Fréttablaðið - 02.12.2009, Blaðsíða 22
22 2. desember 2009 MIÐVIKUDAGUR
UMRÆÐAN
Eiður Svanberg Guðnason skrifar um
ágóða af lottórekstri
Fyrir nokkru birtist í Morgunblaðinu stutt grein eftir Ágúst Guðmundsson,
forseta Bandalags íslenskra listamanna.
Greinin hét: Menning og lottó. Sá sem
þetta ritar, hefur ekki orðið þess var að
greinin hafi vakið nein viðbrögð. Í grein-
inni kemur fram að bæði á Norðurlöndunum og í
Bretlandi njóti menningin góðs af miklum hagnaði
af lottórekstri.
Gildandi lög um lottó, eða talnagetraunir, hér
á landi voru upphaflega samþykkt í maí 1986. Þá
fengu þrír aðilar einkaleyfi til að reka lottó fram
til ársloka árið 2005. Í desember árið 2003 var
þetta einkaleyfi framlengt til 1. janúar árið 2019.
Lögverndað einkaleyfi til lottóreksturs er beinn
ríkisstyrkur. Þau þrenn samtök, sem skipta með
sér hagnaði af þessu ábatasama fyrirtæki eru:
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Ung-
mennafélag Íslands (60%) og Öryrkjabandalag
Íslands (40%).
Þrír stjórnmálaflokkar gerðu með sér óform-
legt bandalag á þingi um að hafa þetta svona. Það
samkomulag var gert að næturlagi í þingflokks-
herbergi Alþýðubandalagsins, – líklega reykfylltu
bakherbergi,– eða þannig. Þetta voru: Sjálfstæð-
isflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Alþýðu-
bandalagið. Sjálfstæðisflokkurinn var aðalbak-
hjarl íþróttahreyfingarinnar, Framsókn sá um
Ungmennafélagið sem lengi hafði verið eins
konar deild í flokknum, Alþýðubandalagið talaði
einkum fyrir Öryrkjabandalagið. Oddur Ólafs-
son, læknir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hafði
upphaflega flutt þetta mál. Ætlan Odds var sú að
Öryrkjabandalagið eitt nyti góðs af talnagetraun-
um. Oddur var alla tíð öflugur talsmaður öryrkja á
Alþingi. Þá brá svo við að Ellert B. Schram, sem þá
var þingmaður utan flokka en jafnframt forystu-
maður í Íþróttahreyfingunni, stöðvaði málið með
málþófi í neðri deild þingsins. Upp úr því var svo
gert þetta samkomulag sem fyrr getur. Alþýðu-
flokknum var haldið fyrir utan þennan bræðing
þessara þriggja stjórnmálaflokka. Þetta var fyrir
rúmlega 23 árum.
Í umræðum um málið leyfði ég mér að benda
á að verið væri að setja á laggirnar einhverja
afkastamestu peningamaskínu sem nokk-
urn tíma hefði verið gangsett á Íslandi.
Það reyndist rétt. Ég gagnrýndi einnig
hinn langa gildistíma laganna, sem þá var
„aðeins“ fram til 2005 og ennfremur að
ekki skyldu fleiri samtök eða verkefni á
sviði mannúðar- og menningarmála njóta
góðs af þessari nýjung. Ég talaði fyrir
daufum eyrum. Það var búið að ákveða
þetta. Kökunni hafði þegar verið skipt.
Mig minnir, að ég hafi lagt til að skipting
hagnaðar af þessu fyrirtæki yrði endurskoðuð á
fimm ára fresti eða svo. Ekki var heldur hlustað á
það.
Þegar ég nú löngu seinna skoða það sem minni-
hluti allsherjarnefndar efri deildar, þau Sigríður
Dúna Kristmundsdóttir og Stefán Benediktsson
auk mín höfðu um þetta mál að segja er ég svolítið
stoltur. Allt sem við sögðum hefur reynst rétt.
Með þessu greinarkorni er tekið undir það sjón-
armið forseta Bandalags íslenskra listamanna að
fleiri fái að njóta góðs af lottóarðinum. Það þarf að
endurskoða þetta kerfi frá grunni og það þarf að
gera áður en núverandi einkaleyfi rennur út. Tví-
mælalaust ber að íhuga að gefa fleiri samtökum
möguleika á að starfrækja starfsemi af þessu tagi
þar sem ágóðinn færi til mannúðar- og menning-
armála.
Lottóarðurinn á ekki að fara í að greiða innlend-
um eða innfluttum atvinnumönnum í íþróttum
ofurlaun. Eða til að fjármagna fyrirhugaðan hót-
elrekstur og lóðabrask Ungmennafélags Íslands í
miðborg Reykjavíkur eins og frægt er að endem-
um.
