Vikan


Vikan - 19.07.1962, Blaðsíða 14

Vikan - 19.07.1962, Blaðsíða 14
Ég var kominn um borð. Við lágum við bryggju 1 Pireus og áttum að leggja af stað eftir tæpa klukkustund. Ég hafði ætlað að leggja mig stundarkorn, e-n það var svo molluheitt í klefa minum, að ég hélzt þar ekki við. Ég hrökklaðist aftur upp á þilfar. Rétt hjá okkur var Ameríkufar að leysa landfestar. Áðan, þegar ég kom um borð, virtist liópur af einkennilegum tötralýð vera að halda einhvers konar veizlu á bryggjunni rétt við skipshliðina. Fólkið sat á kössum og pinklum eða flötum beinum á bryggjunni, borðaði brauð og ávexti, drakk vín úr gulum brúsum. Nú stendur hluti af þessu fólki á lágþiljum Ameríku- farsins með pinkla sína og dót og hefur upp skerandi harmakvein. Hinn hópurinn stendur eftir á bryggjunni, æpir, patar og grætur, sam- einast hinum í langdregnu nístandi saknaðarkv<eini. Það liggur eins og ósýnileg, titrandi brú af sársauka milli skips og lands, tognar, brestur um leið og skipið þyngir skriðinn og fjarlægist. Nú stendur hópurinn á bryggjunni þögull, hreyfingarlaus, eins og hann stari ofan í opna gröf. Svo fer l'ólkið að tinast burt, þögult, niðurlútt, beygt af ósýnilegum harmi. Það heldur hópinn, eins og flokkur dæmdra manna, sem gætt er af ósýnilegum vörðum. Ég skil ekki hvað hér er að gerast, er í þann veginn að hverfa frá, hreyfi mig ögn. Þá verð ég þess var, að við hlið mér stendur gamall maður. Hann hefur tekið ofan hatt sinn, ljósan, barðastóran sólhatt. Hann stendur ofurlítið álútur, starir á þetta harmslegna fólk hálf- luktum augum, bærir varir, eins og hann biðjist fyrir. Svo lítur hann i átt lil skipsins, umvefur það sama dularfulla augnaráði, bærir varir. Ég afræð að standa grafkyrr. Loks réttir hann sig hvatlega, lítur snöggt til beggja hliða, setur upp hatt sinn, gerir sig líklegan til að fara. Nú, eða aidrei, hugsaði ég. Góðan daginn, herra. Fyrirgefið ókunnugum manni spurningu. Hvað var hér um að vera? Hann Jítur snöggt á mig, tekur mig ailan í einni sjónhendingu, fer í gegn um mig, er horfinn og fjarlægur, þó að hann sé grafkyrr. Yera má að hann skilji ekki ensku, hugsa ég. Vera má, að hann sé móðgaður. Útflytjendur! segir hann. Það er að kveðja útflytjendur. Sveitafólk. Sér þá aldrei framar. Fátækt land. Þakka yður fyrir. Jú, hann talar ensku, ekki ber á öðru. Hann er mjög vel klæddur, bersýnilega orðinn allroskinn, en kvikur, fjaðurmagnaður, andlits- drættirnir nokkuð harðlegir, augun full af myrku, gneistandi lífi, þar sem hann lítur þeim á mig. Ég get ekki varizt þeirri tilfinningu, að hann sé í geðshræringu. Land mitt er fátækt, segir hann eftir stutta þögn. — Og það sér þá 14 VIKAN aldrei aftur, blessaða drengina. Svona gleypir Minótárus börn Grikk- lands enn í dag, ófreskjan fátækt gleypir þau. — Þeir finna ekki gull. Þeir finna ekki vatn. Vatn? Já, ég sagði vatn, herra minn! Vatn er blessaðasti hlutur á jörðinni. En þeir finna ekkert vatn. Ég virti hann aftur fyrir mér. Kannski var þetta bindindisboðandi. Hann gæti svo sém vel verið það eftir augnaráðinu að ræða. Það hljóp í mig glettni. Það er bágt, ef þeir verða þá eingöngu að drekka vin, það sem eftir er. Hann leit í augu mér mjög alvarlegur. — Vín er lika blessaður hlutur — blessaður hlutur á jörðinni. Og gull. En þeir finna ekki vín og þeir finna ekki gull. Og þeir finna ekki vatn. Þeir eru týndir Grikklandi. Verið þér .sælir. Þakka yður fyrir, herra. Sælir! Hann gekk hvatlega aftur á þiljur og hvarf. Guli, vín og vatn. Orðin glitruðu eins og þrjár perlur á bandi. Gull, vín og vatn! Þetta var undarlegur maður. Gull, vin og vatn, þetta þrennt og af þessu er vatnið blessaðasti hlutur á jörðunni. Við vorum á leið til Alexandríu. Leið okkar lá beint í gegnum gríska Eyjahafið, einhverja fegurstu siglingaleið veraldarinnar. Ég dvaldi lengi á þiljum og naut útsýnisins. Ég var alveg búinn að gleyma gamla manninum, þegar ég gekk til klefa míns. Og hverjum mæti ég þar? Einmitt þeim gamla. Hann er eitthvað að bauka við að koma fyrir töskum. Reyndar þurfti ég ekki að láta mér koma þetta á óvart. Það var búið að tilkynna mér, að farþegi bættist i klefann í Pireus. Ég hafði opnað hurðina án þess að eiga von á manni i klefanum. Afsakið herra, sagði ég. Ekkert að afsaka! Sambýlismaður skilst mér. Ánægja áð kynnast yður. Ég heiti Pulio Kostaris. Hann rétti mér höndina alúðlega. Ég heiti Einarsson, sagði ég — Sigurður Einarsson. Ei-nar-son tók hann upp og sleit sundur nafnið. Ég vona, að okkur komi vel saman, herra Ei-nar-son. Hef aldrei heyrt það áður. Hvers landsmaður, með leyfi? Ég er Grikki. — íslendingur. Hann horfir á mig. Það dregur eins og slæðu af furðudofa yfir glað- vakandi svip hans. Hvað, með leyfi? — íslendingur. — Maður frá íslandi.

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.