Vorið - 01.06.1964, Side 28
legið á að láta sjóða í potti. Ég hef
heldur aldrei séð pott hlaupa fyrr.
KOBBI: Hann er eins og karl í kassa,
inn og út allan tímann. (Hálf hlæj-
andi) Ætli við fáum frið til að
drekka kaffisopann.
TOBBA: Réttu mér stóra fatið þarna
undir þetta fallega brauð. — Þakka
þér fyrir. Sérðu, hvað það er fallega
bakað, glóandi brúnt. Alveg eins og
ég bakaði það hérna á árunum, þegar
við höfðum allt til þess. Manstu eftir
því?
KOBBI: Já, ég man eftir því. Ég man
líka, þegar þú varst að baka kökuna
hérna forðum og leitaðir sem mest að
smjörinu í hana og sazt þá á því!
(Þau hlæja bæði).
TOBBA: Já, ég var víst ekki glæsileg
aftan fyrir, þegar ég stóð upp. — Ja
hérna, er enn barið?
KOBBI: Ójá. Jæja, pottur sæll.
POTTUR:
Eldfljótt! Upp á borð!
Eigið þið til nokkur orð!
TOBBA: GuII! Nei, nú er ég orðlaus,
pottur sæll.
KOBBI: Ótal gullpeningar, fullur pottur.
TOBBA: Hvolfdu þeim á borðið.
BÆÐI: Ja, hérna!
POTTUR:
Áfram! Nú er nóg að gera.
Nuddið bæði! — Ekk’ of fast!
Ég loga allur! Æ, látið vera.
Lát mig út! — Nú hleyp ég hart!
TOBBA: Er þetta draumur eða vaka?
KOBBI: Við erum glaðvakandi bæði
tvö. Þetta gull er bara það, sem bónd-
inn hefur látið okkur ofborga fyrir
kotið öll þessi ár. Það safnast, þegar
saman kemur. — Nú verðum við
aldrei framar fátæk. Nú, hvað er að,
Tobba mín?
TOBBA: Mér er ekki um þetta. Manstu
ekki eftir sögunni um sæta grautinn?
KOBBI: Ónei, ekki man ég hana.
Hvernig var hún?
TOBBA: Það voru mæðgur, sem áttu
pott, og hafði hann þá náttúru, að
þegar sagt var við hann: „Láttu
sjóða grautinn, potturinn væni“, kom
í hann indæll grautur og kom í jafn-
harðan og úr pottinum var tekið.
Þangað til sagt var við hann: „hættu
nú, potturinn væni“.
KOBBI: Ekki var það amalegt.
TOBBA: Nei, en einn góðan veðurdag
var móðirin ein heima og sagði við
pottinn: „Láttu nú sjóða grautinn,
potturinn væni“ og borðaði sig sadda
af graut, en þá mundi hún ekki, hvað
átti að segja til að fá pottinn til að
hætta grautargerðinni, svo að húsið,
næstu hús, allar götur og allt þorpið
fylltist af graut. Þegar dóttir hennar
kom heim og sá þetta, var hún ekki
lengi að segja: „Hættu nú, potturinn
væni“, en þá var allt þorpið á kafi
og allir sem vildu komast leiðar sinn-
ar urðu að éta göng gegnum grautinn.
KOBBI: Það hefur dugað þeim fyrir
vikuna, trúi ég.
TOBBA: Ég vildi, að potturinn hefði
látið hér við sitja, en ekki farið af
stað aftur. Ég er viss um, að eitthvað
illt leiðir af þessu. Bóndinn hefur
sjálfsagt orðið var við það og kemur
að heimta aftur gullið. Farðu út í
dyrnar og skyggnstu út.
74 VORIÐ