Í tæpan aldarfjórðung hafa þessir þrír aðil-
ar skipt með sér lottóarðinum. Nú þarf að hugsa
málið upp á nýtt, semja nýjar reglur.
ES: Hinn 10. nóvember óskaði greinarhöfundur
eftir upplýsingum um rekstrarkostnað Íslenskrar
getspár, arð af rekstrinum og skiptingu hans milli
eignaraðila síðastliðin fimm ár. Þeim upplýsingum
var lofað. Þær hafa ekki borist. Þegar spurt var,
þá var hins vegar spurt á móti frá Íslenskri get-
spá hvers vegna undirritaður vildi fá þessar upp-
lýsingar. Þá spurði undirritaður hvort þetta væru
ekki opinberar upplýsingar. Þá var sagt að þetta
yrði tekið saman. Það er greinilega mikil vinna og
tímafrek.
Höfundur er fyrrverandi sendiherra.
Lítið eitt um Lottó
UMRÆÐAN
Stefán Aðalsteinsson
skrifar um kjör ríkis-
starfsmanna
Í Viðskiptablaðinu birtust fyrir nokkru þær fregn-
ir að meðallaun starfs-
manna hjá ríkinu væru
um 530.000 krónur á mán-
uði. Einhver mistök urðu við þann
útreikning enda hægur vandi að fá
réttar upplýsingar sem eru þær
að meðalheildarlaun ríkisstarfs-
manna eru um 455.000 krónur eða
mjög svipuð og á almennum mark-
aði skv. grein í Fréttablaðinu 30.
nóvember.
Í upplýsingum um laun ríkis-
starfsmanna eru allir meðtaldir
s.s. forsetinn, hæstaréttardómar-
ar, læknar og einnig eru þar hin
víðfrægu laun forsætisráðherra.
Meðaldagvinnulaun hjá félags-
mönnum BHM hjá ríkinu voru
yfir tímabilið janúar til júní 2009
kr. 374.000 og heildarlaun þar sem
við bætist m.a. vaktaálag og yfir-
vinna 467.000. Ef litið er til launa-
könnunar VR frá í byrjun árs eru
laun hópsins „aðrir háskólamennt-
aðir sérfræðingar“ fyrir dagvinnu
429.000 og heildarlaun 460.000.
Samanburður milli viðskipta- og
hagfræðinga hjá ríki og innan VR
sýnir að dagvinnulaun hjá rík-
inu á sama tímabili eru 420.000
en 484.000 hjá VR og heildar-
laun hjá ríki eru 533.000
en 548.000 hjá VR-félög-
um. Ef litið er til launa
hjá ríki í júní sl. eru þau
lægri en þetta meðaltal.
Öll umræða um hin háu
laun ríkisstarfsmanna er
því úr lausu lofti gripin.
Ríkisstarfsmenn þekkja
launalækkun á eigin
skinni. Frá því í septemb-
er 2008 og fram til mars
2009 lækkuðu yfirvinnugreiðslur
um 23%, akstursgreiðslur voru
skornar niður og miklu aðhaldi
beitt í launakostnaði sem og í
öðrum rekstri. Ekki skal úr því
dregið að skera þarf niður kostnað
alls staðar hjá ríkinu en bent skal
á að af áætluðum útgjöldum rík-
isins árið 2010 – að vaxtagjöldum
frádregnum – eru laun um fjórð-
ungur gjalda.
Ef ríkið vill koma út úr þess-
ari kreppu með hæft, gott og vel-
menntað starfsfólk er frekari
skerðing launa ekki leiðin til þess.
Þar sem ég þekki best til, í fjár-
málaráðuneytinu, félagsmálaráðu-
neytinu og hjá Vinnumálastofnun
vinnur fólk mikla sjálfboðavinnu.
Þar eru margir starfsmenn á föst-
um launum sem vinna mikla vinnu
án frekari greiðslu og tímakaup
þeirra er komið langt undir kaup-
taxta.
Hjá Alþingi hafa starfsmenn
fengið þau skilaboð að það sé
æskilegt að þeir vinni ekki eftir
miðnætti og ekki á sunnudögum
en þeir eru á föstum launum. Það
er gott að það er unnin sjálfboða-
vinna í þágu þeirra sem minnst
mega sín í þjóðfélaginu en ég fæ
ekki séð að Alþingi eða ráðuneyt-
in séu í þeim hópi.
Höfundur er framkvæmdastjóri
Bandalags háskólamanna.
Af meintum ofurlaun-
um ríkisstarfsmanna
EIÐUR GUÐNASON
STEFÁN
AÐALSTEINSSON
Þar sem ég þekki best til, í
fjármálaráðuneytinu, fé-
lagsmálaráðuneytinu og hjá
Vinnumálastofnun vinnur fólk
mikla sjálfboðavinnu.