Menntamál - 01.04.1957, Qupperneq 29
MENNTAMÁL
15
þegar örðugleikar barnsins endurspegla á einhvern hátt
innri vanda foreldranna sjálfra. Ástleysi milli hjóna,
misklíð í sambúð, lífsviðhorf þeirra, lifnaðarhættir, þrár
og vonbrigði — allt þetta getur skapað barninu vanda, þó
að hann birtist í formi, sem í fljótu bragði virðist fjar-
skylt þessum uppruna. Ekki er afstaða foreldra til
barnsins heldur alltaf á einn veg. í landi, þar sem fjórða
hvert barn fæðist óskilgetið, lætur að líkum, að þau eru
ekki öll jafn velkomin. Og það á ekki við um lausaleiks-
börnin ein. Jafnvel þótt foreldri sýni barninu ástúð, getur
í dulvitund þess leynzt andúð, sem markar afstöðuna til
barnsins að verulegu leyti. Barnið getur skynjað þessa
andúð af eðlisávísun sinni, þó að hún sé foreldrinu sjálfu
ómeðvituð. í viðleitni sinni að leysa erfiðleika barnsins
auka foreldrar oft á þá, af því að þau skilja ekki, af hvaða
rót þeir eru runnir. Hin raunverulega ástæða kemur þeim
sízt til hugar.
Veigamikill þáttur í lífi barns gerist bæði utan heim-
ilis og skóla. Stundum verður hann yfirgnæfandi. At-
hafnir barnsins utan heimilis og sá félagsskapur, sem það
er í þar, geta altekið hug þess, svo að foreldrarnir missi
tök á því og það hætti að taka framför í skólanum. I námi
getur þetta birzt sem sljóleiki, leti og jafnvel þrjózka.
Sýnilegir eru fyrst og fremst námserfiðleikarnir, en hitt
getur dulizt lengi, að hugur barnsins er bundinn við önn-
ur, oft mjög óholl og æsandi viðfangsefni utan skólans.
Hér er þörf á sálfræðilegri aðstoð. Sálfræðingur hefur
til þess betri aðstöðu en aðrir menn að rekja leiðina að
erfiðleikunum, losa um hin óhollu tengsl, skapa eðlilegt
jafnvægi í huga barnsins, og vekja hjá því nýjan áhuga á
náminu.
c) Hjá miklum hluta þeirra barna, sem dragast aftur
úr í byrjunarnámi, er aðalástæðan gallaðir námshæfi-
leikar, einkum gölluð greind. Ég sýndi fram á það í upp-
hafi greinarinnar, að lágur greindarþroski er ekki sjald-