Samvinnan - 01.08.1984, Blaðsíða 16

Samvinnan - 01.08.1984, Blaðsíða 16
Gerður Steinþórsdóttir cand. mag.: Brautryðjandinn Torfhildur Þ. Hólm Hún bar ástarhug til b.o., sem hún nefnir aldrei á nafn; sendi honum meira að segja bónorðsbréf, en fékk afsvar. „Ég veit ekki hvort þeirri kynslóð er sjónar- vottur var að starfi hennar er ljóst hve þungur steinninn var, er hún velti.“ (Úr minningargrein um T. f>. H. í „19. júní“ 1918) Fyrir rúmri öld eða árið 1882 kom út skáldsagan Brynjólfur Sveins- son biskup. Bókin er brautryðj- andaverk í tvennum skilningi. Með útgáfu hennar varð höfundurinn, Torfhildur Þ. Hólm, fyrsta konan til að gefa út skáldrit í bundnu máli á íslandi, og sagan um Brynjólf biskup er jafnframt fyrsta sögulega skáldsag- an á íslensku. En hver var Torfhildur Hólm og hvernig má skýra þetta brautryðjanda- starf hennar? Torfhildur var A-Skaftfellingur, fædd 2. febrúar 1845 á prestssetrinu Kálfafellsstað í Suðursveit. Foreldrar hennar voru séra Þorsteinn Einarsson og Guðríður dóttir séra Torfa Jóns- sonar á Breiðabólstað. Að Torfhildi stóðu langt fram í ættir prestar og biskupar sem margir voru merkir fræðimenn og rithöfundar. Verða hér einungis nefndir Finnur Jónsson, Skálholtsbiskup og kirkju- söguhöfundur, Hannes biskup Finns- son sem var ágætur fræðimaður og rithöfundur og Jón Steingrímsson eld- prestur sem ritaði ævisögu sína. Sá mikli áhugi á biskupasögum og trúmálum sem kemur fram í sögum Torfhildar var því gamall ættararfur og rithöfundurinn Torfhildur Þor- steinsdóttir Hólm verður ekki skilinn nema hafa þetta í huga. • Þrettán ár í Vesturheimi Torfhildur ólst upp hjá foreldrum sínum ásamt Ragnhildi systur sinni á Kálfafellsstað til 17 ára aldurs, en hélt þá til Reykjavíkur þar sem hún dvald- ist í fjögur ár. Leið til skólagöngu var þá lokuð íslenskum konum en Torf- hildur bjó á heimili Jóns Péturssonar dómara og lærði ensku og hannyrðir í einkatímum. Þá dvaldist hún í Kaup- mannahöfn um skeið og hélt áfram námi í sömu greinum. Hún kom oft við hjá Ingibjörgu og Jóni Sigurðssyni við Austurvegg, en það hús, Jónshús, er núna eign íslenska ríkisins. Eftir heimkomuna gerðist Torfhild- ur heimiliskennari. Þjóðhátíðarárið 1874, þá 26 ára að aldri, giftist hún Jakobi Hólm verslunarstjóra á Hóla- nesi, en hann var systursonur Péturs Havsteen amtmanns. Sambúð þeirra var skammvinn því að hann lést á brúðkaupsdaginn ári síðar. Fluttist Torfhildur þá til Ragnhildar systur sinnar á Höskuldsstaði á Skagaströnd, en hún var gift síra Eggert Ó. Briem rithöfundi. Hann reyndist Torfhildi sannur vinur og stuðningsmaður í sambandi við ritstörf hennar, las t. a. m. yfir handrit af nokkrum sögum hennar. Á heimilinu dvaldist þá Rann- veig systir Eggerts, en hún var gift Sigtryggi Jónassyni, sem varð aðal- hvatamaðurinn að landnámi í Nýja íslandi. Torfhildur fluttist með Rann- veigu og Sigtryggi til Vesturheims 1876, en það ár fluttust frá íslandi um 1200 manns. Torfhildur bjó vestanhafs í 13 ár, fyrstu níu árin hjá Rannveigu, en þeim sinnaðist og bjó Torfhildur ein í fjögur ár. Hún vann einkum fyrir sér með kennslu í málaralist en hana hafði hún numið vestanhafs. Torfhild- ur fluttist til íslands árið 1888 og settist að í Reykjavík og bjó þar til dauða- dags, síðustu árin með ráðskonu. Hún lést í Reykjavík úr spönsku veikinni 14. nóvember 1918. Varðveist hefur dagbók Torfhildar frá síðasta ári hennar vestanhafs og fyrsta ári hennar á íslandi. Þar lýsir hún í fáum orðum daglegu lífi sínu og einmanaleik. Hún bar ástarhug til b. o. sem hún nefnir aldrei á nafn, sendi honum meira að segja bónorðsbréf en fékk afsvar. Finnur Sigmundsson telur í ritgerð sinni um Torfhildi (Þjóðsögur og sagnir 1962) að b. o. sé Björn M. Olsen rektor Menntaskólans í Reykja- vík, en hann kvæntist aldrei. 16

x

Samvinnan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.