Fréttablaðið - 11.12.2009, Qupperneq 16
16 11. desember 2009 FÖSTUDAGUR
NOREGUR „Trúin á það að friður
sé æskilegur dugar sjaldnast til
þess að öðlast hann,“ sagði Barack
Obama Bandaríkjaforseti þegar
hann tók við friðarverðlaunum
Nóbels í Ósló.
„Ofbeldislaus hreyfing hefði
ekki getað stöðvað hersveitir Hitl-
ers. Samningaviðræður geta ekki
sannfært leiðtoga Al Kaída um að
leggja niður vopn,“ sagði Obama.
Hins vegar viðurkenndi hann
að stríð hefði alltaf óbærileg-
an kostnað í för með sér. „Engu
skiptir hvernig stríð er réttlætt,
það er alltaf ávísun á mannlegan
harmleik.“
Hann dró heldur ekkert undan
þegar hann minntist á hermenn-
ina, sem hann hefur nýlega
ákveðið að senda til Afganistans:
„Sumir þeirra munu drepa, sumir
verða drepnir.“
Hins vegar lagði hann áherslu á
að reyna þyrfti allar aðrar leiðir
áður en gripið væri til þess ráðs
að fara í stríð. Áður en Obama
mætti til verðlaunaafhendingar-
innar sagðist hann telja að marg-
ir aðrir ættu þau frekar skilið en
hann sjálfur.
Norðmenn voru margir hverjir
ósáttir við að Obama skyldi ekki
hafa þegið matarboð hjá Haraldi
Noregskonungi, eins og löng hefð
er fyrir þegar friðarverðlaun
Nóbels eru afhent.
Hann brá einnig út af ýmsum
öðrum venjum, sem fylgt hafa
verðlaunaafhendingunni áratug-
um saman. Hann efndi ekki til
blaðamannafundar, bauð ekki
upp á sjónvarpsviðtal og kom
hvorki fram á friðarsamkomu
barna né tónleikum, eins og fyrri
verðlaunahafar hafa gert. Hann
mætti heldur ekki í kvöldmat með
norsku Nóbelsverðlaunanefndinni
og fór ekki að skoða sýningu sem
sett hefur verið upp honum til
heiðurs.
„Af öllu því sem hann hefur
afboðað tel ég verst að hann skuli
afboða hádegisverð með konung-
inum,“ sagði Siv Jensen, leiðtogi
norska Framfaraflokksins, í við-
tali við dagblaðið Verdens Gang.
Samkvæmt skoðanakönnun
blaðsins telja 44 prósent Norð-
manna Obama hafa sýnt dónaskap
með því að setjast ekki að snæð-
ingi með Haraldi konungi.
Í Stokkhólmi fór einnig fram
Nóbelsverðlaunahátíð í gær þar
sem afhent voru verðlaun í bók-
menntum, efnafræði, eðlisfræði,
læknisfræði og hagfræði.
gudsteinn@frettabladid.is
Segir stríð
vera nauðsyn
Barack Obama Bandaríkjaforseti tók við friðarverð-
launum Nóbels í gær, fáeinum dögum eftir að hafa
ákveðið að senda fleiri hermenn til Afganistan.
OBAMA Í ÓSLÓ Norðmenn eru ósáttir við að Bandaríkjaforseti hafi ekki séð ástæðu til að þiggja matarboð Haralds Noregskonungs, eins og löng hefð er fyrir í tengslum við afhendingu friðarverðlauna. NORDICPHOTOS/AFP
Ofbeldislaus hreyfing
hefði ekki getað stöðvað
hersveitir Hitlers.
BARACK OBAMA
FRIÐARVERÐLAUNAHAFI NÓBELS
VERÐLAUNIN AFHENT Obama tekur
við friðarverðlaunum Nóbels úr hendi
Thorbjörns Jaglands, formanns norsku
Nóbelsnefndarinnar. FRÉTTABLAÐIÐ/AP