til starfs-manna Kaupþings banka vegna
hlutabréfakaupa hefur ýmsum
fullyrðingum verið haldið fram
sem sumar hverjar eru beinlínis
rangar og aðrar afar villandi. Hér
á eftir verður farið yfir nokkrar
þessara staðhæfinga í því skyni
að reyna að leiðrétta helstu rang-
færslur án þess þó að um tæmandi
umfjöllun sé að ræða.
Engin niðurfelling í september
„Stjórn gamla Kaupþings felldi
niður 50 milljarða skuld nokk-
urra starfsmanna bankans í lok
september rétt fyrir hrun.“
Engar skuldir voru felldar
niður af stjórn gamla Kaupþings
í september 2008. Stjórn bankans
felldi niður 10,5 milljarða persónu-
lega ábyrgð á skuldunum þannig
að ábyrgð starfsmanna takmarkað-
ist við verðmæti þeirra trygginga
sem lagðar voru fram til greiðslu
lánanna. Á þeim tíma voru eignir
fjölmargra starfsmanna umfram
skuldir og í sumum tilvikum veru-
lega umfram skuldir. Þó að niður-
fellingunni væri rift gæti krafa
bankans á hendur starfsmönnum
aldrei orðið hærri en sem nemur
mismuninum á eign starfsmanns-
ins og skuld enda var bankanum í
lófa lagið að ganga að undirliggj-
andi tryggingum lánanna og gera
þannig upp persónulega ábyrgð
þeirra. Sá mismunur er verulega
lægri en 10,5 milljarðar.
Starfsmenn Kaupþings báru
upphaflega enga persónulega
ábyrgð á umræddum lánveiting-
um. Lánin voru veitt í samræmi
við launastefnu félagsins sem
kynnt var Fjármálaeftirlitinu í
árslok 2003 og samþykkt af hlut-
höfum á aðalfundi í ársbyrjun
2004. Upphaflega var skaðleysi
starfsmanna tryggt með útgáfu
sölurétta. Á árinu 2005 voru
lánin flutt frá öðrum fjármála-
fyrirtækjum yfir til Kaupþings
í samræmi við tilmæli FME um
að starfsmenn mættu ekki eiga í
viðskiptum við aðra banka. Sam-
hliða þessum flutningi óskaði
stjórn bankans eftir því að sölu-
réttirnir yrðu felldir niður og
fundin yrði önnur útfærsla til
að tryggja skaðleysi. Persónuleg
ábyrgð starfsmanna, sem upphaf-
lega var engin, var þá takmörkuð
við 10% af fjárhæð lánsins. Jafn-
framt var ákvæði í lánssamningi
um að gengið yrði að tryggingum
ef verðmæti þeirra lækkaði niður
fyrir tiltekin mörk og andvirði
þeirra nýtt til greiðslu skuldar-
innar. Með þessu var talið að
starfsmenn væru tryggðir fyrir
því að ekki reyndi á persónulega
ábyrgð þeirra. Á þessum tíma var
tryggingarstaða starfsmanna afar
sterk vegna mikilla verðhækkana
hlutanna og almenn veð-
setningahlutföll bankans
því að fullu virt.
Vandi bankans
Þegar verð hluta lækkaði
í lok árs 2007 og í ársbyrj-
un 2008 var bankanum
nokkur vandi á höndum
að nýta sér ákvæði
um veðköll bréfanna.
Lánveitingar til starfsmanna
byggðust á því að um langtíma-
fjárfestingu væri að ræða á kaup-
um á allt að 9% af heildarhluta-
fé félagsins, þar sem starfsmenn
væru varðir fyrir fjárhagslegum
skaða og gætu staðið af sér verð-
sveiflur á markaði. Umfangsmikil
sala starfsmanna þegar verðmæti
hluta í félaginu fór lækkandi var
í andstöðu við yfirlýsta stefnu
félagsins auk þess sem það hlaut
að vera afar óheppilegt fyrir
bankann að starfsmenn væru með
þeim fyrstu sem seldu hluti sína
þegar verðið lækkaði. Bankinn
ákvað því að nýta sér ekki ákvæði
samningsins um veðköll og full-
vissaði starfsmenn þegar í árs-
byrjun 2008 að þeir þyrftu ekki
að hafa áhyggjur af því að gengið
yrði að þeim persónulega vegna
skulda við bankann sem tengdust
hlutafjárkaupum.
Hafa verður í huga að sala bréf-
anna var óheimil án skriflegs
samþykkis bankans sem lagðist
eindregið gegn sölu starfsmanna á
hlutum í bankanum. Þessi afstaða
bankans var í andstöðu við þær
grundvallarforsendur sem gengið
var út frá í lánssamningi og áttu
að tryggja skaðleysi starfsmanna.
Bankinn getur ekki á einum tíma
bannað starfsmönnum að selja
hluti í félaginu til að forðast tjón
og ætlað síðar að innheimta kröf-
una óháð slíku sölubanni. Færa
má því sterk rök fyrir því að krafa
bankans sé fallin niður jafnvel
þó að ekki hefði komið til sérstök
yfirlýsing frá stjórn bankans um
niðurfellingu.
