Samvinnan - 01.08.1984, Blaðsíða 14

Samvinnan - 01.08.1984, Blaðsíða 14
Hljómborð hafnarinnar Tveir menn komu vestan hafnar- bakkann og gengu hratt en hægðu á sér þegar þeir nálguð- ust útkikkskassa máfanna og stönzuðu austan við hann. Ég kannaðist við þá báða úr Miðbæjarskólanum þar sem þeir voru á sínum tíma tveimur eða þremur bekkjum á undan mér. Ég vissi að í stríðinu höfðu þeir stofnað heildsölu og verið lunknir við að safna peningum. Nú sá ég að þeir höfðu líka verið lunknir við að safna holdum. Þeir ræddu saman á meðan þeir köst- uðu mæðinni og útlistuðu hvor fyrir öðrum nauðsyn þess að neyta matar í hófi og ganga svona tvisvar á dag og gefa ekkert eftir, gefa ekkert eftir. „Og svo, een, to, tre - af stað með okkur!“ En þeir höfðu ekki stigið nema tvö- þrjú skref þegar karlmannsrödd, undarlega mikil og fögur, kvað við innan úr dimmu Kolaportinu svo að undir tók um allt hafnarsvæðið: „Ég skildi að orð er á íslandi til um allt sem er hugsað á jörðu!“ Máfunum varð svo mikið um þessi tíðindi að þeir flugu upp og hurfu til hafs. Stórkaupmenn snarstönzuðu og litu við og störðu í opið hliðið á Kolaportinu. Ég gerð það líka. í hliðinu birtist Vilhjálmur skáld frá Skáholti. Hann gekk rakleitt (eða hérumbil) þangað sem ég stóð. Á eftir honum kom gríðarlega langur maður sem mér virtist ekki vera alveg eins mikið skáld og Vilhjálmur. Vilhjálmur tók um axlir mér og horfði á mig samskonar augum og sögð eru hafa verið höfuðprýði Einars Benedikts- sonar. Og Vilhjálmur mælti: „Þú! Þú sem ert dóttursonur hans Jónasar heitins í Brennu.“ Svo kom pása, löng pása og þýðing- armikil, kúnstpása svokölluð. Þá fannst mér ég verða að segja eitthvað. Og ég sagði: „Já. Ég sem er dóttursonur hans Jónasar heitins í Brennu.“ „Stendur hér,“ sagði skáldið. „Já,“ sagði ég. „Stend hér.“ (Til skýringar fyrir ókunnuga: Jónas afi minn Guðbrandsson í Brennu við Bergstaðastræti var einn þeirra steinsmiða sem vörðu miklum hluta æfi sinnar í að bogra á Skóla- vörðuholtinu eða uppi í Oskjuhlíð og mola grágrýtishellur og breyta þeim í hleðslusteina. Síðan fluttu þeir stein- ana á vissa staði í bænum og röðuðu þeim þar upp. Risu þannig ýmsar merkar byggingar, þar á meðal Al- þingishúsið við Austurvöll og Tukt- húsið við Skólavörðustíg. Jónas í Brennu skaffaði ófáa steina í þau hús bæði. Hinn afi minn, sá þingeyski, Jón í Múla, sat síðan löngum í Álþingis- húsinu og slíkt hið sama ýmsir menn aðrir mér náskyldir af Skútustaða- og Reykjahlíðarættum. En mér er skylt að geta þess að þeir sátu ekki mikið í Tukthúsinu. Þegar ég man fyrst eftir Jónasi í Brennu var hann búinn að halda svo lengi um hamar og meitil að fingurnir á honum höfðu kreppzt inn í lófana og réttist ekki úr þeim framar. Hann hafði ungur verið háseti á kútter Reykjavíkinni og í móskúrnum sunn- an við Brennu hékk handfæri sem hann hafði hankað upp í vertíðarlok einum fimmtíu árum fyrr. Hann skar spotta af þessu færi og gerði úr honum lykkju. Og lykkju þessari brá hann stundum upp á löngutöng hægri hand- ar og sagði við mig sisona: „Nú skulum við koma í snæriskrók, karlinn minn.“ Svo leiddumst við yfir Bergstaðastræt- ið og fyrir hornið á númer fjórtan 14

x

Samvinnan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.