Samvinnan - 01.12.1969, Page 48

Samvinnan - 01.12.1969, Page 48
í stuttu máli er það að segia um síðustu bók Þorsteins frá Hamri, Jórvík (1967), að þungamiðja hennar er ádeila á yfirdreps- skapinn, hræsnina og þann hátt manna að draga sig inn í skel til að komast hjá því að taka afstöðu til manna og málefna, sem kalla á liðsinni þeirra. Menn, sem ekki þora að fylgja sannfæringu sinni, eiga ekki upp á pallborðið hjá skáldinu. Þetta sést ie. t. v. bezt á þeim orðum, sem hann velur að eink- unnarorðum annars kafla bókar sinnar: Ekki þekki ég manninn; úr frásögn Matt- heusarguðspjalls af því, er Pétur afneitaði Kristi þrívegis, áður en haninn hafði galað morguninn eftir að hann var handtekinn í grasgarðinum. Þessa frásögn guðspjallsins má að vísu leggja út á margvíslegan hátt — oftast mun hún túlkuð sem dæmisaga um það, að Krist- ur hafi fyrst og fremst höfðað til hins ó- breytta alþýðumanns — lærisveinar hans höfðu til að bera mannlega breyskleika og voru engin ofurmenni. Hér verða þessi orð Péturs skáldinu á hinn bóginn tilefni til ádeilu á kjarkleysið, afskiptaleysið — það, þegar menn stinga höfðinu í sandinn. Biblíuþekkingin kemur Þorsteini víðar til góða í þessum kafla, svo sem í ljóðinu Samkvæmt lögmálinu, þar sem hann deilir á skinhelgi illmennskunnar, sem felur sig undir blíðu yfirborði. í ljóðinu í gröfinni er fjallað um manninn, sem grefur sjálfan sig lifandi, því að „annars gera aðrir það,“ en fyrir kemur, að hamur hans, sem „ferð- ast um bæinn,“ mætir einhverjum, „sem hefur vogað sér / að láta allt sitt uppi.“ Og: Þá er það, sem þú byltir þér sárreiður í gröfinni ■— Hér er það því skortur á kjarki til að taka aístöðu, sem deilt er á. Á afskiptaleysi þeirra, sem ekki taka afstöðu af tillitssemi við aðra, meðan „í Víetnam brenna lifandi blys glöðum loga / til yndis þeim hjarta- hreinu,“ er deilt í ljóðinu Barátta, og þeim sið að láta tilfinningarnar og stórmennsku- þörfina fá útrás við ofdrykkju er lýst af nokkurri vorkunnsemi í ljóðinu Þjóðin. í ljóðinu Þið er því lýst, er menn blygðast sín fyrir sjálfa sig í ljósi afreka forfeðr- anna, og á stefnuleysi og stöðnun er enn deilt í ljóðinu Markmið. Þar kveður þó við nokkuð annan tón en ella í þessum verkum undir lokin, þar sem segir: Hinir hálfmyrtu efna til mikils vígbúnaðar. Hér sýnist því vera á ferðinni boðskapur skáldsins um, að þrátt fyrir allt eigi hið þjakaða mannkyn sér von, fyrirheit um upprisu. Efni þessara ljóða er því alvöruþrungin heimsádeila, sem ekki stefnir að tilteknum ádeiluefnum (dæmið um Víetnam hér að í'raman er einangrað), heldur er deilt á hina sjálfviljugu einangrun, og boðskapur- inn er um óskert andlegt frelsi manninum til handa. Sér á parti er þó ljóðið Jórvík, samnefnt bókinni, sem ort er út af höfuð- lausnarsögu Egils. Þar er sérkennilega hald- ið á efninu, höfundur yrkir fyrir munn skáldsins, sem látið er óttast dauðann, ekki geta ort og iðrast eftir að „vér höfum verið friðmenn hér á götunum," en með loka- línunni: „Hið bezta var kvæðið flutt,“ er þó slakað á spennunni, skáldið orti þrátt fyrir allt kvæði sitt og bjargaði höfði sínu. Það er erfitt viðfangsefni tuttugustu aldar skáldi að taka víðfrægt efni á borð við höfuðlausnarsögu Egils til meðferðar og vandsloppið frá slíkri bíræfni. Þorsteinn yrkir kvæði sitt hins vegar af skilningi á mannlegum veikleikum og víkingshugsjón Egils og opnar lesendum sýn sína inn í ugg hans og kvíða um nóttina, áður en hann átti að þola dóm þeirra konungshjóna. Jafn- framt heldur hann efninu innan hófsam- legra marka með aðferðum hins þjálfaða skálds, sem nákvæmlega veit, hvað við á að segja, svo að árangurinn verður hnit- miðuð listasmíði. Eigi að síður á þetta ljóð kannski ekki alveg nógu vel heima innan um ádeiluna allt umhverfis það, nema hann vilji með því draga