Skattgreiðsla útilokuð
„Skattayfirvöld hafa haldið því
fram að starfsmenn Kaupþings
þurfi að borga tekjuskatt“.
Skattayfirvöld hafa ekki hald-
ið því fram að starfsmenn Kaup-
þings þurfi að greiða tekjuskatt
heldur óskað eftir upplýsingum
um málsatvik og lýst sig reiðu-
búinn til að veita svokallað bind-
andi álit um skattgreiðslu. Þeir
skattasérfræðingar sem bankinn
hefur ráðfært sig við vegna máls-
ins hafa talið slíka skattgreiðslu
útilokaða enda hljóti slíkar skatt-
greiðslur meðal annars að þurfa
að taka mið af auðgun starfs-
mannsins og því endurgjaldi
starfsmannsins sem fólst í sölu-
banninu og kom í veg fyrir að
starfsmaðurinn gæti forðað sér
frá tjóni.
Þess má geta að starfsmenn
Kaupþings hafa nú þegar greitt
tekjuskatt af kaupréttum á hlutum
sem nú eru verðlausir.
Staðhæfing 1
„Starfsmenn hafa reynt
að tefja og þagga niður
málið og sögðust síðan
ætla að endurgreiða kröf-
una þegar málið komst í
hámæli“.
Strax við hrun bank-
ans óskuðu starfsmenn
eftir viðræðum við Price-
waterhouseCoopers og
FME um stöðu starfsmannalána
og öll gögn afhent vegna þessara
lánveitinga. Á fyrsta fundi nýrrar
bráðabirgðastjórnar 22. október
2008 var þetta mál rætt sérstak-
lega að beiðni starfsmanna og
bókað að mikilvægt væri að ljúka
málinu og eyða þeirri óvissu sem
væri fyrir hendi. Þá kemur fram
í fundargerðinni að rætt yrði við
ráðuneytisstjóra fjármálaráðu-
neytisins vegna málsins. Í tölvu-
pósti sem greinarhöfundur sendi
til þáverandi ráðuneytisstjóra
fjármálaráðuneytisins segir orð-
rétt: „Ég vil biðja þig um að taka
því ekki óstinnt upp þó að ég
leggist á þig með að þessu máli
verði hraðað eins og kostur er.
Þetta hefur beinlíns áhrif á heilsu
starfsfólksins og þar með starf-
semi bankans auk þess sem við
viljum hafa skýr svör ef fjölmiðl-
ar spyrjast fyrir um málið enda
stendur ekki til annars en að leysa
það með sambærilegum hætti og
mál annarra viðskiptavina.“ Eins
og þessi tölvupóstur ber með sér
var engin umræða um þessi mál í
fjölmiðlum á þeim tíma sem hann
var sendur til ráðuneytisins og fól
í sér ósk um að fundin yrði lausn
sem væri sambærileg við úrlausn
mála gagnvart almennum við-
skiptavinum bankans.
Kristján Arason ekki í ábyrgðum
„Kristján Arason og Þorgerður
Katrín Gunnarsdóttir fengu felld-
ar niður persónulegar ábyrgðir.“
Kristján Arason fékk enga
niður fellingu á persónulegri
ábyrgð meðal annars af þeirri ein-
földu ástæðu að hann var ekki í
neinum persónulegum ábyrgðum
gagnvart bankanum. Þorgerður
Katrín Gunnarsdóttur hefur ekki
annað til saka unnið en að vera
eiginkona Kristjáns Arasonar og
hvorki fengið lán frá Kaupþingi né
niðurfellingu á lánum. Samkvæmt
lögum bera hjón ekki ábyrgð á
skuldum hvort annars og umfjöll-
unin því ómakleg.
Lán til almennra viðskiptavina
bankans vegna verðbréfakaupa
voru ekki veitt á grundvelli per-
sónulegrar ábyrgðar. Slík lán voru
að jafnaði veitt til eignarhalds-
félaga út frá ákveðinni tryggingar-
þekju. Af heildarlánum bankans
vegna verðbréfalána er persónu-
leg ábyrgð innan við 2,5% og ein-
ungis 0,5% ef tveir fagfjárfestar
eru undanskildir. Starfsmönnum
var hins vegar ókleift að stofna
slík eignarhaldsfélög í upphafi þar
sem FME taldi að þau brytu gegn
gagnsæisreglum á markaði. Eng-
inn vafi er á því að starfsmenn
bankans hefðu sett þessi kaup inn
í eignarhaldsfélag eins og aðrir
viðskiptavinir ef afstaða FME
á sínum tíma hefði ekki komið
í veg fyrir það. Á árinu 2006
breyttust reglurnar að þessu leyti
og fluttu þá nokkrir starfsmenn
eignina yfir í eignarhaldsfélag.
Á meðan starfsmenn Kaupþings
hlýddu tilmælum FME að þessu
leyti virðast starfsmenn annarra
fjármálafyrirtækja hafa stofnað
eignar haldsfélög um kaup sín á
hlutafé í viðkomandi fjármála-
fyrirtækjum sem nú hefur verið
afskrifað.
Niðurfellingin var lögmæt
„Ný stjórn bankans og viðskipta-
ráðherra hafa vitnað til lögmanns
Kaupþings eins og guðs almátt-
ugs.“
Án þess að greinarhöfundur sé
haldinn sérstakri minnimáttar-
kennd hafa hvorki bráðabirgða-
stjórn Nýja Kaupþings banka hf.
né núverandi stjórn Nýja Kaup-
þings banka hf. eða aðrir yfir-
leitt vitnað til hans eins og guðs
almáttugs. Bráðabirgðastjórn
Nýja Kaupþings banka hf. óskaði
eftir áliti Viðars Más Matthías-
sonar prófessors og núverandi
stjórn eftir áliti Harðar Felix
Harðarsonar hrl. Ný stjórn bank-
ans og viðskiptaráðherra hafa
vísað til þessara lögfræðiálita.
Niðurstaða þessara lögfræði álita
var sú að niðurfellingin væri lög-
mæt og færa megi sterk rök fyrir
því að bankanum væri ekki stætt
á því að innheimta lánssamning-
ana þrátt fyrir að komist yrði
að þeirri niðurstöðu að niður-
felling stjórnar á persónulegum
ábyrgðum stæðist ekki. Krafa
bankans gæti auk þess aldrei
orðið hærri en sem nemur auðgun
starfsmanns ins en eins og áður er
rakið voru fjölmargir starfsmenn
með eignir umfram skuldir þegar
niðurfellingin átti sér stað. Á
móti 10,5 milljarða niðurfellingu
persónulegra ábyrgða þann 25.
september 2008 voru verulegar
eignir sem verður að draga frá
kröfunni.
Lokaorð
Einn megintilgangur með skrán-
ingu bankans á markaði árið 2000
var að tryggja eignarhald starfs-
manna. Í skráningarlýsingu var
tekið fram að starfsmönnum yrði
veitt lán til kaupanna til að ná
þessu markmiði. Þessi kaup eru
nánar útfærð á árinu 2003 og á
aðalfundi 2004 er samþykkt að
starfsmenn geti eignast allt að 9%
af heildarhlutafé bankans. Á fund-
inum er gerð grein fyrir því að
augljóslega geti starfsmenn ekki
eignast þennan eignarhlut nema
til komi lánafyrirgreiðsla frá
bankanum. Á fundinum og í kynn-
ingu til FME í árslok 2003 er lögð
áhersla á það að slíkar lánafyrir-
greiðslur feli ekki í sér persónu-
lega áhættu fyrir starfsmenn.
Hagnaður starfsmanna af þessum
lánveitingum reyndist enginn.
Þvert á móti þurftu þeir að greiða
skatta af kaupréttum vegna kaupa
á hlutafé sem þeim var óheimilt
að selja. Sú tekjuskattsgreiðsla
hefur einatt verið tilefni til mikill-
ar umræðu um óhófleg launakjör
sem í raun voru tilkomin vegna
hlutabréfa sem nú eru verðlaus.
Möguleikar starfsmanna til að
draga úr áhættu með sölu bréf-
anna voru háðir samþykki bank-
ans sem beinlínis lagðist gegn því
að þeir gerðu það og þeir fullviss-
aðir um að lánafyrirkomulagið
yrði útfært með þeim hætti að
þeir þyrftu ekki að hafa sérstakar
áhyggjur.
Síendurtekin skrif um lán til
starfsmanna Kaupþings og upp-
lýsingar úr skýrslum ýmissa skoð-
unarnefnda sem vinna að rann-
sókn á falli fjármálakerfisins
vekja grunsemdir um að verið sé
að dreifa athygli frá því sem máli
skiptir. Íslenskir skattgreiðend-
ur þurfa ekki að velta því fyrir
sér hvort þeir þurfi að greiða 350
eða 700 milljarða vegna innstæðu-
eigenda Kaupþings og skattgreið-
endur þurfa ekki heldur að hafa
áhyggjur af því að greiða tapið
af verðbréfalánum Kaupþings,
það féll því miður á lánveitendur
bankans. Af einhverjum ástæðum
hefur þessi skipulagða lekastarf-
semi nær eingöngu snúið að Kaup-
þingi. Það er lagaleg og siðferðis-
leg skylda núverandi stjórnar
Nýja Kaupþings, Skilanefndar
Kaupþings, Fjármálaeftirlits og
Ríkislögreglustjóra að koma tafar-
laust í veg fyrir að frekari upp-
lýsingum úr lánabók bankans sé
dreift í fjölmiðlum landsins.
Höfundur er fyrrverandi lögfræð-
ingur Nýja Kaupþings.
Lán til starfsmanna Kaupþings banka hf.
HELGI SIGURÐSSON