úr broddi hennar og leggja áherzlu á tillitið, sem þrátt fyrir allt verði að taka til mannlegra veikleika. Fyrsti kafli bókarinnar ber aftur á móti yfirskriftina Á þjóðveginum og fjalla ljóðin í honum um lífið og þær hættur, sem þar mæta manninum. Berlega kemur þetta fram í ljóðinu Við týnumst, sem hefst þannig: Við týnumst gaungum á fjörur og finnum okkar sjálfa í tætlum. Hér er fjallað um hættuna á því, að mað- urinn glati sjálfum sér — sálu sinni — eða vandkvæðin á því að halda óskertu hinu upprunalega í eðli sínu. Þörf mannsins fyrir að láta innibyrgðar tilfinningar sínar fá útrás er lýst í ljóðinu Dul, og þjáning ein- staklingsins innan um gleði fjöldans er við- fangsefnið í ljóðinu Vor. Ekki sízt er þó að nefna upphafskvæði bókarinnar, Á þjóð- veginum, samnefnt fyrsta kafla hennar, þar sem boðuð er þörf mannsins fyrir félags- skap einhvers og fyrir að hafa einhvern til að ræða við og hjálpa. Þriðji kafli Jórvíkur ber yfirskriftina Til fundar við skýlausan trúnað. Þetta eru fjögur samstæð ljóð, án sjálfstæðra fyrir- sagna og samslungin af nokkuð óskyldum þáttum. Þau fjalla um hugrenninguna með „brjóstið fullt með úrelt vísindi," sem leitar trúnaðarins, einlægninnar, í andstöðu við „stórbetlarann", „krummann á skjánum," sem forðast sannleikann, sem menn þola aðeins „(lof sé guði)“ „harðræði og lima- lát“ fyrir í útlöndum, en leitar eftir því að öðlast „lífsins kórónu,“ án þess þó að vilja þurfa að fórna nokkru til að eignast hana. Einnig bregður hér fyrir ádeilu á her- stöðvarmálið í Keflavík, án þess þó að það verði að neinni uppistöðu í verkinu. í stuttu máli er hér fjallað um og deilt á viðleitnina til að öðlast allt án þess að gefa nokkuð í staðinn, og jafnframt er túlkuð trúin á gildi trúnaðartraustsins og vonin um sigur þess, svo að hér er því stillt upp andstæðunum hræsni : einlægni. Boðskaparins um þörf mannsins fyrir að líkna öðrum, sem áður getur, gætir hér og á nýjan leik, ásamt með því, að trúin á hið sanna og upprunalega í mannssálinni er aftur uppistaða boðskapar- ins. í heild er þessi kafli og mjög heil- steyptur og fágaður, og myndanotkunin er fjölbreytileg og auðug. Athygli vekur og, að hér er notuð myndin af kórónu lífsins, sem alkunn er úr kristnum trúarbókmennt- um, og er hún notuð þarna til að skapa hug- renningatengsl á milli boðskapar skáldsins og boðskapar kristinnar trúar. Með hliðsjón af öðrum þáttum ljóðsins virðist það því vera mannúðarboðskapur kristninnar, sem skáldið vilji hér fella að sínum, þótt um eiginleg trúarljóð sé hér vitaskuld ekki að ræða. Lokakafli Jórvíkur ber síðan yfirskrift- ina Himinn og gröf. Þar gætir eigin hug- renninga skáldsins meira en í fyrri köflum bókarinnar, og myndasmíði er þar veruleg. Einkum á þetta við ljóðin Glugginn og Kvöldið, þar sem smekklega eru tengdar saman tvær myndir, af manninum og glugg- anum sem samskiptatengilið. Mannleg tengsl eru einnig yrkisefnið í Úr þjóðsögu, nánar til tekið óskin um að mótaðilinn vísi skáld- inu leiðina til skilnings á þjáningum manns- ins. Til Biblíunnar er enn sótt efni í líkingu í ljóðinu Austurvegskonúngar, sem er með nokkrum dansasvip og túlkar jafnhliða þrá til konu. Þjóðsagnaefnis gætir og í ljóðinu Á jólum, nánar til tekið sögunnar um djákn- ann á Myrká, og bregður það upp smekk- vísri mynd af óskum djáknans og þrám. Mynd af barnsvöggu, sem tengja má margs konar hugrenningum um einstaklinginn og líf hans, er og brugðið upp í ljóðinu Vaggan. Gleymdir draumar eru yrkisefnið í ljóðinu Flóttinn, og þrá skáldsins og söknuður setja mark sitt á ljóðin Þyturinn, Kveðja og Leingi hugðumst við lifa. í þessum kafla bókarinnar eru það því fyrst og fremst Eysteinn Sigurðsson: Hinir hálfmyrtu Um skáldskap Þorsteins frá Hamri 48

x

Samvinnan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.